Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með Helgu Þórisdóttur, forstjóra Persónuverndar og hennar staðgengli, slást fyrir augljósum hagsmunum almennings á síðustu dögum. Persónuvernd gerði „alvarlegar athugasemdir“ við skýrslu sjávarútvegsráðherra um eignarhald 20 stærstu útgerðarfélaga landsins í íslensku atvinnulífi. Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, óskaði eftir skýrslunni ásamt fleiri þingmönnum. Biðin eftir henni var löng og loks þegar skýrslan kom var hún hvorki fugl né fiskur. Lykilupplýsingum var haldið frá almenningi og þinginu með vísan í persónuverndarlög, sem var svo tilefni hinna alvarlegu athugasemda.
Helga Þórisdóttir fór svo í viðtal og kjarnaði þar hugsun sem allir ráðherrar, nú og í framtíðinni, ættu að skrifa á blað, ramma inn og hengja upp á vegg á skrifstofum sínum. „Það sem okkur finnst bara mjög miður er það að þegar mál varða mikla hagsmuni í íslensku samfélagi þá hefur stundum verið vísað til persónuverndarlaga sem skálkaskjól til að leyna upplýsingum.“ Þetta eru orð að sönnu. Fréttamenn þekkja þetta tregðulögmál kerfisins vel. Það getur þurft óskaplega eftirgangssemi og nánast glóandi tangir til að herja út upplýsingar sem varða hagsmuni almennings úr ráðuneytum og stofnunum.
Fleiri embættismenn hafa vakið eftirtekt fyrir skelegg orð á síðustu vikum. Forstjóri Samkeppniseftirlitsins vakti athygli á því í Stundinni að eftirlit á Íslandi sé talað niður og að stjórnvöld standi ekki með eftirlitsstofnunum. Eins var áhugavert þegar Seðlabankastjóri sagði að Íslandi væri að miklu leit stjórnað af hagsmunahópum. Þetta höfum við í Viðreisn reyndar vitað lengi, en það er hressandi og frískandi að svo háttsettir embættismenn stígi fram og segi það augljósa. Það hefur mun meiri vigt en hin hefðbundna pólitíska umræða. Það ríkir skilningur á því að embættismenn þurfi að stíga varlega til jarðar þegar þeir tala opinberlega og erfitt er fyrir þá að tala um einstök mál. En það eykur jafnframt traust þegar þeir stíga fram og tala af þunga um þær kerfislægu skekkjur sem svo víða er að finna í samfélaginu. Með því taka þeir almannahagsmuni fram yfir sérhagsmuni. Og sinna með því hlutverki sínu.
Höfundur er í 2. sæti á lista Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi.