Hafsteinn Gunnar Hauksson, hagfræðingur og meistaranemi við London School of Economics, fer yfir vendipunkta í efnahagsmálum þjóðarinnar á árinu sem senn er á enda. Þetta var tíðindamikið ár, og allt útlit fyrir að það næsta verði það líka.
Gjaldeyriskaup Seðlabankans og gengi krónunnar
Vorið 2013 tók Seðlabanki Íslands upp stefnu sem bankinn kallar „stýrt flotgengi“, en hún felur í sér að bankinn kaupir og selur gjaldeyri til þess að jafna út tímabundnar sveiflur í gengi krónunnar. Þessi stefna hafði áberandi áhrif á árinu 2014. Gengi krónunnar hefur sveimað á mjög þröngu bili gagnvart evru umhverfis 155 lungann úr árinu, en að mati greiningaraðila hafa fáar myntir verið jafnstöðugar á tímabilinu – sem hljóta að teljast nokkur nýmæli í tilviki krónunnar. Ef ekki væri fyrir þessi inngrip Seðlabankans, eins og gjaldeyrisviðskipti hans eru jafnan kölluð, hefði krónan sennilegast styrkst verulega á árinu, jafnvel svo næmi tveggja stafa prósentu, enda nema uppsöfnuð gjaldeyriskaup hans á árinu vel yfir andvirði hundrað milljarða króna. Það merkir að gjaldeyrisforði bankans hefur styrkst sem því nemur, og því nokkuð ljóst að greiðslujöfnuður þjóðarbúsins stóð styrkari fótum á árinu en margir höfðu spáð.
Lenging Landsbankabréfsins
Með lengingu Landsbankabréfsins fækkaði Demóklesarsverðunum yfir höfði hagkerfisins um eitt, enda var fyrirséð að brattur endurgreiðsluferill bréfsins í erlendri mynt hefði að öðru jöfnu valdið töluverðu útflæði gjaldeyris og jafnvel sett þrýsting á gengi krónnnar frá og með næsta ári. Með lengingunni hefur verið skapað borð fyrir báru í greiðslujöfnuði þjóðarbúsins, sem mun vonandi draga úr áhættu við losun hafta. Þá hefur fjármögnun ríkisbankans í erlendri mynt jafnframt verið tryggð, auk þess sem ýmsar skilmálabreytingar á bréfinu virðast gera ríkissjóði hægara um vik að þiggja arðgreiðslur frá bankanum. Í ljósi þess hver ábati lengingarinnar verður er raunar nokkuð sérkennilegt hve langan tíma það tók stjórnvöld að veita vilyrði fyrir þeim undanþágum frá gjaldeyrishöftum sem bú gamla Landsbankans hafði beðið um – en ætli góðir hlutir gerist ekki hægt?
Hægagangur við losun hafta
Ef frá er talin lenging Landsbankabréfsins hefur lítið gerst sem hönd á festir við losun hafta á árinu. Stjórnvöld stigu traustvekjandi skref með ráðningu erlendra ráðgjafa síðasta sumar, en afraksturinn virðist ætla að valda vonbrigðum enn sem komið er – ekki síst því stjórnvöld höfðu skapað væntingar um að dregið gæti til tíðinda fyrir áramót. Þegar tilkynnt var um lengingu Landsbankabréfsins var fullyrt að tillögur um heildstæða stefnu stjórnvalda við afnám fjármagnshafta lægju fyrir. Af viðtölum við ráðgjafana erlendu má ráða að þær séu einkum ítrekun á hugmyndum um útgönguskatt og skuldabréfaskipti sem legið hafa fyrir síðan Seðlabankinn gaf út skýrslu um losun hafta árið 2011, án þess að frekari útfærsla hafi verið ákveðin endanlega. Við losun hafta getur útfærsla hinsvegar skilið á milli feigs og ófeigs, og því ákveðin vonbrigði að vinnan sé ekki lengra komin - þótt auðvitað sé að mörgu að huga, og hugsanlega gefi ráðgjafarnir minna upp opinberlega en efni standa til. Í öllu falli benda fjármálastöðugleikaskýrslur Seðlabankans og aðrar útgáfur til þess að vönduð greining hafi átt sér stað á umfangi vandans og áhrifum mismunandi lausna. Það rennir enn frekar stoðum undir að herslumunurinn sem vantar sé einkum fólgin í því að taka endanlega ákvörðun um útfærslu, en forsenda þess er pólitísk áræðni – og samstaða milli stjórnarflokkana.
Lág verðbólga og vaxtalækkanir
Verðbólga var innan þolmarka verðbólgumarkmiðs Seðlabankans allt árið, ef frá er talinn desember, þegar verðbólgan dýfði sér undir þolmörkin og mældist 0,8% á ársgrundvelli. Í fyrsta lagi er fyrir að þakka viðvarandi styrk krónunnar á árinu, í öðru lagi verðlækkun á hrávörumörkuðum á síðari hluta árs og í þriðja lagi lágri verðbólgu erlendis. Svo virðist sem þessi hraða hjöðnun verðbólgunnar hafi komið Seðlabankanum í opna skjöldu. Á síðustu tveimur vaxtaákvörðunarfundum ársins lækkaði bankinn vexti um 75 punkta samtals, en svo hröð vaxtalækkun án atrennu hefur á sér nokkuð fálmkenndara yfirbragð en mátt hefur venjast á tíðindalitlum fundum peningastefnunefndar undangengin tvö ár. Hitt, sem ekki er síður eftirtektarvert, er að verðbólguvæntingar hafa mjakast nær verðbólgumarkmiði en verið hefur, sem bendir til þess að bankanum sé hægt og bítandi að takast að vinna bug á sínum helsta Akkilesarhæl; skorti á trúverðugleika. Það er þó vert að velta fyrir sér hvort peningastefnan reynist nægilega aðhaldssöm þegar hagstæðum ytri aðstæðum og gjaldeyrishöftum sleppir, ekki síst í ljósi þess að Seðlabankinn hefur neyðst til að setja mikið af nýju grunnfé í umferð til þess að fjármagna gjaldeyriskaup sín á árinu.
Undarlegar hagtölur
Seðlabankanum er reyndar nokkur vorkunn að ákvarða stýrivexti um þessar mundir, því hagtölur hafa verið nokkuð þvers og kruss fyrstu þrjá fjórðunga ársins. Þjóðhagsreikningar á þriðja fjórðungi sýndu nokkuð sterkan vöxt þjóðarútgjalda, ekki síst vegna fjárfestingar, sem bendir að öðru jöfnu til þess að innlend eftirspurn sé að hrökkva í gír. Hinsvegar olli mikill vöxtur innflutnings umfram útflutning því að landsframleiðslan jókst tiltölulega hægt á fyrstu níu mánuðum ársins, sem gæti verið veikleikamerki, eða til marks um ójafnvægi í þjóðarbúskapnum. Þá er hægur vöxtur einkaneyslu jafnframt nokkuð úr takti við veltutölur, og rímar illa við það sem vænta mætti nú þegar atvinnuleysi hefur lækkað og kaupmáttur aukist hratt. Heilt yfir hafa mælingar Hagstofunnar því ekki auðveldað stefnusmiðum að átta sig á því nákvæmlega hver staðan í hagkerfinu er um þessar mundir; hvort það er að hitna eða kólna.
Eitt af því sem miklu skiptir fyrir íslenska þjóðarbúið, er að útflutningsgeirinn sýni góðan rekstrarárangur og búi til nauðsynlegar gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið.
Stefnubreyting við skattheimtu
Það er gleðiefni að fjárlög ársins 2015 skuli gera ráð fyrir hallalausum ríkisrekstri annað árið í röð, þótt þar gæti reyndar óverulegs aðhalds. Stóru fréttirnar úr fjárlagapakkanum eru hinsvegar þær metnaðarfullu breytingar sem stefnt er að við skattheimtu. Þar ber helst að nefna afnám almennra vörugjalda og fyrsta skrefið í átt að einföldun virðisaukaskattskerfisins, en hvort tveggja eru skynsamleg stefnumið til lengri tíma. Beinar millifærslur til hinna efnaminni eru enda heppilegri leið til að jafna kjör, heldur en niðurgreiðslur í fríðu á borð við lágan matarskatt – þótt reyndar hafi fjármálaráðuneytinu gengið illa að koma þeirra staðreynd til skila, líkt og styr um breytingarnar ber vitni um. Þá er náttúrupassi ferðamálaráðherra jafnframt skref í rétt átt, enda má með honum afla tekna til upbyggingar ferðamannastaða um leið og ferðamenn eru rukkaðir fyrir þann kostnað sem þeir valda náttúrunni og hver öðrum á fjölsóttum ferðamannastöðum. Verði passinn gerður svæðis- og árstíðabundinn má nýta hann enn betur til aðgangsstýringar til þess að dreifa ferðamönnum betur um landið og árið.
Bati á fasteignamarkaði og fjárhagsstöðu heimila
Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 7% á árinu, á sama tíma og verðlag hélst nokkuð stöðugt. Líkt og greiningaraðilar hafa bent á er verð fasteigna því loks að ná í skottið á byggingakostnaði, sem merkir að hvati til nýbygginga er að skapast að nýju (eins og byggingakranar víða um borgina eru til marks um) og jafnvægi því hægt og bítandi að komast á fasteignamarkað eftir öldurót síðustu ára. Hækkandi fasteignaverð hefur jafnframt haft þau áhrif að fjárhagsstaða heimila hefur batnað, enda fasteign oft verðmætasta eign hvers heimilis. Á árinu 2013 hafði heimilum með neikvæða stöðu í fasteign fækkað úr 25 þúsund þegar mest lét í rétt tæplega 16 þúsund, en gera má fastlega ráð fyrir að sá fjöldi hafi enn lækkað á árinu 2014.
Greiðsla ríkissjóðs á verðtryggðum skuldum
Ein helstu tíðindi ársins var svo auðvitað „leiðréttingin“ svokallaða. Þótt hún hafi raunar verið kynnt á síðasta ári og komi til framkvæmda á því næsta, dró engu að síður verulega til tíðinda árið 2014, enda var aðgerðin þá undirbúin að mestu, auk þess sem lántakar gátu séð útreikning á upphæðinni sem lán þeirra kemur til með að lækka um. Enn sem komið er hefur aðgerðin hvorki leitt af sér verðbólguskot né sprengingu í einkaneyslu, þótt erfiðara sé að segja til um áhrifin þegar hún kemst að fullu til framkvæmda. Hvernig sem fer verður þó líklegast aldrei fullkomin sátt um að hagsmunir þess takmarkaða hóps landsmanna með verðtryggð húsnæðislán hafi verið settir einna fremst í forgangsröð stjórnvalda með jafnafgerandi hætti og raun ber vitni.