Hugurinn hvarflar til Norðurslóða því fyrir tilstuðlan forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, er Ísland orðinn vettvangur víðtæks alþjóðlegs samstarfs um framtíð þess svæðis. Mikil áskorun felst í nýjum tækifærum þar og við verðum að skipa okkur verðugan sess í samstarfi við aðrar þjóðir um að efla rannsóknir og þátttöku í stefnumótun með heildarhagsmuni að leiðarljósi því ljóst er að nýjar siglingaleiðir, nýjar auðlindir munu kalla á allt aðra auðlindaumræðu en nú á sér stað og á milli fleiri þjóða.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir.
Við Íslendingar höfum löngum lýst legu landsins og aðstæðum þjóðar á þann veg að við búum á endimörkum hins byggilega heims og sú sýn hefur haft mikil áhrif á hugarfar og sjálfsmynd þjóðarinnar. Náttúran til lands og sjávar hefur í gegnum tíðina minnt á sig í mörgum myndum og verið bæði gjöful og óvægin.
Sem fyrr létu náttúruöflin finna fyrir sér á árinu og minntu okkur óþyrmilega á hvað við erum í raun lítil og vanmáttug þegar þau hefja upp raust sína. Enn hljómar raust þeirra í öflugu gosi í Holuhrauni, glóandi hraunið rennur sína löngu leið, storknar síðan hægt og bítandi, nýja hraunið fær nafn og verður einhvern tímann fært yfirferðar en ekki í bráð nema fuglinum fljúgandi. Hvað ég vildi vera einn þeirra fugla sem sæi þessi undur náttúrunnar um leið og þau gerast
En ógnin er ekki yfirstaðin og enginn veit hvort eða hvenær breyting verður á hegðun náttúruaflanna og hvar þau þá hefja upp raust sína að nýju og þá hvernig. En á Alþingi var lagt fram frumvarp sem veitir ráðherra afar ríkar heimildir til að grípa inn í aðstæður sem náttúruhamfarir kunna að skapa og er það algerlega ljóst að sitt sýnist hverjum um það sem í því frumvarpi stendur. Sumir líkja frumvarpinu við herlög og verður fróðlegt að fylgjast með framvindu þess í meðförum þingsins eftir áramótin.
Beðið eftir skoðun umboðsmanns á lekamálinu
Lekamálið úr Innanríkisráðuneytinu var fyrirferðamikið á árinu og sér vart fyrir endann á því, þrátt fyrir að aðstoðarmaður innanríkisráðherra hafi verið dæmdur og að innanríkisráðherra hafi sagt af sér sem ráðherra, þá hefur Umboðsmaður Alþingis um margra vikna skeið verið að vinna að sérstakri skoðun málsins. Það er hlutverk Umboðsmanns Alþingis að gæta að því að trúnaður ríki um stjórnsýsluna og í samskiptum innan hennar og við borgarana. Þess er því beðið með töluverðri eftirvæntingu að Umboðsmaður Alþingis skili niðurstöðum úr sérstakri skoðun sinni á einstaka efnisþáttum Lekamálsins.
Barátta þeirra, sem vilja ráðstafa sem mestu af sínu sjálfsafla fé sjálfir, er ójöfn baráttu þeirra sem vilja sem mest úr ríkissjóði sér til handa og þar leggjast margir á árarnar
En í ljósi þess að upphaf þessa lekamáls var sú ætlun að vísa hælisleitanda úr landi, þá tel ég það afar brýnt að ræða heiðarlega og öfgalaust með hvaða hætti, með hvaða skilyrðum og hversu hratt við viljum taka á móti erlendum ríkisborgurum sem og hælisleitendum sem hingað leita.
Vandað til verka við fjárlagagerðina
Það er mín trú að hér á landi sé hægt að reka gott heilbrigðiskerfi sem kostað er af skattfé en ég er þeirrar skoðunar líka að þar geta fleiri komið að rekstri en opinberir aðilar og held að við ættum í þeim efnum að horfa til þess sem Svíar hafa gert í áratugi. Ég hef líka þá trú að slíkt hið sama sé hægt að gera í menntakerfinu en það liggur hins vegar í eðli stjórnmálanna að við verðum aldrei öll sátt eða sammála um þær aðferðir. Sumir segja að það sé merki um heilbrigt lýðræði að hlutunum miði hægt áfram og að ágreiningur sé um hitamál. Ég veit það ekki er ekki ein af þessum þolinmóðu og vil sjá hraðari breytingar á þessum sviðum í tíð þessarar ríkisstjórnar.
Ágætur vinur minn hefur sagt að hættulegasti tími fyrir skattgreiðendur sé á aðventunni því þá er verið að loka fjárlagaumræðunni og allir reyna með einhverjum hætti að ná í peninga sem við skattgreiðendur greiðum í ríkissjóð. Er honum bara algerlega sammála. En við þingmenn vorum ekki að gæta hagsmuna skattgreiðenda við afgreiðslu fjárlaga, ef eitthvað er þá vorum við að tryggja það að fara enn dýpra í vasana á næstu árum þrátt fyrir loforð síðustu kosninga um að auka ekki ríkisútgjöldin. Barátta þeirra, sem vilja ráðstafa sem mestu af sínu sjálfsafla fé sjálfir, er ójöfn baráttu þeirra sem vilja sem mest úr ríkissjóði sér til handa og þar leggjast margir á árarnar. Rekstur ríkissjóða bólgnar og gamalt og gott slagorðið Báknið burt er löngu dautt því báknið er kjurt.
Hins vegar ber því að fagna að hafist var handa við að einfalda virðisaukaskattskerfið og stefnt er að því að minnka þrepabil enn frekar, sömuleiðis var ósanngjarn skattur sem oftast hefur verið nefndur vörugjöld felldur brott af 800 vöruflokkum. En betur má ef duga skal, lækka þarf atvinnutryggingar-gjaldið enn frekar sem og almennan tekjuskatt bæði á einstaklinga og fyrirtækja. Knústin er kannski sú eins og góður maður sagði að hafa skattprósentuna örlítið hærri en maður sjálfur kysi en að skatturinn væri flatur og eins laus við undantekningar og smugur og hægt er.
Markmiðið á að vera að fækka blaðsíðunum í skattalöggjöfinni því með því móti minnkum við best vald ríkisins yfir einstaklingunum. Svo er líka gott að hafa í huga að þegar skattkerfið er einfalt þá er líka mjög einfalt að lækka skatta ef þeir eru of háir.
Landsmönnum öllum óska ég gleðilegs árs.
Höfundur er þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.