Orkuskipti eru lítið orð með mikla þýðingu. Ávinningurinn getur orðið stórkostlegur en fórnirnar líka. Um allt land eru mikil áform um byggingu nýrra orkuvera, einkum í vindorku.
Eru orkuskipti orð ársins 2022? Á árinu hefur færst vaxandi þungi í umræðuna um hvernig Ísland ætlar að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar með öðru en því hænufeti að gera fjölskyldubílinn að rafbíl yfir í hvað þarf að gera og hverju þarf að kosta til.
Á þessum stað fyrir ári síðan var vakin athygli á áformum um uppbyggingu Orkugarðs Austurlands á Reyðarfirði. Orkugarðurinn er í grunninn vetnisverksmiðja sem danska fjárfestingafyrirtækið Copenhagen Infrastructure Partners (CIP) stendur að. Á þessu ári hefur skýrst nánar í hverju áformin felast.
Nú milli jóla og nýárs staðfesti bæjarstjórn Fjarðabyggðar úthlutun á 38 hektara lóð til CIP utan við álverið í Reyðarfirði. Þar hófust í sumar rannsóknir sem nauðsynlegar eru fyrir umhverfismat. Því á að vera lokið áður en árið 2026 gengur í garð, í síðasta lagi fyrir árið 2028, þannig að framkvæmdir geti hafist.
Mikill ávinningur
CIP áformar að framleiða vetni með að kljúfa vatn í frumefni sín, vetni og súrefni. Vetnið verður síðan bundið ammoníaki þannig hægt verði að nota það sem eldsneyti á skip, flutningabíla og mögulega flugvélar.
Útlit er fyrir að rafmagn henti seint á þessi farartæki. Við framleiðsluna falla til hliðarafurðir svo sem heitt vatn, ammoníak og súrefni sem samstarfsaðilar hafa hug á að nýta. Þeirra á meðal er íslenska nýsköpunarfyrirtækið Atmonia sem þróar umhverfisvænni tækni en þekkist í dag til að framleiða ammoníak en líka nýja aðferð til áburðarframleiðslu.
Þegar olíukreppan skall á fyrir um það bil hálfri öld bar Íslendingum gæfa til að hverfa frá olíu til húshitunar yfir í jarðvarma og rafmagn. Ég fullyrði að ekki finnst mikið stærra öryggis- eða efnahagsmál en að gera Ísland óháð jarðefnaeldsneyti. Við sjáum áhrifin sem stríð Rússa gegn Úkraínu hefur haft. Ferðakostnaður tvöfaldast sem ekki síst kemur niður á íbúum landsbyggðarinnar sem þurfa að ferðast vegna vinnu eða treysta á birgðaflutninga. Erfitt er að tala um matvælaöryggi meðan hætta er á að ein stríðsátök lami dráttarvélarnar okkar og flutningabílana.
Með öðrum orðum: Orkugarður, vetnisverksmiðja eða rafeldsneytisframleiðsla – hvaða orð sem valið er – er mjög spennandi fyrir Ísland. Til yrðu fimmtíu ný störf beint við verksmiðjuna sem byggir á nýjustu tækni. Allt slíkt er mjög spennandi fyrir Austurland og Ísland.
En hverju þarf að kosta til?
En það er smá hængur á. Græni orkugarðurinn er grænn því hann nýtir endurnýjanlega raforku. Vetnið er klofið með rafmagni. CIP virðist eitt ábyrgt fyrir orkuöflun garðsins og til þess rennir það hýru auga í nágrannasveitarfélagi, Fljótsdal og vill reisa þar vindmyllur. Aflþörfin er 350 MW, ráðgert er að reisa 50 myllur sem hver þarf einn ferkílómetra lands þannig vindorkuverið yrði 50 ferkílómetrar.
Tekið skal fram að enn er mjög margt óljóst varðandi vindorkuverið, til dæmis hvort allar vindmyllurnar verði á sama stað eða dreifist milli nokkurra svæða. Ljóst er þó að þær yrðu upp á hálendinu, á svæði sem til þessa er lítið eða ekkert raskað.
Hér erum við komin að stóra málinu sem eru áform á Íslandi um uppbyggingu vindorku. Ekki fjærri svæðunum sem CIP skoðar er fyrirtækið Zephyr með áform um allt að 500 MW vindorkuver, nánar til tekið í landi Klaustursels á Jökuldal sem á land langt upp á norðanverða Fljótsdalsheiði. Takmarkaðar líkur virðast á að þessar vindmyllur sjáist úr byggð en að sama skapi þá virðast þær allar sjást um stóran hluta hálendis mið-Austurlands, innan frá Snæfelli út að Smjörfjöllum.
Vindorkuverið í landi Klaustursels virðist lengra á veg komið miðað við að drög að áætlun um mat á umhverfisáhrifum er nú í umsagnarferli. Þetta ferli er komið í gang þótt á Íslandi séu engin lög komin um vindaflsvirkjanir.
Hvað er í þessu fyrir okkur?
Ýmsum spurningum um vindmyllurnar er ósvarað. Hvað tekur ríkið til sín? Hvað fellur í hlut sveitarfélaga? Að mörgu leyti minnir ástandið á það sem uppi var í fiskeldismálum fyrir um áratug þegar sótt var um leyfi í miklum móð og okkar fyrstu viðbrögð voru jákvæð í von um atvinnusköpun. Og því verður ekki neitað að eldið hefur skilað sínu á ýmsum stöðum, til dæmis Djúpavogi sem var á vonarvöl eftir lokun Vísis.
En það var kannski ekki fyrr en fimm árum síðar sem fólk kveikti af alvöru og fór að ræða um skiptingu ágóðans og umhverfisáhrifin. Hvað með ruslið sem fellur til? Hver eru áhrif lífræna úrgangsins? Af hverju sleppa svona margir fiskar þótt búnaðurinn eigi að vera góður? Hvert er sanngjarnt gjald fyrir afnot af auðlindinni? Og fyrst við erum byrjuð – af hverju þarf sérstaka ríkisnefnd á launum við að meta umsóknir sveitarfélaga um skatttekjur af eldinu sem er stundað innan þeirra marka?
Miðað við núverandi lög eru vindmyllurnar að mestu undanþegnar fasteignagjöldum, sem til þessa hafa verið helsta tekjulind sveitarfélaga af raforkuverum. Og hvernig höndla vindmyllurnar ísingu og aðrar veðurfarsaðstæður á íslenskum heiðum? Það er svo sem ein af þeim spurningum sem orkufyrirtækin ætla að fá svör við með tilraunamöstrum.
Hækkar orkuverð?
Síðan eru vandamál sem fylgja því að vindorka er sveiflukennd, merkilegt nokk er stundum logn á Íslandi. Nýtingarhlutfallið hjá CIP er áætlað 35-40%. Ójöfn framleiðsla reynir til dæmis á flutningskerfið. Önnur spurning varðar raforkuverðið. Fulltrúar CIP fengu þá spurningu á íbúafundi í Fljótsdal í nóvember. Á fyrri fundi í mars höfðu þeir sagt að hægt væri að draga úr framleiðslunni auk þess sem viljayfirlýsing hefði verið undirrituð um kaup á rafmagni frá Hamarsárvirkjun, sem enn er eins og fleira enn aðeins á teikniborðinu.
Að þessu sinni var svarið að orkugarðurinn myndi vilja kaupa orku á slíkum stundum annars staðar úr kerfinu. Slíkt getur þýtt að bæta þurfi í til dæmis vatnsaflsvirkjanir til að mæta eftirspurninni. Um verðið var bent á að raforkuverð snerist um framboð og eftirspurn. Út frá því má álykta að líkur séu á að aukin eftirspurn þegar vetnisverksmiðjurnar fá ekki rafmagn úr vindorkuverunum geti leitt til hærra raforkuverðs fyrir almenning eða annan rekstur.
Hlutdeild þjóðarinnar
Þegar orkugarðsáformin voru fyrst kynnt á Reyðarfirði haustið 2020 mættu þangað fulltrúar Landsvirkjunar sem gerðu mikið í því að þátttaka fyrirtækisins væri þjóðhagslega mikilvæg því þannig væri landsmönnum tryggður hluti af ágóðanum af framleiðslunni. Á sama tíma sver fyrirtækið af sér nokkra tengingu við vindorkuverið, það er alfarið á ábyrgð og þar með eigu CIP, sem í öðrum tilfellum hefur stundað að fá með sér aðra fjárfesta. Landsvirkjun er í fæstum tilfellum aðili að þeim tugum áforma um vindorkuver sem uppi eru hérlendis.
Miðað við kort sem fulltrúi Rotterdam-hafna sýndi á fundi um orkugarðinn í sumar hefur fyrirtækið hins vegar vandlega kortlagt möguleika á beislun vindsins hérlendis og kynnt þá fyrir erlendum fjárfestum. En hver er þá hagur þjóðarinnar af vindorkunni? Ef hún er raunverulega ábatasöm, er þá ekki rétt að við höldum áfram á þeirri braut sem við mörkuðum fyrir löngu að stærri virkjanir séu í almenningseigu, ýmist sveitarfélaga eða helst ríkisins? Sagan geymir of mörg dæmi um þjóðir sem farið hafa flatt þegar auðlindir og ágóðinn af þeim hafa fallið í eigu fárra frekar en almennings.
Undanfarna áratugi hefur lögð mikil vinna í að reyna að koma á einhvers konar sátt um virkjunarkosti hérlendis í gegnum rammaáætlun, þótt hún sé engan vegin gallalaus. Hún verður hins vegar bæði að virka og vera virt sem stjórntæki til lengri tíma um orkukosti Íslands. Annars munum við ganga stjórnlaust inn á okkar ósnortnu víðerni, sem er afskaplega mikilvæg auðlind. Þegar horft er út um glugga flugvélar yfir meginlandi Evrópu má sjá að hver einasti blettur er snertur og skipulagður af manninum.
Og þótt vissulega sé hægt að taka vindmyllurnar í sundur eftir 25 ár og láta þær hverfa af yfirborði jarðar þá er það með þær eins og fleira að áhrifin eru aldrei að fullu afturkræf. Undir þær þarf að steypa traustar undirstöður og leggja að þeim vegi. Ummerki um hvort tveggja eða breytingaráhrif á vistkerfin verða seint afmáð.
Vinduorkuáformin eru síður en svo séraustfirsk né eru þau bundin hér við þau tvö orkuver sem rætt hefur verið um. Þannig hafa verið athuganir á Sandvíkurheiði milli Bakkafjarðar og Vopnafjarðar auk þess vindmyllur eru á teikniborðinu sem hluti af stórskipahöfninni í Finnafirði. Þá hafa dúkkað upp hér aðilar sem hug hafa á risaorkuverum úti á sjó.
Þess vegna er mikilvægt að við sem bæði nærsamfélag og sem heild getum tekið djúpa umræðu um hvert við stefnum á næstu árum í hvers konar orkumálum. Hvernig við hámörkum ágóða okkar í þeim en lágmörkum fórnirnar sem við þurfum að færa við þróunina.
Annað að austan:
Beint til Frankfurt
Í júlí tilkynnti Condor, eitt stærsta flugfélag Þýskalands, að það myndi næsta sumar fljúga vikulega milli Egilsstaða og Frankfurt. Þetta er í fjórða sinn sem reynt er við áætlunarflug erlendis frá Egilsstöðum og vonandi eru undirstöðurnar orðnar það tryggar að það verði langlífari en fyrri tilraunirnar þrjár. Ástæða er til bjartsýni miðað við að Condor stækkaði nú í desember vélarnar sem fljúga.
Ef vel tekst til væri það lyftistöng fyrir ferðaþjónustu og þar með samfélagið á Norður- og Austurlandi. Þessu fylgja hins vegar áskoranir. Gistipláss yfir sumarið, þegar flogið verður, er nánast uppbókað eystra en til að hvati myndist til að bæta við þarf ferðamannatímabilið að lengjast.
Og eins og eldgos og ófærð á árinu hafa sýnt þá er ekki verra að fleiri flugvellir en bara Keflavík geti sinnt alþjóðaflugi.
Öflugur sjávarútvegur
Austfirðingar fagna endurkomu loðnunnar þótt vertíðin í ár hafi ekki verið jafn risavaxin og vonir stóðu til. Óveður og bræla settu þar strik í reikninginn, sérstaklega hjá Norðmönnum sem geta veitt ákveðinn kvóta í íslensku lögsögunni en hafa til þess takmarkaðan tíma. Vikum saman lá fjöldi norskra skipa bundinn við austfirskar bryggjur. Það var gott fyrir efnahaginn í landi, norsku sjómennirnir björguðu febrúar í Vök baths, sundskýlur til leigu stoppuðu ekki í hillunum.
Norskum útgerðarmönnum var ekki skemmt og kvörtuðu í þarlendum fjölmiðlum yfir ósanngirni Íslendinga í samningum. Íslendingar gáfu á móti lítið fyrir þann kveinstaf enda þykja Norðmenn hafa verið óbilgjarnir í öðrum samningum, einkum um makrílinn. Mögulega kann nú að hafa myndast þar samningsstaða.
En þótt loðnan væri ekki jafn góð og vonast var þá hefur árið engu að síður verið gott. Eskja skilaði methagnaði árið 2021 og Loðnuvinnslan tók á móti nýju Hoffelli í júní. Síldarvinnslan keypti í fiskeldi á Vestfjörðum og síðan Vísi í Grindavík. Þar er um að ræða tæknivædda vinnslu í nágrenni við stór áform um fiskeldi á landi og flugvöllinn í Keflavík. Þau kaup skapa á sama tíma óöryggi meðal Seyðisfirði. Þar er frystihús Síldarvinnslunnar á hættusvæði.
Mönnun heilbrigðisþjónustu
Um jólin og síðsumars þurfti að loka eða draga úr þjónustu fæðingardeildar Umdæmissjúkrahússins í Neskaupstað vegna skorts á starfsfólki. Það þýðir að til viðbótar við stressið yfir væntanlegri fæðingu bætist við óöryggi hjá væntanlegum foreldrum yfir að finna íbúð í annað hvort Reykjavík eða á Akureyri til að dvelja í dágóðan tíma. Þá eru ónefnd erfitt aðgengi að sérhæfðri þjónustu, æ erfiðra virðist að koma sérfræðingum út á land fyrir að tryggja stöðuga læknamönnun eða það álag sem er á læknum í einmenningsumdæmum. Þetta bítur í skottið á sér því heilbrigðisstarfsfólk leitar ekki í erfiðustu starfsaðstæðurnar. Óöryggi um heilbrigðisþjónustu er eitt af því sem hefur umtalsverð áhrif þegar fólk velur sér búsetu.
Alþjóðlegar uppgötvanir
Á jörðinni Blávík, áður Vík, í Fáskrúðsfirði hafa þýski líffræðingurinn Marco Thines og samstarfsfólk hans komið upp aðstöðu til rannsókna. Þau vilja fylgjast með áhrifum loftslagsbreytingar á norðlægum slóðum auk þess sem þau telja lífríki norðurslóða almennt vanrannsakað. Þau hafa þegar fundið lífverur sem áður hafa ekki fundist í heiminum og birt um þær greinar í viðurkenndum vísindatímaritum.
Fornleifafræðingar sem vinna á annars vegar Stöðvarfirði, hins vegar Seyðisfirði, halda áfram að gera uppgötvanir sem skipta máli fyrir að minnsta kosti Íslandssöguna.
Höfundur er ritstjóri Austurgluggans og Austurfréttar.