Nýsköpun er gildishlaðið orð. Því fylgja ýmis jákvæð hughrif, líkt og þróun, framfarir og tækni. Það kemur því kannski ekki á óvart að það sé vinsælt á meðal stjórnmálamanna. Þeir virðast einnig flestir sammála um að styðja við nýsköpun og virðast hafa gert það ágætlega á síðustu árum hérlendis, ef miðað er við önnur Evrópulönd.
Hins vegar eru vísbendingar uppi um að hugtakið sé á undanhaldi í almennri umræðu, bæði hérlendis og á alþjóðavísu. Gæti verið að áhugi almennings á nýsköpun sé að dvína?
Flokkarnir sammála
Að Flokki fólksins undanskildum má nálgast stefnuskrá allra stjórnmálaflokka sem sitja á þingi á netinu. Í öllum þeirra má finna kafla um nýsköpun, en þar virðast flokkarnir vera nokkurn veginn sammála um leiðir til að hlúa að vexti hennar.
Í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins segir að mikilvægt sé að stjórnvöld skapi umhverfi sem hvetji til nýsköpunar á öllum sviðum samfélagsins, auk þess sem hvatt er til meiri tengingar háskóla við frumkvöðla- og nýsköpunarstarf. Þessar áherslur eru einnig að finna nánast orðrétt í stefnuskrá VG.
Í stefnuskrám Viðreisnar og Framsóknarflokksins eru svo skattaívilnanir útlistaðar sérstaklega sem leiðir til að stuðla að aukinni nýsköpun, auk annarra aðgerða, líkt og aukinna endurgreiðslna til fyrirtækja í rannsóknar- og þróunarstarfi. Píratar nefna einnig að nýskráningar fyrirtækja ættu að vera gerðar einfaldar og ódýrar.
Samfylkingin og Miðflokkurinn kalla svo eftir markvissum stuðningi við þær atvinnugreinar þar sem helstu tækifærin liggja fyrir íslenskan efnahag í sínum stefnuskrám. Samkvæmt Samfylkingunni ætti að ýta undir vöxt háframleiðnigreina sem byggjast á hugviti, sköpunargáfu, tækni og verkkunnáttu, en Miðflokkurinn nefnir sérstaklega tækni- og orkugeirann í þessu tilliti.
Þótt blæbrigðamunur sé á stefnunum er því ljóst út frá stefnuskrám þeirra að mikill samhljómur ríki um málaflokkinn. Það vilja allir tala vel um nýsköpun.
Flestar ríkisstjórnir hafa stutt við nýsköpun
Ef miðað er við önnur Evrópulönd hefur Ísland einnig staðið sig tiltölulega vel þegar kemur að stuðningi hins opinbera við nýsköpun. Samkvæmt tölum frá Eurostat hafa opinber útgjöld til rannsóknar og þróunar hérlendis oftast verið nokkuð yfir meðaltali Norðurlandanna og aðildarríkja Evrópusambandsins á síðustu árum, ef tekið er tillit til landsframleiðslu .
Útgjöld ríkjanna til rannsóknar-og þróunarstarfs á árunum 2004-2019 má sjá á mynd hér að neðan, en samkvæmt henni nam framlag Íslands tæpu prósenti flest árin. Samsvarandi framlag á hinum Norðurlöndunum hefur numið 0,8 til 0,9 prósentum, en meðaltal innan ESB er nær 0,7 prósentum.
Mikla breytingu mátti hins vegar sjá á árunum 2014, 2015 og 2016, þegar fjárlagafrumvörp voru í höndum ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, með Bjarna Benediktsson sem fjármálaráðherra og Ragnheiði Elínu Árnadóttur sem iðnaðarráðherra. Á þessum þremur árum lækkuðu framlög íslenska ríkisins til rannsóknar og þróunar um helming og voru þau undir meðaltali ESB-ríkja og hinna Norðurlandanna.
Aukning á síðustu árum
Á árunum 2017, 2018 og 2019 jókst hins vegar framlag hins opinbera til rannsóknar og þróunar til muna á ný og náði aftur tæpu prósenti af landsframleiðslu. Einungis ríkisstjórnir Noregs og Þýskalands vörðu hærra hlutfalli af landsframleiðslu í Evrópu á þeim tíma.
Til viðbótar við bein útgjöld úr opinberum sjóðum hefur ríkisstjórnin einnig eflt nýsköpun með skattaívilnunum á síðustu árum. Samkvæmt nýlegri greiningu hjá OECD hafa slíkar ívilnanir aukist meira hérlendis en í flestum öðrum þróuðum ríkjum . Þróunina má sjá á mynd hér að neðan, en þar sést að Ísland er komið langt fram úr meðaltali hinna Norðurlandanna í málaflokkinum. Samtökin bentu einnig á að yfirgnæfandi meirihluti slíkra ívilnana færu til lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
Öfug þróun hjá almenningi
Á meðan áhugi stjórnmálamanna á nýsköpun og stuðningur þeirra við málaflokkinn hefur aukist má þó greina öfuga þróun í almennri umræðu. Samkvæmt Tímarit.is hefur dregið úr birtingu orðsins „nýsköpun“ á allra síðustu árum, eftir að það hafði birtst æ oftar á prenti á síðustu fjórum áratugum.
Þróunina má sjá á myndinni hér að neðan, en samkvæmt henni náði fjöldi skipta sem orðið var birt í íslenskum blöðum og tímaritum hámarki árið 2014. Síðan þá hefur fjöldinn minnkað með hverju árinu sem líður og mældist hann í fyrra jafnmikill og hann var fyrir fjármálahrunið árið 2007.
Hér er gott að nefna að mælingar Tímarit.is eru ekki fullkomnar, til að mynda geti mælingar fyrir síðustu árin verið ónákvæmar þar sem tveggja til fjögurra ára töf gæti verið á birtingu blaða á síðunni. Auk þess hefur útgáfa prentaðra miðla einnig minnkað á síðustu árum, á meðan vefmiðlar hafa tekið sér stærra pláss í umræðunni.
Þessi þróun er hins vegar í ágætu samræmi við minni notkun þessara orða á heimsvísu. Samkvæmt heimasíðunni Google Trends eru vinsældir leitarorðanna „innovation“ og „research and development“ einnig minni en þau voru, en áhuginn virðist hafa minnkað mest á fyrstu árunum eftir aldamótin.
Hvað veldur þessu?
Hægt er að setja minnkandi áhuga almennings á nýsköpun í samhengi við minni framleiðnivöxt á síðustu árum. Frá aldamótum hefur sá vöxtur um það bil helmingast í Bandaríkjunum, úr 3 prósentum á ári að meðaltali niður í 1,5 prósent. Þróunin hefur verið svipuð hér á landi, þar sem vöxtur landsframleiðslu á hverja vinnustund hefur minnkað úr 10 prósentum á árunum 2004-2008 niður í 5 prósent á síðustu fimm árum.
Til lengri tíma byggir vöxtur framleiðni á nýsköpun. Minni framleiðnivöxtur er því merki um að nýsköpunin sé ekki að skila sér inn í hagkerfið með jafn skilvirkum hætti og áður. Í stjórnendakönnun PwC árið 2019 sagðist meirihluti stjórnenda eiga erfitt með að koma með nýjungar sem auka skilvirkni fyrirtækja þeirra .
Með minnkandi framleiðnivexti hefur almenningur fundið minna fyrir jákvæðum áhrifum nýsköpunar á líf þeirra og störf og er því ekki óeðlilegt að jákvæðu hughrifin sem fylgja orðinu hafi tekið að dvína. Í stað þess að tengja nýsköpun við þróun og framfarir gæti verið að almenningur tengi orðið frekar við áhættu eða uppstokkun á núverandi kerfi.
Í einni rannsókn á meðal háskólamenntaðra starfsmanna í Bandaríkjunum og Kanada, tveimur löndum sem skora hátt í alþjóðlegum samanburði í málaflokknum, sögðust aðeins 14 til 28 prósent þeirra hafa mikinn metnað fyrir nýsköpun.
Óvíst er hvort framleiðnivöxturinn muni taka við sér á næstunni en vonir standa til að svo verði, þar sem vinnuvenjur hafa breyst í kjölfar faraldursins. Aukin heimavinna gæti ýtt undir almenna tækniþekkingu, en með henni væri auðveldara að fullnýta alla þá nýsköpun sem hefur átt sér stað í stafrænum lausnum á síðustu árum.
Ef það gerist mætti búast við að orðið nýsköpun verði aftur tengt við framfarir og nýja tíma. Þangað til er hins vegar líklegt að það verði fyrst og fremst notað á meðal stjórnmálamanna.
Þessi pistill birtist fyrst í vorhefti Vísbendingar, sem lesa má með því að smella hér.