Vaxtahækkunarferli Seðlabanka Íslands hófst í maí í fyrra. Þá voru stýrivextir hækkaðir um 0,25 prósentustig í eitt prósent. Í kjölfarið hækkuðu bankarnir þrír vexti á breytilegum óverðtryggðum íbúðalána vöxtum um 0,1-0,15 prósentustig.
Í lok ágúst hækkaði bankinn vextina aftur um 0,25 prósentustig í 1,25 prósent. Íslandsbanki hækkaði þá vexti sína um 0,15 prósentustig en Landsbankinn og Arion banki hækkuðu þá um 0,2 prósentustig.
Í október 2021 voru stýrivextir svo hækkaðir í 1,5 prósent. Aftur brugðust bankarnir, eðlilega, við og hækkuðu vexti á breytilegum óverðtryggðum lánum. Arion banki og Íslandsbanki um 0,15 prósentustig en Landsbankinn um 0,25 prósentustig.
Síðasta vaxtahækkun ársins 2021 varð svo í nóvember þegar vextir voru hækkaðir um 0,5 prósentustig, í tvö prósent. Þetta var mesta vaxtahækkunin í einu skrefi frá því að vaxtahækkunarferli bankans hófst í fyrravor. Íslandsbanki hækkaði breytilega óverðtryggða vexti hjá sér í kjölfarið um 0,2 prósentustig, Landsbankinn um 0,35 prósentustig og Arion banki um 0,4 prósentustig.
Hækkuðu í takti við fyrri skref og væntingar
Það liggur því fyrir að við hverja stýrivaxtahækkun þá hækkuðu bankarnir breytilega óverðtryggða vexti sína. Það liggur líka fyrir að í öllum tilvikum þá hækkuðu vextir bankanna minna en sem nemur stýrivaxtahækkuninni.
Fyrsta stýrivaxtaákvörðun ársins 2022 var kynnt 9. febrúar. Við blasti að vextirnir myndu hækka nokkuð skarpt, enda verðbólgan farin að mælast mun meiri en áætlanir reiknuðu með. Hún er nú 6,2 prósent og hefur ekki mælst hærri í tæp tíu ár. Helsta tól Seðlabankans til að taka á henni er að hækka vexti.
Og upp fóru þeir, nú um 0,75 prósentustig. Lánveitendur fylgdu í kjölfarið og hækkuðu vextina á sínum lánum. Stóru bankarnir þrír; Arion banki, Landsbankinn og Íslandsbanki hækkuðu allir sína vexti um 0,5 prósentustig. Hækkunin var í fullum takti við hegðun þeirra við fyrri stýrivaxtahækkanir og væntingar markaðsaðila. Þeir fóru ekki alla leið í að elta Seðlabankann, en hækkuðu umtalsvert.
Hagnaður á baki auknum íbúðalánum til heimila
Arion banki, Landsbankinn og Íslandsbanki högnuðust sameiginlega um 81,2 milljarða króna á árinu 2021. Sá hagnaður var 170 prósent hærri en árið 2020.
Heimilin í landinu skuldsettu sig um 450 nýja milljarða króna til að kaupa sér húsnæði á þessu tímabili. Þau gerðu það að mestu í óverðtryggðum lánum, en hlutfall þeirra fór úr 27,5 prósent í yfir 50 prósent frá byrjun árs 2020 og fram til síðasta sumars. Óverðtryggð lán eru næmari fyrir stýrivaxtahækkunum en verðtryggð.
Á mannamáli þýðir það að kostnaður heimila hækkar strax við vaxtahækkanir, en er ekki ýtt inn í framtíðina með því að verðbætur leggist á höfuðstól líkt og gerist með verðtryggð lán.
Hlutverk stjórnvalda að bregðast við
Stjórnvöld – Seðlabankinn og ríkisstjórnin – bjuggu til þessar aðstæður. Seðlabankinn afnam hinn svokallaða sveiflujöfnunarauka, sem jók útlánagetu banka um mörg hundruð milljarða króna, og lækkaði stýrivexti niður í sögulegar lægðir. Ríkisstjórnin lækkaði bankaskatt og gaf með því eftir um sex milljarða króna á ári í tekjum.
Þetta skilaði sér ekki í neinum stórkostlegum breytingum á vaxtamun bankanna. Hann er enn miklu meiri hér en í samanburðarlöndum. Stjórnendur íslenskra banka tóku því meðvitaða ákvörðun um að halda stærri hluta af þessum ágóða eftir fyrir hluthafa sína á kostnað viðskiptavina sinna.
Seðlabankinn telur sig hafa náð árangri í vegferð sinni. Að tekist hafi að verja kaupmátt og verja störf. Neikvæðu afleiðingarnar eru stóraukin verðbólga sem bitnar á venjulegu launafólki og stóraukin misskipting, þar sem eignafólk sem fjárfestir í hlutabréfum og fasteignum umfram heimili mokgræddi á ákvörðunum bankans og stjórnvalda.
Við slíkar aðstæður er það hlutverk stjórnvalda að stíga inn og jafna leikinn. Taka til sín hlutdeild í ágóða sem varð til vegna aðstæðna, ekki hæfileika stjórnenda fyrirtækja, og bæta stöðu þeirra sem halloka fóru í því ástandi sem stjórnvöld og Seðlabankinn sköpuðu.
Það er til að mynda hægt að gera með því að skattleggja ofurhagnað einstaklinga og ákveðinna fyrirtækjageira, til dæmis innan fjármálakerfisins og sjávarútvegs. Þær tekjur er svo hægt að nýta í samfélagsleg verkefni eins og innviðauppbyggingu, húsnæðisátak eða miðla þeim í gegnum millifærslukerfi til þeirra sem þurfa raunverulega á peningum að halda til að bæta lífsgæði sín.
Hvalrekaskattur kynntur til leiks sem hugmynd
Eftir síðustu stýrivaxtahækkun, og um það leyti sem hagnaður bankanna í fyrra var að opinberast, steig Lilja Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra sem situr í ráðherranefnd um efnahagsmál og er auk þess varaformaður Framsóknarflokksins, fram og sagði vaxtamun vera orðin of mikinn.
Nokkrum dögum síðar, 13. febrúar, bætti hún í og sagðist vilja leggja svokallaðan hvalrekaskatt á þá sem skili ofsagróða á Íslandi og nefndi þar sérstaklega banka og sjávarútveg. Lilja sagði enn fremur að allur þingflokkur Framsóknarflokks styddi þessa nálgun hennar. Þar á meðal formaður flokksins.
Er eitthvað í verkum ríkisstjórnar sem bendir til aðgerða?
Eðlilega var beðið með nokkurri eftirvæntingu eftir viðbrögðum samstarfsflokka Framsóknar við þessum yfirlýsingum varaformannsins og bankamálaráðherrans. Sérstaklega þegar horft er til þess að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttir fór í þveröfuga átt og lækkaði bæði veiðigjöld og bankaskatt á síðasta kjörtímabili.
Ekki er til að bæta í trúna á raunverulegar breytingar að sitjandi ráðherra sjávarútvegsmála ætlar að skipa enn eina nefndina, nokkurskonar ofurnefnd yfir nokkrum starfshópum, til að fjalla um framtíðarskipan málaflokksins sem á að skila að sér seint á kjörtímabilinu, nánar tiltekið 2024. Ferlið minnir mjög á það sem var kynnt varðandi stjórnarskrárbreytingar á síðasta kjörtímabili, þar sem mikið var talað og fundað án þess að það skilaði á endanum nokkru.
Ráðherrann sem nú boðar þessa vegferð, Svandís Svavarsdóttir, sagði í ræðu á þinginu fyrir næstum sex árum síðan: „Í samfélaginu er viðvarandi og afar djúpstætt ósætti um núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Auðlindin sem sannarlega er þjóðarinnar, við skiljum það öll svo, skilar einfaldlega ekki nægum verðmætum í sameiginlega sjóði og örfáar fjölskyldur hafa efnast gríðarlega um mjög langt skeið. Í raun má segja að enginn sé sáttur við kerfið eins og það er nema þeir sem hagnast verulega á því og svo þeir stjórnmálaflokkar sem hafa gert sér far um að verja þau forréttindi, núverandi stjórnarflokkar.“
Gangi tímalína hennar eftir munu verða liðin átta ár frá því að ræðan um hið viðvarandi og djúpstæða ósætti var flutt þangað til að nefndin hennar lýkur störfum. Og 27 ár frá því útgerðarmenn fengu heimild til að veðsetja kvóta sem þeir eiga ekki, sem gerði handfylli manna að milljarðamæringum yfir nóttu.
Fáir með innsýn í stjórnmál telja þessa vegferð ráðherrans muni skila nokkru öðru en að kaupa tíma fyrir Vinstri græn þangað til að Sjálfstæðisflokkurinn slær allar breytingar á kerfinu út af borðinu. Vonandi reynist sú spá röng en sporin úr þessu ríkisstjórnarsamstarfi benda einfaldlega ekki til þess að nokkrar líkur séu þar á.
Þess vegna var fróðlegt að heyra hvernig brugðist yrði við hugmyndum Lilju um hvalrekaskatt og stóraukna skattlagningu á sjávarútvegsfyrirtæki.
Hinir formennirnir taka ekki undir tillögurnar
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks og fjármála- og efnahagsráðherra, var nokkuð snöggur að skjóta hluta þessara hugmynda niður opinberlega. Hann sagði við vef Fréttablaðsins að hann væri alfarið á móti hugmyndinni um bankaskatt. Nokkrum dögum síðar, 16. febrúar, sagði Bjarni við RÚV að engin áform væru uppi um að skattleggja hagnað bankanna sérstaklega. Bjarni hefur þess utan ekki talað fyrir aukinni skattlagningu á sjávarútveg né neinum kerfisbreytingum innan geirans, að minnsta kosti ekki opinberlega.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði svo Katrínu Jakobsdóttur út í yfirlýsingar Lilju í óundirbúnum fyrirspurnum 21. febrúar og kallaði eftir afstöðu hennar. Svar hennar var sannarlega ekki afgerandi. Eiginlega lítið annað en orðasalat til að drepa málinu á dreif. Katrín sagði efnislega ekki annað en að tillögur Lilju hefðu ekki verið ræddar í ríkisstjórn.
Þegar Logi kallaði eftir skýrara svari og afstöðu Vinstri grænna þá svaraði forsætisráðherra efnislega engu.
Sagði hefðbundna hegðun banka sérstaka
Í gærmorgun lá því fyrir að tveir af þremur leiðtogum flokkanna sem mynda ríkisstjórn höfðu tjáð sig þannig opinberlega um hugmyndir Lilju að ekkert benti til þess að þær myndu hljóta brautargengi.
Þá ákvað áðurnefndur Logi að spyrja Sigurð Inga Jóhannsson, innviðaráðherra og formann Framsóknarflokksins, hvort það væri stuðningur innan ríkisstjórnarinnar við tillögur Lilju.
Sigurður Ingi svaraði því til að Lilja hafi verið að hvetja bankanna til að skila hluta af þeim fjármunum sem þeir hefðu hagnast um til viðskiptavina sinna. „Það væri hægt að leggja á bankaskatt að nýju og hækka skatta, arðgreiðslur eða eitthvað slíkt. En bankarnir hækkuðu ekki. Þeir hækkuðu ekki vextina í samræmi við stýrivaxtahækkun Seðlabankans. Þeir tóku með öðrum orðum tillit til þess sem viðskiptaráðherra sagði og fóru algjörlega eftir því sem viðskiptaráðherra sagði. Þannig að það hefur ekki komið til þess að við höfum farið að beita þeim aðgerðum að refsa bönkunum.“
Það hlustaði enginn banki
Það er erfitt annað en að setja hljóðan við þá þvælu sem formaður Framsóknarflokksins bar á torg á Alþingi í gær. Við blasir að ekkert er sérstakt við þá leið sem íslensku viðskiptabankarnir fóru við hækkun á vöxtum í kjölfar stýrivaxtahækkunar Seðlabankans í síðasta mánuði. Hún var í fullum takti við það sem þeir gerðu í maí, ágúst, október og nóvember 2021. Í sumum tilvikum hækkuðu vextir meira nú en þeir gerðu í fyrri skrefum. Vaxtamunur bankanna hefur þess utan ekki minnkað í neinu samræmi við það sem væntingar hafa verið til og er enn miklu meiri en á hinum Norðurlöndunum. Að meðaltali var hann 2,5 prósent í fyrra.
Ekkert bendir því til þess að bankarnir hafi hlustað á bankamálaráðherrann. Þeir gerðu bara það sem þeir gera, nýttu aðstæður sem stjórnvöld og Seðlabanki sköpuðu til að græða peninga. Á því eru stjórnendur þeirra dæmdir og fyrir það fá sumir þeirra ríflega bónusa. Og tveir bankar eru nú á fullu við að skófla tugum milljarða króna í hluthafa sína meðal annars á grundvelli þess ágóða sem kórónuveirufaraldursástandið færði þeim.
Ef það á að skattleggja þennan ofurhagnað þá verður að gera það fljótlega því það er verið að greiða hann allan út.
Er hæna fíll?
Annað hvort veit Sigurður Ingi ekki betur, og heldur raunverulega að eitthvað sérstakt hafi verið við vaxtahækkunarviðbragð bankanna, eða hann talaði gegn betri vitund í pontu Alþingis í gær. Erfitt er að segja til um hvort sé verra.
Tilgangur formanns Framsóknarflokksins virðist hafa verið sá að búa til nýjan veruleika í kringum tillögur Lilju, sem snerust um að skattleggja ofurhagnað, í ljósi þess að tillögurnar fengu, að minnsta kosti opinberlega, engan stuðning samstarfsflokka.
Hann þyrlaði upp leikhúsi fáránleikans. Sagði hvítt vera svart og þegar á það var bent sagði hann hænu vera fíl. Það er ekki boðlegt að tala við kjósendur eins og þeir séu fífl og stjórnmálamenn sem taka sig alvarlega eiga að gera betur.
Nú þegar liggur fyrir að bankarnir hafa ekki sjálfir brugðist við ástandinu, og sjávarútvegsfyrirtækin munu aldrei gera það að sjálfsdáðum, þá stendur eftir sú spurning hvort sitjandi ríkisstjórn hafi í raun einhvern vilja til skattleggja „ofurhagnað“.
Því miður bendir fátt til að svo sé.