Þegar spurt er í árslok 2014 hvort vel gangi á Íslandi, getur svarið verið bæði já og nei. Oftast ræðst svarið af því hver er spurður. Það er saga hvers tíma að sitjandi ríkisstjórn dregur fram allt það góða sem hún telur sig hafa staðið fyrir og teflir því fram sem staðfestingu á því að þjóðarskútan sé á „réttri leið“. Stjórnarandstæðingar á hinn bóginn telja ríkisstjórnina oftar en ekki á villigötum. Í þessu er ekkert nýtt.
En umræður um mannanna verk eru þó ætíð af hinu góða og skerpa á hugsun manna til að reyna að gera betur. Þannig á rökræðan að virka, þótt hún geri það reyndar ekki alltaf. Suma hluti er hægt að setja undir almenna tölulega mælikvarða, skella á einhvers konar tímaás og kveða upp úr um að breytingin sem orðið hefur, sé svo og svo mikil. Þótt einhver ákveðin staða sé betri nú en áður, er það ekki staðfesting á því að ástandið sé eins gott og það getur orðið. Á sama hátt þýðir lakari niðurstaða núna ekki að ástandið sé kolómögulegt.
Eftir áföllin haustið 2008 voru flestir meðvitaðir um það að erfiðir tíma voru framundan. Fjármagnið var takmarkað; væntingar voru í samræmi við það. Heldur hefur ræst úr og því hafa væntingar fólks aukist um að betur sé hægt að gera á ýmsum sviðum. Við áramót er rétt að spyrja; er það svo?
Hagur langflestra heimila hefur batnað
Stærsta kosningamál Framsóknarflokksins er í höfn; leiðrétting á verðtryggðum skuldum heimila. Það var að sjálfsögðu ekki hafið yfir umræðu hvort þessi leið væri sú eina til að rétta hag heimila. En um hana var kosið og niðurstaðan nokkuð afgerandi. Andstæðingar hennar, raunverulegir, jafnt sem aðrir, vildu fyrir alla muni að Framsókn sviki þetta loforð og lögðu nokkuð hart að ríkisstjórninni að gera það. En við þetta var staðið og peningarnir í beinar höfuðstólsleiðréttingar sóttir í þrotabú fjármálafyrirtækja, þar sem tjón almennings af bankahruninu var umtalsvert. Án þess að farið sé hér út í krónur og aura leikur enginn vafi á því að hagur langflestra heimila í landinu hefur batnað og mun batna enn frekar.
Þegar ofantaldir mælikvarðar eru skoðaðir er mér efst í huga, þegar árið er að renna sitt skeið, að ýmislegt hefur verið okkur Íslendingum hagfellt. Það er þó ekki sönnun þess að allt sé í stakasta lagi.
Annar tölulegur mælikvarði, sem íslenskum skuldurum er hugleikinn, er verðbólgan. Hún var í uphafi árs 3,6% en er nú við lok árs komin niður í 1,0%, hefur ekki verið lægri í 16 ár. Ég hygg að það þurfi ekki að ræða það sérstaklega hversu mikill og góður áfangi þetta er; að verðbólgan sé innan við verðbólgumarkmið. Þótt ekki sé með þessu sagt að stöðugt verðlag sé komið til að vera á Íslandi, er þetta þó klár vísbending um að við séum á réttri leið og leita verður allra ráða til að varðveita þessa stöðu. Kaupmáttur launa, mældur með launavísitölu, hefur sömuleiðis aukist mikið. Stefnir í að á árinu muni kaupmáttur aukast um 6%. Aukning kaupmáttar næst ekki síst vegna lítillar verðbólgu.
Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands var atvinnuleysi á Íslandi 3,1 prósent í nóvember. Fara þarf sex ár aftur til að finna viðlíka tölu. Við þessar tölulegu staðreyndir mætti bæta við tveimur, sem skipta þjóðarbúið mjög miklu máli; fjöldi ferðamanna hefur aldrei verið eins mikill og vísitölur sumra fisktegunda í haustralli Hafró eru þær hæstu frá upphafi haustrallsins árið 1996.
Víða er enn pottur brotinn
Þegar ofantaldir mælikvarðar eru skoðaðir er mér efst í huga, þegar árið er að renna sitt skeið, að ýmislegt hefur verið okkur Íslendingum hagfellt. Það er þó ekki sönnun þess að allt sé í stakasta lagi. Víða er pottur brotinn og það sem aflaga fór í hruninu og árin þar á eftir, verður ekki lagað í einni svipan. En þó held ég að það megi fullyrða að ýmis skilyrði séu nú betri en þau hafa verið um langt skeið. Ríkisstjórnin hefur undanfarið ár, reynt að koma böndum á ríkisútgjöldin og skuldir, sem er ein af forsendum hagsældar. Tugmilljarða vaxtagreiðslur ríkissjóðs á hverju ári eru blóðpeningar. Þegar vinna stjórnvalda á árinu er rædd, verður að nefna þá miklu vinnu sem lögð hefur verið í afnám gjaldeyrishafta, sem er stærsta einstaka málið sem úrlausn þarf að fást í. Ég er bjartsýnn á að farsæl lausn finnist, sem setur ekki of mikla pressu á íslenskt þjóðlíf. Þetta hefur verið vandasamt verk og í það kann að hafa farið langur tími, en hagsmunir okkar litla hagkerfis eru gríðarlegir og því betra að fara sér hægt.
Í Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu hefur verið unnið að nýjum lögum um stjórn fiskveiða. Það hefur verið langstærsta málið á könnu ráðuneytisins á árinu. Það er vart ofsögum sagt að það er flókið og sjónarmiðin mörg. Þótt vinna ráðuneytisins hafi byggst á meginniðurstöðu sáttanefndar frá hausti 2010, er allsendis óvíst að um frumvarpið náist sátt. Grundvöllur nýja frumvarpsins er samningur við útgerðarmenn um aðgang að auðlindinni, sem þeir greiða gjald fyrir. Af samtölum mínum við fólk úr öllum flokkum, virðast flestir sammála um að stjórn fiskveiða eigi að byggjast á aflamarkskerfi. Það hefur skilað okkur miklum ávinningi og íslensk útgerð er ein sú hagkvæmasta sem þekkist. Um útfærslu kerfisins eru hins vegar skiptar skoðanir. En það væri mikið gæfuspor ef sátt næðist og að henni mun ég vinna.
Að lokum vil ég óska lesendum Kjarnans gleðilegrar hátíðar og farsældar á komandi ári.
Höfundur er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.