Inga Dóra Pétursdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi.
Kynferðisleg áreitni og kynferðisofbeldi er hnattrænt vandamál. Birtingamyndirnar eru mismunandi og þá einnig félagslegt samþykki fyrir slíku ofbeldi. Flestar konur um heim allan hafa á einhverjum tímapunkti upplifað kynferðislega áreitni og þekkja óttann við að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi. Sá ótti getur verið jafn hamlandi og ógnvænlegur og ofbeldið sjálft.
Til dæmis getur verið mjög hættulegt fyrir ungar stúlkur víðs vegar um heim að fara í skóla vegna hættu á kynferðisofbeldi og sú hætta hefur það í för með sér að margir foreldrar kjósa fremur að halda dætrum sínum heima en mennta þær. Í Kaíró, Nýju Delí og Port Moresby hafa konur krafið borgaryfirvöld um að hafa sérstaka kvennastrætóa svo þær geti ferðast til og frá vinnu öruggar. Og ef við víkjum að Íslandi þá kemur fram í nýlegri rannsókn* að margar ungar konur á Íslandi óttast nauðgun og að sá ótti hafi hamlandi áhrif á athafnir þeirra - svipti þær frelsi.
Samfara aukinni opinberri umræðu um kynferðislega áreitni og kynferðislegt ofbeldi hefur átt sér stað mikil vitundarvakning undanfarin ár um allan heim. Nýlega voru gerðar breytingar á kynferðisbrotalögum í Indlandi. Þessar breytingar komu í kjölfar margra mánaða mótmæla eftir að ung indversk stúlka lést eftir hrottalega árás og hópnauðgun í almenningsvagni. Málið fékk heimsathygli en því miður var þessi árás langt í frá að vera einsdæmi.
Með þátttöku í verkefninu er litið á kynferðisofbeldi sem hluta af skipulagsvanda borgarinnar og leitað hefur verið til kvenna úr öllum hverfum borgarinnar til að finna lausnir á þessu vandamáli.
Nýja Delí er aðili að verkefni UN Women Öruggar borgir og með því hafa borgaryfirvöld strengt þess heit að auka öryggi kvenna og stúlkna. Niðurstöður rannsóknar UN Women sýndu að yfir 90% aðspurðra kvenna höfðu verið áreittar kynferðislega og yfir helmingur þeirra sagðist verða fyrir áreitni daglega. Með þátttöku í verkefninu er litið á kynferðisofbeldi sem hluta af skipulagsvanda borgarinnar og leitað hefur verið til kvenna úr öllum hverfum borgarinnar til að finna lausnir á þessu vandamáli. Aukin götulýsing, breiðari gangstéttir, sólarhringsopunun á neyðarmóttökum, aukinn fjöldi almenningssíma og sérstakar rútur fyrir bara konur voru meðal þeirra tillagna sem mestan hljómgrunn fengu. Rannsóknin sýndi berlega að hugarfarsbreytingar er sárlega þörf meðal karlmanna, en þrír af hverjum fjórum karlmönnum töldu að konur bæru sjálfar ábyrgð á því að vera beittar ofbeldi því ef þær væru einar á ferð í myrkri.
Þrátt fyrir að opinber umræða um kynferðisofbeldi hafi átt sér stað undanfarin ár og skilað nokkrum árangri er enn langt í land. Það er t.d ekki enn búið að skilgreina kynferðislega áreitni í egypskum lögum né gera hana refsiverða. Samkvæmt rannsókn UN Women hafa 99,3 prósent kvenna og stúlkna á þéttbýlissvæðum í Egyptalandi upplifað kynferðislega áreitni. Egypskir aktívístar hafa einnig bent á að nú þora konur varla að fara einar um Tahir torg. Sama torg og konur hættu lífi sínu við hlið karlmanna í arabíska vorinu. Tvær ungar kvikmyndakonur sýndu brot úr heimildamynd sem þær eru að vinna að. Myndbrotið sýnir sjónarhorn kvenna er þær ganga yfir brú í Kaíró um hábjartan dag.
http://www.youtube.com/watch?v=b1XGPvbWn0A?
Nýlega fór stutt myndskeið frá New York, sem hægt er að sjá hér að ofan, á flug á samfélagsmiðlunum. Þar gengur kona með falda myndavél á sér í 10 klukkutíma um hverfi New York og sýnir yfir 100 karlmenn kalla á eftir henni, ganga við hliðina á henni og reyna að hefja samræður við hana. Viðbrögðin á samfélagsmiðlum voru áhugaverð þar sem margir karlmenn skildu ekki að það væri kynferðisleg áreitni þó ókunnugir karlmenn segðu konunni að hún væri falleg, reyndu að láta hana fá símanúmerið sitt eða sýndu pirring yfir því að hún virti þá ekki viðlits.
Hugtakið kynferðisleg áreitni var framandi þegar ég var unglingur fyrir 20 árum, þótti m.a.s dáldið fyndið. Nú er kynferðisleg áreitni skilgreind í íslenskum lögum sem „[]kynferðisleg hegðun sem er ósanngjörn og/eða móðgandi og í óþökk þess sem fyrir henni verður, hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess eða þeirra sem fyrir henni verða og er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Kynferðisleg áreitni getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn.“
Kynferðisleg áreitni og kynferðisofbeldi er hnattrænt vandamál og birtingarmyndir þess ótal margar. Við þurfum að leggjast á eitt og uppræta allar þessar birtingarmyndir um allan heim. Hugarfarsbyltingin byrjar hjá þér.
*Það er svo óþolandi að maður þurfi að sætta sig við að maður þurfi í raun að gera ráð fyrir að þetta geti gerst!: Um áhrif nauðgunarmenningar á daglegt líf kvenna. 2014. Finnborg Salóme Steinþórsdóttir og Gyða Margrét Pétursdóttir. Þjóðarspegillinn, Ráðstefna í félagsvísindum XV.
Herferð UN Women á Íslandi um Öruggar borgir (e. Safe Cities Global Initiative) stendur yfir frá 18. til 25. nóvember. Hluti af herferðinni eru pistlaskrif um öruggar borgir sem birtast munu á heimasíðu Kjarnans á meðan að herferðin stendur yfir. Hjarta hennar er á heimasíðunniwww.oruggborg.is. Hægt er að lesa meira um herferðina og styrkja sambærileg verkefni í fátækustu löndum heims á heimasíðu landsnefndar UN Women á Íslandi.