Ketill Sigurjónsson, orkubloggari og MBA frá CBS, fylgist grannt með gangi mála í orkugeiranum á heimsvísu og hér á landi. Hann fer yfir helstu atburði ársins, sem voru dramatískir í meira lagi, í þessum grunni hagkerfa heimsins.
Nobody knows nuthin! Þessi kaldhæðnislega speki, sem Jack Bogle, stofnandi Vanguard, vísar stundum til, minnir okkur á að þegar horft er til framtíðar er ekki gott að segja hvað muni gerast. Vert er að minnast þessara orða núna þegar helstu tíðindin á sviði orkumála frá árinu 2014 eru rifjuð upp. Á árinu sem nú er að líða í aldanna skaut hafa nefnilega gerst atburðir í orkugeiranum sem fæstir höfðu spáð. Eftirfarandi er lauflétt upprifjun á nokkrum þessara atburða.
Orkuatburður ársins: Mikið verðfall á olíu
Stærsti orkuatburður ársins er tvímælalaust hið mikla verðfall á hráolíu, sem varð á síðari hluta ársins. Á einungis um sex mánuðum hefur olíuverð hrapað um næstum 45%. Farið úr um 100-110 USD/tunnu og niður í um 60-65 USD.
Margar orkuspár frá því fyrir ári síðan virðast fremur kjánalegar í dag. Taka má spá upplýsingaskrifstofu bandaríska orkumálráðuneytisins um þróun olíuverðs sem dæmi. Fyrir um ári síðan spáði starfsfólk stofnunarinnar því að nú um komandi áramót yrði olíuverð sennilega um 100 USD/tunnan. Reyndin er sú að verðið er nú um 40% lægra. Svona er nú framtíðin ófyrirsjáanleg.
Þetta mikla og hraða verðfall kom mörgum á óvart. Í þrjú ár höfðu olíumarkaðir einkennst af nokkuð stöðugu verði. En svo gerðist það um mitt þetta ár að olíuverð tók að síga niður á við og nú síðustu vikurnar hefur verðið fallið hratt.
Nú stöndum við frammi fyrir því álitamáli hvort verðfallið hafi stöðvast? Og hvenær olíuverð fer að stíga upp á við? En þá má minnast þess að nýlega lækkaði Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hagvaxtaspá sína og virðist álíta að vegurinn framundan sé mun holóttari en menn héldu. Gangi spáin eftir er varla að búast við umtalsverðri uppsveiflu á orkumörkuðum heimsins í bráð. En þarna er auðvitað töluverð óvissa!
Orkumenn ársins: Andrew Hall hjá Phibro og Ali al-Naimi í Arabíu
Það er reyndar ekki svo að þetta verðfall á olíu hafi komið öllum í opna skjöldu. Hér má t.d. nefna að síðsumars sagði hinn alræmdi Andy Hall, forstjóri Phibro, olíuverðlækkun vera yfirvofandi. Hann er líka sagður hafa skortselt olíu þá og hefur því sennilega hagnast vel eina ferðina enn.
Ekki er augljóst af hverju Hall var þarna gleggri en flestir aðrir (hann er reyndar þekktari fyrir að veðja almennt á hækkandi olíuverð). Kannski var það vegna þess að hann rýndi í tölfræðina, en lét ekki stjórnast af tilfinningum. Tölurnar sýna nefnilega að allt frá miðju ári 2013 hefur framleiðsla á olíu verið meiri en nemur olíunotkun í heiminum. Þetta kallast offramboð!
Þarna skiptir líka önnur tölfræði máli. Það er nefnilega svo að Sádarnir hafa undanfarinn áratug eða svo smám saman verið að tapa markaðshlutdeild á olíumörkuðum. Svona eftir á að hyggja, þá hlaut mikilvægasti olíuútflytjandi heims, þ.e. Saudi Arabía, fyrr eða síðar að bregðast við og sýna tennurnar. Og nota einn stærsta gjaldeyrissjóð heims og ódýrustu olíuframleiðslu heims til að reyna að endurheimta markaðshlutdeild sína og kaffæra keppinautana.
Þess vegna er skiljanleg sú ákvörðun Ali al-Naimi, olíumálaráðherra Sádanna, í nóvember sem leið að draga ekki úr olíuframleiðslu Sádanna. Og segja hinum OPEC-ríkjunum að halda framleiðslukvótum sínum óbreyttum. En það gat samt enginn vitað fyrirfram hvað Sádarnir myndu eða myndu ekki gera. Og þar af leiðandi var hver sá sem skortseldi olíu í stórum stíl í sumar að taka mikla áhættu. Og miðað við örvæntinguna í olíuiðnaðinum víða um heim nú síðustu vikurnar hefur Ali al-Naimi bersýnilega komið flestum á óvart.
Jákvæðasta orkuákvörðun ársins: Samningur Landsvirkjunar og Alcan
Hér verða íslensk og erlend orkumálefni hrist saman líkt og bland í poka eða kæruleysislegur áramótakokkteill. Landsvirkjun og Rio Tinto Alcan verða hér útnefnd handhafar jákvæðustu orkuákvörðunar ársins.
Nú á árinu sömdu fyrirtækin um lausn vegna raforkusamnings sem þau gerðu fyrir nokkrum árum (2010). Eða öllu heldur um lausn á veseni sem breyttar áætlanir Rio Tinto Alcan í Straumsvík ollu.
Í umræddum orkusamningi frá 2010 var m.a. kveðið á um raforkukaup Straumsvíkur vegna fyrirhugaðrar framleiðsluaukningar álversin þar. En sökum þess að sú stækkun varð mun minni en ráðgert hafði verið, sat álverið nú uppi með að borga fyrir verulegt magn af raforku sem það gat ekki notað. Og Landsvirkjun sat uppi með umtalsvert afl sem fyrirtækið gat ekki ráðstafað til annarra (til að efna sinn hluta samningsins hafði Landsvirkjun reist Búðarhálsvirkjun).
Niðurstaðan í þessu vandræðamáli var sú að Rio Tinto Alcan sleppti taki á umræddu afli og fékk um leið að losna undan ámóta hluta af kaupskyldu sinni. Að auki greiddi álfyrirtækið 17 milljónir USD til Landsvirkjunar vegna bóta fyrir að hafa gert raforkusamning við Landsvirkjun sem kallaði á annars ónauðsynlegar virkjunarframvæmdir.
Þó svo þessu samomulagi hafi verið lýst sem ásættanlegri lausn fyrir bæði fyrirtækin má kannski segja að samkomulagið hafi verið sérstaklega jákvætt fyrir Landsvirkjun. Álverið í Straumsvík hefði mögulega getað viðhaldið samningnum, en í staðinn dregið úr raforkukaupum sínum með því að beita skerðingaheimildum heildarraforkusamningsins. Á móti kemur að einhverjum kann að þykja álfyrirtækið hafa sloppið vel að losna við umræddan hluta kaupskyldu sinnar gegn einungis 17 milljóna dollara greiðslu. En hvað svo sem slíkum vangaveltum líður þá er jákvætt að fyrirtækin skuli hafa fundið þarna lausn sem þau eru bæði sátt við.
Óskhyggja ársins: Vöxtur í áliðnaði
Eins og áður kom fram gaf tölfræðin sterkar vísbendingar um offramboð af olíu. Tölfræðin segir okkur líka ýmislegt um ástandið og þróunina á álmörkuðum og gefur okkur tilefni til að ætla að einnig þar sé offramboð yfirvofandi. Það er reyndar óumdeilt að undanfarin ár hafa einkennst af offramboði af áli og lágu álverði. Á allra síðustu árum hefur þó dregið aðeins úr þessi offramboði og áliðnaðurinn víða spjarað sig nokkuð vel. En það eru blikur á lofti.
Í Bandaríkjunum er ennþá verið að rannsaka meinta markaðsmisnotkun með ál, sem gæti þýtt að offramboð hafi verið falið með ólögmætum hætti. Álútflutningur frá Kína virðist heldur vera að aukast. Og framkvæmdir standa yfir við byggingu nýrra og afar hagkvæmra álvera við Persaflóa og sömuleiðis er aukin uppbygging fyrirhuguð á Indlandi.
Hér á landi starfa Samtök álframleiðenda, sem á árinu kynntu athyglisverða sýn á stöðu álmarkaða. Þar var lögð rík áhersla á að „greinendur á álmarkaði“ geri ráð fyrir 6% aukningu í eftirspurn eftir áli á næstu árum - og þarna gefið í skyn að þetta skapi íslensku álverunum tækifæri.
Vandinn er bara sá að í reynd skiptir þessi góða vaxtarspá því miður litlu máli fyrir íslensku álfyrirtækin. Nær öll þessi aukning, sem réttilega er spáð, mun nefnilega samkvæmt spánni verða innan Kína. Og henni verður þá nær örugglega svo til alfarið mætt með framleiðslu kínverskra álvera, en Kína hefur í nokkur ár fullnægt eigin markaðsþörf á áli og gott betur.
Samkvæmt sömu greinendum er talið líklegt að næstu árin aukist áleftirspurn utan Kína vart meira en 1,5% árlega. Ef þetta verður raunin þarf vissulega að auka álframleiðslu utan Kína. Það gæti t.d. orðið á Vesturlöndum og kannski á Íslandi. En gleymum því ekki að innan bæði Indlands og Persaflóaríkjanna stendur til að stórauka álframleiðslu og álútflutning. Persaflóaríkin standa þarna mjög sterkt því þau geta boðið lægsta raforkuverðið (frá gasorkuverum). Lítill vöxtur í eftirspurn eftir áli (utan Kína) og framleiðsluaukning í Persaflóaríkjunum og á Indlandi er líkleg til að halda aftur af hækkunum á álverði. Og varla unnt að búast við umtalsverðum vexti í álframleiðslu á Íslandi.
Grænasta orkutækifæri ársins: Sæstrengur milli Íslands og Bretlands
Á árinu 2013 kom formlega fram áhugi breskra stjórnvalda á raforkustreng milli Íslands og Bretlands. Og í desember það ár samþykkti breska þingið löggjöf sem ætlað er að tryggja nýjum orkuverkefnum lágmarksverð sem er margfalt hærra en það verð sem við t.d. seljum raforkuna til álveranna hér.
Samkvæmt þessari löggjöf og hinni nýju orkustefnu Bretlands má gera ráð fyrir að íslensk raforka yrði seld til Bretlands á allt að áttföldu því verði sem t.d. álverin hér almennt greiða fyrir raforkuna. Á árunum 2013 og 2014 gafst gott tækifæri til að hefja formlegar viðræður milli breskra og íslenskra stjórnvalda um þann möguleika að leggja sæstreng milli landanna. Ávinningurinn sem Bretar sjá í slíkum streng er að hann gæfi kost að að nálgast áreiðanlega endurnýjanlega raforku á verði sem er t.d. samkeppnisfært við raforku frá vindorkuverum við bresku strandlengjuna. Slíkar viðræður eru ennþá ekki byrjaðar.
Þarna er um að ræða eitthvert áhugaverðasta viðskiptatækifæri Íslands - og þarna skapaðist líka það sem kalla má eitt allra grænasta orkutækifæri ársins í heiminum öllum. Í þessu sambandi má nefna að nú á árinu gaf KPMG Global út skýrslu þar sem fram kom að sæstrengur milli Íslands og Bretlands sé eitt af hundrað eftirtektarverðustu verkefnum í heiminum á sviði uppbyggingar innviða.
Á árinu 2014 tóku íslensk stjórnvöld loks skerf í þá att að fara að huga að þessu tækifæri. Þar mætti þó ganga mun ákveðnara til verks og hefja beinar viðræður við Breta, enda hafa bresk stjórnvöld þegar sýnt slíkum viðræðum áhuga.
Mesta ógn ársins: Bárðarbunga!
Þó svo olían hafi stolið senunni á orkuárinu 2014 er líka dramatík á öðrum hrávörumörkuðum. Verð á járngrýti hefur snarfallið á árinu rétt eins og hráolía. Og hrávörukonungurinn kopar hefur líka verið á leið niður á við, sem er oft talin afar skýr vísbending um versnandi efnahagsástand. Það virðist því sem skynsamlegast sé að búast við nokkuð dauflegum hagvexti næstu misserin.
Kannski verður örlagaríkasti atburður ársins 2015 sá sem hinn danski Saxo Bank spáir í sinni árlegu Outragous Predictions. Spá þeirra Saxlendinga er sú að risaeldgos í Bárðarbungu paa den forblæste vulkanö Island muni eyðileggja stóran hluta af kornuppskeru heimsins með tilheyrandi verðsprengingu á matvælum. Fari svo að þessi drungalega spá Saxo rætist, þá er bara að minnast orða Winston’s Churchill: If you're going through hell, keep going!