Í febrúarmánuði birtist merkileg könnun sem Varða, rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins, gerði á högum og stöðu launafólks í aðildarfélögum ASÍ og BSRB. Könnunin leiddi í ljós skelfilega stöðu hjá atvinnulausum og innflytjendum sem borið hafa þyngstu byrðarnar í kreppunni sem COVID-faraldurinn hefur orsakað. Tæpur fjórðungur aðspurðra sögðust eiga frekar erfitt eða erfitt með að láta enda ná saman og var hlutfallið mun hærra meðal kvenna.
Rúmlega helmingur atvinnulausra sagðist eiga frekar erfitt eða erfitt með að láta enda ná saman og þeir voru líka mun líklegri til að þurfa að leita til sveitarfélaga eða vina og ættingja eftir fjárhagsaðstoð, þiggja aðstoð hjálparsamtaka eða fá mataraðstoð.
Alls sögðust um 35% innflytjenda eiga erfitt eða frekar erfitt með að láta enda ná saman. Atvinnuleysi var – og er enn – mun hærra meðal innflytjenda en innfæddra. Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar var almennt atvinnuleysi í október í ár 4,9%. Það var hins vegar um 11% meðal erlendra ríkisborgara. Hlutfall þeirra á atvinnuleysisskrá var um 40% í október.
Hrikalegar afleiðingar atvinnuleysis
Í könnuninni kemur einnig skýrt fram hvað atvinnuleysi og óörugg afkoma getur haft hrikalegar afleiðingar í för með sér. Ríflega helmingur atvinnulausra hafði neitað sér um heilbrigðisþjónustu. Andleg heilsa fjögurra af hverjum tíu atvinnulausra mældist slæm en sú tala var um tveir af tíu í tilviki launafólks. Líkamlegt heilsufar 15,6 prósent atvinnulausra var slæmt eða frekar slæmt.
Þessar niðurstöður í könnun Vörðu vöktu verulega athygli. Þær sýndu greinilega hversu ójafnt byrðunum vegna COVID-faraldursins er skipt en drógu einnig fram erfið kjör og óörugga afkomu margra sem eru í fullri vinnu. Okkur hjá Eflingu var auðvitað kunnugt um að okkar félagsmenn væru að verða fyrir þungum höggum vegna faraldursins og innflytjendur eru fjölmennir í okkar félagi. Upplýsingarnar um slæma andlega og líkamlega heilsu bæði atvinnuleitenda og kvenna á vinnumarkaði voru engu að síður sláandi.
Þótt atvinnuleysi hafi blessunarlega minnkað frá því að könnun Vörðu var gerð opinber er mikilvægt að halda þessum upplýsingum til haga. Þær sýna að stórir hópar launafólks sem minnst bera úr býtum fyrir störf sín búa við verulega erfið kjör og margir líða skort. Könnunin leiddi í ljós raunverulega fátækt hópa fólks á Íslandi.
Könnun Vörðu setur fram með skipulögðum hætti upplýsingar um raunverulega stöðu fólks á vinnumarkaði og dregur fram staðreyndir sem allt of margir hafa hingað til meðvitað forðast að horfast í augu við.
Lágtekjufólk í framlínustörfum
En eins og undarlegt og það nú er, virðist það gleymast hratt að það er lágtekjufólk sem vinnur erfiðustu og mikilvægustu framlínustörfin á tímum veirufaraldurs og óvissu; sér um börnin á leikskólum og á frístundaheimilum, veitir öldruðum þjónustu á hjúkrunarheimilum, afgreiðir í búðum, raðar vörum í hillurnar, ræstir fyrirtæki og stofnanir, vinnur á lagernum, flytur vörur í verslanir, framleiðir matvæli og aðrar lífsnauðsynjar og heldur uppi almenningssamgöngum.
Að minnsta kosti virðist íslenska forréttindastéttin enn ekki hafa komið auga á það hverjir það raunverulega eru sem halda samfélaginu gangandi. Líklegra er að hún vilji ekki viðurkenna það. Fulltrúar atvinnurekenda og aðrir valdamenn nýta hvert tækifæri til að hnýta í launafólk og kenna því og verkalýðshreyfingunni um flest sem aflaga fer. Nú er því haldið fram að verkafólk á Íslandi ógni afkomu þjóðarbúsins. Seðlabankastjóri sagði um daginn að umsamdar launahækkanir verkafólks gætu kallað „hörmungar yfir þjóðina“. Forréttindablindan er orðin allmikil þegar fólk með milljónir í mánaðartekjur telur sig geta kvartað undan frekjunni í launafólki sem á allt sitt undir kjarasamningsbundnum hækkunum.
Kjarasamningar og „stöðugleiki“
Skýrsla kjaratölfræðinefndar frá því haust sýndi að kjarasamningarnir frá árinu 2019 stóðu undir því markmiði að hækka lægstu laun í landinu umfram önnur. Þetta ætti að teljast sameiginlegt fagnaðarefni samningsaðila, bæði atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar. En nú mæta talsmenn atvinnurekenda og segja þjóðinni að það sé láglaunafólkið sem ógni „stöðugleikanum“ í landinu. Samt töldu Samtök atvinnulífsins ekki vera forsendur til að slíta lífskjarasamningunum fyrir rétt um tveimur mánuðum síðan, sem auðvitað hefði verið mikið ábyrgðarleysi að gera. Þar með ítrekuðu atvinnurekendur stuðning við forsendur samninganna. Við fögnum því en bætum við: orð skulu standa. Það þýðir ekki að mæta í fjölmiðla og kvarta undan eigin samningi.
Það kemur ekki til greina að hverfa frá umsömdum hagvaxtarauka í samningunum. Verðbólgan er ekki launafólki að kenna og það ákveður ekki að hækka vextina. Það skrúfar ekki heldur upp húsnæðisverðið og skapar bólu á markaðinum. Það hefur ekkert yfir stöðu krónunnar að segja. En rangar ákvarðanir við hagstjórn landsins bitna harðast á lágtekjufólki, sem hefur með sparnaði, lántökum eða með því að undirgangast íþyngjandi leigusamninga tekist að koma sér þaki yfir höfuðið með botnlausri vinnu og þarf um leið að neita sér um flest það sem forréttindastéttin telur sjálfsagt að hún njóti. Þetta leggst þungt á okkur öll sem horfum fram á hratt minnkandi kaupmátt vegna verðbólgu, aukinnar vaxtabyrði og mikilla verðhækkana nú um áramótin, bæði á vörum og þjónustu, þar á meðal opinberri þjónustu sem er hækkuð í verði án tillits til áhrifa á afkomu þeirra sem minnst hafa.
Leigjendur og búseta í atvinnuhúsnæði
Kaupmáttarýrnunin er algjör vendipunktur sem verkalýðshreyfingin þarf að takast á við á nýju ári. Við þurfum líka að herða róðurinn í málefnum leigjenda. Skertur kaupmáttur kemur einna verst við leigjendur sem nú þegar verja stærstum hluta tekna sinna í húsnæðiskostnað.
Nú í haust var hrint af stað samvinnuverkefni Alþýðusambands Íslands, Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og Reykjavíkurborgar um kortlagningu á búsetu í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Við vitum að erlent verkafólk er mikill meirihluti þeirra sem þarf að gera sér að góðu að búa við þessar aðstæður. Verkalýðshreyfingin leggur tvo eftirlitsfulltrúa í verkefnið og þar á meðal er fulltrúi frá Eflingu en hinn kemur frá Rafiðnaðarsambandinu. Mér þykir mikilvægt að verkalýðshreyfingin og samstarfsaðilar leggi nú þunga áherslu á að ná til þessa jaðarsetta hóps sem á sér fáa málsvara og er nánast eins og ósýnilegur í samfélaginu. Þó er skýrt að með þessu verkefni er ekki ætlunin að ýta undir húsnæðis- eða atvinnuóöryggi fólks, heldur þvert á móti að tryggja öryggi þess. Hér verður engum hent út af heimilum sínum. Það er óhætt að segja að víða er pottur brotinn og sumt af þessu fólki býr við aðstæður sem eru með öllu óboðlegar og fela í sér lögbrot og jafnvel hreina glæpamennsku. Brunavörnum er oft ábótavant og staða íbúa gagnvart leigusölum veik. Skemmst er minnast hins hryllilega atburðar á Bræðraborgarstíg þar sem þrír létu lífið í bruna
Kjör þessa fólks eru stjórnmálamönnum og ráðandi öflum í landinu algjörlega lokuð bók. Við hin skulum ekki gleyma þeim sem verst standa.
Uppsögn trúnaðarmanns alvarleg árás
Verkafólk þarf öfluga málsvara. Ólöf Helga Adolfsdóttir, sem nú er varaformaður Eflingar var í ágústmánuði sagt upp störfum hjá Icelandair. Hún var þá búin að vera trúnaðarmaður í rúm þrjú ár og var að vinna í ákveðnum málum fyrir félaga sína í hlaðdeildinni á Reykjavíkurflugvelli þegar henni var sagt upp án nokkurra marktækra skýringa. Að auki gegndi hún því ábyrgðarhlutverki að vera öryggistrúnaðarmaður.
Ég ætla ekki að rekja það mál frekar, en öll framganga Icelandair og Samtaka atvinnulífsins í málinu hefur í einu orði sagt verið ömurleg.
Mál Ólafar Helgu ætti að minna okkur öll á hversu mikilvægt það er að við stöndum saman þegar atvinnurekendur reyna að þrengja að rétti okkar og kjörum. Það er ekki að ástæðulausu sem trúnaðarmenn njóta ákveðinnar verndar enda eru þeir iðulega í erfiðum aðstæðum og vinna gríðarlega mikilvægt starf. Við munum áfram standa þétt við bakið á Ólöfu Helgu og öðrum trúnaðarmönnum sem við eigum svo mikið að þakka. Jafnframt munum við hjá Eflingu áfram leggja mikla áherslu á að veita trúnaðarmönnum fræðslu á sviði kjara- og félagsmála og styrkja þau í sínu starfi eins og við frekast getum.
Kjarafréttir Eflingar
Við hjá Eflingu hófum núna í desembermánuði útgáfu á Kjarafréttum. Markmið útgáfunnar er að koma á framfæri staðreyndum um lífskjör láglaunafólks. Ég vil nota tækifærið til að vekja athygli á þessari nýjung og hvetja launafólk til að kynna sér það sem þar er til umfjöllunar.
Í fyrsta tölublaði kemur fram að samkvæmt OECD er mun minni stuðningur við barnafjölskyldur á Íslandi en í flestum vestrænum ríkjum. Ísland er langt undir meðaltali OECD-ríkjanna og hin Norðurlöndin eru með mun ríflegri barnabætur fyrir fjölskyldur með lágar tekjur. Stundum talar valdafólk hér um „löndin sem við berum okkur saman við“ en þegar fram koma upplýsingar eins og þessar á sá samanburður allt í einu ekki við. Þetta er óþolandi blekkingaleikur og hræsni.
Óvæntar áskoranir
Á liðnu ári varð ég óvænt formaður Eflingar. Þetta hefur verið mikil reynsla og ég hef þurft að læra margt á skömmum tíma. Ég er þakklát fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt. Sem verkakona og innflytjandi hef ég öðlast skýra sýn á samfélagið og þau kjör sem láglaunafólki eru búin. Ég trúi því að reynsla mín geti verið mikilvæg í baráttunni. Og ég er stolt af því að við Ólöf Helga komum beint úr hópi þess fólks sem við erum nú í forsvari fyrir.
Við Ólöf Helga kunnum vel að meta allan þann stuðning sem við höfum fengið frá félögum í Eflingu, stjórninni, starfsfólki á skrifstofunni og venjulegu fólki úti í bæ. Við munum hér eftir sem hingað til standa við þær skyldur okkar að vinna fyrir fólkið í félaginu. Nýja árið verður ábyggilega krefjandi m.a. með tilliti til kjarasamninga næsta hausts. Við vitum að samstaðan er öflugasta vopn verkalýðshreyfingarinnar og við í Eflingu munum ekkert gefa eftir í baráttunni fyrir bættum kjörum og hagsmunum láglaunafólksins sem heldur samfélaginu gangandi.
Höfundur er formaður Eflingar.