Líf Magneudóttir, formaður mannréttindaráðs Reykjavíkur.
Óttinn er vondur. Hann rænir okkur frelsinu og heftir okkur á alla lund. Hann býr til streitu og kvíða og veldur okkur hugarangri. Og það er margt sem okkur er sagt að óttast. Í öllum samfélögum er einhver sem elur á ótta í margs konar samhengi og heldur þannig völdum sínum. Sem dæmi kyndir kapítalisminn undir hræðslunni til að selja okkur gagnslaust drasl eins og nauðgunarvarnir til að setja út í drykki eða nærbuxur sem tefja fyrir nauðgurum. En stundum á óttinn sér líka stoð í raunveruleikanum. Í mörgum borgum er glæpatíðni há, ofbeldi, rán og nauðganir daglegt brauð og konur og menn geta ekki gengið frjáls og örugg í sínu umhverfi. Berskjölduðust eru konur og börn.
Að þessu leyti er reynsluheimur kvenna og karla ólíkur. Kynbundið ofbeldi er staðreynd. Konur verða oftar fyrir kynferðislegu áreiti á götum, í vinnunni eða öðrum opinberum rýmum.
Að þessu leyti er reynsluheimur kvenna og karla ólíkur. Kynbundið ofbeldi er staðreynd. Konur verða oftar fyrir kynferðislegu áreiti á götum, í vinnunni eða öðrum opinberum rýmum. Og það eru karlar sem áreita. Ég og allar vinkonur mínar hafa orðið fyrir einhvers konar áreiti, misjafnlega grófu, í opinberum rýmum. Bæði hér heima og erlendis. Þær hafa allar, einhvern tímann á lífsleiðinni, óttast um líf sitt og heilsu þegar þær eru á gangi. Bæði að kvöldlagi og um dag. Tilfinninguna að ganga heim með ónot í maganum og lykla í höndunum þekkja þær allar. Þetta birtist líka í könnunum og rannsóknum.
Nýleg viðhorfskönnun meðal íbúa á höfuðborgarsvæðinu, sem Félagsvísindastofnun gerði fyrir lögregluna um viðhorf til lögreglu, ótta við afbrot og reynslu af þeim, sýndi að 44% kvenna töldu sig mjög óöruggar í miðbænum eftir miðnætti. Í sömu könnun sögðust 19% karla vera óöruggir. Karlar eru samt mun líklegri til að verða fyrir handahófskenndri og alvarlegri líkamsárás í miðbænum um helgar heldur en konur, en þá er átt við að aðili sem þeir þekkja ekki ræðst á þá. Hins vegar eru konar fremur beittar ofbeldi af einhverjum sem þær þekkja eða er þeim nákominn og oftar en ekki á stað þar sem þær eiga að vera óhultar eins og í heimahúsi kunningja eða vina eða á heimilum sínum. Ættu karlar þá ekki að vera hræddir við að vera niðri í bæ að næturlagi og konur að afþakka heimboð í heimahús?
Þetta kemur allt heim og saman við aðrar rannsóknir og kannanir. Flestar sýna að þeir hópar sem óttast mest glæpi og ofbeldi eru konur og eldra fólk.
Þetta kemur allt heim og saman við aðrar rannsóknir og kannanir. Flestar sýna að þeir hópar sem óttast mest glæpi og ofbeldi eru konur og eldra fólk. Það er líka forvitnilegt að velta því fyrir sér af hverju fólk sem býr í miðbænum er óhræddara við að vera á ferli þar en fólk sem býr í úthverfum. Við óttumst nefnilega oft það sem við þekkjum ekki. Fólk sem býr í hverfum þar sem innflytjendur eru margir er til dæmis umburðarlyndara í garð þeirra en fólk sem býr í hverfum þar sem fáir innflytjendur búa.
En hvað svo sem tölfræðinni líður um hverjir óttist hvað og hver glæpatíðnin sé og líkurnar á því að vera beittur ofbeldi dugar hún skammt til að sefa óttann. Óttinn er eins og áður segir heftandi. Hrætt fólk hreyfir sig öðruvísi í almannarými og forðast jafnvel að vera þar. Og það er óásættanlegt. Við því þarf að bregðast með margvíslegum hætti – bæði með fræðslu og vitundarvakningu en líka með góðu skipulagi. Við þurfum mótvægi gegn óttanum.
Og hvert er mótvægi óttans og hvernig náum við því?
Margir telja að fjölmiðlun og margmiðlun af ýmsu tagi ýti undir vaxandi ofbeldi í samfélaginu og það má vel vera að eitthvað sé til í því að stöðugur lestur frétta um ofbeldisglæpi „normaliseri“ þá svo að ofbeldishneigðu fólki þyki atferli sitt réttlætanlegt því „allir“ beiti ofbeldi. Líklegra er þó að fréttaflutningur af því tagi ýti undir ótta okkar við að verða beitt ofbeldi og geri okkur óörugg þegar við erum ein á ferli á almannafæri. Þegar við höfum lesið margar fréttir sama daginn um barnaníðinga eða nauðganir finnst okkur umhverfi okkar fullt af nauðgurum og níðingum og forðumst að fara út eða höldum börnunum inni. Þannig kennum við börnunum að heimurinn sé hættulegur staður og engum sé óhætt. Við missum smám saman almannarýmið í hendur raunverulegra eða ímyndaðra ofbeldismanna í stað þess að standa á okkar sjálfsagða rétti til að ferðast um frjáls og óáreitt.
Það eru sjálfsögð mannréttindi að geta verið óttalaus og öruggur í sínu nánasta umhverfi og reyndar alls staðar.
Það eru sjálfsögð mannréttindi að geta verið óttalaus og öruggur í sínu nánasta umhverfi og reyndar alls staðar. Það eru sjálfsögð mannréttindi að þurfa ekki að þola kynferðislega áreitni eða athugasemdir í vinnunni, úti á götu, í skólanum eða hvar sem er. Það eru sjálfsögð mannréttindi að geta gengið á milli staða dag sem nótt án þess að verða beittur ofbeldi. Þetta eru réttindi okkar allra.
Á áttunda áratug síðustu aldar var stofnuð hreyfing til að auka öryggi kvenna og uppræta kynferðis- og heimilisofbeldi. Hún hlaut nafnið „Take back the Night“ – endurheimtum nóttina – og göngur og fundir af því tagi hafa verið haldnir víða um heim. Hugmyndin að baki hreyfingunni er að endurheimta almannarýmið sem ofbeldismenn hafa svipt okkur, ekki síst þegar skyggja fer af degi. Framan af voru viðburðirnir einkum ætlaðir konum en á síðari árum hafa karlmenn bæst í hópinn. Það er eðlileg þróun því til að koma á kynjajafnrétti þurfa karlar líka að leggja sitt að mörkum. Eftir því sem jafnrétti kynjanna er meira í löndum heimsins eru kynbundnir ofbeldisglæpir færri. Má því reka fækkun ofbeldisbrota til aukins jöfnuðar í samfélögum.
Svarið við spurningunni hér að framan er því augljóst: Tökum höndum saman og sigrumst á óttanum. Endurheimtum frelsi okkar og öryggi. Endurheimtum nóttina.
Herferð UN Women á Íslandi um Öruggar borgir (e. Safe Cities Global Initiative) stendur yfir frá 18. til 25. nóvember. Hluti af herferðinni eru pistlaskrif um öruggar borgir sem birtast munu á heimasíðu Kjarnans á meðan að herferðin stendur yfir. Hjarta hennar er á heimasíðunniwww.oruggborg.is. Hægt er að lesa meira um herferðina og styrkja sambærileg verkefni í fátækustu löndum heims á heimasíðu landsnefndar UN Women á Íslandi.