Greinin er innskot í greinarskrif um blóðmeramálið, yfirhylmingu MAST og afstöðu Alheimssambands íslenska hestsins (FEIF). Til umfjöllunar eru frekjuleg viðbrögð MAST vegna svars AWF/TSB útaf fyrirspurn MAST um rannsóknargögn og stofnunin færir í eigin búning, fjarri kjarna málflutnings samtakanna í svarinu. Til upplýsinga fyrir almenning, stjórnvöld og Alþingi enda hefur stofnunin komist upp með það um árabil að starfa undir þeim væntingum sem gerðar eru um ábyrgð opinberra stofnana. Það er rökstutt.
Tengill er á fyrsta hluta þessara skrifa, samhengisins vegna, í lok greinar.
Yfirdýralæknir sækist eftir upplýsingum – viðbrögð AWF/TSB
Fljótlega eftir sýningu heimildamyndarinnar um blóðmeraníðið sóttist yfirdýralæknir eftir upplýsingum frá AWF/TSB í því skyni að gera MAST kleift að rannsaka málið. Samtökin eru best upplýsta vitnið í málinu og MAST einokar kæruvaldsheimildina að lögum.
Stofnunin óskaði eftir greinargerð um rannsókn þeirra, bæjarnöfnum blóðtöku, dagsetningum og óunnu myndefni og svöruðu AWF/TSB ítarlega í 10 liðum á tveimur bls. Svar AWF/TSB fól, samandregið, í sér að:
Um skipulagt kerfisbundið ofbeldi gegn dýrum sé að ræða, við óverjandi og hættulegar aðstæður, í þágu fjárhagslegra hagsmuna hluthafa Ísteka o.fl., sem Ísteka hefði ekkert vald á né dýralæknar á kostnað ólýsanlegra þjáninga fyrir blóðmera og folöld. Uppsetning eftirlitsmyndavéla hefði enga þýðingu enda ekki gerlegt viðfangsefni, vegna umfangs, að rannsaka allt myndefnið. Markmið samtakanna sé ekki að draga einstaka meinta sakborninga í dilka og/eða hjálpa MAST við það heldur varpa ljósi á óframkvæmleika blóðtökunnar þannig að hún standist lög um velferð dýra. Ástæða núverandi ástands sé m.a. getuleysi MAST við að sinna eftirlitsstörfum. Aukinheldur sé aðstoð samtakanna ekki nauðsynleg enda viti MAST um alla 119 blóðtökustaðina. Samtökin séu þó reiðubúin að aðstoða ákæruvaldið verði til þeirra leitað vegna rannsóknar á málinu.
Sá hængur er líka á að MAST er eini kæruvaldshafinn í dýraverndarmálum. Það ákvað löggjafinn 2013, án rökstuðnings og mörgum til undrunar. Beinlínis skerðing á tjáningarfrelsi af hálfu hans og þar með mannréttingabrot skv. stjórnarskránni. Blessunarlega hefur lögregla/Ríkissaksóknari heimild til að taka málið upp sjálfstætt og þar með viðra lýðræðislegum vilja eins og hann kemur fram í settum rétti.
Forstjóri MAST og yfirdýralæknir hafa nú birt umrætt svar, fært í glansumbúðir og útfært með þeim hætti, sem hentar MAST best, út á við.
„Matvælastofnun þakkar dýravelferðarsamtökunum AWF/STB fyrir veitta aðstoð við rannsóknina og hefur opið bréf, sem samtökin sendu frá sér 1. desember, til hliðsjónar. Stofnunin tekur undir með samtökunum að mikilvægt sé að rannsóknin beinist ekki síst að kerfisbundnum veikleikum í starfseminni sem geta komið niður á velferð hryssnanna".
Ómálefnalegt í víðasta skilningi stjórnsýsluréttar en málið telst nú í stjórnsýslulegum farvegi. Þar kemur ekkert af framangreindu fram í frétt MAST fram.
Fréttin er freklegur og klókur útúrsnúningur í þágu MAST eins og forseti AWF/STB komst að orði við mig. Það er rétt hjá forsetanum enda starfsheiður tveggja embætta innan stofnunarinnar í húfi, nefnilega forstjóra MAST og yfirdýralæknis.
FAKE NEWS og yfirhylming MAST
Yfirdýralæknir og forstjóri MAST, eru sameiginlega, ábyrgir fyrir þessu svari, halda enn og aftur hönd yfir höfuð sér og reyna, að ég tel með ásetningi, til að villa um fyrir stjórnvöldum, almenningi og fjölmiðlum en tveir af hinum síðastnefndu gerðu copy paste á svarið af heimasíðu MAST, greinilega án nokkurrar ígrundunar um hvert svar AWF/STB er þó flestum fjölmiðlum hefði verið send opinber fréttatilkynning um efni þess. Viðbrögð MAST skilgreinast í fjölmiðlafræðunum sem FAKE NEWS. Óboðlegt hjá opinberri stofnun sem ætluð er framkvæmd laga.
Forstjóri MAST og yfirdýralæknir eru enn einu sinni komnir í bullandi vandræði enda vaka fjölmiðlar, hér og erlendis, yfir þeim vegna málsins og hætt er við ráðherra taki þá á teppið - þó fyrr hefði verið. Erfitt að skilja af hverju æðri stjórnvöld hafa ekki löngu gripið inn í óstjórnarhætti MAST, svo löng er sagan um handvömm og afleit reynsla ýmissa aðila.
Dæmi:
RÚV 2017 um Brúneggjamálið sem ég afhjúpaði fyrstur manna 2011 með birtingu myndaefnis á youtube. 6 árum seinna lá afstaða ráðherra fyrir og er fráleitur málshraði innan stjórnsýslunnar.
Úr skýrslu atvinnuvegaráðuneytisins birt 28. mars 2017.
,,Matvælastofnun veigraði sér við að ganga fram af fullum þunga í máli Brúneggja og yfirstjórn stofnunarinnar var of varfærin í ákvarðanatöku. Þetta er niðurstaða úttektar sem gerð var á Matvælastofnun. Brúneggjamálið hafi dregið fram veikleika í eftirliti Matvælastofnunar". (vert er að skjóta því hér inn að engin var dregin til ábyrgðar og ekkert dómsmál varð úr þessu máli, sem kemst þó líklega næst blóðmeramálinu í brotum á lögum um velferð dýra)
Og meira:
Úr grein Samtaka verslunar og þjónustu frá 2017 á vefnum svth.is sem Lárus M.K. Ólafsson, lögmaður SVÞ skrifar.
Nýlega féll dómur í Hæstarétti þar sem viðurkennd er skaðabótaskylda Matvælastofnunar (MAST) í svokölluðu kjötbökumáli og fer dómurinn engum silkihönskum um málsmeðferð stofnunarinnar í umræddu máli. Hæstiréttur gagnrýnir MAST fyrir framgöngu sína í málinu sem hafi verið slíkum annmörkum háð af hálfu starfsmanna stofnunarinnar að skilyrði um saknæmi hafi verið fullnægt. Dómur þessi er enn einn álitshnekkir hvað varðar starfsemi MAST sem eftirlitsaðila og vísast hér einnig til fréttaumfjöllunar um eftirlit stofnunarinnar með tilteknum eggjaframleiðanda sem stóðst ekki þær kröfur sem gerðar eru til þeirrar starfsemi s.s. hvað varðar aðbúnað dýra og villandi upplýsingar.
Og ennþá meira:
Úr greininni Afneitun MAST 25. nóv. eftir Ingu Lind Karlsdóttir
í stjórn Íslenska náttúruverndarsjóðsins - The Icelandic Wildlife Fund
„Hvernig stendur á því að stjórnvöld láta stofnun sem hefur haft svona hrapallega rangt fyrir sér halda áfram að vera ráðgefandi í þessum mikilvæga málaflokki án breytinga þar innanhúss"?
Og aftur:
Frétt í fjölmiðli sunnudaginn 28. nóvember
Kona sem reyndi ítrekað að ná í neyðarnúmer dýralækna um síðustu helgi þegar hundur hennar slasaðist alvarlega kallar eftir svörum frá Matvælastofnun. Hún segir óásættanlegt að fólk þurfi að horfa upp á dýr sitt þjást. Hún furðar sig á því að dýralæknir á neyðarvakt svari ekki símanum.
Og að lokum:
Í frétt á fjölmiðli 2. nóvember segir,
Rannsókn Matvælastofnunar á meintum alvarlegum brotum á velferð blóðtökuhryssna heldur áfram en stofnunin segir ábendingar um alvarleg dýravelferðarbrot ávallt teknar mjög alvarlega.
Og til að botna þetta, þessu máli óviðkomandi, en tengt og á við um velferð hrossa. Þegar þetta er skrifað, í suðaustan ofsaveðri, slagveðursrigningu, stendur stór hluti þessara mera á suðurlandi, skjóllaus úti í haga, vegna skorts á eftirliti MAST og framkvæmd laga sem kveða skýrt á um að hross skuli hafa áreiðanlegt skjól fyrir veðri og vindum.
Ósannsögli yfirdýralæknis
MAST tekur ábendingar ekki alvarlega. Um það eru mörg dæmi. Það er ósannsögli hjá yfirdýralækni að stofnuninni hafi ekki borist neinar ábendingar eins og hann heldur fram. Formlega sendi ég inn ábendingu um meinta illa meðferð blóðmera og ítrekaði löngu fyrir frumsýningu myndarinnar. Auk þess hef ég skrifað óbeinar en ítarlegar ábendingar um blóðmeramálið í þremur mikið lesnum greinum hér, fyrst í jan. 2020 og síðan tvívegis á Kjarnanum fyrir kosningar. Aukinheldur hefur Ole Anton Bieldvedt, formaður Jarðarvina, fjallað nokkrum sinnum og ítarlega um málið áður en afhjúpun átti sér stað. Honum ber að þakka og um leið hvetja fleiri til skrifa. Hellingur er af dýravinum, sem fordæma þetta og ég hvet til að skrifa greinar.
Þá lagði Inga Sæland, Flokki fólksins fram frumvarp um bann við blóðmerahaldi fyrir síðasta þing með eftirfarandi lokarökstuðningi í greinargerð:
„Það brýtur gegn öllum sjónarmiðum um velferð dýra að rækta hross til blóðframleiðslu í gróðaskyni. Því er lagt til að bannað verði að taka blóð úr fylfullum merum í því skyni að selja það eða vinna úr því vöru til sölu".
Þá þegar vissu forstjóri MAST og yfirdýralæknir um málið en sendu, í nafni MAST, inn hlægilega ómálefnalega umsögn hvar m.a. segir:
„Það er mat Matvælastofnunar að blóðtaka úr fylfullum hryssum, eins og hún er framkvæmd hér á landi og að framan greinir, stangist ekki á við lög nr. 55/2013 um velferð dýra og ofbjóði ekki kröftum dýrs eða þoli né misbjóði dýrum á annan hátt."
Nú hefur komið í ljós hver hafði rétt fyrir sér varðandi frumvarpið. Þingmaður sem hafði aflað sér góðra upplýsinga en eftirlitsaðilinn MAST hafði annað hvort ekki gert, hafði ekki getu til eða ætlað sér að þagga málið. MAST hefði með réttu hefði átt að bregðast við ábendingu löggjafans, Ingu Sæland, flutningsmanns frumvarpsins, stofnunin hlýtur að taka þingmenn alvarlega, í stað þess að senda inn haldlausa umsögn þvert á staðreyndir málsins.
Allt framangreint getur ekki hafa farið fram hjá yfirdýralækni og forstjóra MAST.
Hvar er auðmýktin
Í stjórnsýslunni er það talin meginregla að leiðtogi sé auðmjúkur, setji hagsmuni annarra í fyrsta sæti, taki sjálfan sig ekki of hátíðlega, viðurkenni mistök og skapi traust.
Hverjir eru þessir umræddu hagsmunir? Það eru hagsmunir blóðmeranna skv. lögum um velferð dýra!
Gildi MAST eru: Fagmennska, gagnsæi og traust.
Ég spyr: hvar er þetta hjá yfirmönnum MAST? Þar eru stöðugar varnir í gangi þegar á móti blæs, útúrsnúningar og besservisserháttur og jafnvel persónuleg illgirni, sem nefna má mörg dæmi um.
Rúið traust
Það er m.a. út af framangreindu o.m.fl. sem ég og greinilega margir þ.á.m. fjölda bænda berum ekkert traust til stjórnenda MAST. Tími er kominn að nýr ráðherra aðhafist auk Alþingis og almenningur gefi heldur ekkert eftir í mótmælum og krefjist banns við blóðtöku. Stofnunin er að mínu mati í stjórnsýslulegu rugli og skylt er fyrir löggjafann, einkum landbúnaðarráðherra að skoða. Í rugli á kostnað velferðar dýra í landinu. Færa má rök fyrir að MAST beinlínis framleiði þjáningu hjá dýrum með því að hafa ekkert vald á lögbundinni eftirlitsskyldu sinni og ráði ekki við að hindra að órétti sé beitt gagnvart þeim. .
Nú verður engin afsláttur gefin af velferð dýra
Þetta sagði landbúnaðarráðherra VG úr pontu þingsins, 2013, þegar hann mælti fyrir frumvarpinu lög um velferð dýra.
Það ætti, nú á dögum blóðmeramálsins, sem hvergi er nærri lokið, að vera gott veganesti fyrir frú Svandísar Svavarsdóttur ráðherra landbúnaðarmála enda kom málið inn í ráðuneytið í tíð forvera hennar, Kristjáns Þórs Júlíussonar, sem eflaust hefði tekið á málinu, hefði ráðherratíð hans ekki verið að ljúka, enda sagði hann í fréttum að hann hefði verulegar áhyggjur af þessu og undraðist viðbragðsleysi dýralækna í málinu.
Afstaða Heimssambands Íslenska hestsins FEIF
Heimssamband íslenska hestsins, FEIF, er með skýra afstöðu í þessu máli. Úrdráttur úr þeirri afstöðu frá 3. des. s.l.:
„As the international Federation of Icelandic Horse Associations worldwide, FEIF
condemns these practices and the mistreatment of mares on blood farms. We
welcome the decision of the European Commission to stop the import and domestic production of PMSG and support any action taken by the Icelandic authorities to stop this procedure in Iceland completely.“
Bréfið er líklega á meðal mikilvægust gagna og raka gegn áframhaldandi blóðtöku á Íslandi auk rakanna um svívirðileg brot á lögum um velferð dýra og illa meðferð þeirra. Auk þess ætti það ekki að fara á milli mála hvaða hagsmuni stjórnvöldum er skylt að vernda. Útflutningsverðmæti hrossa, störf tengd því auk góðrar ásýndar Íslands eru í húfi samanborið við miklu minna vægi hagsmuna hluthafa Ísteka.
Fyrsti hluti þessara skrifa var birtur 30. nóvember s.l.
Blóðmeraníðið, krafan um réttarfarslegan farveg dýraníðs í réttarríki o.fl. – I hluti.
Ég vísa í nýja grein Ole Anton Bieldvedtþar sem hann krefst, réttilega, svara frá næst æðsta stjórnvaldi dýraverndar á Íslandi, forstjóra MAST.
Að lokum vísa ég í grein mína hér á Kjarnanum, Mítlar og Matvælastofnun – Dýravernd í vanda
Í henni er tekið fast á fagmennskuskorti MAST
Höfundur er dýraréttarlögfræðingur.