Þessi kaflaskipta grein eru hugleiðingar um viðbrögð réttarríkis í málum af þeim toga sem blóðmeramálið er. Málið er alvarlegasta mál íslenskrar dýraverndarsögu og til þessa hefur, að mínu mati, sem lögfræðings með sérþekkingu á íslensku dýraverndarlöggjöfinni, alls ekki verið tekið á af framkvæmdavaldinu og dómstólum í samræmi við skýran vilja Alþingis eins og hann kemur fram í settum rétti, hvorki fyrr né síðar. Það hef ég reifað áður og rökstutt í greinaskrifum og lokaverkefni mínu í laganámi um réttaráhrif og framkvæmd dýraverndarlaga á Íslandi.
Haustið 2019 hóf ég skrif mest lesnu greinar minnar um dýravernd á Íslandi, Blóðmerahald og fallin folöld þeirra. Fyrsta umfjöllun hérlendis um málið í áratugi. Birt í Kjarnanum í janúar 2020. Skrifin tóku mánuði. Þó aðeins drepið á broti af því, sem nú hefur verið afhjúpað. Hagsmunaaðilum, MAST og öðrum stjórnvöldum sl. 40 ár hafði tekist að halda leynd yfir ofbeldinu í blóðtökunni. Á milli skrifa og birtingar kynntist ég AWF/TSB. Á sama tíma hafnaði umboðslaus formaður Dýraverndarsambands Íslands samstarfi við AWF/TSB vegna málsins, þeim til mikillar undrunar, þó ekki mér. Í aðdraganda kosninganna gerði ég, í tveimur Kjarnagreinum, grein fyrir ofbeldinu, sem sýnt yrði, enda hef ég haft heimildamyndina undir höndum frá því snemma í haust eða löngu áður en hún var birt. Engin viðbrögð. MAST var send ábending. Engin viðbrögð þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir og kvartað hefur verið til Umboðsmanns Alþingis vegna. Svo virðist sem MAST og hlutaðeigandi aðilar hafa alltaf ætlað sér að þagga málið þar til neydd til viðbragða eftir afhjúpun eins og fram kemur síðar.
Hvernig verður blóðmeraiðnaðurinn stöðvaður
Upphaf og endir hans er hjá hinum valdamikla svínakjötsneytanda. Ákveði hann að hætta svínakjötsneyslu er málið sjálfdautt og frekari aðgerða er ekki þörf.
Alþingi í kastljósi heimsins vegna dýraníðs
Blóðmeramálið hefur náð heimsathygli. Máski verður það til þess að Alþingi leggi við hlustir. Nýtt frumvarp um bann hefur verið lagt fyrir þingið af Flokki fólksins.
Ég og AWF/TSB munum fylgjast náið með framvindu málsins á Alþingi í atvinnuveganefnd, umsögnum og að lokum atkvæðagreiðslunni og gera grein fyrir niðurstöðu málsins, hverjir voru með, hverjir sátu hjá, ef einhverjir og hverjir, ef einhverjir, greiddu atkvæði gegn frumvarpinu. Því verður síðan miðlað til miðla, sem þegar hafa fjallað um málið og andstæðingar frumvarpsins um að banna blóðtöku, ef einhverjir verða, verða eflaust kynntir rækilega. Neikvæðni í garð frumvarpsins verður þingmönnum ekki til framdráttar á heimsvísu né ímynd Íslands.
Afstaða nokkuð stærra þings, Evrópuþingsins, skýr
Vonandi verður afstaða Evrópuþingsins, og vonandi innan skamms, æðri valdhafa innan Evrópusambandsins, til þess fótum verð kippt undan áframhaldandi framleiðslu PMSG á Íslandi. Upplýsingar um myndina eru komnar til helstu stofnana Evrópusambandsins.
MAST hyggst rannsaka sjálft sig - Viðbrögð AWF/TSB
Samkvæmt upplýsingum frá samstarfsaðilum mínum, AWF/TSB, veltir nú settur yfirdýralæknir fyrir sér hvort hann og forstjóri MAST eigi að kæra málið til lögreglu en sá fyrrnefndi hefur óskað eftir gögnum um málið frá samtökunum. Ég hef tjáð þeim að það sé umhugsunarefni að láta frekari gögn í hendur MAST, sem ætlar m.a. að rannsaka eigið háttalag og eigi að taka ákvörðun m.a. hvort því háttalagi verði vísað til rannsóknar lögreglu með kæru. Samkvæmt fundi sem ég átti með AWF/TSB í gærmorgun, mánudag, má búast má við fréttatilkynningu til íslenskra fjölmiðla, þriðjudag eða miðvikudag um viðbrögð AWF/TSB við málaleitan MAST, sem AWF/TSB hefur mjög sterkar skoðanir á. Sem fyrr segir stendur hugur samtakanna ekki til að koma höggi á meinta sakborninga heldur afnám blóðtöku.
MAST hefur orðið uppvíst að alvarlegri handvömm í mörgum málum, eins og síðar verður rækilega getið. Þá er skemmst frá því að segja að það stendur ekki steinn yfir steini í málflutningi stofnunarinnar í þessu máli, eins og svo oft áður og ég og AWF/TSB erum sammála um varðandi þetta mál. Ég tel auk þess að bæði hæfis og hæfnisskilyrði stjórnsýslulaga séu brostin hjá MAST til að fjalla meira um málið. Einungis óháður aðili sé nú fær um það. Þann aðila verði Svandís Svavarsdóttur landbúnaðarráðherra að skipa.
Ég íhuga nú, vegna persónulegs og almenns vantrausts á MAST, að beina þessu máli í beint til lögreglu og/eða til ríkissaksóknara skv. 52. grein sakamálalaganna enda tel ég málið mjög alvarlegt í lögfræðilegum skilningi sbr. síðar. Það sé borgaraleg skylda mín.
Brotaþolarnir, tugþúsundir blóðmera í áratugi og afkvæmi þeirra eiga skilið viðbrögð ákæruvalds og dómstóla
Ef blóðmeramálið færi fyrir dómstóla, sem ætti ekki að vera togstreita um, yrði niðurstaða dómara eða fjölskipaðs dómstól nokkuð skýr að mínu mati. Ætti það við á öllum dómstigum. Uppfyllt eru, að mínu mati og því miður, refsiskilyrði dýravelferðarlaga um 2ja ára fangelsi og sviptingu leyfis ævilangt til að halda dýr. Verknaði í heimildamyndinni má í raun heimfæra við fjölmörg refsiverð ákvæði í lögum um velferð dýra og getið verður síðar. Brot virðast auk þess stórfelld eða ítrekuð.
Ég er almennt ekki talsmaður refsinga nema að mjög vel ígrunduðu máli, að sannanir liggi fyrir um refsiverðan verknað og saknæmi. Tilgangur refsingar er skv. lærdómsritum er m.a. sá að lýsa andúð samfélagsins á verknaði. Sú andúð varð ljós þegar á birtingardegi heimildamyndarinnar og hafa frétta og samfélagsmiðlar logað síðan. Þegar að dýraverndarmálum kemur er ég hiklaust talsmaður þess að tekið sé hart á málum. Dýrin eru á engan hátt fær um að svara fyrir sig og geta frá engu sagt og eru auðveld bráð hins illa innrætta hugar mannsins, á köflum. Málsvari þeirra erum við, sem látum okkur dýravernd varða og málsvarar þeirra ættu líka að vera framkvæmdavald og dómstólar. Hinir tveir síðastnefndu handhafar ríkisvaldsins hafa aldrei stigið hart til jarðar í þeim efnum á Íslandi utan sératkvæða í Hæstarétti Íslands.
Ákvarðanir refsinga hjá íslenskum dómstólum í dýraverndarmálum, til þessa, hafa vart haft önnur áhrif á dæmdu en að þær færast í sakaskrá viðkomandi. Í ákvörðun refsingar á þó að nokkru að felast að hún hafi fælniáhrif á aðra, sem er og að hluta tilgangur refsiákvæða. Aldrei hefur verið dæmd þyngsta leyfilega refsing í brotum á dýraverndarlöggjöf hérlendis og ég hef eiginlega ekki hugmyndaflug í að átta mig á því hvaða hrottaskap þurfi að beita til þess. Er ekki verknaður í blóðmeramálinu nægilegur? Getur þetta orðið verra. Á sama tíma hafa pylsupakkaþjófar í matvöruverslunum fengið dóma að fullu í samræmi við brot sitt skv. refsiákvæðum. Erlendis þyrftu menn, í flestum réttarríkjum að lúta þungum dómum fyrir verknað blóðmeramálsins þ.á.m. fangelsisdómum enda eru mál á kaliberi málsins litinn þar mjög alvarlegum augum af langflestum dómstólum. Um það er hægt að nefna helling af dæmum.
Ég bind því vonir við að þetta mál fari í farveg dómstóla. Dýrin, þó þau hafi engan skilning á því, hafa þó ekki gleymt þjáningunni sem við höfum valdið þeim. Það væri mat fáfróðra á þessum skyni gæddu lífverum að halda því fram. Öll dýr forðast hættur, hvað þá endurteknar hættur og eru merarnar því vel meðvitaðar um hvað býður þeirra ef af næstu blóðtöku verður sbr. Súsanna Sand Ólafsdóttir, formaður Félags tamningamanna í Pallborði á Stöð2 s.l. föstudag.
Ég hef hins vegar enga trú á að af frekari blóðtökum verði enda muni Alþingi og Evrópusambandið sjá til þess.
Í hlutverk dómara
Blóðmeramálið er í lögfræðilegum skilningi auðvelt úrlausnarefni fyrir dómstóla á öllum dómstigum. Fyrir liggja svo miklar sannanir að ákæruvaldi og dómstólum væri létt verk fyrir höndum í sönnunarfærslu og ákvörðun refsingar.
Ég ætla ekki að setja mig í dómarasæti hér, en ég ætla samt að gera mér smá mat út því hlutverki því að lögum þá uppfylli ég eins og margir aðrir skilyrði meðdómara yrði hann skipaður. Fari svo að þetta mál verði kært, ákæra gefin út og það fer fyrir dómstóla hlýtur fjölskipaður dómstóll að verða skipaður í héraði og jafnvel sérfróður einstaklingur kallaður til í Landsrétti og Hæstarétti ef málið fer þangað. Málið að umfangi er slíkt. Auk þess er þetta skv. dómasafni allra dómstóla pottþétt alvarlegasta dýraverndarmál Íslandssögunnar þar sem hvert refsivert lagaákvæðið á fætur öðru var mölbrotið. Heimfærsla við refsilagaákvæði er með því auðveldasta sem ég hef séð í öllum mínum dómalestri.
Ég tel mig því fullfæran að setjast í þetta sæti því ég hef rannsakað dýraverndarlöggjöfina frá upphafi og gjörþekki tilgang hennar og markmið. Það er því tilvalið og í raun skylda mín að stíga til baka og aftur til námsáranna þegar við laganemarnir fengumst einmitt við svona verkefni til úrlausnar, að dæma í málum til að læra af og þjálfa sig undir leiðsögn þungaviktaraðila í lagakennslu.
Málsatvik og lagarök
Í stuttu máli eru málsatvik blóðmeramálsins þau að blóðtakan hefur verið stunduð í 40 ár. Yfirgnæfandi líkur eru á því að ofbeldi hafi verið beitt allan þann tíma við tugþúsundir merar og folöld enda eru þær allar hálf villtar og önnur meðhöndlun en ofbeldi útilokar að hægt sé að ná þeim árangri að lokka þær í bása til blóðtöku. Brotin eru því stórfelld eða ítrekuð, að mínu mati hvorttveggja, sem eru á meðal refsiskilyrða dýravelferðarlag ef dæma á hámarks refsingu. Útilokað er að gera alla þá sem hafa beitt þessu ofbeldi að sakborningum. Mál fyrnast. Ég ætla því að afmarka málið við þann tíma sem í myndbandinu er þ.e. blóðtökuna s.l. haust og tveimur árum áður.
Þau ákvæði sem skipta máli í lögum um velferð dýra eru: 1., 6., 7., 8., 9., 10., 12., 13., d.,e.,f. og g liðir 1. mgr. 14, a og g liðir 1. mgr. 15. gr., 3. mgr. 16., 29., 30. og 45. gr.
Refsiábyrgðin er eftirfarandi: Fyrir stórfellt eða ítrekað brot skal maður sæta fangelsi allt að tveimur árum nema brot teljist meiri háttar svo að það varði refsingu skv. 174. gr. almennra hegningarlaga.
Tilraun til brota og hlutdeild í brotum skv. nánar tilgreindum ákvæðum eru manni refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.
Ég ætla ekki að benda á alla aðila málsins, það væri of langt gengið og þjónar engum tilgangi. Einungis embætti æðstu stjórnenda framkvæmdar laga um velferð dýra verða tilgreindir auk helstu höfuðpaura í framkvæmdinni sjálfri. Hitt er hlutverk rannsóknaraðila, að draga hið sanna í ljós, ef af rannsókn verður. Þeir hafa nú skotheld gögn. Um það o.fl. verður fjallað í næstu grein. Hluta II.
Grein úr Kjarnanum eftir mig: Blóðmerar og fallin folöld þeirra á Íslandi.
Höfundur er dýraréttarlögfræðingur.