Eftir rúmlega áratug í störfum innan og utan stjórnmálaflokka og stjórnkerfisins er það orðin rökstudd skoðun mín að þegar kemur að stefnumörkun séum við sem þjóð almennt nokkuð góð í að sjá fyrir okkur hvert við viljum komast, en oft léleg í að setja skýrar og aðgerðamiðaðar áætlanir um það hvernig við ætlum að komast þangað og fylgja þeim fast eftir.
Skipulag Stjórnarráðs Íslands, þar sem ráðuneytin eru í raun hliðsett málaflokkasíló og lítil hefð er fyrir þverlægri samvinnu milli sílóanna, hjálpar ekki til. Atvinnugrein eins og ferðaþjónusta, sem snertir málaflokka nær allra ráðuneyta verður reglulega vör við galla þessa skipulags.
Ef raunverulegur árangur á að nást í stefnumörkun um ferðaþjónustu til framtíðar þarf vinnan að vera meðvituð um þessa galla og vinna fram hjá þeim. Það krefst fyrst og fremst pólitísks vilja. Stjórnkerfið getur nefnilega verið ótrúlega öflugt og árangursríkt þegar á reynir og skýr pólitísk leiðsögn liggur fyrir.
Stefnurammi um ferðaþjónustu til 2030
Á vegum ráðuneytis ferðamála, sem nú ber nafnið menningar- og viðskiptaráðuneyti, hefur staðið yfir vinna síðustu vikur við uppfærslu stefnuramma um ferðaþjónustu sem var fyrst kynntur árið 2019 undir yfirskriftinni Leiðandi í sjálfbærni: Framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til 2030. Í upphafi nýs árs stendur til að hefja vinnu við síðari hluta stefnumörkunarinnar, aðgerðaáætlunar sem leggur grunninn að því að framtíðarsýn stefnurammans verði að veruleika.
Þetta er verkefni sem upphaflega var lagt upp og unnið á grundvelli samstarfs fjögurra ráðuneyta, Sambands sveitarfélaga og Samtaka ferðaþjónustunnar í Stjórnstöð ferðamála en heimsfaraldurinn hamlaði síðustu tvö ár.
Aðgerðaáætlun um ferðaþjónustu til 2030
Það er sannarlega fagnaðarefni að nú skuli stefnuvinnan tekin upp af festu á ný. Ferðaþjónustan er stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar, ein mikilvægasta atvinnuskapandi greinin í landinu, mikilvægasti drifkraftur nýrra atvinnutækifæra á landsbyggðinni og mikilvæg undirstaða lífskjarabóta og aukinna lífsgæða um allt land. Þróun slíkrar greinar má ekki láta reka sjálfkrafa á reiðanum.
Eins og við höfum öll séð undanfarin áratug reynir ofurhröð uppbygging ferðaþjónustu, með tugprósenta vexti ár eftir ár, ekki síður harkalega á ýmsa innviði samfélagsins. Fullyrða má að ekkert samfélag hefði staðist fullkomlega svo stíft álagspróf, og þá sérstaklega ekki samfélag sem enn glímdi við eftirhreytur fjármálahruns allt til ársins 2016. Þrátt fyrir það hefur ótrúlega margt verið ótrúlega vel gert á síðustu árum, en betur má ef duga skal.
Nú þegar komið er undan heimsfaraldri sjáum við ekki bara sömu áskoranirnar og við vorum að glíma við fyrir rúmum tveimur árum, sem hafa nú magnast upp, heldur sjáum við einnig nýjar áskoranir. Í einhverjum tilfellum hafa undanfarin tvö ár líka gefið okkur fjarlægð og með henni skýrari sýn á það sem við er að glíma. Við höfum líka séð á þessum tíma að það eru engin séríslensk vandamál í þessu, flest nágranna- og samkeppnislönd okkar eru að glíma við sams konar áskoranir á einhvern máta. Og af því má læra.
Ærin verkefni
Ef við horfum til þess markmiðs sem sett er fram í stefnurammanum, að íslensk ferðaþjónusta verði arðsöm og samkeppnishæf atvinnugrein sem rekin er í sátt við land og þjóð, er ljóst að hér eru ekki bara nokkur einföld verkefni sem þarf að leysa.
Meðal áskorana sem þarf að takast á við á næstu árum eru uppbygging og álagsstýring á áfangastöðum; dreifing ferðamanna yfir árið og um allt land; orkuskipti í samgöngum og uppbygging orkuskiptainnviða; fjárfestingaumhverfi ferðaþjónustu og bætt aðgengi lítilla og meðalstórra fyrirtækja að fjármagni til nýsköpunar og vöruþróunar; ýmsar áskoranir tengdar mannauði og auknum gæðum, t.d. uppbygging námsleiða í ferðaþjónustutengdum greinum, einföldun regluverks og leyfisveitingakerfis; aukin samþætting stefnu varðandi alþjóðatengingar og stefnu í ferðaþjónustu almennt, gjaldtökuumhverfi opinberra aðila og einkaaðila sem snýr að ferðamönnum og ferðaþjónustufyrirtækjum; uppbygging þjóðgarða og friðlýstra svæða; uppfærsla og nauðsynlegar breytingar á lagaumhverfi ferðaþjónustu og skiptingu málaflokka milli ráðuneyta og undirstofnana þeirra; Færsla neytendamarkaðssetningar fyrir áfangastaðinn Ísland úr átaksverkefnum yfir í föst verkefni; stóraukin og bætt gagnaöflun og úrvinnsla um atvinnugreinina og áhrif hennar og bætt umhverfi til uppbyggingar hvata- lúxus- og heilbrigðisferðaþjónustu.
Hér er stiklað á stóru, en af upptalningunni geta þó allir séð í hendi sér að verkefnin eru fæst einföld úrlausnar né þess eðlis að þau verði unnin innan eins ráðuneytissílós. Augljós þörf er á mikilli samvinnu milli ráðuneyta og stofnana, þar sem hver ber á byrgð á sínum hluta mismunandi verkefna en allir vinna sem ein heild að sömu heildarmarkmiðum. Og þar er atvinnugreinin sjálf auðvitað ekki stikkfrí heldur.
Árið 2023 er mikilvægt ár
Hjá Samtökum ferðaþjónustunnar höfum við mikla trú á því að þetta sé hægt. Við höfum almennt afar góða reynslu af mikilli samvinnu við ráðuneyti og stofnanir samfélagsins og vitum að þetta er hægt. Það mikilvægasta sem þarf til er pólitískur vilji og díreksjón um að hlutina skuli gera á þann hátt sem skilar árangri. Og við vitum að sá vilji er til staðar.
Því að ávinningurinn fyrir samfélagið allt er gríðarlegur. Ef okkur heppnast vel að setja saman aðgerðaáætlun um uppbyggingu ferðaþjónustu á grunni stefnurammans til 2030, og ef okkur heppnast vel að fylgja tímasetningum hennar eftir með því fjármagni sem til þarf, munum við á næstu árum öðlast sterkari atvinnugrein sem skilar samfélaginu meiri verðmætum ár hvert, meiri verðmætum í skattfé til ríkis og sveitarfélaga og um leið styrkja enn betur undirstöður lífskjara og lífsgæða þjóðarinnar til framtíðar.
Það er því til mikils að vinna fyrir okkur öll á árinu 2023.
Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.