Áramót eru ávallt tímamót þar sem við setjumst niður til að fara yfir árið sem er að kveðja. Hvað skilur það eftir, hverjir voru áfangar á leiðinni en á sama hátt að horfa fram á veginn til nýrra tíma með ný verkefni og áskoranir.
Það má leiða nokkur rök að því að það ár sem nú er að ljúka, renni á einhvern hátt inn í það sem á undan því fór. Ástæðu þess er að finna í yfirstandandi baráttu heimsbyggðar gegn COVID-faraldrinum. Líkt og á árinu 2020 gekk á ýmsu í því verkefni og í framtíðinni er ekki ólíklegt að horft verði til þessarar baráttu sem tímabils frekar en einstakra ára, enda reglulega að rísa og falla bylgjur í faraldri sem fer nú yfir sín önnur áramót.
Það er stórt verkefni að halda samfélagi gangandi í slíkum aðstæðum, láta kerfin vinna áfram okkur öllum til heilla. Í íslenskum skólum hefur verkefnið verið leyst með eftirtektarverðum hætti, eða hvað?
Ég velti því fyrir mér hvort að sá árangur sé næstum orðinn sjálfsagður. Gerir samfélagið okkar sér grein fyrir þeim verkefnum sem hafa verið leyst um allt land, hvort sem er í fjölmenni eða fámenni og í ólíkum skólagerðum. Skólastarf byggist á langtímahugsun þar sem markmiðssetning eru vörður á leið nemenda í gegnum skólaferilinn, feril sem hefst við fyrsta dag leikskólagöngunnar og leiðir í gegnum grunnskólann yfir í frekara nám í framhaldsskóla. Inngrip COVID-19 í þennan feril hefur frá fyrsta degi verið verulegt þar sem við höfum einfaldlega ekki þekkt þær hindranir sem birtust og þýddu langtíma fjarveru nemenda frá skólagöngu og ólíkar leiðir til að bregðast við þeirri fjarveru. Reglulega hafa kennarar þurft að endurskoða verklag sitt, svo endurskoða endurskoðunina og á köflum bara byrjað upp á nýtt. Kennarar voru kallaðir til framlínustarfa í upphafi faraldursins, með engum fyrirvara var vinnustöðunum skipt upp í ný vinnusvæði, vægi námsgreina sveiflaðist og síðast en alls ekki síst komu upp smit í nemenda- og starfsmannahópum sem höfðu áhrif á allt starfið.
Fundur á fyrsta skipulagsdegi míns vinnustaðar eftir að alvaran varð ljós í mars 2020 mun aldrei renna mér úr minni. Strax þá var ljóst að þrátt fyrir mikinn ugg voru starfsmenn skólanna tilbúnir í það verkefni sem okkur var rétt og þá án fordæma. Vinnustaður sem byggðir á þeim atriðum sem ég hef áður nefnt og með samskipti barna og fullorðinna sem kjarna í öllu sínu starfi varð að endurhugsa allt. Auk þess hefur allan þennan tíma verið ljóst að starfsfólkið væri það sem líklegast var að verða fyrir smitum þar sem að tugir og hundruðir barna komu til starfa úr ólíkum áttum og áttu alltaf vísan stað í skólunum. Leikskólabörn, þar sem auðvitað ekki var hægt að gæta fjarlægðar, grunnskólabörn sem muna ekki alltaf eftir réttum gönguleiðum eða hólfum í skipulagi og framhaldsskólanemendur sem hafa stundað nám án þess í raun að eiga félagslíf í nokkrar annir.
Allt voru þetta ný verkefni fyrir íslenska skóla sem þrátt fyrir allt hafa í gegnum allan þennan feril verið opnir. Það hefur á engum tímapunkti verið einfalt, það má öllum vera ljóst, en skólafólk hefur haldið áfram í æðruleysi og náð takti við síbreytilegar aðstæður. Það hefur tekist á við sterkan mótvind, barist við sína eigin þreytu í aðstæðunum og lagt sig fram um að koma til móts við þreytu samfélags í kringum skólana sína sem auðvitað hefur orðið vart við.
Í skólabyrjun liðins hausts vorum við eins og aðrir í samfélaginu vongóð um að náðst hefðu góð tök á veirunni, það góð að ákveðið var að kalla skólana til frekara samstarfs við Almannavarnir og voru þeir beðnir um að taka að sér smitrakningu þeirra smita sem upp kæmu í barnahópnum. Eins og áður tóku skólarnir það verkefni að sér sem framlínustofnanir í baráttunni. Ég held þó að engan hafi órað fyrir því álagi sem því hefur fylgt. Þessir þrír síðustu mánuðir ársins hafa í mörgum skólum einkennst af smitum, langt umfram þær væntingar sem gerðar voru í byrjun skólaársins. Það hefur verið gríðarlegt álag fyrir stjórnendur skóla sem ítrekað hafa lent í smitrakningum að takast á við það verk, verk sem því miður hefur þýtt að minni tími er til fyrir faglegt starf. Tugir starfsfólks skólanna hafa lent í sóttkví, smitgát eða smitast enda nýjasta afbrigði veirunnar það sem að leggst helst á börn sem enn hafa ekki verið bólusett.
Við erum bjartsýn þjóð og æðruleysi kennara í sínum aðstæðum má ekki vanmeta. Það er algjörlega ljóst að þetta ástand hefur myndað mikið álag í störfum þeirra sem starfa í skólunum okkar frábæru og við verðum að horfa til þess á nýju ári. Mikil umræða fer nú fram um bólusetningar barna sem ekki verður til lykta leidd af skólafólki en vonir standa til þess að slík bólusetning fækki smitum á meðal barna, smitum sem hafa skipt hundruðum nú í haust. Ef ástandið heldur áfram líkt og við höfum séð undanfarnar vikur verður að hugsa leiðir til að draga úr álagi á starfsfólk skóla. Viðbrögð við fjölda smita hafa verið mismunandi eftir sveitarfélögum og skólastofnunum. Við höfum séð skóla loka tímabundið á meðan aðrir skólar hafa haldið sínu starfi áfram þó sami fjöldi eða jafnvel enn fleiri hafi smitast. Hér þarf skólasamfélagið að fá skýrari skilaboð og ekki síst heimilin sem skilaboðin berast til. Það hefur valdið óþarfa núningi milli heimila og skóla þegar skólastjórnendur hafa verið þeir sem þurfa að taka ákvarðanir sem hafa íþyngjandi áhrif á heimilin. Þá stöðu viljum við leiðrétta.
Á árinu var kynnt rannsókn þar sem niðurstöður leiddu í ljós að um fjórðungur íslenskra grunnskólakennara væru með einkenni kulnunar. Það er ástand sem verður að bregðast við án nokkurrar tafar þar sem áherslu verður að leggja á líðan kennarans í starfi og að bæta starfsumhverfi hans. Líðan er ein af stóru breytunum í skólastarfi, það á bæði við um líðan barna og fullorðinna. Til að kennarinn nái árangri þá þarf honum að líða vel, það er svo einfalt og í þeirri vinnu sem á að leiða til bættrar líðanar á að sjálfsögðu að leita eftir röddum kennara sjálfra og horfa til þeirra leiða sem þeir telja árangursríkar. Þar þarf að horfa til hefðbundinna starfsaðstæðna eins og húsnæðis og húsgagna, skoða framboð námsefnis og annars sem telst til kennslugagna skólastofunnar.
Það þarf líka að horfa til aðstæðna sem byggja á mannlega þættinum, þátta eins og hópastærða undir stjórn hvers kennara, samsetningu hópsins og eftir aðstæðum bregðast við með aðstoð inn á gólf kennslustofunnar þar sem hennar er þörf.
Það þarf einnig að horfa til þeirra hlutverka sem samfélagið leggur skólanum til. Forráðamenn og skólafólk eru samherjar sem ná mestum árangri þar sem samtal er grundvöllur ætlaðs árangurs og samskiptin byggja á. Hér skiptir máli að við horfum til skólastiganna allra. Leikskólarnir eru fyrsta skólastigið, þeirra metnaðarfulla starf er fyrsta varðan á leiðinni og þar er byggður grunnur undir allt frekara skólastarf, fræðsluhlutverkið sífellt að verða skýrara og eldri hugmyndir um leikskólann sem gæslustofnun löngu úreltar. Íslenskir grunnskólar hafa unnið að stefnumótun skóla án aðgreiningar. Auðvitað, því enginn vill skóla með aðgreiningu! Horfa þarf til þess hvernig hugmyndafræði skóla án aðgreiningar er útfærð því hún kallar vissulega á einstaklingsmiðun náms og árangur byggir á því að leitað sé mismunandi leiða til að ná til allra nemenda. Því er mikilvægt að kennarinn fái stuðning til að nýta raunprófaðar og árangursríkar kennsluaðferðir og kennslutæki fyrir ólík viðfangsefni. Framhaldsskólar eru nú starfsvettvangur mun stærri hóps í árgangi en við höfum áður þekkt. Það er vel en þar liggja líka áskoranir sem þarf að mæta. Hér má segja að á undanförnum árum hafa kröfurnar um að koma til móts við alla nemendur aukist í réttu hlutfalli við aukinn fjölda þeirra í framhaldsskólunum.
Í öllum þessum mikilvægu verkefnum er álagið á kennarana. Íslenskir kennarar eru metnaðarfullur og ósérhlífinn hópur sem horfir til lausna og það verður að tryggja að starfsaðstæður þeirra séu með þeim hætti að þeir geti nýtt og ræktað hæfileika sína nemendum sínum til heilla. Í því felst einnig leiðin til að bregðast við þeirri stöðu sem birtist í fyrrnefndri könnun á kulnun á meðal grunnskólakennara, hér þarf ekki rýnihópa eða þingnefndir, kennarar vita hver lykillinn er að bættri líðan og það þarf að hlusta eftir röddum þeirra.
Einn þáttur í starfi kennarans er að sjálfsögðu launaliðurinn. Þegar þetta er ritað þá eru samningaviðræður í gangi milli þeirra aðildafélaga Kennarasambandsins sem gera samninga við sveitarfélögin. Auk hefðbundinna samningaviðræðna er nú unnið að því að jafna laun sérfræðinga sem vinna hjá sveitarfélögum og ríki við þau laun sem eru greidd á almennum markaði. Á undanförnum árum hefur mikil vinna verið lögð í að finna út samanburð launahópa og óhætt er að segja að þegar rýnt er í þann samanburð er launamunurinn milli starfsheita skólanna og annarra sérfræðisviða sláandi!
Þegar litið er til kennara þá eru heildarlaun þeirra metin 17% undir meðaltali sérfræðinga og eru þeir þar neðstir á meðal þeirra starfsmannhópa sem metnir eru. Sambærilegar stéttir t.d. innan heilbrigðisgeirans eru um 20% yfir meðaltalinu og hæstir tróna sérfræðingar innan fjármálageirans, 33% yfir umræddu meðaltali. Enn meiri munur er þegar horft er til stjórnenda. Stjórnendur í fræðslugeiranum eru 25% undir meðaltali og þar má sjá stjórnendur í heilbrigðisgeiranum er í meðaltali og í fjármálageiranum standa stjórnendur best, eru 63% yfir meðallaunum.
Vissulega hafa náðst ákveðnir áfangar í launabaráttu aðildarfélaga KÍ á undanförnum árum en það hlýtur að vera öllum ljóst að klára þarf það verk að jafna laun þeirra við sambærileg störf! Umræða um þjóðarsátt um að bæta laun kennara í samræmi við þær væntingar sem við sem samfélag gerum til skólastarfs hefur reglulega skotið upp kollinum. Sú umræða nær yfirleitt alla leið til rekstraraðila skólanna, ríkis og sveitarfélaga, en þar stöðvast hún býsna oft. Skólastarf skiptir meirihluta heimila á Íslandi máli, á þeim flestum eru einstaklingar sem þiggja þjónustu skólakerfisins og sem betur fer eru kröfur um gæðastarf háar. Raddir heimila sem óska þess heitast að kennarar barna þeirra séu sáttir við starfsumhverfi sitt og laun hljóma iðulega og eftir þeim verður að hlusta. Það voru mér ákveðin vonbrigði að sjá hversu litla athygli menntamál fengu í alþingiskosningum nú í haust en okkur má öllum vera ljóst að í þeim sveitarstjórnarkosningum sem framundan eru nú vorið 2022 verða menntamál að vera í algerum forgangi. Töluvert hefur verið rætt um tekjustofna sveitarfélaganna sem ákveðna hindrun fyrir fjármagni til skólastarfs og þegar kemur að því að bæta laun kennara. Þá umræðu þarf að taka í samhengi við þjónustuóskina við skólana okkar þannig að hljóð og mynd fari saman.
Nýskipaður menntamálaráðherra hefur á undanförnum árum sýnt framsækni þegar kemur að málefnum barna og ég bind miklar vonir við árangursríkt samstarf ráðuneytis hans og Kennarasambands Íslands með það að leiðarljósi að bæta enn frekur gott skólastarf í leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskólum landsins. Til að svo megi verða þarf að sækja í raddir kennara og þeirra sérfræðiþekkingu, nýta hana í umræðu um bætt skólastarf fyrir nemendur og kennara, samfélaginu öllu til heilla.
Skólastarf nútímans leggur grunn að farsælli framtíð. Það veit íslensk þjóð og nú er lag að leiða allan þann góða hug til skólanna sem býr í þjóðarsálinni. Á næstu árum getum við svo sannarlega tekið framsækin skref til enn betri skóla fyrir íslenska þjóð, sannkallaða þjóðarsátt.
Ég fullvissa alla um það að íslenskir kennarar koma að því borði sem sú metnaðarfulla og framsækna framvarðarsveit sem allir hafa orðið varir við í baráttunni við COVID, áræðni þeirra og æðruleysið sem hefur verið lykill að árangri í þeirri baráttu, munu þeir virkja í öllum sínum verkum hér eftir sem hingað til.
Við viljum gera góða skóla enn betri og ég er handviss um að íslensk þjóð er þar algerlega með okkur í liði! Ég hlakka til þeirra verkefna sem nýtt ár réttir mér um leið og ég kveð viðburðarríkt ár. Megi gæfa og gjörvileiki fylgja okkur öllum á árinu 2022.
Höfundur tekur við embætti formanns KÍ í apríl á næsta ári.