Fátt er meira hamlandi fyrir frjáls viðskipti en fjármagnshöft í alþjóðavæddum viðskiptaheimi. Frá því Ísland varð fullvalda ríki árið 1918 hefur Ísland búið við fjármagnshöft, lengst af mjög ströng. Utan sjö ára tímabils, frá 2001 og fram í nóvember 2008.
Það þarf ekki að hafa mörg orð um hvernig það gekk, að halda krónunni á floti þá, í ljósi sögulegra atburða, en samt er ekki hægt að skauta framhjá því sem gekk á. Árið 2001 var krónan sett á flott, og stýrðist gengi krónunnar alfarið af frjálsum fjármagnshreyfingum í alþjóðlegum viðskiptum fram í nóvember 2008. Allt tímabilið, fyrir utan skamman tíma árið 2004, var verðbólga langtum hærri en 2,5 prósent verðbólgumarkmið, og eignaverð í hagkerfinu rauk upp með fordæmalausum hraða.
Ekki eitt heldur allt
Stjórnvöld ákváðu að einkavæða fjármálakerfið á árunum 2002 og 2003, ofan í það að vera með krónuna nýfljótandi um alþjóðlega fjármagnsmarkaði. Í ofanálag var svo ákveðið að ráðast í byggingu Kárahnjúkavirkjunar, langsamlega umfangsmestu framkvæmd Íslandssögunnar sem fjármögnuð var með erlendu lánsfé með ríkisábyrgð að öllu leyti.
Allt gerðist þetta á átján til 24 mánaða tímabili, á árunum 2001 til og með 2003.
Svo má ekki gleyma einu: Að baki einkavæðingu fjármálakerfisins alls lá pólitísk hvatning um mikla og hraða útþenslu inn á erlenda markaði. Stjórnvöld margítrekuðu mikilvægi þess að halda útþenslunni áfram, þegar bólueinkennin voru farin að myndast og blasa við erlendum fræðimönnum, og nokkrum gagnrýnisröddum hér á landi, en alltaf var passað upp á að þagga niður í þeim eða bara beinlínis hundsa þær.
Á meðan, út í hinum stóra heimi, voru seðlabankar heimsins, einkum sá bandaríski, að dæla ókeypis fjármagni út á markaði, eftir árásina á tvíburaturnanna í september 2001, með það að markmiði að örva heimsbúskapinn eftir tímabundna niðursveiflu (Kannast einhver við þær aðstæður núna? Getur verið að sambærileg staða sé uppi?).
Björgun af strandstað
Núna stendur Íslandi frammi fyrir því að greiða úr þeim miklu erfiðleikum sem blöstu við þegar floti krónunnar lauk síðast. Þá þurftu stjórnmálamenn að beita neyðarrétti til að vernda efnahagslegt sjálfstæði landsins, endurreisa bankakerfi sem hrundi allt til grunna á þremur dögum og síðan að lögfesta ströng fjármagnshöft, í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
Stjórnmálamenn, sem tala fyrir nauðsyn þess að vinna að losun hafta með leynd undir þeirra stjórn, verða að horfa í eigin barm og spyrja sig að því, hvort þeim sé treystandi eftir það sem undan er gengið. Er það svo?
Þeir skulda líka almenningi betri röksemdir en hafa komið fram til þessa, um hvort sé hægt að halda út í sjálfstæðri peningastefnu með íslensku krónuna, án haftabúskapar og tilheyrandi frelsisskerðingu og samkeppnishömlun sem honum fylgir. Ef mið er tekið af sögunni þá er svarið nei, það er ekki hægt.
Það er hægt að losa um höft, blessunarlega, en stjórnmálamenn verða að skýra það út fyrir almenningi, helst með ítarlegum hætti, hvernig þeir ætla að leggja línurnar fyrir okkur til framtíðar í þessum efnum. Er verið að fara afnema fjármagnshöftin eða er verið að fara rýmka þau aðeins? Það skiptir máli að það sé rætt um þessi mál með réttum orðum. Afnám er ekki það sama og rýmkun eða losun. Höft eru hins vegar alltaf höft.
Gengið ekki stillt af fyrir útgerðina til lengdar
Alþjóðavæðingin ristir dýpra nú en fyrir nokkrum áratugum, þegar fjármagnshöft þóttu svo til sjálfsagður hlutur. Í dag er þetta veruleiki sem þekkist nánast hvergi, og það er ekkert sjálfsagt mál að almenningur á Íslandi muni samþykkja það að stilla gengið af við hagsmuni útgerðarinnar til lengdar.
Hvernig ætla stjórnmálamenn að leysa þetta? Þeir skulda almenningi betri skýringar á því hvernig hlutirnir eiga að virka, og hvernig stendur raunverulega til að gera hlutina. Enginn færði stjórnmálamönnum umboð til þess að sitja í reykfylltum bakherbergum og makka um grundvallarbreytingar á fjármálamerkfinu og fjármagnsbúskapnum. Það tókst ekki vel síðast.
Þá mistókst stjórnmálamönnum og seðlabankanum gjörsamlega að viðhalda stöðugleika þegar krónan var án hafta, á minnsta myntsvæði heimsins. Af hverju ætti þetta að ganga betur núna? Eru stjórnmálamenn að fara afnema fjármagnshöftin sem þeir komu á með lögum eða ekki?
Þetta hljóma kannski einfeldningslegar spurningar, en þær eru samt aðkallandi. Vegna þess að afleiðingarnar eru ófyrirséðar og geta orðið bæði góðar og eða slæmar, og það er mikilvægt að stjórnmálamenn leggi spilin á borðið og segi hvert sé stefnt, hvert planið sé.