Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, forstöðukona mennta- og nýsköpunarsviðs Samtaka atvinnulífsins og fyrrverandi menntamálaráðherra, fjallar um menntamál og stöðu þess málaflokks í íslensku samfélagi.
Í eftirminnilegu lagi Hrekkjusvína á hinni klassísku plötu „Lög unga fólksins“ trompaðist Lóa frænka og vildi lítið annað framtíðarstarf sjá en lækni eða listaskáld með yfirgreiddan skalla, stærðfræðing eða stórkaupmann nú eða bisnessmann – en alls ekki ferðalang, fuglahræðu hvað þá flibbanaut í sumarfrí.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Ekki var augljóst fyrir 12 ára stelpuskjátu hvað Pétur Gunnarsson rithöfundur átti nákvæmlega við fyrir 37 árum þegar hann setti orðið flibbanaut í textann. Reyndar mun flibbanaut hafa verið fínheiti yfir „sæðingamenn” sem voru að ryðja sér til rúms á sjötta áratug síðustu aldar. Fílefldir karlmenn komu akandi þegar kýr voru beiða og framkvæmdu þennan forvitnilega verknað í fjósinu og þágu kaffi á eftir í eldhúsinu. Af einhverjum ástæðum var þá hætt að nota naut, hefur sennilega þótt of mikið vesen og jafnvel niðurlægjandi fyrir bóndann að hanga yfir kú og nauti meðan náttúran hefði sinn gang, svo sagt sé frá dásamlegum tölvupósti Péturs.
En er það bara ekki í stakasta lagi að orðið flibbanaut er ekki endilega á allra vitorði? Eftir stendur að starf flibbanauts kom til um miðbik síðust aldar og hefur síðan þróast og breyst verulega með tilkomu tækninnar, eins og störf gera.
Þar fyrir utan má allt eins spyrja hvort flibbanaut geti ekki einnig verið gott heiti á framtíðarstarfi sem við höfum bara ekki hugmynd um að muni verða til staðar eftir 10 eða 20 ár. Einhverju starfi sem Lóa frænka framtíðarinnar myndi líka alveg missa sig yfir.
Í dag vitum við lítt hvernig sum störf framtíðarinnar munu verða, hvað þá heita. Í því felast að hluta til áskoranir menntakerfisins þótt orðaforði íslenskunnar gefi ekki tilefni til ótta að finna ekki viðeigandi starfsheiti.
Breytingar – eða ekki?
Nauðsynlegar breytingar eru framundan á íslensku menntakerfi og þá ekki bara breytinganna vegna. Margt gott hefur verið gert í gegnum árin sem við getum verið stolt af – en síðan eru hlutir sem þarf að þróa betur og efla. Allt til að efla einstaklinginn sjálfan og undirbúa hann undir störf framtíðarinnar, gamalkunnug sem ný.
Menntun er drifkraftur mannauðs, grunnstoð samfélagsinnviða og eflir samkeppnishæfni Íslands. Það er því engin furða að íslenskt atvinnulíf láti sig málaflokkinn varða og hafi sagt menntastefnu eitt stærsta efnahagsmálið.
Stjórnendur í atvinnulífinu gera sér sífellt betur grein fyrir því að til þess að standast samkeppni þurfa fyrirtæki að hafa innan sinna vébanda hæft og vel menntað starfsfólk. Íslensk fyrirtæki búa við meiri alþjóðlegri samkeppni en áður og ný tækni og aukið upplýsingaflæði leiðir til þess að kröfur til starfsfólks aukast stöðugt. Að sama skapi ætlast einstaklingar og fjölskyldur til þess að menntakerfið sé samkeppnishæft og framúrskarandi en menntakerfi landa skipa orðið æ stærri sess við val fjölskyldna þegar framtíðarplön um vinnustað eru ákveðin.
Verkefni Hvítbókar og fleiri áskoranir
Áherslur svonefndrar Hvítbókar á lestur, starfsnám og styttingu námstíma eru góðar og gildar þótt áherslu á kennaramenntun sé saknað. Lesturinn er lykilatriði og ber að taka föstum tökum strax í leikskóla. Þetta er ekki eingöngu sett fram út frá rómantískri sýn þar sem barn les bók sér til yndisauka heldur er ljóst að ef ýtt er undir lestrarhæfni strax frá byrjun er mun líklegra að viðkomandi einstaklingur finni hæfileikum sínum farveg innan skólakerfisins og komi þaðan með sterkari bakgrunn og sjálfsmynd en ella. Það minnkar líkur á brotthvarfi síðar meir.
Aukin áhersla á lestur felur í sér áskorun fyrir sveitarfélögin í að gera a.m.k. hluta leikskólagöngu að skólaskyldu án gjaldskyldu. Áherslan á lestur mun ýta undir fjölbreytta og mismunandi hæfni barna sem mæta þarf með því að efla stærðfræði-, tölvu- og forritunarlæsi. Einnig er líklegt að þetta kalli á breytta kennsluhætti og aukna áherslu á verknám í gegnum grunnskólann. Sem er fagnaðarefni.
Í könnun sem Samtök atvinnulífsins og aðildarfélög létu gera fyrr á árinu um viðhorf unga fólksins til iðn- og verknáms kom í ljós að um 37% þeirra sem fóru í bóknám í framhaldsskóla vildu frekar fara í verknám en gerðu það ekki. Um 60% þeirra sem fóru í bóknámið vildu flétta verknám meira inn í sjálft námið. Ljóst er að unga fólkið vill starfsnám en kerfið og umhverfið býður ekki nægjanlega upp á það.
Í grunnskóla verður að eiga sér stað markviss kynning á iðn- og starfsnámi í samvinnu við atvinnulíf. Það er áskorun fyrir atvinnulífið að beita sér markvisst fyrir breytingum á þessu sviði. Atvinnulífið þarf m.a. að auðvelda starfsnám á vinnustöðum, henda út flöskuhálsum og ýta undir að nemendur fái skírsteini upp á svonefnt framhaldsskólapróf að loknu tveggja ári námi.
Samhliða þeim breytingum sem unnið er að á framhaldsskólaskólastigi er mikilvægt að leitað verði allra leiða til að nýta tímann í grunnskólum betur með það að markmiði að fleiri klári grunnskólann fyrr en nú er.
Við þær kerfisbreytingar sem framundan eru má ekki gleyma framhaldsfræðslunni og tengslum hennar við hin formlegu skólastig en viðurkenning hins formlega kerfis á tilvist hins óformlega hefur verið gloppótt.
Fólk aflar sér ekki síður menntunar utan hins formlega skólakerfis, m.a. innan fyrirtækja en þar á sér stað mikil gerjun og uppbygging í menntamálum. Með réttu hefur verið sagt að fyrirtækin séu námsstaðir. Mörg fyrirtæki hafi lengi verið með virka fræðslu-og menntastefnu meðan að önnur eru að setja sér markmið um að efla skipulega þekkingu og færni starfsmanna. Með tilkomu hæfniramma er byggir á evrópsku regluverki má síðan brjóta niður óþarfa múra, greiða leið starfsfólks á milli landa og auðvelda skilning á fjölbreyttri þekkingu sem aflað er með mismunandi hætti. Nú er lag til að taka framhaldsfræðsluna í samhengi við aðrar breytingar á menntakerfinu.
Svo lærir sem lifir eða er því jafnvel öfugt farið?
Samhliða fyrrnefndum breytingum á menntakerfinu er óhjákvæmilegt að þeir háskólar sem sinna kennaramenntun breyti inntaki kennaramenntunar til samræmis þar sem aukin áhersla verði á starfsnám, sem og íslensku, stærðfræði og forritun.
Á Íslandi er fremur fábreytt starfsumhverfi kennara. Skortur er á endurgjöf á frammistöðu, starfsframvindu og fjölbreytni í skólum á fyrri stigum. Framvinda í starfi veltur nær eingöngu á starfsaldri viðkomandi en ekki gæðum kennslu eða öðrum faglegum þáttum í kennarastarfinu. Þetta þarf að breytast svo kennarastarfið verði aðlaðandi fyrir ungt fólk. Vert er að hafa í huga að fylgni er á milli góðs kennara og góðs árangurs nemenda.
Einnig má spyrja hvort kjarabarátta kennara síðustu ára og áratuga hafi skilað vel launuðum kennurum, hvort ríki og sveitarstjórnir hafi barist nægilega fyrir sveigjanlegu, fjölbreyttu og samkeppnishæfu skólakerfi og hvort atvinnulífið hafi ýtt markvisst á slíkar breytingar?
Til að draga fram mikilvægi menntunar hefur réttilega verið sagt í gegnum tíðina að svo lengi lærir sem lifir en allt eins má snúa þessu við og segja – að maður lifir svo lengi sem maður lærir.
Það er því skiljanlegt að í huga fólks kann ákveðin ógn að stafa af breytingum á menntakerfi þótt árangur og tölfræði segi annað. Stefna og fjárfesting í þessum málaflokki vegur þungt í vegferð þjóða að bættum lífskjörum. Því er brýnt að fólk skilji samhengi hlutanna og að tengsl séu á milli þess sem vel hefur verið gert í gegnum tíðina og framtíðarmarkmiða. Samstarf og samvinna er þýðingarmikil en ekki síður að forysta sé til staðar þannig að leiðin að eftirsóttu markmiði sé bæði trúverðug og eftirsóknarverð. Þannig skapast svigrúm fyrir flibbanaut framtíðarinnar.