Auðunn Atlason er fastafulltrúi Íslands hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, og hefur á árinu 2014 haft einstak innsýn í utanríkispólitíska heimsviðburði í Austur-Evrópu. Hann skrifa hér um spennuna í Úkraínu og nágrenni og hvernig hún birtist okkur á árinu.
Sumarið 2012 var Evrópumótið í fótbolta haldið í Póllandi og Úkraínu. Þá horfðum við Íslendingar – og hálf heimsbyggðin – á þá Ronaldo, Pirlo, Torres og fleiri leika listir sínar í Donetsk en í Úkraínu var einnig spilað í borgunum Kharkiv, Kiev og Lviv. Goðsögnin Andriy Shevchenko fór fyrir sínum mönnum í úkraínska liðinu sem komst ekki upp úr riðlinum þrátt fyrir góðan sigur á Svíþjóð og hetjulega baráttu gegn Frökkum og Englandi.
Auðunn Atlason.
Þetta var fyrir aðeins tveimur og hálfu ári. Í dag eru engir ferðamenn í Úkraínu. Á sama stað og tugþúsundir knattspyrnuáhugamanna frá allri Evrópu sátu og sungu og fylgdust með fótbolta er nú stórhættulegt að vera á ferli. Það geisar stríð. Krímskagi er ekki lengur hluti af Úkraínu. Hart hefur verið barist á hernaðarlega mikilvægum svæðum í Donetsk og Luhansk í austurhluta landsins þrátt fyrir að formlega sé vopnahlé.
Að mínu mati eru stríðsátökin í Úkraínu stærsta málið á alþjóðavettvangi á árinu. Margir héldu að hernaðarátök í Evrópu væru óhugsandi á 21. öld. Það reyndist ekki rétt. Í mars sem leið breyttu Rússar landamærum með hervaldi þegar þeir tóku yfir Krímskaga. Þeir létu kné fylgja kviði og studdu og styðja enn vígamenn og aðskilnaðarsinna með ráðum og dáð, vopnum og mannskap.
Niðurstaðan er nöturleg.Tæplega 5000 manns hafa látið lífið, á annan tug þúsunda eru illa særðir og yfir milljón manna hefur þurft að yfirgefa heimili sín og eru á flótta. Mikið af grunnvirki í þeim héruðum þar sem bardagar hafa geisað er í rúst og mun taka áratugi og ómældar fjárhæðir að byggja upp á nýju.
Það hefðu fáir trúað því fyrirfram að á árinu 2014 – einni öld frá því að fyrri heimsstyrjöldin braust út og 75 árum frá upphafi síðari heimsstyrjaldar – myndu hernaðarátök milli tveggja grannríkja hefjast í miðri Evrópu. Frá Vín er maður lengur í flugi til Dublin en til Donbass, benti einn írskur kollegi minn á. Já, Úkraína er í Evrópu.
Mömmur á Maidan-torginu
Ég var staddur í Kiev í desember fyrir rúmu ári síðan þegar Janúkóvits fyrrum forseti Úkraínu var enn við völd og áður en átökin brutust út. Hann hafði skömmu áður neitað að undirrita fyrirhugaðan viðskipta- og samstarfssamning Úkraínu við ESB og tekið boði Rússlands um aukið efnahagssamstarf, kaup á gasi o.fl. Fólk taldi sig svikið. Margir höfðu bundnir vonir um samvinnu við Evrópu og séð í því tækifæri til að koma á breytingum, draga úr spillingu, efla mannréttindi og lýðræði. Nú var verið að loka dyrum í vestur og lokast inni í austri.
Út brutust mikil mótmæli. Þegar ég kom að kvöldlagi á Maidan-torgið í Kiev þá voru þar ekki ofbeldisfullir hægriöfgamenn eða flugumenn CIA, eins og þáverandi stjórnvöld héldu fram. Í nístandi kuldanum var þarna venjulegt fólk, ungt fólk og gamalt, miðaldra, alls konar fólk. Mér varð hugsað til mömmu minnar sem fór hverjum laugardegi niður á Austurvöll í búsáhaldabyltingunni á sínum tíma, henni rann blóðið til skyldunnar.
Það var fullt af mömmum á Maidantorginu. Í augum þeirra mátti skynja beyg en líka kjark og von. Einhver rétti mér tebolla og þakkaði mér fyrir á bjagaðri ensku að koma til Kiev á þessari ögurstundu. Á ÖSE-fundinum sem fór fram hinum megin í bænum lögðu utanríkisráðherrar Evrópuríkja, þ. á m. Íslands, hart að stjórnvöldum í Kiev að virða rétt fólks til friðsamlegra mótmæla.
Á endanum sauð upp úr – af beggja hálfu. Mótmælendur tóku yfir stjórnarbyggingar og kveiktu elda, óeirðalögreglan skaut á mannfjöldann. Janúkóvíts flúði land. Við tók starfsstjórn forseta þingsins. Rússar stóðu við stóru orðin um að stjórnarskipti í Kiev myndu hafa afleiðingar. Hinir svokölluðu „grænu karlar“ skutu upp kollinum á Krímskaga, þungvopnaðir sérsveitarmenn sem áður höfðu sést í bæði Tsétséníu og Georgíu, og þeir lögðu undir sig héraðið með skipulögðum hætti. Í framhaldinu brutust út átök í austurhlutanum.
Flókið og einfalt
Nú er þessi saga lengri og flóknari og á henni ýmsir angar – og ekki allir Rússlandi í óhag. Réttilega hefur verið bent á að öfgamenn hafi verið meðal þeirra sem komust til valda í Kiev, liðsmenn Svoboda. Einnig voru um tíma uppi misráðin áform um að stemma stigu við notkun rússnesku. Þó hið umdeilda tungumálafrumvarp hafi fljótt verið dregið tilbaka virkaði það engu að síður sem olía á eldinn. Þá er hárrétt að íbúar Úkraínu, einkum í austurhlutanum, eru síður en svo á einu máli um hvort betra sé að halla sér að austri eða vestri.
Átökin í Úkraínu eru því oft sögð vera margbrotin og erfitt að henda reiður á orsökum og ástæðum. Jú, mikil ósköp. En saga þjóða og milliríkjasamskipta er víðast hvar djúp og flókin. Ekki síst þar sem fleiri en eitt tungumál er talað, þjóðarbrot mörg og landamæri fljótandi, eins og raunin er svo víða í Evrópu. Efnahagslegir hagsmunir eru líka fjölbreytilegir og orkumálin flókin.
En um leið er Úkraínumálið einfalt. Því hvernig sem á það er litið gnæfir upp úr að hervaldi var beitt. Grundvallarprinsippið um friðsamlega lausn deilumála, sem er grunnurinn að alþjóðalögum og alþjóðakerfinu sem varð til eftir seinna stríð, var brotið. Það var Rússland sem ákvað að beita hervaldi á Krímskaga – nokkuð sem Moskva neitaði staðfastlega þangað til Pútín Rússlandsforseti viðurkenndi það í sjónvarpsviðtali. Og það er Rússland sem stendur á bak við og styður aðskilnaðarsinna, sér þeim fyrir hergögnum og eftir atvikum hermönnum. Um það er ekki deilt þó svo áróðursvélar blási reyk inn á sviðið.
Sjálfsákvörðunarréttur ríkja
Þá má spyrja: Var og er Rússland ekki í fullum rétti þegar upplausn í nágrannaríki ógnar rússneskum hagsmunum? Hafa Rússar ekki rétt á því að tryggja sig gegn því sem þeir upplifa sem yfirgang vesturlanda með því að búa til varnarvegg nágrannaríkja, „buffer zone“ eða „spheres of influence“ eins og það er orðað í fræðunum?
Svarið er við þessum spurningum er hið sama: Nei.
Rússar hafa ekki rétt á því að ráða utanríkisstefnu annarra ríkja. Ekkert ríki hefur rétt á því að ráða stefnu annars ríkis. Sjálfsákvörðunarréttur sjálfstæðra og fullvalda ríkja er ein helsta byggingareining alþjóðakerfisins. Sjálfsákvörðunarrétturinn er til dæmis grunnurinn að því að við Íslendingar getum sjálfir valið hvort við erum aðilar að NATO og innan eða utan ESB. Hvort tveggja kann að vera umdeilt en það er okkar ákvörðun – ekki annarra ríkja, stórvelda eða ríkjasambanda.
Þýðir þetta þá að ekkert tillit á að taka til öryggishagsmuna Rússlands, raunverulegra og ímyndaðra? Nei, það þýðir það heldur ekki. Það er alltaf mikilvægt að hlusta og það þarf líka að taka tillit til sjónarmiða sem maður er ekki sammála. Eftir á að hyggja var vont að samtalið við Rússland skyldi rofna í aðdraganda átakanna. Áætlanir um viðskipta- og samstarfssamning ESB og Úkraínu, sem styrinn stóð um, hefði sannarlega þurft að ræða betur við Rússland og jafnvel útvíkka með einhverjum hætti til þeirra sjálfra. Stjórnvöld í Moskvu virtust upplifa aukið samstarf Úkraínu við ESB sem „zero-zum-game“, þ.e.a.s. að aukið samstarf í vestur þýddi minnkandi samstarf austur. Að eitt væri á kostnað hins. Það þarf þó alls ekki að vera svo því oftar en ekki gagnast aukið viðskiptasamstarf mörgum.
En þó Rússland kunni að hafa upplifað að hagsmunum þess hafi verið ógnað, og hvort sem sú upplifun var réttmæt eða vænissjúk, þá réttlætir það ekki beitingu hervalds, hvort sem hún er undir formerkjum hefðbundinnar hernaðaríhlutunar eða því sem kallað hefur verið „hybrid warfare.“ Það er kjarni málsins.
Neikvæð langtímaáhrif
Í stærra samhengi er hætt við að átökin í Úkraínu muni hafa margvísleg önnur neikvæð langtímaáhrif umfram þær hörmungar sem þau hafa fært íbúum landsins og fjölskyldum þeirra fjölmörgu rússnesku hermanna sem látið hafa lífið í bardögum.
Í fyrsta lagi má ætla að útgjöld til hermála muni aukast. Það skiljanlegt og ef til vill óhjákvæmilegt en um leið að mörgu leyti neikvætt því þá fjármuni mætti nota í svo margt annað. Á síðustu árum hafa mörg ríki dregið úr vægi hefðbundinna milliríkjaátaka í ógnarmati og þjóðaröryggisstefnu og beina sjónum frekar að netógnum, skipulagðri glæpastarfsemi og umhverfisvám. Með aðgerðum sínum í Úkraínu er Rússland að snúa þeirri þróun við með því að segja að beiting hervalds sé eðlilegur hluti alþjóðasamskipta. Það er ferlegt fordæmi.
Í öðru lagi má gera ráð fyrir að fáum ríkjum detti í hug héðan í frá að afsala sér kjarnorkuvopnum og ýmsir haldi áfram að reyna að útvega þau. Það nýttist Úkraínu lítið sem ekkert að hafa gefið frá sér öll sín kjarnorkuvopn árið 1994 í staðinn fyrir öryggistryggingar frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Rússlandi. Hinn kaldi raunveruleiki er að Búdapest-samkomulagið sem átti að tryggja fullveldi, sjálfstæði og landamæri Úkraínu reyndist haldlítið er á reyndi.
Loks má segja að Rússar hafi ekki bara málað sig út í horn gagnvart vesturlöndum heldur líka hert hnútinn í samskiptum við grannríkin, þar á meðal Georgíu og Moldóvu. Nú vilja þessi ríki, og Úkraína, ganga til liðs við NATO og ESB til að tryggja öryggi sitt og fullveldi. Lái þeim hver sem vill. Hafi stjórnvöld í Moskvu ætlað að skjóta grannríkjum sínum skelk í bringu þannig að þau gæfu upp áform um aukið samstarf í vestur – þá mistókst það.
Kemur þetta Íslandi við?
En hvað hefur þetta með Ísland að gera, kynnu einhverjir að spyrja. Á friðsöm og fámenn þjóð eins og við Íslendingar nokkuð með að vera að skipta sér af átökum af þessu tagi – stríðsbrölti stórveldanna?
Við eigum að skipta okkur af. Eitt af grundvallarstefjum íslenskrar utanríkisstefnu er virðing fyrir alþjóðalögum og hvatning til friðsamlegrar lausnar deilumála. Sjálfar leikreglur alþjóðakerfisins eru í húfi og við sem sjálfstætt og fullvalda ríki þurfum að standa vörð um þær eins og aðrir.
Alþjóðalög eru raunar mikilvægari smærri ríkjum en stærri, því smáríkin ráða ekki yfir hefðbundnu valdi til að tryggja hagsmuni sína. Þau reiða sig það sem kallað er „rule-based international system“ enda er hnefarétturinn seint þeirra. Þegar reglurnar eru virtar að vettugi eins og í tilviki Úkraínu þá varðar það Ísland beinlínis.
Ísland er líka hluti af sameiginlegu alþjóðlegu öryggiskerfi sem aðildarríki NATO og þátttakandi í norrænni og evrópskri samvinnu. Hernaðaraðgerðirnar í Úkraínu hafa bein áhrif á fjölmörg náin samstarfs- og bandalagsríki okkar. Finnar, Norðmenn, Eystrasaltsríkin og Pólland eiga landamæri að Rússlandi. Svíar og Danir finna fyrir nærveru rússneskra hervéla í sínu nágrenni. Víða í Mið- og Evrópu eru ríki afar háð innflutningi á gasi frá Rússland. En þrátt fyrir margvíslega og ólíka hagsmuni þá heldur öryggiskerfið – allir standa saman.
Vissulega kann að vera freistandi að segja við Íslendingar, svona lítil og fá og óralangt í burtu, eigum að eiga viðskipti við alla og ekki skipta okkur af deilum. En með því værum við að gefa helstu bandalags- og samstarfsþjóðum okkar langt nef og gerast farþegar í öryggiskerfinu sem við tókum þátt í að stofna. Gleymum heldur ekki að það getur verið þunnur þráður milli hlutleysis og tækifærismennsku. Tækifærissinninn á fáa bandamenn þegar hann þarf á að halda.
Ísland hefur skipað sér í flokk annarra Norðurlanda, Evrópuríkja, Bandaríkjanna og Kanada sem standa með Úkraínu og fordæma hernað Rússlands. Með því er ekki sagt að við Íslendingar eigum endilega að hafa hæst eða vera í fylkingarbrjósti. En okkur ber að vera ábyrgur samstarfsaðili í því alþjóðasamstarfi sem við tökum þátt í, við eigum að taka skýra afstöðu með þeim grundvallarprinsippum sem birtast í alþjóðalögum, og við eigum að leggja okkar af mörkum eins og kostur er. Það hefur Ísland gert hingað til og við getum held ég verið svolítið stolt af því.
Rússland er eftir sem áður rótgróið samstarfsríki Íslands og nágranni á norðurslóðum. Rússland er mikilvægt stórveldi með merka sögu og ríka hagsmuni sem okkur ber að virða, taka alvarlega og hlusta á. Og já, Rússland er hluti vandans en líka lykillinn að lausninni sem aðeins er hægt að finna í gegnum samtal og samninga – ekki hernaðarátök. Vinur er sá er til vamms segir og grundvallarprinsipp um alþjóðalög, frið og mannréttindi þarf að hafa í heiðri.