Valdaskipti eru framundan í Berlín. Margt bendir til að þau verði meira afgerandi en oftast á síðustu áratugum. Þetta kemur okkur Evrópubúum öllum við vegna stöðu Þýskalands og sömuleiðis öðrum eins og til að mynda Bandaríkjunum, Rússlandi, Kína, Tyrklandi og Íran sem öll eiga nokkuð undir því hvað gerist með haustinu í Berlín.
Svissneski draumurinn
Þýskaland er í þeirri sérstöku stöðu að vilja ekki vera stórveldi en að komast samt illa hjá því. Áratugalangt uppgjör Þjóðverja við sögu sína, sem er án hliðstæðu í heiminum, hefur leitt til ríkrar andúðar þar í landi á öllu sem menn gætu talið til stórveldatilburða. Þetta nær svo langt að finna má fyrir útbreiddri andstöðu Þjóðverja við að land þeirra beiti sér mikið á alþjóðavettvangi þótt eftir því sé kallað. Þessa almennu afstöðu má líka sjá í þeirri sérkennilegu stöðu að harða þýska þjóðernissinna dreymir ekki um heimsyfirráð eins og forvera þeirra gerði, heldur virðast þeir eiga þeir sér þann draum dýrastan að losna við evruna, helst við Evrópusambandið líka og fá bara að vera í friði með samfélag, sem er þó ekki lengur til. Þjóðverjar bæði til hægri og vinstri, sagði einhver, vildu helst að land þeirra væri einhvers konar Sviss, bæði í friði og til friðs.
Hulduefni Evrópu
Þjóðverjum hefur hins vegar gengið illa síðustu árin að vera stórt Sviss. Aðstæður þröngva þeim til annars. Fjölmenni landsins og ríkidæmi þess skapar þessa stöðu en ekki er síður mikilvægt það traust sem nágrannar Þjóðverja bera nú til Þýskalands. Þetta er ekki síst vegna uppgjörs Þjóðverja við tuttugustu öldina en önnur fyrrum stórveldi Evrópu hafa reynst treg til að horfast í augu við blóði drifna sögu sína og sum næra sig enn á goðsögum. Merkel sagði nýlega að Þýskaland væri nú umkringt vinum. Það var öðru vísi áður. Mál hafa þróast með þeim hætti að ekkert sem varðar Evrópu alla er lengur útrætt án þess að leitað sé eftir áliti og oft atbeina Þýskalands. Þetta sést ekki alltaf á yfirborðinu. Þýsk áhrif í Evrópu, sagði einhver, eru eins og hulduefnið í alheiminum sem er ósýnilegt og illmælanlegt en menn vita að það heldur heiminum saman.
Þýska spurningin
Fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna sagði að Þýskaland væri of lítið fyrir heiminn en of stórt fyrir Evrópu. Þetta var í forsetatíð Nixons. Síðan þá hefur Þýskaland sameinast og vaxið bæði að stærð og afli en Evrópa hefur sumpart misst mátt. Þessi ummæli voru í reynd enn ein útfærslan á því sem menn kalla þýsku spurninguna sem Þjóðverjar og Evrópumenn hafa spurt um aldir. Og svarað með nokkrum af verstu stríðum mannkynssögunnar.
Staðreyndin er einfaldlega sú að nái þýska menningarsvæðið saman sem pólitísk heild myndar það til mikilla muna sterkustu einingu Evrópu. Jafnvel í sundrungu sinni drottnuðu þýsk ríki öldum saman yfir öllum löndum allt austur til Rússlands og suður eftir Balkanskaga. Þess vegna hafa öll stórveldi álfunnar um aldir haft það að meginmarkmiði að forða pólitískri einingu þýskumælandi manna. Þetta hentaði líka þýskum ríkjum oft ágætlega, eins og til dæmis Prússlandi framan af, Bæjaralandi, Austurríki og tugum minni ríkja. Sundrung þýskra ríkja var öldum saman uppistaðan í Evrópustefnu Bretlands og að sínu leyti bæði Frakklands og Rússlands líka.
Græningjar til valda?
Nú blasa við valdaskipti í Þýskalandi eftir 16 ára stjórn Merkel kanslara. Græningjar mælast stærstir í könnunum. Þetta er raunar ekki í fyrsta sinn sem græningjar njóta hylli í skoðanakönnunum. En líkurnar á stórauknum áhrifum þeirra í stærsta og öflugasta ríki ESB hafa sennilega aldrei verið meiri. Stemmingin er með þeim, það er eins og fólk bíði eftir kynslóðaskiptum, breyttum áherslum og ferskum vindum. Leiðtoga þeirra, hinni fertugu og eldkláru Annalena Baerbock, er af mörgum spáð kanslaraembættinu. Einn styrkur græningja sést á því að Robert Habeck, fimmtugur rithöfundur og ljóðaþýðandi, sem leiddi flokkinn með Baerbock í nokkur ár hefði ekki síður komið til greina sem trúverðugt kanslaraefni. Hvorugt þeirra hefði átt mikinn sjens í þýskum stjórnmálum fyrir tuttugu árum eða svo og þá er ekki átt við aldurinn. Þýskaland hefur mikið breyst þrátt fyrir þá öfundsverðu rósemi og yfirvegun sem einkennir stjórnmál í landinu. Merkel, sem aldrei virðist bifast, hefur haldið utan um þjóðfélag í örari gerjun en margir myndu ímynda sér.
Er græningjum treystandi?
Þetta er spurningin sem bæði vinstri menn og hægri menn innan og utan Þýskalands spyrja um græningja. Efinn á sér rætur í uppruna flokksins í hreyfingum hippa, stjórnleysingja, vinstri sinnaðra baráttuhreyfinga, umhverfisverndarsinna og afvopnunarsinna fyrir fjörutíu árum. Það er einkum þrennt sem menn spyrja um. Eitt er hvort flokkur með rætur í rótttækum friðarhreyfingum sé treystandi fyrir öryggis- og varnarmálum öflugasta ríkis Evrópu. Annað er hvort flokkur sem stofnaður var í kringum rótttækar hugmyndir í umhverfismálum geti rekið stærsta hagkerfi Evrópu. Og það þriðja er hvort þessi litskrúðugi flokkur sé yfirleitt stjórntækur, eins og það heitir á Íslandi.
Græningjar og Mercedes Benz
Síðustu spurningarinnar er spurt utan Þýskalands en sjaldnar innan þess. Græningjar hafa meiri reynslu af völdum en fólki er tamt að álíta. Þeir eiga aðild að ríkisstjórnum í meirihluta þýsku sambandslandanna og í einu þeirra, Baden Wuerttemberg, hafa þeir farið með stjórnarforustu í fimm ár. Þeir unnu kosningasigur þar fyrir fáum vikum og fengu 33% atkvæða en kristilegir demókratar sem stjórnuðu fylkinu í hálfa öld fengu 24%.
Það sérstaka við þetta er að Baden Wuerttemberg er ein mesta miðstöð iðnaðar í Evrópu. Þar er heimili Mercedes Benz, Porsche og Bosch á meðal stórfyrirtækja og um leið er þarna líklega mesta samþjöppun í heiminum á mjög sérhæfðum iðnfyrirtækjum sem eru leiðandi á heimsvísu, hvert á sínu sviði.
Sambúð þeirra við græningja gengur vel. Málið, sagði einn græningi, er ekki að hætta að búa til bíla heldur að gera þá sem umhverfisvænasta. Það mun líka bjarga þýskum bílaiðnaði frá því að daga uppi og um leið forða Stuttgart frá þeim dapurlegu örlögum sem biðu Detroit. Þeir vilja sumsé hreinlátari Benz og Audi fyrir þá sem ekki hjóla. Fólkið í viðskiptalífinu sér sífellt betur að umhverfisvernd er spurning um líf eða dauða fyrir heilar iðngreinar. Í nýlegri könnun sem þýskt viðskiptablað gerði á meðal forstjóra reyndist leiðtogi græningja vera sú manneskja sem flestir vildu að tæki við af Merkel.
Fólk án farangurs
Þótt græningjar eigi rætur í margvíslegum baráttuhreyfingum 20. aldar er eitt af því fyrsta sem menn taka eftir í samræðum við leiðandi fólk í flokknum sú tilfinning að þar fari fólk án mikils pólitísks farangurs. Einn af yngri þingmönnum flokksins lýsti þessu sem svo að hún hefði frá upphafi haft djúpa sannfæringu fyrir umhverfismálum en það hefði skipt hana mjög miklu máli við mótun skoðana á öðrum málum að horfa á samtíðina, og á möguleika framtíðar, án pólitískra gleraugna. Það er líka eftirtektarvert hvað græningjar sýna gömlum pólitískum víglínum úr fortíðinni litla virðingu og hvað þeir spyrja oft opið um leiðina fram á við frekar en útfrá þeim átökum fortíðar sem skipuðu fólki í flokka.
Miðjan færist til græningja
Græningjum hefur líka tekist á síðustu árum að koma sér úr hlutverki predikara, eða „góða fólksins“ eins og það heitir á Íslandi. Talsmenn flokksins ræða sjaldnast af yfirlæti þeirra sem telja sjálfa sig hafa siðferðilega yfirburði og forðast að dæma fólk fyrir að fylgja ekki nýjustu línum um hvað má og hvað má ekki.
Það vita hins vegar allir að þeir eru einlægir í vilja sínum um aukið jafnrétti og jöfnuð og að þeir vilja stórar breytingar á umgengni manna við náttúruna. Í stað þess að básúna hneykslan sína á öðrum virka þeir oft eins og fólk með almenna samkennd í leit að góðum lausnum.
Græningjar eru róttækir í umhverfismálum og jafnréttismálum og þeir vilja líka hækka skatta, auka efnahagslegan jöfnuð, bæta velferðarkerfið og gera enn betur við flóttamenn. Þeir sækja hins vegar um leið mjög inná miðjuna og höfða þar til fólks sem finnur sig ekki lengur í stóru flokkunum tveimur, kristilegum demókrötum og jafnaðarmönnum. Einn forustumanna þeirra sagði nýlega að flokkurinn hefði fært sig inná miðjuna en það væri samt eftirtektarverðara að miðjan hefði færst til græningja. Í þessum efnum er Þýskaland ekki undantekning, það má víða finna háværari kröfur um jöfnuð, jafnrétti og umhverfisvernd. Þýskaland er hins vegar á undan í að mynda farveg fyrir þessa pólitík inná miðju stjórnmála.
Heimurinn og Evrópa
Fyrir græningja, líkt og gömlu stóru flokkana, er stuðningur við dýpri einingu og samruna í Evrópu afdráttarlaus. Í utanríkismálum blasir hins vegar við ákveðin þversögn. Græningjar eru enn ólíklegri en aðrir Þjóðverjar til að ala með sér drauma um þýsk völd í heiminum. Þeir eru hins vegar óhræddari en gömlu flokkarnir við að láta í sér heyra á alþjóðavettvangi þegar kemur að mannréttindum, jafnrétti og lýðræði.
Þetta gæti þýtt auknar deilur við Kína, Rússlandi, Tyrklandi, Saúdí Arabíu, Belarús og miklu fleiri ríki. Þeir hafa líka sýnt minni þolinmæði gagnvart þeim löndum ESB sem margir telja að nú gangi á svig við mannréttindi, jafnrétti og lýðræðislega stjórnarhætti, eins og Pólland og Ungverjaland. Grænir hafa gagnrýnt Kínverja harðlega fyrir mannréttindabrot og sömuleiðis stjórnvöld í Rússlandi, Tyrklandi og vilja stöðva vopnasölu til Saúdí Arabíu. Þeir hafa líka verið mótfallnir því að lokið verði við nýja gasleiðslu frá Rússlandi, Nord Stream 2, sem hefur verið mikið deilumál á milli Bandaríkjanna og Þýskalands.
Fyrir hauka á Vesturlöndum yrðu aukin völd græningja hins vegar ekki sérstakt fagnaðarefni. Flokkurinn hefur mikla fyrirvara við aukin framlög til varnarmála en Þýskaland ver nú aðeins 1,3% af þjóðarframleiðslu til hermála sem er eitt lægsta hlutfall í heimi þótt þýskur vopnaiðnaður sé raunar einn hinn öflugasti í heimi. Leiðtogar flokksins segjast frekar vilja byggja upp varnir gegn netárásum en að kaupa fleiri skriðdreka, kafbáta eða orustuflugvélar. Um leið eykst sífellt þrýstingur frá bandamönnum Þjóðverja á að þeir taki meiri þátt í hervörnum í Evrópu og blandi sér meira í öryggismál í Afríku norðan Sahara og í viðbúnað við vaxandi áhrifum Kína við Indlandshaf og Kyrrahaf, auk landamæravarna á Miðjarðarhafi. Í engu af þeim málum verða græningjar léttir í taumi. Það má þó má benda á að eini utanríkisráðherra græningja til þessa, Joscha Fischer, braut eitt helgasta tabú þýskra stjórnmála og sendi þýska hermenn til þátttöku í hernaði erlendis.
Höfundur er alþjóðastjórnmálafræðingur.