Árið 2014 er og verður árið þegar allt varð svo skrýtið. Árið 2014 lét ríkisstjórn Íslands hrikta í stoðum lýðræðisins, sem ættu að vera heilagri en nokkur kirkja í upplýstu nútímasamfélagi.
Ríkisstjórn Íslands, réttkjörnir fulltrúar okkar Íslendinga, réðst til atlögu við sjálft tjáningarfrelsið, að mínu mati; eitt það dýrmætasta sem hvert og eitt okkar á, hvort sem við erum meðvituð um það eða ekki.
Tvær fréttir vöktu athygli mína bara núna í síðustu viku. Önnur var á fréttavef danska stórblaðsins Politiken og fyrirsögnin var þessi: Islands regering går til angreb på øens public service-station. Íslenska þýðingin gæti verið eitthvað á þessa leið: Íslensk stjórnvöld ráðast á útvarp- og sjónvarpsstöðina sem sér um almannaþjónustu á eyjunni. Fyrirsögnin er lýsandi fyrir innihald greinarinnar, í henni er meðal annars sérstaklega fjallað um formann fjárlaganefndar, Vigdísi Hauksdóttur, og klaufalegan en ógnandi dans hennar við ríkisútvarpsstöðina en ég mæli með því að allir þeir sem eru áhugasamir um að sjálfsögð mannréttindi fái að þrífast á Íslandi lesi greinina sjálfa.
Valdablinda á Alþingi
Orðið almannaþjónusta er sérstaklega áhugavert. Það vekur athygli á að Ríkisútvarpið á að þjónusta almenning, einmitt það er hlutverk þess, um leið og það má alls ekki þjónusta valdamenn því þá er hlutleysi þess ógnað. Ráðamönnum hættir til að sjá málin öðruvísi og halda því fram að fréttafólk og dagskrárgerðarfólk gangi erinda hagsmunaaðila úti í samfélaginu. En slíkur málflutningur ber vott um skrýtið heilkenni sem er í besta falli hægt að kalla valdablindu. Valdablindu þess sem sér ekki lengur að hlutverk hans eða hennar á fornfrægu alþingi Íslendinga er ekki sú að þjóna hagsmunaaðlum heldur Jóni og Gunnu.
Hlutverk ráðamanna á nefnilega að vera það sama og ríkisútvarpsins, þjónusta í almannaþágu. En þegar ráðamenn glutra niður hlutverki sínu í fjölmörgum málum sem varða hag almennings þá hentar þeim auðvitað að þagga eftir bestu getu niður í ríkisstofnuninni sem þjónar þessum sama almenningi með því að halda honum upplýstum. Með því móti ráðast íslensk stjórnvöld á almenning.
Móðgaður útgerðarmaður leitar hefnda
Ríkisstjórnarflokkarnir og áberandi aðilar úr stuðningsröðum þeirra hafa síðustu misseri kynt undir menningu, eða öllu heldur ómenningu, þar sem gagnrýnin umræða er afgreidd sem reiðifíkn eða árásargirni og þar sem það þykir sjálfsagt að þeir sem hafa völd og peninga geti þaggað niður í öðrum og valdaminni meðlimum samfélagsins.
Í þessari ómenningu gerast hlutir eins og ég las um í hinni fréttinni sem vakti athygli mína í vikunni sem leið. Þar var sagt frá voldugum útgerðarmanni í Bolungarvík, Jakobi Valgeiri Flosasyni, sem hefði komið í veg fyrir að sjómaður fengi pláss á báti vegna þess að (já, þetta hljómar bæði flækingslega og langsótt) einhver tengdur viðkomandi sjómanni hefði vakið athygli á facebook-færslu um það athæfi útgerðarmannsins að leggja bíl sínum í stæði fyrir hreyfihamlaða, nokkuð sem téður útgerðarmaður er ekki.
Þegar ég leit aftur á fréttina við gerð þessa pistils var búið að uppfæra hana með eftirfarandi klausu:
DV hefur fengið þær upplýsingar að afturköllunin á atvinnutilboðinu hafi síðar verið afturkölluð af Jakobi Valgeiri sjálfum. Sjómaðurinn er nú við störf úti á sjó. Enn mun þó talsverður ótti á staðnum vegna málsins enda útgerðarmaðurinn með töluverð ítök í atvinnulífi svæðisins. Þá skal tekið fram að Jakob Valgeir taldi að aðili tengdur sjómanninum hefði tekið myndina sem varð tilefni að fréttaflutningi DV. Það mun ekki hafa staðist skoðun.
Að stjórna mannlífinu með ótta
Kannski er það þetta sem innstu koppar í búri ríkisstjórnarinnar vilja. Að þeir geti stjórnað allri umræðu í þjóðfélaginu með ótta, hótunum og í skjóli valds og/eða peninga. Að allt Ísland lúti sömu lögmálum og íbúar í Bolungarvík virðast þurfa að gera þessa dagana, sé eitthvað að marka fréttina hér fyrir ofan.
Sennilega finnst þessum sömu ráðamönnum að með þessum orðum sé ómaklega að þeim vegið, með loftárásum og óréttmætum ásökunum. En hvað á maður að halda þegar formaður fjárlaganefndar ratar í gamalgróinn erlendan fjölmiðil, sem er þekktur fyrir allt annað en að fara með fleipur, fyrir að vilja lækka útvarpsgjald til Ríkisútvarps í almannaþjónustu og það að undangengnum hótunum og aðdróttunum, m.a. vegna umfjöllunar um hana sjálfa og flokkinn hennar? Hvað á maður að halda þegar aðstoðarmaður forsætisráðherra ratar í fjölmiðla á íslensku og ensku fyrir tilraun til ritskoðunar? Hvað á maður að halda þegar maður heyrir eftir stálöruggum heimildum að aðstoðarmaður forsætisráðherra, sá hinn sami eða einhver önnur mannvitsbrekkan (þeir eru svo margir), hafi reynt að hafa áhrif á innihald pistils hjá Ríkisútvarpinu? Athafnir þessa fólks segja allt sem segja þarf.
Mjúkhentir fjölmiðlar
Þessir sömu, margnefndu ráðamenn hafa oftar en ekki ásakað fólk þeim ósammála í ýmsum efnum fyrir að tala Ísland niður. Ég get lofað þeim að þessi aðferð þeirra nægir ein og sér til að rústa orðspori Íslands.
Þeim finnst kannski að fjölmiðlar vinni á móti þeim en fjölmargt sem þeir eru ábyrgir fyrir hefði fengið ólíkt meiri og gagnrýnni umfjöllun í fjölmiðlum vel flestra nágrannalanda hefði það gerst á vakt útlendra kollega þeirra.
Raunin er sú að stjórnmálamenn á Íslandi lifa og hrærast í mjúkhentu fjölmiðlaumhverfi, hvað svo sem þeim kann að þykja um það sjálfum. Jú, það eru oft upphrópanir í fjölmiðlum en þeir standa það yfirleitt af sér, jafnvel þótt Hanna Birna hafi þurft að segja af sér eftir sjóvolk í meira en ár. Skandalarnir eru nógu margir til að sá næsti nái að breiða yfir þann síðasta og þeir vita sem er: að málum er sjaldnast fylgt eftir í íslenskum fjölmiðlum þannig að það hafi afleiðingar, enda er fjölmiðlafólk á Íslandi í endalausu kappi við tíma og peninga, svo ekki sé minnst á eignarhald og hótarnir valdamanna. Í gegnum tíðina hefur það minnt á hamstra á hjólum með óvænt starfslok vomandi yfir sér á hverjum degi.
Kannski er bágt fjölmiðlaumhverfi einmitt ástæðan fyrir því að þeir eru við völd. Og þeir vita það. Þeir vita líka að Ríkisútvarpið þrífst hvorki í núverandi mynd né getur sinnt lögbundnu, margþættu hlutverki sínu við skert útvarpsgjald. Útreikningarnir tala sínu máli.
Fólk í æðstu stöðum á Alþingi hefur nú sýnt af sér slíka grunnhyggni, tækifærismennsku, mannfyrirlitningu, ábyrgðarleysi og ég vona hreinlega fáfræði frekar en einbeittan vilja til að svipta kjósendur upplýstri umræðu að mig langar helst til að segja: Skammist ykkar!
Við aðra segi ég:
Gleðileg jól!