Þörf fyrir mannúðaraðstoð í Úkraínu er meiri að umfangi heldur en við höfum séð í Evrópu í áratugi og á ástandið því miður líklega eftir að versna mikið áður en það batnar og uppbygging getur hafist. Sérstaða Rauða krossins sem hlutlauss og óhlutdrægs aðila og verndara Genfarsamninganna veita hreyfingunni einstakt aðgengi sem fáir ef nokkur annar hefur á átakavæðum. Þess vegna skiptir starf Rauða krossins í Úkraínu og nágrannaríkjum þess miklu máli.
Fjöldi sjálfboðaliða Rauða krossins ber hjálparstarfið uppi í Úkraínu
Þegar átökin hófust hafði Rauði krossinn í Úkraínu um þrjú þúsund sjálfboðaliða á sínum snærum. Á síðustu vikum hafa mörg þúsund sjálfboðaliðar bæst við og nú eru um sex þúsund sjálfboðaliðar á vegum Rauða krossins að sinna lífsbjargandi mannúðaraðstoð fyrir samborgara sína með dyggum stuðningi Alþjóða Rauða krossins. Það eru fá starfandi mannúðarsamtök í landinu en vonandi munu aðstæður batna fljótt svo fleiri geti annað hvort hafið starfsemi eða aukið umfang sitt því engin ein samtök geta gert allt. En á meðan ástandið er eins og það er skiptir stuðningur við mannúðarstarf Rauða krossins sköpum og hver króna skiptir máli.
Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Alþjóðaráð Rauða krossins reynt að greiða fyrir öruggum brottflutningi almennra borgara með viðræðum við deiluaðila. Slíkt er hægt í krafti hlutleysis Rauða krossins. En Rauði krossinn hefur fleiri hlutverk og reynir m.a. að tryggja virkni nauðsynlegra innviða í landinu á tímum vopnaðra átaka, svo sem með stuðningi við sjúkrahús og heilsugæslur í landinu og að halda vatnsveitum gangandi. Rauði krossinn sinnir dreifingu matvæla, vatns og aðhlynningu við fólk sem heldur sig m.a. í neðanjarðarbyrgjum af ótta við loftárásir. Mikill matarskortur er á ákveðnum svæðum innan Úkraínu og skortur fyrirséður annars staðar. Verst er ástandið í umsetnum borgum á borð við Mariupol þar sem matvæli og vatn bráðvantar. Rauði krossinn gerir sitt besta að greiða fyrir öruggum flutningi fólks þaðan og koma þangað vistum.
Hjálparstarfið reynir á þanþol Rauða krossins
Álag á sjálfboðaliða Rauða krossins í Úkraínu sem koma samborgurum sínum til hjálpar er gríðarlegt. Þeir eru líka þolendur en stíga upp og sinna mjög óeigingjörnu, krefjandi og erfiðu hjálparstarfi. Þeim til stuðnings er öflug hreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans sem stendur saman sem ein heild. En okkur vantar meiri stuðning - okkur vantar þinn stuðning.
Væntingar til mannúðarstarfs Rauða krossins eru miklar í þessum átökum sem og öðrum og við sem hreyfing munum standa undir þeim væntingum. Á Íslandi sem og í nágrannalöndum Úkraínu standa Rauða kross félögin vaktina og taka á móti fjölmennum hópi flóttafólks frá Úkraínu. Í því verkefni getum við öll lagst á árarnar við að gera komuna hingað til lands bærilegri. Hlúð í sameiningu að fólkinu sem hefur eins og annað flóttafólk gengið í gegnum miklar hremmingar og þarf á stuðningi okkar allra að halda.
Hægt er að styðja við mannúðarstarf okkar í Úkraínu með því að senda sms-ið HJALP í 1900 eða í gegnum raudikrossinn.is
Höfundur er sviðsstjóri hjálpar- og mannúðarsviðs Rauða krossins á Íslandi