Mig langar alls ekki til að vera týpan sem skrifar (aftur) áramótagrein um heimsfaraldur og tekur enn eitt brjálið yfir ástandi þar sem fólk er almennt að reyna að gera sitt besta. Það var heldur ekki planið, alveg þangað til yngsta barnið fór í lok vikunnar að tala um að það fyndi bara asetónlykt. Jólin á þessu heimili verða því fjögurra manna prógramm, þar sem þrír eiga að vera í sóttkví og eitt ellefu ára eldhresst barn í einangrun. Þetta hljómar kannski ekki svo illa, en þá á eftir að taka með í reikninginn að við eigum fimm önnur börn, þar af eitt sem býr hjá okkur en slapp naumlega við sóttkví, tengdabörn og þrjú barnabörn. Þetta er sem sagt ekki óskaástand.
Sem betur fer hafa hugmyndir fólks um sóttkví og einangrun mildast talsvert frá fyrstu bylgju, þegar manni fannst að umgangast þyrfti covid-smitaða eins og geislavirkan úrgang. Eða ég hef allavega ákveðið að skilja það þannig. Síðustu daga hef ég sem sagt þurft að kynna mér ýmis sóttvarnahugtök, eins og til dæmis útsetningardag. Sóttkví er miðuð við þann dag, en þar sem mér finnst óhugsandi að loka barnið mitt inni í herbergi, tala við það á FaceTime og færa því mat á bakka geri ég ráð fyrir að vera í smá veseni. Kannski verður þessi játning til þess að ég þarf að vera í sóttkví að eilífu, með mínar þrjár bólusetningar og neikvæðu covid-próf, en ég á samt svolítið erfitt með að trúa því að fólk yfirleitt fari mjög stíft eftir þessu. Sögur af fermingarbörnum á farsóttarhótelum hljóta að vera undantekning en ekki regla.
Þótt við höfum blessunarlega ekki gengið eins langt og ýmis lönd í kringum okkar er það ekki nóg til þess að álykta sem svo að hér sé allt í lukkunnar velstandi og að ekki megi gagnrýna neinar ákvarðanir sem tengjast sóttvörnum. Við hjónin erum svo heppin að geta sinnt vinnu heiman frá okkur í þessu ástandi þótt af því sé margvíslegt óhagræði. Það búa ekki allir svo vel og bæði starfsfólk og vinnuveitendur eru í vanda vegna sóttkvíar og einangrunar, auk þess sem allt samfélagið þarf og hefur þurft að takast á við ýmsar takmarkanir. Manni hefur einfaldlega stundum orðið illt í stjórnarskránni og meðalhófinu á síðustu misserum og mér finnst þeim fjölga sem líður þannig. Þess vegna held ég að yfirvöld eigi á hættu að tapa klefanum.
Við erum öll mannleg og það er þetta samspil vona og vonbrigða sem er svo lýjandi. Um síðustu áramót héldum við að það styttist í endamarkið. Bóluefnin voru á leiðinni og allt á uppleið. Svo breyttist allt. Ég held að á þessu ári hafi okkur flestum liðið eins og einhver hafi skráð okkur í 800 metra hlaup sem óvart varð að 3.000 metra hindrunarhlaupi. Og nú hefur enn eitt afbrigðið skotið upp kollinum. Þótt það virðist vægara en hin eru skilaboð stjórnvalda þannig að gera má ráð fyrir að í raun sé þetta maraþon. Sem við ætluðum okkur aldrei að taka þátt í.
Það hefur ekki verið fjallað oftar um neitt mál en þennan faraldur í íslenskum fjölmiðlum í tvö ár. Hvorki Trump, loftslagsmál né kosningar komast með tærnar þar sem hann hefur hælana. Og þegar ofan á bætist eigið sálartetur, í sóttkví með ókeyptar jólagjafir og ofurhresst covid-barn á fjórða degi, er kannski ekki nema von að hugurinn leiti á þessar slóðir undir lok árs. Ég krossa að sjálfsögðu fingur en þekkjandi samband mitt við forsjónina og heppni almennt, er allt eins líklegt að ég sitji bragðskynslaus á aðfangadagskvöld að borða jólaköku með rækjusalati. Mér skilst nefnilega á mér lengra komnum að þegar bragðið fer sé áferðin allt og þessi blanda sé einstaklega áhugaverð.
Svo vona ég allra vegna að ég hafi nákvæmlega enga ástæðu til að skrifa um þessa veiru að ári.
Höfundur er framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.