Hrafn Magnússon, fyrrverandi framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, skrifar um stöðu íslenska lífeyrissjóðakerfisins.
Nú um áramótin er fróðlegt að velta fyrir sér stöðu lífeyrissjóðanna, - er hún góð eða er hún slæm? Því er til að svara að staðan er tiltölulega góð en á öðrum sviðum þarf að takast á við ákveðinn vanda, sem nú verður vikið nánar að.
Góðu fréttirnar
Raunávöxtun lífeyrissjóðanna á því ári sem nú fer senn að ljúka verður framúrskarandi og vel umfram 3,5% vaxtaviðmið sjóðanna við tryggingafræðilegt uppgjör. Reyndar hefur fjárfestingaárangur sjóðanna verið afbragðs góður undanfarin þrjú ár. Fljótlega eftir hrunið mikla á fjármagnsmörkunum haustið 2008 heyrðust háværar raddir að nú þyrfti strax að lækka vaxtaviðmið sjóðanna og þar með lífeyrisréttindi sjóðfélaga. Þessar raddir heyrast ekki lengur sem betur fer. Reynslan sýnir okkur að í þessum efnum ber að flýta sér hægt. Ef kemur til breytinga á vaxtaviðmiðinu er hyggilegast að það verði gert í áföngum.
Önnur góð frétt er að hagfræðingarnir dr. Ásgeir Jónsson og dr. Hersir Sigurgeirsson hafa lagt til í nýrri bók sem komin er út á vegum Landssamtaka lífeyrissjóða að sjóðirnir fái sérstaka heimild eða undanþágu frá fjármagnshöftum til að fjárfesta erlendis minnst fjórðung þess sem iðgjöld skila sjóðunum eða um 10 milljarða króna árlega. Þeir Ásgeir og Hersir hafa undanfarna mánuði unnið að fræðilegri greiningu á áhrifum fjármagnshaftanna á íslenskt samfélag og starfsemi lífeyrissjóðanna sérstaklega. Afraksturinn, er sem sagt bókin Áhættudreifing eða einangrun? – Um tengsl lífeyrissparnaðar, greiðslujafnaðar og erlendra fjárfestinga. Þess verður að vænta að þessi athugun þeirra félaga geti orðið góður vegvísir fyrir stjórnvöld, Seðlabankann og lífeyrissjóðina við losun gjaldeyrishaftanna.
Þriðja góða fréttin er að lífeyrissjóðum fer enn fækkandi. Lífeyrissjóður Vestfirðinga sameinast Gildi lífeyrissjóði nú um áramótin, en Gildi lífeyrissjóður er þriðji stærsti lífeyrissjóður landsins. Lífeyrissjóðirnir verða því alls 36 talsins, en þar af taka nokkrir ekki lengur við iðgjöldum, eru svokallaðir lokaðir sjóðir. Greinarhöfundur man eftir hátt í eitt hundrað stafandi lífeyrissjóðum fyrir nokkrum áratugum, þannig að fækkun þeirra hefur verið mjög mikil. Þetta er gleðileg þróun sem ber að fagna og sem heldur vonandi áfram.
Slæmu fréttirnar
Slæmu fréttirnar eru hins vegar þær að hvorki gengur né rekur að leysa hinn fjárhagslega vanda sem lífeyrissjóðir ríkis og sveitarfélaga standi frammi fyrir. Um síðustu áramót nam hallinn alls um 596 milljörðum króna, þ.e.a.s. heildarskuldbinding opinberu sjóðanna umfram eignir. Ef einungis er litið á áfallna stöðu nam hallinn alls 489 milljörðum króna. Rétt er að benda á að um er að ræða halla á lífeyrissjóðum með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga, en staða flestra lífeyrissjóða á almennum vinnumarkaði er hins vegar vel ásættanleg. Ef ekkert er að gert þá eykst vandinn með hverju árinu sem líður, því verið er að velta skattbyrðinni af þessum mikla fjárhagslega halla yfir á komandi kynslóðir.
Þá virðist lítið miða áfram í viðræðum aðila vinnumarkaðarins um samræmt lífeyriskerfi landsmanna. Fulltrúar BSRB og BHM spyrna við fótum. Þeir vilja ekki taka þátt í því að afnema ábyrgð ríkis og sveitarfélaga á lífeyrissjóðum þeirra, nema að opinberir starfsmenn fái sambærileg laun og gilda á almennum vinnumarkaði. ASÍ hefur á hinn bóginn lagt þunga áherslu á að lífeyrisréttindi á almennum vinnumarkaði verði jöfnuð á við réttindi opinberra starfsmanna og til verði samræmt lífeyriskerfi á öllum vinnumarkaðnum.
Ég sat nýlega málþing um breyttar lífslíkur og áhrif þess á lífeyrissjóði. Í lok ráðstefnunnar var efnt til pallborðsumræðna um efnið: Hvernig eiga íslenskir lífeyrissjóðir og aðilar vinnumarkaðarins að bregðast við auknum skuldbindingum vegna hækkandi lífaldurs þjóðarinnar? Þátttakendur voru fulltrúar fjármálaráðuneytis, ASÍ, BSRB, BHM, SA og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Umræðan snérist mjög mikið um lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna og hvernig hægt væri að koma á samræmdu lífeyriskerfi allra landsmanna og afnema ábyrgð ríkis og sveitarfélaga. Í hreinskilni sagt var ég ekki bjartsýnn eftir umræðurnar í panelnum. Ég sá fyrir mér að það tækist ekki á næstu misserum að ná ásættanlegu samkomulagi milli allra hagsmunaaðila um þessa þætti.
Í þessu sambandi ber einnig að nefna samspil lífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóðanna, en eins og kunnugt er þá eru skerðingarákvæði almannatrygginga mjög mikil og óásættanleg, einkum fyrir þá sem eiga lítil lífeyrisréttindi. Nýlegt dæmi um þetta er afturvirk lagasetning á lífeyrissjóðina varðandi víxlverkun á greiðslum almannatrygginga og lífeyrissjóða, sem samþykkt var á Alþingi í einu hendingskasti fyrir fáeinum dögum. Svo virðist því miður sem stjórnmálamenn hafi snúið lífeyriskerfinu algjörlega á hvolf, þannig að þeir líti svo á að lífeyrissjóðinrir séu á fyrsta þrepi lífeyriskerfisins en almannatryggingar á öðru þrepi. Það merkir að Tryggingastofnun bíður með að úrskurða elli- eða örorkulífeyri, og gerir það ekki á undan lífeyrissjóðunum, eins og almennt hefur tíðkast. Með þessum öfugsnúningi getur Tryggingastofnun strax skert sínar lífeyrisgreiðslur. Þetta er einsdæmi hér á landi og þekkist hvergi meðal nágrannaþjóða okkar. Svo virðist að þeir sem halda um stjórnvölinn átti sig ekki á því að lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir til að greiða lífeyri, sem kæmi sem viðbót við bætur almannatrygginga.
Traustið skiptir máli
Ég vil að lokum nefna eitt veigamikið atriði, sem ég tel að lífeyrissjóðirnir og samtök vinnumarkaðarins þurfa að athuga sérstaklega og bregðast við. Samkvæmt könnun MMR um traust til helstu stofnana samfélagsins, bera fleiri traust til lífeyrissjóðanna, heldur en til Fjármálaeftirlitsins, bankanna og Alþingis. Hins vegar bera landsmenn mun meiri traust til stéttarfélaganna en til lífeyrissjóðanna.
Væntanlega má rekja þessar niðurstöður til hruns fjármálamarkaðarins í október 2008. Fjármálastofnanir fóru allar á hliðina. Lífeyrissjóðirnir bognuðu hins vegar en brotnuðu ekki í þeim stormi sem þá geysaði. Hér þarf nauðsynlega að bæta ímynd lífeyrissjóðanna og auka traustið á þeim. Vantraust á sjóðina byggist væntanlega á því að almenningur telur að þeir hafi ekki bolmagn að standa við lífeyrisskuldbindingar sínar í nútíð og framtíð. Sú skoðun byggir á misskilningi. Lífeyrissjóðir á almennum vinnumarkaði standa tiltölulega vel að vígi og lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna eru þrátt fyrir allt tryggð, þótt vandinn sé mikill. Þessu þarf að koma til skila, svo og mikilvægi lífeyrissjóðanna í íslensku samfélagi.
Við búum við gjörbreytt þjóðfélag. Alþingismennirnir okkar eru ekki með sömu tengingu við verkalýðshreyfinguna og áður var og þótti sjálfsagt. Bakland þingmanna í dag er annað. Nú er enginn Björn Jónsson, Eðvarð Sigurðsson, Guðmundur H. Garðarsson, Guðmundur J. Guðmundsson, Guðmundur Hallvarðsson, Hannibal Valdimarsson eða Karl Steinar Guðnason, svo ég nefni verkalýðsleiðtoga sem setið hafa á Alþingi og sem höfðu bæði vit og þekkingu að verja lífeyrissjóðina þegar að þeim var ráðist að ósekju. Þess vegna er enn brýnna í dag en áður að menn standi vaktina í lífeyrismálum landsmanna.