Dagur Sveinn Dagbjartsson, starfsmaður á fræðslusviði Knattspyrnusambands Íslands og leikgreinandi hjá karlalandsliði Íslands í knattspyrnu, skrifar um magnaðan árangur landsliðsis á árinu og skyggnist bak við tjöldin.
Ef fótboltaguðinn (Diego Armando Maradona) hefði sagt við mig í ágúst að Ísland myndi hafa 9 stig eftir fjóra leiki í undankeppni EM, vitandi það að við ættum að spila við Tyrkland, Lettland, Holland og Tékkland í þessum fjórum leikjum, þá hefði ég sennilega hlegið. En sú er raunin. Ísland hóf undankeppnina á að vinna sannfærandi 3-0 sigur á Tyrklandi, annan 3-0 sigur í Lettlandi eftir erfiða fæðingu og verðskuldaðan 2-0 sigur á Hollandi, sem hafði endað í 3. sæti á HM í Brasilíu þremur mánuðum áður. Lygilegt, ekki satt?
Lýsa yfir stríði?
Eini ósigur Íslands kom á útivelli gegn Tékkum, sem fyrir vikið sitja á toppi riðilsins. Næsti leikur er langt langt í burtu, gegn Kasakstan. Engar tvær þjóðir í undankeppni EM eru staðsettar lengra frá hvor annarri en Ísland og Kasakstan. Fulltrúar þessara þjóða slógu á létta strengi þegar dregið var í riðla í febrúar og sögðu að þjóðirnar þyrftu endilega að lýsa yfir stríði hvor við aðra því þjóðir sem eiga í stríði geta ekki lent saman í riðli. Ég efast satt að segja um að þeir stórkostlegu stuðningsmenn sem fylgdu íslenska liðinu til Tékklands í nóvember leggi það á sig að fara til Kasakstan.
Þungt högg
Sá leikur verður 28. mars. Einhverjir sögðu eftir tapið gegn Tékkum að best hefði verið að spila næsta leik eins fljótt og hægt væri. Ég er ekki sammála því að tel að það sé ágætt að það sé langt í næsta leik. Tapið gegn Tékkum var slæmt. Strákarnir okkar vita það manna best að þeir áttu slæman dag og hættan er að fyrstu dagana eftir tapleik geta menn misst einbeitingu. Nú gefast hins vegar tími til að setja þetta tap bakvið sig og einbeita sér að því sem í hendi er, þrír sigurleikir, og byggja ofan á það. Tapið gegn Króatíu í umspili um sæti á HM var þungt högg og leikmenn sumir hverjir voru lengi að jafna sig. Fyrsti mótsleikur Íslands eftir það var gegn Tyrkjum. Þar voru menn búnir að endurhlaða batteríin, mættu einbeittir til leiks, staðráðnir í að sanna að enn byggi mikið í liðinu og sigur vannst. Ég hef fulla trú á því að það sama gerist núna.
Leikgreinendur hollenska landsliðsins sjást hér að störfum á Laugardalsvelli, á meðan á leiknum stóð. Þeir voru með fjölda myndavéla sér til aðstoðar, og komu skilaboðum reglulega til þjálfarateymisins.
Á spjöld sögunnar
Eftir að hafa fengið að kynnast leikmönnum, starfsliðinu (liðinu á bakvið liðið) og starfsháttum allra aðila er koma að landsliðinu frá fyrstu hendi koma orð eins og fagmennska og dugnaður fyrst upp í hugann þegar ég er beðinn um að lýsa hópnum. Leikmenn liðsins eru allir fagmenn. Fótbolti er nú vinsælli á heimsvísu en nokkru sinni fyrr og samkeppnin um að verða atvinnumaður í knattspyrnu er gríðarleg. Okkar fremstu knattspyrnumenn gera sér allir grein fyrir því hve mikilvægt það er fyrir þá að hugsa vel um sjálfan sig og standa sig vel. Öll nálgun þeirra á verkefni er fyrsta flokks. Allir stefna þeir hærra og allir vilja þeir skrifa nafn sitt í knattspyrnusögu Íslands. Og ef við horfum á hlutina í stærra samhengi, þá munu þeir skrá nafn sitt í sögubækurnar þegar liðið kemst í lokakeppni EM eða HM, því aldrei í sögunni hefur jafnfámenn þjóð komist í lokakeppni. Fámennasta þjóðin til að komast á HM er Trínidad og Tóbagó (u.þ.b. 1,2 milljónir íbúa) og fámennasta þjóðin til að komast á EM er Lettland (með rétt tæplega 2 milljónir íbúa).
Fer alltaf að tala um markmenn!
Þjálfararnir, Heimir Hallgrímsson, Lars Lagerback og Guðmundur Hreiðarsson, búa allir yfir mikilli þekkingu á sínu fagi og eru klárlega í fremstu röð. Lars býr vitanlega yfir gríðarlegri þekkingu og reynslu er kemur að landsliðsþjálfarastarfi og Ísland þarf ekkert að óttast það þegar hann stígur til hliðar að loknu þessu Evrópumóti og Heimir verður einn aðalþjálfari liðsins. Heimir hefur sankað að sér reynslu og þekkingu undanfarin ár auk þessa sem hann hefur áunnið sér virðingu leikmanna með faglegum vinnubrögðum. Tannlæknirinn úr Eyjum er sífellt að velta upp hugmyndum. Flestar þeirra koma til hans er hann flatmagar í baði og sem betur fer fyrir okkur Íslendinga tekur Heimir iðulega bað. Markmenn eru Guðmundi óneitanlega hjartans mál og líklega erfitt að finna aðila í þessum heimi sem hefur jafnmikla ástríðu og áhuga á markmönnum og Guðmundur hefur, þá aðallega þýskum markmönnum. Guðmundur nær ávallt að snúa samtali, alveg sama um hvað það er, upp í umræðu um markmenn og/eða Þýskaland. Það ætti að gera það að þraut í Útsvari að reyna að halda samtali við Guðmund utan þessara umræðuefna. Ef þér tekst það færðu 15 stig. En að öllu gamni slepptu, þá sagði mér markvörður nýverið sem hefur margra ára reynslu sem atvinnumaður erlendis og landsliðsmaður fyrrverandi að Guðmundur væri markmannsþjálfari á heimsmælikvarða.
Aðstaðan hjá Degi var svolítið önnur en hjá leikgreiningarteymi hollenska landsliðsins. Ein lítil myndavél. Það kom ekki að sök, því Ísland sigraði Hollendinga 2-0 í sögulegum leik.
Rétt blanda
Eitt af því sem þjálfarateymið gerir vel er að setja saman rétta blöndu af leikmönnum í byrjunarliðið sem munu hámarka árangur. Á Íslandi búa c.a. 320.000 manns og 150.000 þeirra hafa skoðun á því hvernig liðið eigi að vera, hvaða leikaðferð eigi að leika, hver á að koma inn á af bekknum, hvenær o.s.frv. Í fyrsta leik undankeppninnar komu þeir Heimir, Lars og Guðmundur flestum ef ekki öllum á óvart með því að setja Jón Daða Böðvarsson í byrjunarliðið. Flestir eru líklega sammála því dag að sú ákvörðun hafi verið rétt. En þetta undirstrikar eflaust þá breidd sem við búum við. Ísland gat leyft sér að hafa ríkjandi markakóng í Hollandi (Alfreð Finnbogason) og markahæsta leikmann Noregs (Viðar Örn Kjartansson) á bekknum. Tveir frábærir leikmenn sem gera tilkall um sæti í byrjunarliðinu. Þetta er skemmtilegur höfuðverkur þjálfaranna.
Læknateymið vanmetnasti hluti liðsins
Læknateymi landsliðsins er að mínu mati vanmetnasti hluti hópsins. Auðvitað og skiljanlega fá leikmenn og þjálfarar mesta athygli en sú þrotlausa vinna sem sjúkraþjálfarar, læknar og nuddarar landsliðsins leggja á sig verður seint metin til fjár. Þetta eru aðilar sem vinna frá morgni til kvölds við það að hafa leikmenn í standi þegar á hólminn kemur. Aðal sjúkraþjálfarar liðsins eru ljúfmennin Friðrik Ellert Jónsson, stundum kallaður Frikki floppy diskur, og Stefán Hafþór Stefánsson. Ekki nóg með að þeir meðhöndli leikmenn myrkrana á milli heldur er sjúkraherbergið oftar en ekki staður þar sem leikmenn hittast, ræða málin, létta af sér og ófáar óborganlegar sögur fá að heyrast. Þeir Friðrik, Stefán og Óðinn Svansson nuddari eru sem betur fer alltaf léttir og kátir. Því ef svo væri ekki, þá væri lítið varið í landsliðsferðirnar sem einkennast oft af langri veru á hóteli, spagetti bolognese og kjúklingi.