Ég tek hér fyrir þá þætti sem lúta að líkindum með frásögn Guðmundar Agnarssonar í lögregluskýrslum frá því í október 1975, um för hans til Keflavíkur og bátsferð til að sækja smygl þar sem Geirfinnur beið bana annars vegar og hins vegar frásögn Erlu og annarra sakfelldra um atburðarás við Dráttarbrautina í Keflavík og bátsferð þar sem Geirfinnur beið bana. Síðari frásagnirnar hófust í janúar 1976.
G.A. er sá sem í endurupptökudómnum er merktur sem A.
Endurupptökudómurinn, þar sem Erlu er synjað um endurupptöku dóms vegna ljúgvitnis í Geirfinnsmáli, er greinargóður og settur fram í 204 tölusettum liðum.
Þar segir í 4. lið:
„Næst dró til tíðinda í rannsókn á hvarfi Geirfinns í október 1975, en þá gáfu aðstandendur A sig fram og tilkynntu lögreglunni í Reykjavík um frásögn hans um aðild að hvarfi Geirfinns.“ Síðan eru frásögnin og atvik í kringum hana rakin í stuttu máli.
Lögmenn Erlu, á síðari stigum, benda ítrekað á að í verknaðarlýsingum í skýrslunum frá október 1975, séu veruleg líkindi með síðari uppspunnum frásögnum um atburði í Keflavík. Í lið 139 andmæla þeir afstöðu setts saksóknara sem hafnað hefur samlíkingunni, með þessum hætti: „Þá beri að horfa til þess að framburður hennar hafi ekki orðið til í tómarúmi og vísað til þess að framburður hennar og sú sviðsmynd sem hún dró þar upp hafi svipað mjög til játningar A frá október 1975 þar sem „Klúbbmenn“ hafi einnig komið við sögu. Lögregla hafi haft umræddar skýrslur undir höndum og veki það upp verulegan vafa um að frumkvæðið hafi komið frá endurupptökubeiðanda en ekki lögreglunni sjálfri.“
Í lið 174 er haldið áfram að fjalla um gildi og tengsl þessara frásagna. Þar segir:
Endurupptökubeiðandi lagði þessu til stuðnings fram samantekt H 17. júlí 2022 sem aflað var undir rekstri málsins fyrir Endurupptökudómi. Í henni er meðal annars vísað til þessarar frásagnar A. Segir þar orðrétt um áhrif hennar:
„Rannsakendur virðast hafa notað þessa játningu sem tilgátu um aðdraganda og hvarf Geirfinns við yfirheyrslur yfir Erlu, Sævari og Kristjáni Viðari í janúar 1976 og síðar. Þetta veikir verulega gildi framburða dómfelldu í Geirfinnsmálinu. Þetta vinnulag var grundvallarvilla við rannsóknina í Geirfinnsmálinu sem að mínu mati leiddi hana á villigötur og til rangra framburða Erlu, Sævars og Kristjáns Viðars gagnvart „Klúbbmönnunum“.“
Í lið 176 er þessu svarað þannig:
„Um framangreint er til þess að líta að af gögnum málsins sem liggja fyrir dóminum verður hvergi ráðið að rannsakendur hafi notað játningu A á þann hátt sem þarna greinir. A hafnaði því strax að nokkuð væri til í því sem hann hafði sagt fjölskyldu sinni um vitneskju eða aðild að hvarfi Geirfinns Einarssonar og virðist lögreglan í framhaldinu ekkert hafa aðhafst frekar vegna þessa framburðar.“
Jú, lögregla aðhafðist frekar vegna þessa framburðar. Skýrslur af G.A. og aðstandendum hans eru settar inn í málsskjölin í Geirfinnsmálinu og kallað á G.A. og G.B. til nýrrar skýrslutöku og þeim bætt við. Hefði það ekki verið gert, er alveg mögulegt að fyrra málið væri týnt ofaní kassa og tengsl þess við Geirfinnsmálið aldrei komið fram, jafnvel þótt þau væru samt fyrir hendi.
Sömu stóru steinarnir
Í báðum sögum eiga Magnús Leópoldsson og Sigurbjörn Eiríksson frumkvæði að því að fá G.A. eða Sævar til liðs við sig í því að sækja eða selja smyglaðan spíra og annað áfengi. Farið er á hvítum sendiferðabíl til Keflavíkur og góssið sett í hann, en óljóst hvert það er síðan flutt. Aðstæður vísa til Dráttarbrautarinnar og bryggju við hana. Smyglað áfengi er sótt á báti og Geirfinnur er alltaf með í bátsferðinni. Geirfinnur ferst af slysförum, einkum við að falla útbyrðis, eða í síðari lýsingum eftir átök um borð. Magnús og/eða Sigurbjörn vara meðreiðarsveina sína við að segja frá því sem gerðist. Engin lýsing er á bátnum. G.A. gefur upp eiganda lítillar trillu sem lögregla virðist ekki hafa talað við, en þau hin segja frá allskonar bátum sem þau sáu en muna annars ekki hvort báturinn í förinni var t.d. með stýrishúsi eða lúkar eða þilfari, stálskip eða trilla.
Afturgengnir bílar
Lögreglan í Keflavík ákvað strax á þriðja degi rannsóknar sinnar að hvarf Geirfinns mætti rekja til ókunnugs manns sem hefði komið inn í Hafnarbúðina í Keflavík og fengið að hringja og þeir töldu víst að hefði hringt í Geirfinn og narrað hann að heiman hinsta sinni. Létu þeir gera leirstyttu af mannshöfði hins meinta símhringjanda og gekk sá síðar undir uppnefninu Leirfinnur. Var Leirfinnur síðar eftirlýstur um land allt og fólk hvatt til að koma með ábendingar um hverjum hann gæti líkst. Meðal ábendinga var að einhver ókunnugur maður hefði komið við á Akureyri og verið heldur stuttur í spuna og á hraðferð, líktist sá maður Leirfinni og var á rauðum Fíat. Eftir það var rauður Fíat líka eftirlýstur um land allt og tölvur gengu næturlangt við að keyra útprentanir af rauðum Fíat eða líkum bílum. Þótti slík tölvukeyrsla mjög tæknivædd lögregluaðgerð.
Í frásögn G.A. fer hann á hvítum Transit sendiferðabíl til Keflavíkur, en í frásögn Sævars, Erlu og Kristjáns kemur stór hvítur sendiferðabíll við sögu og stundum fylgir lýsing á gluggaröð eftir langhlið hans. Þessi hvíti sendiferðabíll er afturganga frá Keflavíkurrannsókninni. Þar segir vitni frá því að hafa séð þannig flutningabíl í námunda við Hafnarbúðina í Keflavík. Þennan bíl tengdi Keflavíkurlögreglan, einkum Haukur og Kiddi P, við KR verktaka, en Kiddi P var búinn að sitja um þá lengi. Þessi afturganga varð lífseig, því harkalegir snúningar voru síðar teknir á manni sem troðið var í hlutverk bílstjóra hans í Dráttarbrautarför þeirra sem að lokum voru sakfelldir. En það er önnur saga.
Upphaf Geirfinnsmálsins
Hvernig þróuðust sögurnar um atvik þess er Geirfinnur fórst við að sækja smyglaðan spíra í Keflavík? Til þess að skoða það fór ég í gegnum skjalamöppur dómsmáls 214. Bók XII er merkt GEIRFINNSMÁL MAPPA : 1.
Á bls 6 – 22 er skráð upphafið að síðari rannsókninni á hvarfi Geirfinns, kölluð Reykjavíkurrannsóknin, til aðgreiningar frá Keflavíkurrannsókninni fyrst eftir að Geirfinnur hvarf. Á þessum blaðsíðum koma fram fyrstu lögregluskýrslur þar sem síðar sakfelld lýstu aðkomu sinni að hvarfi Geirfinns og jafnframt allur aðdragandi þess að handtökur á fjórum mönnum til viðbótar fóru fram, þeim fjórum sem tekist er á um af hverju sakir voru bornar á.
Lögregluskýrslur um Geirfinnsmál byrja á skýrslu yfir Sævari sem tekin er í fangelsinu í Síðumúla, fimmtudaginn 22. janúar 1976, hefst kl 14:15 og lýkur kl 19:05. Næsta skýrsla er af Erlu Bolladóttur daginn eftir, þann 23. janúar, þar sem hún mætir sem vitni. Síðar sama dag er Kristján Viðar yfirheyrður frá kl 20:40 til kl 01:10. Þá er aftur tekin skýrsla af Sævari 25. janúar þar sem hann breytir í nokkru og bætir við fyrri skýrslu sína.
Morguninn eftir, þann 26. janúar, eru þeir Einar Bollason, Valdimar Olsen og Magnús Leópoldsson handteknir og frá kl 08:00 til 09:16 eru teknar af þeim stuttar skýrslur á færibandi, þar sem þeir hver um sig segjast ekkert vita um þetta mál og aldrei hafa komið að hvarfi Geirfinns. Þeir voru síðan allir úrskurðaðir í 30 daga gæsluvarðhald.
Sævar byrjaði en ekki Erla
Í fyrstu skýrslu af Sævari segir: „...mætta er kunnugt um tilefni yfirheyrslunnar, en það er grunur rannsóknarlögreglunnar um vitneskju hans varðandi hvarf Geirfinns Einarssonar, sem síðast spurðist til í Keflavík þann 19. nóv. 1974.“ Ekkert kemur fram um það í þessari eða síðari lögregluskýrslum af hverju rannsóknarlögreglan grunaði Sævar.
Í skýrslunni játar Sævar að hafa verið beðinn um að selja smyglað áfengi og að hafa farið til Keflavíkur og heyrt þar á tali annarra að slys hafi orðið og Geirfinnur drukknað, en ekki að hann hafi haft neitt með það að gera að Geirfinnur dó.
Stutta útgáfan af frásögn Sævars er: Hann var á gangi niður Laugaveginn að kvöldi til nokkrum dögum áður en Geirfinnur hvarf og þá stoppaði bíll og Einar bróðir Erlu sat í aftursætinu og bauð Sævari að setjast hjá sér, undir stýri sat Magnús Leópoldsson og við hlið hans maður sem Magnús og Einar kölluðu Geirfinn. Þeir ámálguðu þá við hann að hann tæki að sér að selja ólöglegt áfengi fyrir þá og að áfengið myndi koma í brúsum.
Nokkrum dögum síðar kom Einar til fundar við Sævar, á rauðum Fíat í eigu föður síns. Með honum þá voru Valdimar Olsen og Magnús Leópoldsson. Þeir spyrja hann hvort hann sé eitthvað búinn að undirbúa áfengissöluna af því þeir séu að fara til Keflavíkur að sækja stóra sendingu. Þegar þeir eru að nálgast Keflavík fara hinir að tala um að hitta Geirfinn til að sækja áfengið út á sjó. Svo fara Valdimar og Magnús úr bílnum í áttina niður að höfn, en Einar og Sævar verða eftir og rúnta um. Þegar Magnús kom aftur í bílinn sagði hann Einari að slys hafi orðið og Geirfinnur hafi fallið útbyrðis af báti og drukknað. Var það slys ekki rætt meir, en Einar og Magnús sögðust ætla að ræða betur við Sævar um áfengisdreifinguna. Skömmu eftir þetta hafi Erla farið til Kaupmannahafnar og hann sjálfur skömmu síðar. Hann hafi ekki þorað fyrir sitt litla líf að segja neinum frá þessu af ótta við hefndir „þeirra félaga“.
Sævar minnist ekkert á Erlu eða Kristján Viðar eða nafngreinir neina aðra en ofangreinda í þessari Keflavíkurför. Hann minnist ekkert á sendiferðabílinn og nefnir enga staðhætti niðri við sjó eða höfn.
Svo mætti vitnið Erla
Þessi fyrsta skráða lögregluskýrsla af Erlu í Geirfinnsmálinu hefst svo: „Eftir að mættu hefur verið gerð ljós vitnaskylda skýrir hún frá eftirfarandi: Mér er ljóst, að tilefni skýrslu þessarar er sú, að rannsóknarlögreglan telur hugsanlegt, að ég muni geta veitt einhverjar upplýsingar varðandi atvik það, er Geirfinnur Einarsson hvarf og síðast spurðist til í Keflavík að kvöldi þess 19. nóv. 1974.“ (Í skýrslunni er fyrst vélritað: „Mér hefur verið gert ljóst“ og síðan vélrituð xxxx yfir þau orð sem ég undirstrika og vélritað þar fyrir ofan „er“).
Stutta útgáfan af frásögn Erlu er svo: Hún var að kvöldi dags við Klúbbinn ásamt Sævari þegar þau settust inn í bíl, sem hún hélt að væri leigubíll og ók með þau af ókunnum ástæðum til Keflavíkur. Á leiðinni hélt Sævar í hönd hennar. Hann talaði eitthvað við bílstjórann en hún man ekki um hvað og síðan er haft eftir henni: „en ég fékk það fljótlega á tilfinninguna að það ætti að stytta mér aldur og væri ferðalagið meðal annars farið í þeim tilgangi. Einnig töluðu þeir um, að manni ætti að stytta aldur með því að fara með hann út á sjó undir því yfirskini, að sækja eitthvað.“ Ekkert kemur fram um það af hverju Erla hélt að til stæði að drepa hana, en hinn sem átti að stytta aldur hafði verið með stæla og ekki tekið fortölum.
Ekið var niður að sjó í Keflavík og þá sá Erla að ökumaðurinn var Magnús Leópoldsson. Erla segir að 7 menn hafi verið í flæðarmálinu, þar á meðal bæði Einar og Magnús og hafði á tilfinningunni að Kristján Viðar væri þar líka og svo þessi sem hafði verið með stælana. Lýsir hún aðstæðum á vettvangi og að þar hafi bæði verið rauð fólksbifreið sem gæti verið bíll föður hennar og svo stór sendibifreið lík VW rúgbrauði. Hún var skilin ein eftir í bílnum og laumaðist á brott, faldi sig fyrst í einhverju geymsluhúsnæði en húkkaði sér síðan far morguninn eftir til Reykjavíkur með tveimur bílum.
Daginn eftir eða þar á eftir var lýst eftir Geirfinni og brátt komst hún að þeirri niðurstöðu að Geirfinnur væri maðurinn sem átti að láta hverfa. Samt þekkti hún hann ekki af myndum í fjölmiðlum, en „hann gæti samt sem áður hafa verið einn þeirra“. Hún segir þau Sævar aldrei hafa talað beinlínis um þessa ferð til Keflavíkur. Hálfum mánuði síðar hafi hún farið til Kaupmannahafnar og Sævar 10 dögum á eftir henni. Svo endar hún á: „Ég var hreinlega orðin svo hrædd, því ég hafði það einhvern veginn á tilfinningunni, að einhver vildi ryðja mér úr vegi. Ekki hafði mér þó verið hótað neinu.“
Af lýsingum Erlu má ætla að hún hafi verið í mikilli paranoju um þær mundir sem Geirfinnur hvarf. Svo var hins vegar ekki. Á þeim tíma voru hún og Sævar búin að ræna 950 þúsund krónum af Pósti og síma og lágu spök á meltunni. Hún fór svo til Danmerkur eftir að hafa verið sagt að lögreglan væri komin á slóð hennar, sem lögreglan vissulega var. Af hverju var Erla að lýsa því að hún hafi óttast á leið til Keflavíkur að verða drepin í sakamáli sem var ekki orðið að neinu morðmáli þá? Var það kannski af því hún var í paranoju þegar hún gaf skýrsluna?
Þá kom röðin að Kristjáni Viðari
Nú er búið að bæta Kristjáni Viðari við þá sem eiga að hafa verið á vettvangi í fjörunni í Keflavík og lögreglan tekur hann til yfirheyrslu. Það fyrsta sem eftir honum er bókað er: „Ég tel mig ekki viðriðinn eða vita um hvarf Geirfinns Einarssonar“. Hann rámar þó í að hafa farið til Keflavíkur einhvern tíma um það leyti sem Geirfinnur á að hafa horfið. Á þeim tíma hafi hann verið mikið í vímu og minni hans frá þeim tíma því mjög óljóst. Hann rámar samt í að hafa einhvern tíma að kvöldlagi farið upp í stóra sendiferðabifreið með gluggum aftur eftir hliðum, sem var á bak við Klúbbinn, en veit ekkert af hverju eða hverjir voru með honum þar. Hann heldur að ekið hafi verið til Keflavíkur, en er ekki viss, en það var stoppað nærri sjó. Þarna voru einhverjir bátar, nokkrir karlmenn og ein kona. Af þeim kannaðist hann við Sævar, Einar og Erlu. Hann getur ekkert fullyrt um hvort þetta hafi gerst um það leyti sem farið var að lýsa eftir Geirfinni, en telur það hugsanlegt.
Þótt Kristján Viðar segist ekkert muna frá þessum tíma af því þá var hann dópaður og ruglaður, þá tekst honum samt að rifja eitt og annað upp, jafnvel ómerkilegustu hluti sem ólíklegt er að neinn muni rúmu ári síðar þótt allsgáður hafi verið. Þannig man hann eftir litlum báti sem vaggaði við bryggju eins og hann gæti hafa verið nýkominn að eða frá bryggjunni. Hann man líka að það voru tveir fólksbílar þarna en ekki lit þeirra. Hann man ekkert af hverju hann fór í þessa för eða af hverju hann var þarna og veit ekkert um tengsl þessarar ferðar við Geirfinn.
Breytt og betra minni Sævars
Tveimur dögum síðar er Sævar mættur í nýja skýrslutöku þar sem skráð er að hann vilji breyta og bæta við fyrri skýrslu. Erla átti nú að hafa verið stödd hjá Einari og hringt í Sævar til að spyrja hvernig gengi að skipuleggja áfengissöluna. Þau sóttu hann og í bílnum var líka Magnús og ekki Valdimar heldur Kristján Viðar og er ekki viss um að þau hafi farið á Fíatinum. Þau hafi lagt nærri nokkuð stórri bryggju, líklega slipp. Þarna voru á bryggjunni nokkrir menn og Erla hafi sagt honum að þar á meðal væru bæði Geirfinnur og Valdimar, en hann sá þá ekki. Magnús, Kristján Viðar og Erla fóru öll um borð í bátinn. Þar til viðbótar fóru þrír menn og sagði Erla honum eftirá að einn þeirra hefði verið Geirfinnur, en Sævar og Einar fara ekki með bátnum. Þegar þeir Einar koma aftur á bryggjuna var verið að raða einhverju góssi inn í sendiferðabílinn. Eftir það kom Magnús inn í bíl til þeirra og það var þá sem hann sagði að það hefði orðið slys og Geirfinnur drukknað. Erla fór ekki með þeim heim.
Næst kemur athyglisverð frásögn: „Mér hefur nú verið ekið til Keflavíkur og mér þar sýndir þeir tveir staðir, sem um gæti verið að ræða, það er sjálf höfnin og svo athafnasvæði Dráttarbrautar Keflavíkur og bryggjan þar niðuraf.“ Eftir það telur hann sig þess fullvissan að þessir atburðir hafi átt sér stað við dráttarbrautina en ekki við sjálfa höfnina.
Þetta dugði til að handtaka þrjá
Þetta eru skráðu gögnin sem byggt var á til að handtaka þrjá menn, Einar, Magnús og Valdimar og úrskurða þá í 30 daga gæsluvarðhald. Sigurbjörn var handtekinn síðar og settur líka í gæsluvarðhald. Þeir sátu allir í einangrun í gæsluvarðhaldi til 7. maí. Sævar og Kristján Viðar voru þá þegar í gæsluvarðhaldi vegna hvarfs Guðmundar Einarssonar. Erla gekk ennþá laus og rannsóknarlögreglumenn héldu áfram að vera í talsverðu sambandi við hana.
Frásagnirnar allar eru misvísandi, svo sem um hverjir voru hvar með hverjum.
Sævar segir að hlutverk hans hafi bara verið að selja spíra án neinnar annarrar aðkomu að smyglinu og hann þekkti ekki Geirfinn fyrir. Hann segir bæði sig og Einar aldrei hafa farið um borð í bátinn og því ekki haft neina aðkomu að því er Geirfinnur lést. Hann minnist ekki á Erlu fyrr en eftir að hún er búin að gefa skýrslu þar sem hún segist hafa verið með honum í för. Hann kemur ekki niður að sjó og gefur enga lýsingu á aðstæðum þar, fyrr en eftir að hafa farið í vettvangsferð með lögreglunni um dráttarbrautina.
Erla skilur ekkert í því af hverju hún sat óvænt í bíl sem fór til Keflavíkur, en verður síðan sannfærð um að þar hafi átt að drepa hana og einhvern ókunnan mann líka sem hana grunar eftirá að gæti verið þessi Geirfinnur sem þá var verið að lýsa eftir. Hún nafngreinir þá sem hún fór með og hluta þeirra sem hún sá til viðbótar við einhverja bryggju, en stakk af áður en neinn fór í neina bátsferð. Hún flýr land af ótta við hefndaraðgerðir þeirra sem ekki höfðu samt hótað henni.
Kristján Viðar telur sig hafa verið útúrdópaðan á þeim tíma sem Geirfinnur hvarf og ekkert hafa með hans mál að gera. Hann rámar samt í að hafa farið upp í stóran hvítan sendiferðabíl sem af einhverjum ástæðum fór kannski með hann til Keflavíkur þar sem Sævar, Erla, Einar og einhverjir fleiri voru og setti þetta ekkert í samband við hvarf Geirfinns, þótt þetta gæti mögulega hafa gerst á þeim tíma.
Þetta dugði dómskerfinu okkar til að gefa út handtökuskipanir og 30 daga gæsluvarðhaldsúrskurði.
Svo var Sigurbjörn sóttur
Öll höfðu Sævar, Erla og Kristján Viðar séð einhverja fleiri þarna í Keflavík en þá sem að ofan hafa verið nafngreindir, svo það átti eftir að fylla upp í þau pláss. Ekki var leitað með það til hinna þriggja sem síðast voru handteknir, því við þá var ekki talað meir fyrr en rétt áður en 30 daga gæsluvarðhaldsúrskurðirnir þeirra fóru að renna út.
Næsta tímabil í lögregluskýrslum í Bók XII er á bls 23 – 38 og nær frá því daginn eftir að þremenningarnir eru handteknir og þar til Sigurbjörn Eiríksson er handtekinn, dagana 27. janúar til 11. febrúar. Þær má flokka í tvennt: Nýjar skýrslur af Sævari, Kristjáni Viðari og Erlu og svo skýrslur af fólki sem lögmenn Einars, Magnúsar og Valdimars benda á til að finna þeim fjarvistarsannanir og aðrar skýrslur því tengdu. Þessum skýrslum er raðað inn í möppuna í þeirri tímaröð sem þær eru skráðar, svo fletta þarf fram og til baka í möppunni til að finna samhengið í hverjum málaflokki fyrir sig.
Í skýrslunum yfir Sævari, Kristjáni Viðari og Erlu er minni þeirra sífellt að batna og breytast líka og hjálpar þar nokkuð til við að finna nöfn á þær aukapersónur sem sést höfðu á vettvangi en voru enn ónafngreindar, að lögreglan sýnir þeim myndir af alls a.m.k. 16 manns sem gætu hafa verið þarna. Í fyrri skýrslum var búið að minnast á að þarna hafi verið einhver sem var eldri en þau hin og það var Sigurbjörn Eiríksson einmitt. Eftir ljósmyndasýningar kemur nafn á Sigurbjörn og hann fær hlutverk í atburðarásinni. Þar með er hægt að handtaka hann 11. febrúar og setja hann í 30 daga gæsluvarðhald.
Skerpt á minninu
Nokkru eftir miðnætti aðfaranætur 27. janúar er Sævar mættur í þriðju skýrslutökuna í Geirfinnsmálinu. Enn batnar minni hans. Nú hafði hann farið í bátsferðina með Magnúsi og Kristjáni Viðari og þremur öðrum, eldri manni c.a. 50-60 ára, öðrum líka eitthvað eldri en þeir flestir og það var víst Sigurbjörn Eiríksson og svo einhver yngri sem var kannski Jón Ragnarsson. Þar til viðbótar fór svo Geirfinnur um borð. Eftir urðu í landi þau Valdimar og Erla. Í sjóferðinni kom til átaka og gægðist Sævar upp um lúkarinn og sá Kristján slá Geirfinn og einnig þá Sigurbjörn og Magnús leggja til hans. Við það varð Geirfinnur óstöðugur á fótunum og datt útbyrðis. Þeir náðu honum upp en hann var þá líklega látinn. Eftir það héldu menn áfram á spíraveiðum og drógu nokkra spírabrúsa um borð og einhverjar áfengisflöskur líka. Þegar komið var að bryggju var áfengið sett í bílana en Geirfinnur lá hreyfingarlaus á dekki og veit Sævar ekki um hann meir. Sævar fór heim til mömmu sinnar, en hann veit ekki hvert hinir bílarnir fóru, en skildist að sendiferðabíllinn ætti að fara í Klúbbinn.
Eftir hádegi er Kristján Viðar yfirheyrður aftur og er líka orðinn minnugri. Hann fór í bátsferðina og man að þar voru líka Sævar, Magnús, Sigurbjörn, Einar og a.m.k. einn enn sem hann þekkti ekki. Svo er bætt við: „Mér hefur hér verið sýnd ljósmynd af manni, sem mér er sagt að hafi heitið Geirfinnur Einarsson og ég tel mig vissan um, að hún er af þessum manni, sem ég ekki þekkti.“ Erla og Valdimar og líklega Jón Ragnarsson urðu eftir í landi. Í bátsferðinni kom til átaka milli Geirfinns annars vegar og þeirra Einars, Sigurbjarnar og Magnúsar hins vegar, þar sem Einar sló Geirfinn í höfuðið og Sigurbjörn tók hann hálstaki og eftir lá Geirfinnur á þilfarinu. Hann telur að við bryggjuna hafi verið rauður fólksbíll sem Einar ók og sendiferðabíll sem Valdimar ók. Förin hafi líklega endað við Klúbbinn.
Þarna er Sigurbjörn kominn í sigti rannsóknarlögreglunnar, en bíða þurfti eftir að hann kæmi heim frá útlöndum.
Þann 10. feb. 1976 er komið að Sævari að skoða myndir hjá lögreglunni. Um það segir: „Mætta hafa hér verið sýndar ljósmyndir af 16 mönnum, sem rannsóknarlögreglan telur hugsanlegt, að verið hafi við Dráttarbraut Keflavíkur og/eða bátsferð þaðan að kvöldi 19. nóv. 1974.“ Þar bendir Sævar á myndir af Einari, Valdimar og Sigurbirni.
Strax á eftir sýnir lögreglan Kristjáni Viðari líka ljósmyndir af 16 mönnum. Af þeim bendir Kristján Viðar á Valdimar, Einar, Sigurbjörn og Ásgeir Hannes í sambandi við Keflavíkurförina og líka Geirfinn. Þar til viðbótar þekkti hann myndir af Bergþóri Bergþórssyni, Jósafat Arngrímssyni, Magnúsi Leópoldssyni og Guðmundi Ágústssyni.
Þar á eftir eru Erlu sýndar 16 mannamyndir. Varðandi Keflavíkurförina þekkir hún myndir af Magnúsi, Einari, Sigurbirni og Geirfinni. Þar til viðbótar þekkir hún á myndum þá Ásgeir Hannes, Valdimar, Guðmund Ágústsson og mann sem henni er sagt að heiti Jósafat Arngrímsson. Hún þekkir hins vegar ekki Jón Ragnarsson á mynd og segir myndina ekki nógu líka honum en hún þekki hann sjálfan í sjón.
Daginn eftir, þann 11. febrúar, handtekur lögreglan Sigurbjörn Eiríksson. Hann neitar öllum sakargiftum og atburðalýsingum. Svo er hann settur í gæsluvarðhald.
Allar þessar skýrslur taka rannsóknarlögreglumennirnir Eggert N. Bjarnason og Sigurbjörn Víðir Eggertsson.
Á bls 39 – 63, sem ná yfir 11. - 16. febrúar eru vitnaleiðslur varðandi mögulegar fjarvistarsannanir eða aðkomu þeirra Sigurbjörns, Magnúsar, Einars og Valdimars og leit á jörðum í eigu Sigurbjörns. Einnig skýst þar inn skýrsla sem Njörður Snæhólm tekur 12. febrúar, af eiginkonu Geirfinns þar sem hún í fyrsta sinn staðfestir fyrri skýrslu sína hjá lögreglunni í Keflavík og er síðan spurð hvort hún þekki eitthvað til hinna grunuðu og þekkir ekkert til þeirra. Svo tekur Njörður skýrslu af G.B. sem ég fjalla um næst á eftir í samhengi við G.A. málið. Það raðast nefnilega nokkrar aðrar vitnaskýrslur inn á eftir skýrslunni af G.B. þar til G.A. málinu frá því í október er skellt inn í möppuna og tekin ný skýrsla af G.A. í framhaldi af því.
Eftirhreytur G.A. málsins dúkka upp
Daginn eftir handtöku Sigurbjörns tekur Njörður Snæhólm skýrslu af G.B, f.v. sambýliskonu og barnsmóður Sigurbjarnar, á bls 53 - 58. Hún lýsir sambúð þeirra, barneignum og drykkjuskap og segir einnig að allan sinn tíma hafi hún aldrei séð annað áfengi í veitingarekstri Sigurbjarnar en frá áfengisverslun ríkisins. Seinna hafi hún gifst R.A.M. en það staðið stutt. Síðastliðið sumar hafi hún kynnst G.A. og þau ruglað saman reitum sínum og drykkjutúrum. Höfðu G.A. og kona hans skilið vegna þessa.
Um konu G.A. segir G.B.: „Konan er margbúin að hringja í mig vegna Guðmundar. Svo hefur hún hringt þrisvarsinnum og sagt að ég yrði bráðum tekin út af Geirfinnsmálinu. Einusinni nefndi hún Guðmund í sambandi við Geirfinnsmálið og svo mig. Þetta var núna eftir áramótin. Ég spurði konuna hversvegna hún kærði þetta ekki, hvort hún gerði sér ekki grein fyrir að það væri ein milljón í boði. Hún sagðist þá vera búin að því.“
Hún segir G.A. aldrei hafa talað um aðkomu sína að Geirfinnsmálinu fyrr en s.l. haust eftir að hann var yfirheyrður af lögreglu. Eftir að Sigurbjörn hafi verið handtekinn hafi hún gengið á hann í gærkvöldi og hann svarið og sárt við lagt að hann vissi ekkert um ekkert um þetta mál.
(Þessi „ein milljón í boði“ vísar til þess að eiginkona Geirfinns hét fyrst hálfri og síðar heilli milljón þeim sem gæti gefið upplýsingar sem leiddu til þess að upplýsa hvarf Geirfinns).
Fyrsta sagan um aðkomu Klúbbmanna
Á bls 64 – 86 raðast inn skýrslur sem teknar eru 22. og 23. október 1975, af börnum G.A., tengdasyni hans og eiginkonu sem hann er nýskilinn við, einnig af G.A. sjálfum og af vinnufélaga hans.
Fjölskyldu G.A. er illa brugðið þegar hann segir þeim frá því að hann sé viðriðinn hvarf Geirfinns Einarssonar og lýsir bæði aðdraganda og því er Geirfinnur hvarf. Hvetja þau hann til að gefa sig fram við lögregluna og segja frá. Þau fara svo sjálf til lögreglu þegar G.A. guggnar á því og heldur áfram á fylleríi. G.A. er handtekinn og settur inn í Síðumúlafangelsi til að láta renna af honum, eftir stutta skýrslutöku þar sem hann segir sögur sínar hafa verið hreinan uppspuna. Daginn eftir er tekin af honum löng skýrsla, sem er í samræmi við það sem búið var að hafa eftir hinum um að hann hafi sagt þeim frá.
Sagan er í stuttu máli svona:
G.A. og Sigurbjörn í Klúbbnum þekktust frá því þeir höfðu legið samtímis á Farsóttarspítalanum fyrir nokkrum árum og þar fékk Sigurbjörn að vita það að G.A. væri vélstjóri. Seinna hafi Sigurbjörn leitað til hans um að stýra vél á báti sem átti að sækja smyglvarning í sjóinn við Keflavík. G.A. hafi reddað bátnum með því að taka hann traustataki frá frænda sínum í Keflavík. Þeir hafi farið eina ferð og Geirfinnur kafað eftir varningum og allt gengið vel. Seinna hafi þeir farið aðra ferð og í það skiptið að sækja stóra sendingu sem hafi komið með Goðafossi. Þegar þeir komu til Keflavíkur hafi þeir verið seinir fyrir og Magnús Leópoldsson farið inn í Hafnarbúðina til að hringa í Geirfinn. G.A. hafi tekið sama bát og áður. Sigurbjörn hafi verið þarna við annan mann. Í bátsferðinni hafi það gerst að Geirfinnur féll útbyrðis og fannst ekki meir. Smyglinu hafi verið landað við gömlu bryggjuna við gamla slippinn. G.A. fór á hvítum Transit sendiferðabíl frá vinnustað sínum og var góssið flutt í honum og einnig í Range Rover sem Sigurbjörn eða Magnús hafi verið með. Hafði G.A. fengið greitt fyrir þetta með ávísun frá Klúbbnum undirritaðri af Magnúsi Leópoldssyni.
Lögregla aflar upplýsinga úr hafnsögumannabók Keflavíkur um ferðir fossa Eimskipafélagsins í nóvember og byrjun desember og þar er Goðafoss eingöngu skráður 3. - 4. desember. Vinnufélagi G.A. sagði það af og frá að G.A. hefði getað skotist frá af vakt til að sinna slíkum erindum og vera svo lengi fjarverandi.
Í frásögnum kemur líka fram að G.A. hafi fyrir nokkru tekið upp samband við konuna G.B. sem sé f.v. sambýliskona og barnsmóðir Sigurbjörns, þau slitið samvistum og hún gifst R.A.M. og bendlar G.A. hann líka við að standa að baki þessu bixi. Þá kemur Jón Ragnarsson við sögu þar sem þau G.A og G.B. hafi þjórað ótæpilega á veitingastöðum hans.
Víkur svo sögunni fram til 17. febrúar 1976 að G.A. er kallaður aftur til skýrslutöku og er sú skýrsla á bls 87, tekin af E.N. Bjarnason lögreglum. G.A. staðfestir að fyrri skýrslur séu réttar og að hann hafi líklega reiðst G.B. og því reynt að ná sér niðri á henni og hennar fyrrverandi. Hann hafi ekki verið í neinum samskiptum við Sigurbjörn undanfarin ár, annað en að heilsa honum úti á götu. Svo endar skýrslan yfir honum svona: „Það, sem kunni að hafa verið haft eftir mætta varðandi einhverjar staðsetningar við höfnina í Keflavík, þá segir mætti þær vera algjörlega út í bláinn, hafi hann þá yfirleitt nokkurn tímann talað um þær við einn eða neinn.“
Samanburður á frásögnum
Í sögu G.A. fær Sigurbjörn hann til að sækja smygl, af því þá vantaði vélstjóra og Magnús er með í aðgerðunum og svo einhver sem hann gefur engin frekari deili á. Magnús fer inn í Hafnarbúðina til að hringja í Geirfinn. Þeir fara út á báti, sem G.A. sagði frænda hans hafa átt, en er í raun ekki viss um að hann hafi nokkurntíma átt bát. Smygl er sótt út á sjó skammt frá Keflavík. Í fyrra skipti er sótt lítið magn, en mikið í seinni ferð. Geirfinnur sækir góssið í sjóinn. Þá verður það slys að Geirfinnur fellur útbyrðis af bátnum og finnst ekki aftur. Notast er við gamla bryggju nærri gamla slippnum, sem vísar til Dráttarbrautarinnar. Síðar efast G.A. um að hafa gefið neina lýsingu á staðháttum. Farið er á hvítum sendiferðabíl til Keflavíkur og varningur fluttur með honum til Reykjavíkur, en ekki kemur fram hvert. Þrír menn eru nafngreindir, Geirfinnur og Klúbbmennirnir Sigurbjörn og Magnús.
Saga hinna:
Leitað er til Sævars um að selja smyglað áfengi. Magnús og Einar koma strax við sögu, en Valdimar og Sigurbjörn síðar. Fyrst hittast menn til að undirbúa plottið. Síðar er farið að sækja stóra sendingu. Stór hvítur sendiferðabíll kemur við sögu og við bætist að hann sé með gluggaröð á hlið. Rauður Fíat er einnig ýmist í förinni eða á bryggjusvæðinu. Farið er út á báti, en aldrei fæst lýsing á bátnum. Staðháttum við Dráttarbrautina er lýst eftir að lögregla er búin að fara með hina grunuðu í vettvangsferð. Geirfinnur bíður bana af slysförum er hann fellur útbyrðis af bátnum, en í síðari lýsingum bætast við átök við hann. Nafngreindir eru Geirfinnur, Magnús, Einar, Sigurbjörn og Valdimar og við bætast síðar fleiri einkum eftir myndasýningar lögreglunnar. Sævar, Erla og Kristján Viðar eru þátttakendur í málinu.
Vont bara fyrst og svo versnar það meira
Hér var bara verið að rekja þau gögn sem Endurupptökudómurinn telur að af verði ekki ráðið að rannsakendur hafi notað frásögn G.A. með nokkrum hætti til að ýta undir atvikalýsingar í sögum ljúgvitnanna.
Ég ætla að taka næst fyrir Klúbbmálið. Þar mun ég reka aðdraganda þess að Klúbbmenn voru í ónáð áður en Geirfinnur hvarf, hvernig Keflavíkurrannsóknin dró Klúbbmenn inn í málið um hvarf Geirfinns og sitthvað um vinnubrögð lögreglu. Ég mun vitna í skráðar heimildir.
Svo verður framhald.