Kona kemur buguð inn á skrifstofu síns stéttarfélags og biður um hjálp. Hún segist vera búin að fá nóg, hún geti ekki meir. Hún hafi í langan tíma orðið fyrir kynferðislegri áreitni á sínum vinnustað af hendi yfirmanns. „Getur þú hjálpað mér”, spyr hún starfsmanninn sem tekur á móti henni.
Svona dæmi eru raunveruleg. Stéttarfélögin taka á móti konum sem hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað, jafnvel svo árum skiptir. Og mjög oft er það yfirmaðurinn eða eigandi fyrirtækisins sem hún starfar hjá sem er gerandinn.
Lýsingarnar er ófagrar og aðferðirnar oft lúmskar. Þukl, andað ofan í hálsmál, nudd utan í líkama, halla sér yfir og króa af, snerta kynferðislega, flauta á eftir einstaklingi, SMS-sendingar með óviðeigandi skilaboðum, kynferðislegar augngotur, hegðun með kynferðislegum skilaboðum, þrýstingur um kynferðislegan greiða, persónulegar spurningar um kynferðisleg mál, athugasemdir um klæðaburð eða útlit með kynferðislegu ívafi og allt upp í faðmlög, kossa og nauðgun.
Hvað getur stéttarfélagið gert fyrir konuna sem kemur alveg miður sín og löngu búin að fá nóg? Það er því miður lítið. Líklegasta niðurstaðan er sú að gerandi, yfirmaður hennar, hafi sigur í málinu, og að hún hrökklist í burtu frá vinnustaðnum, fari í veikindaleyfi eða verði rekin af þessum sama yfirmanni. Hugsanlegt er að áður en til þess kemur verði rætt við yfirmanninn og honum gerð grein fyrir stöðunni og farið fram á að hann lagi ástandið á vinnustaðnum.
Atvinnurekendum ber samkvæmt lögum að láta framkvæma áhættumat á vinnustöðum, þar sem kveðið er á um að aðstæður á vinnustað séu þannig að starfsmenn séu varðir fyrir kynferðislegri áreitni. Það er auðvitað mjög vandasamt. Það er annað að hafa starfsaðstæður þannig að ekki sé mygla eða mengun inn í húsnæðinu eða að stóllinn sé rétt stilltur en að tryggja að ekki eigi sér stað kynferðisleg áreitni. Þetta er nokkuð augljóst.
Svo er hitt að gerandinn er oft yfirmaður eins og áður segir og/eða atvinnurekandi. Hvað er þá til ráða? Það er lítið. Algengt er að þessi gerandi vilji alls ekki viðurkenna að hann hafi gert nokkuð af sér. Hann hafi ekki verið með neina kynferðislega áreitni við nokkurn mann. Hann vill hins vegar sýna samstarfsvilja og kallar t.d. til vinnustaðasálfræðing til að reyna að laga ástandið. En vandamálið er að það er hann, sjálfur gerandinn, sem velur vinnustaðasálfræðinginn og borgar fyrir hann. Er það hlutlaust? Nei alls ekki.
Stéttarfélagi konunnar er því vandi á höndum. Réttur atvinnurekandans er svo mikill. Kannski býður stéttarfélagið konunni frían sálfræðitíma. Kannski tvo. Eða stéttarfélagið reynir að semja um starfslok fyrir hana, þar sem hún fær greidda fleiri mánuði heldur en uppsagnarfrestur hennar segir til um.
Þetta er óviðunandi ástand. Sósíalistaflokkur Íslands hefur sett fram stefnu í ofbeldismálum þar sem það er gerandinn sem skal fjarlægður af vinnustaðnum þegar upp koma kynferðisafbrotamál. Þolandinn skal fá vernd frá gerandanum og þá aðstoð sem hann þarf frá óháðum fagaðilum. Þá skal þolandinn fá gjafsókn til að reka einkamál gegn brotamönnum.
Samkvæmt lögum skal hver sá sem gerist sekur um kynferðislega áreitni sæta fangelsi allt að 2 árum. En eins og við vitum eru þessi mál sjaldan kærð og þó þau séu kærð er það gerandi sem sleppur best. Svona er dómskerfið á Íslandi í dag.
Höfundur er atvinnulífsfræðingur, félagi í Sósíalistaflokki Íslands og sósíalískur femínisti.