Árið 2021 hefur að mörgu leyti orðið allt öðruvísi en mann grunaði. Við bárum líklega flest miklar væntingar til þess að geta átt eðlilegra líf í kjölfar þess að við fengum fréttir af því í lok árs 2020 að bólusetningar voru að hefjast víðsvegar um heiminn og þar með að baráttan við vágestinn sem hefur herjað á heimsbyggðina var farin að ganga betur. Okkur hefur tekist með miklum samtakamætti sem samfélag að halda flestum þáttum samfélagsins gangandi og má skrifa þann árangur á mikinn vilja fólks til bólusetningar. Án bólusetninga værum við á allt öðrum stað í dag og hefðum líklega þurft að greiða miklu hærra gjald í baráttunni. Síbreytileg veira herjar nú enn á okkur og af enn meiri þunga en áður. Sem betur fer veita bóluefni vörn gegn alvarlegum veikindum en við þurfum samt sem áður að leggja þó nokkuð mikið á okkur til að hamla útbreiðslunni.
Þrátt fyrir að okkur hafi gengið nokkuð vel í þessari baráttu þá er mér þó hugsað til samferðafólks okkar á jörðinni sem ekki býr við jafn góðar aðstæður og okkur bjóðast hér á Íslandi. Fólk sem býr í fátækari ríkjum heims stendur berskjaldað í þessari baráttu við veiruna. Það má segja að það sé áfellisdómur yfir ríkari þjóðum heims að við höfum gleymt samstöðunni sem þarf að ríkja á heimsvísu hvað varðar dreifingu bóluefnis og þátttöku í bólusetningu. Á meðan fjölmennar þjóðir, fátækar þjóðir, geta ekki byggt upp varnarkerfi þá gefum við veirunni færi á að þróast enn frekar, stökkbreytast og ná þannig að komast hjá þeim vörnum sem við erum að byggja upp. Það er að sjálfsögðu von okkar að veiran veikist og hún deyji út og það mjög fljótlega en samstaða á heimsvísu skiptir sköpum í þessari baráttu.
Á árinu sem er að líða höfum við séð fjölda áskorana í samfélaginu. Húsnæðismálin hafa verið í brennidepli á undanförnum árum. Skortur á íbúðarhúsnæði hefur verið viðvarandi vandamál of lengi. Lítill formlegur leigumarkaður hér á landi hefur auk þess gert það að verkum að oftar en ekki telur fólk það ekki valkost að vera á leigumarkaði. Nú stöndum við frammi fyrir því að fasteignaverð hefur hækkað gríðarlega á undanförnum misserum. Leiguverð hefur jafnframt hækkað og við búum við hærri verðbólgu en við áttum von á. Ástæður hærri verðbólgu má finna fyrst og fremst í hækkun á vöruverði vegna aðkeyptra aðfanga, erlendis frá, sem og að fasteignaverð hefur kynt undir verðbólgunni. Eldsneytisverð hefur hækkað mjög að undanförnu sem teljast til áhrifa af heimsfaraldrinum.
Því miður sjáum við ofan í þessa stöðu að vextir hafa hækkað töluvert á undanförnum mánuðum. Er það tilætlun Seðlabanka Íslands að stuðla að lægri verðbólgu með hækkun stýrivaxta. Draga úr þenslu í samfélaginu. Því miður virðist sem Seðlabankinn ætli að veðja fyrst og fremst á þennan þátt sem er líklegt að muni jafnframt ýta undir hækkun á verðlagi annarra þátta. Að stemma stigu við hærra fasteignaverði og koma böndum á markaðinn hefði þurft að koma til miklu fyrr.
Nú þegar nýtt ár tekur við þá er auk þess gott að rifja það upp að allflestir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði renna út í lok ársins. Því er vinna hafin við undirbúning að endurnýjun kjarasamninga þar sem horft verður til þessara þátta sem skipta miklu máli. Að halda í kaupmátt launa hér á landi mun skipta afar miklu máli en auk þess mun skipta sköpum að halda áfram þeirri vegferð að bæta stöðu fólks hvað varðar húsnæðismál. Samfélagið þarf auk þess að umbuna launafólki fyrir þá menntun sem það hefur sótt sér. Launakjör iðnmenntaðs fólks þarf svo sannarlega að bæta, þannig að launakjör haldi í við launaskrið í samfélaginu á undanförnum árum.
Við höfum lengi heyrt það hljóma, jafnvel á bestu stöðum í samfélaginu, að við þurfum að gera iðn- og tækninámi hærra undir höfði í menntakerfinu. Ég hef barist fyrir því um mjög langt skeið að gera hvað ég get til þess að auka aðsókn í námið. Nú er svo komið að aðsókn hefur aukist verulega í iðn- og starfsnám. Við viljum fá enn fleiri í greinarnar okkar því þarna liggja mikil sóknarfæri fyrir samfélagið. Nú biðlum við til stjórnvalda að tryggja raunverulega bætt aðgengi í iðn- og tækninám þannig að mögulegt verði að fjölga á vinnumarkaði.
Nýverið kynnti Hagstofa Íslands færnispá sína fyrir árin 2021 – 2035. Gert er ráð fyrir að fjölgun á vinnumarkaði verði um 36 þúsund manns. Það sem veldur hins vegar miklum áhyggjum er að Hagstofan áætlar að mest fjöglun verði í fjármála- og vátryggingarstarfsemi, eða sem nemur 99% aukning. Aukning í bygginga- og mannvirkjagerð er áætluð upp á tæp 20%. Hvernig er áætlun sem þessi gerð? Ætlum við að stefna aftur á sama stað og fyrir rúmum áratug? Samfélagið verður að taka krappa beygju nú þegar og sækja á mið tækniþróunar, nýsköpunar og uppbyggingu innviða í stað þess að lifa á vátryggingum.
Við sem samfélag þurfum að nýta nýja árið til að rýna vel inná við og byggja upp réttlátt samfélag með trausta innviði þar sem mannsæmandi laun eru greidd fyrir störfin. Veitum fólki tækifæri til náms í spennandi greinum óháð aldri.
Höfundur er formaður Rafiðnaðarsambands Íslands og 1. varaforseti Alþýðusambands Íslands.