Flokkur fólksins hefur sett fram áherslur í loftslagsmálum. Svo sem ágætis áherslur sem slíkar, en lítið annað en upptalning. Endurheimt votlendis, rafvæðing bílaflotans, vistvæn orka til skipa, framleiðsla á endurnýjanlegri orku og aukin skógrækt. Allt svipað og hjá öðrum flokkum, en lítið staldrað við hvert atriði. Engin markmið og þar með fátt um aðgerðir.
Að aðgerðir í þágu umhverfisverndar bitni ekki á almenningi er tálsýn. Það er, ef þær kosta eitthvað umfram ávinning. Flokkur fólksins vill beita sér gegn grænum sköttum sem auka misskiptingu og fátækt. Gott mál, en hvernig á að beita grænum sköttum?
Flokkurinn er á móti takmörkunum á ferðafrelsi almennings innanlands til að njóta eigin náttúru. Takmarkanir á ferðafrelsi hafa á síðustu árum beinst annars vegar að öryggi, þannig að fólki er meinaður aðgangur að hættulegum stöðum, og hins vegar að náttúruvernd þar sem talið er að umferð skaði náttúruna. Hvort tveggja hefur verið tímabundin ráðstöfun. Spurning vaknar hvort Flokkur fólksins er andvígur öryggi ferðafólks og einnig andvígur náttúruvernd? Varðandi það að fátækt fólk eigi að hafa greiðan aðgang að hálendinu og fá að njóta þess, þá verður að segjast að hálendisferðir eru að óhjákvæmilega fremur dýrar þannig að það eru aðrir þættir en lög og reglur sem hamla að þeir sem minnst hafa úr að spila geti notið þeirra.
Almennt er þetta stefnuskjal fremur rýrt. Engin eiginleg markmið, engar aðgerðir nefndar. Aðeins upptalning á helstu málefnum umhverfisverndar. Síðan meginstef flokksins um að almenningur eigi ekki að þurfa að borga. Það er þess vegna mikið vafamál hvort hægt sé að tala um stefnu.
Samantekt:
Pólitískt er þessi stefna ekki neitt. Meginstef flokksins fær að koma þarna með, en vafamál að það laði að mörg atkvæði. Í sjálfu sér gætu aðrir flokkar samsinnt þessu flestu. En það er vegna þess að efnið er ekki neitt.
Efnahagsleg umfjöllun er lítil. Aðeins minnst á að grænir skattar skuli ekki koma niður á efnaminna fólki. En hvernig eigi að útfæra það. Þar er stór eyða.
Samfélagsleg skírskotun er lítil nema þetta að taka skuli tillit til þeirra efnaminni. En þar vantar líka allt innihald.
Tæknileg umfjöllun er engin.
Höfundur er meðlimur í grasrótarhópi Landverndar í loftslagsmálum.