Sósíalistaflokkurinn er tiltölulega nýtt stjórnmálaafl sem vissulega byggir á gömlum grunni. Flokkurinn hefur sett fram stefnuskrá þar sem meðal annars er fjallað um umhverfismál. Stefnuskráin er dálítið mikið í símskeytastíl, ekki verið að eyða of mörgum orðum í hlutina. Þetta veldur því að bein markmið eru óljós. Leiðir að þessum óljósu markmiðum eru ekki alltaf skýrar, en fyrst og fremst lýsir stefnuskráin viðhorfum og gildum.
Eitt þeirra viðhorfa sem koma fram í stefnuskjalinu er að mikilvægi þess að taka á loftslagsmálum sé ekki fyrir daginn í dag, heldur fyrir komandi kynslóðir. Þetta er kjarni málsins sem allt of sjaldan er nefndur. En þó skyldi slá þann varnagla að framtíðin er ískyggilega nærri í umhverfismálum og við verðum að bregðast hratt við.
Eitt skeytið fjallar um að hverfa frá nýfrjálshyggju og að varpa ábyrgð á umhverfismálum á ríki, sveitarfélög og fyrirtæki. Þá er spurn, á almenningur að vera laus allrar ábyrgðar? Árangur í umhverfismálum byggir á því að draga úr neyslu og sóun. Þar er hlutverk og ábyrgð almennings mikil. Nema náttúrulega ef komið væri á skömmtunarkerfi. Neðar í skjalinu er skeyti um að leggja kvaðir á fyrirtæki til að koma í veg fyrir sóun og þörf á urðun úrgangs. Má þá almenningur sóa?
Eitt stefnumálið er að líta á almenningssamgöngur sem lið í umhverfisvernd og sjálfsagða þjónustu. Á öðrum stað er stefnan að gera almenningi kleift að eignast eða breyta farartækjum sínum fyrir vistvænt eldsneyti. Þarna er á vissan hátt mótsögn. Séu almenningssamgöngur góðar minnkar verulega þörfin á að eiga eigin farartæki. En líklega verður fyrst um sinn að huga að hvoru tveggja.
Markmið um að koma í veg fyrir svifryk með takmörkun á notkun nagladekkja er í sjálfu sér ágætt, en er ekki enn betra að takmarka notkun einkabíla eins og kostur er? Þá með góðu kerfi í almenningssamgöngum.
Í sumu mætti halda að þekking flokksins risti ekki mjög djúpt. Skeyti um að standa vörð um lífríki sjávar með verndun tegunda og bann við brottkasti. Þetta hefur nú verið í lögum um langan tíma. Hins vegar mætti fylgja lögunum betur eftir og e.t.v. bæta þau.
Samantekt
Pólitískt. Sósíalistar leita eftir fylgi meðal hinna tekjulægri og þeim sem hafa trú á sósíalisma. Segja má að í flestum atriðum ætti þessi stefna í umhverfismálum að höfða ágætlega til þessa hóps. Í stefnunni koma fram viðhorf sem miða að jöfnuði og betra lífi fyrir alla. Helst vantar að taka dýpra í árinni varðandi það að minnka sóun og eins er ekki minnst á að stöðva vöxt sem drifkraft samfélagsins. Fátt er í stefnunni sem er líklegt til ágreinings við flesta aðra flokka.
Efnahagslega er stefnan lítt tengd. Sem stafar sennilega af því að leiðir að markmiðum eru ekki greindar.
Samfélagslega hliðin á stefnunni er dálítið mikið þannig að ríki, sveitarfélög og fyrirtæki eigi að bera ábyrgð á öllu. Almenningur eigi að því er virðist að vera algerlega ábyrgðarlaus. Það gengur engan veginn í umhverfismálum.
Tæknilegar leiðir eru tæplega nefndar. Þar af leiðir að ekkert er skoðað hvaða tæknibreytingar séu nauðsynlegar til að koma stefnumálum áfram.
Almennt má segja að stefnuskráin innihaldi góð markmið og viðhorf en sé lítið útfærð og verði fyrir vikið ekki mjög trúverðug.
Höfundur er meðlimur í grasrótarhópi Landverndar í loftslagsmálum.