Blóðmerabóndinn Sigríður Jónsdóttir, Arnarholti, Biskupstungum, segir blóðmerar hafa það gott í ágripi fyrirsagnar vegna samtals við þáttastjórnendur á útvarpsstöð 15. febrúar. Það er í takti við fyrirsögn greinar Arnþórs Guðlaugssonar, framkvæmdastjóra Ísteka, Blóðmerar í jafnvægi, í svari hans við minni grein hér á Kjarnanum, Blóðmerar og fallin folöld þeirra í jan. 2019. Sýnt hefur verið fram á annað í dag!
Umrædd heimildamynd sýnir annað en Sigríður heldur fram. Heimildamyndin er unnin af agaðri og kunnri þýskri fagmennsku og þekki ég mjög vel til gerðar hennar. Þá heldur hún því fram að flutningsmaður frumvarpsins um bann við blóðmerahaldi vilji leggja blóðmerabændur í rúst, fjárhagslega. Þessu er hafnað og ég segi: þvert á móti, Sigríður hefur ei hlustað á málflutning þess sem mælti fyrir frumvarpinu. Rökstutt í lok greinar.
Rökstuðningur Sigríðar, allur, í umræddu viðtali, er reyndar svo ruglingslegur og gengur svo langt að hún fer að bera saman sögunarmaskínur á sýningum galdrakarla við harðýðgina við meðferð blóðmera í blóðtöku á Íslandi. Ýmislegt annað tiltekur fræðimaðurinn Sigríður, sem ég verð að segja að sætir undrun hjá mér, en Sigríður er náttúrufræðingur, sem ég hefði haldið að hefði framúrskarandi tilfinningu fyrir eðli þess sem í náttúrunni í allri sinni mynd gerist þ.á.m. sláandi viðbrögðum blóðmera við smölun og hræðilega skelfingu þeirra og baráttu við illa meðferð mannsins í blóðtökubásum, aðframkomnar og uppgefnar í ofsahræðslukasti.
Sigríður hefur farið mikinn í fjölmiðlum, sá eini reyndar af þeim rúmlega hundrað, hafi ég fylgst rétt með, sem hafa gert sér far um að fórna merum sínum í þennan umdeilda bransa og myndbandið sýnir hrottaskap stundaðan við varnarlaus dýr, sem eiga sér enga undankomuleið aðra en uppgjöf og eru síðan, sumar hverjar, barðar á fætur aftur.
Vegið er að mér í umræddu útvarpsviðtali af Sigríði og því að haldið fram að ég hafi rangt fyrir mér að fullyrða að smölun mera með hundum, sem bíta þær sé ólöglegur. Í myndinni sést að hundar reyna, að bíta í blóðmerar. Notkun dýra í þessum tilgangi er skv. lögum um velferð dýra óheimill. Í lögum er lagt sérstakt bann við að etja saman dýrum til áfloga og misbjóða dýrum á annan hátt. Það er óumdeilt. Það er gert í myndinni. Ég legg sérstaka áherslu á í heimildamyndinni að dýr, sem slegin eru margsinnis í höfuðið, eins og fram kemur í myndinni, sé brot á lögum um velferð dýra og heimild sé í lögum að svipta viðkomandi heimild til að halda dýr. Reyndar er það svo, burtséð frá blóðtökunni sjálfri, að allar aðferðir sem notaðar eru til að þvinga merarnar í myndbandinu inn í bása eru einfaldlega andstæðar lögum um velferð dýra. Um það er ekki hægt að deila. Þær eru barðar með prikum, slegnar með stöngum, lamdar með höndum og glefsandi hundum er beitt á þær.
Á þriðja tug erlendra innlendra og erlendra sérfræðinga eru sammála um harðýðgina og dýraníð sjálfrar blóðtökunnar í umsögnum um málið í atvinnuveganefnd. Yfirdýralæknir, einn af þremur æðstu ábyrgðaraðilum og valdamestu um framkvæmd laga um velferð dýra, er ósammála öllum, í umsögn um málið til atvinnuveganefndar. Kemur ei á óvart eins og verður rökstutt í grein minni Opið bréf til atvinnuveganefndar og verður birt á Kjarnanum um leið og nefndin fer að hreyfa sig í málinu af einhverju viti.
Blóðmeramálið hefur valdið uppnámi á heimsvísu. Þrátt fyrir augljósa afstöðu langflestra íslenskra kjósenda, af umræðu um málið að dæma, þá er greinileg þöggun í gangi og undirheimar stjórnmálanna virðast á fullu „steami“ að reyna að svæfa það hérlendis og virðist meðalið öflugt og nær inn á ríkisfjölmiðilinn. Hann heyrir undir ráðherra menntamála, sem er Framsóknarkona. Kveikur, Kastljós og Silfrið hafna umfjöllun. Nokkrar fréttaádrepur hafa verið látnar duga um alvarlegasta dýraverndarmál Íslandssögunnar. Aðlir miðlar hafa gert miklu betur en útvarp allra landsmanna!
Viðbrögð innan stjórnmálanna eru á sama hátt undarleg. Einn og einn þingmaður hefur haldið þessu máli á lofti, þó þunnur sé sá þrettándi. Einn skarar fram úr, sá er mælti fyrir frumvarpinu. Á sjötta tug þingmanna þegir þunnu hljóði. Matvælaráðherra hefur málsmeðferð sína með handvömm og spillingu að mínu mati. Lætur innherja úr MAST rannsaka málið, þ.m.t. eigið háttalag, ásamt siðfræðingi. Aukinheldur er annar innherji MAST tengdur blóðtökum skv. mínum upplýsingum. Vonandi að siðfræðingurinn í starfshópi matvælaráðherra koma auga á þá spillingu. Hann hefur fram á sumar til að rannsaka mál, þar sem allar staðreyndir liggja fyrir. Tímalengdin er annað svæfingarmeðal ríkisstjórnarinnar en skuggastjórn Framsóknar í landbúnaðarmálum og Íhaldsins í málum sjávarútvegsins inn í Matvælaráðuneytið er flestum ljós.
Svakalegur fjöldi umsagna liggur fyrir Atvinnuveganefnd. Ólíklegt tel ég að hún geri sér far um að kafa fræðilega í málið og ég hef ekkert sérstaklega góða tilfinningu fyrir dýraverndaráhuga meirihlutans þar. Hafi hvorki nennu né getu. Hætt er við að 10% þingmanna svæfi málið í nefnd en það er sá fjöldi þingmanna í nefndinni, sem þarf til þess. Nefndir eru allt of áhrifamiklar í þessum efnum.
Ekki er samt ólíklegt að fyrir áhrif erlendis frá að blóðtaka verði stöðvuð og þingið neyðist til að hlýða því. - Málinu er ekki nærri lokið og ég tel fáa munu ásælast svínakjöt í Evrópu í náinni framtíð, sem rekja má til dýraníðs á Íslandi.
Verði einhver glóra í starfi nefndarinnar og fari málið aftur fyrir þingið og ljúki með lagasetningu er það skylda og háttvísi ríkisins að hlúa að blóðmerabændum og hjálpa þeim fjárhagslega og með hvatningu til að koma undir sér fótunum á öðrum sviðum landbúnaðar kjósi þeir svo. Af nógu er að taka þar. Svo virðist nefnilega að margir þeirra hafi verið gabbaðir af Ísteka, Arnþór hafi gefið grunlausum blóðmerabændum rangar upplýsingar af ásetningi í eigin þágu af málflutningi hans að dæma.
Höfundur er dýraverndarlögfræðingur.