Líkt og kom fram í síðasta hraunmola, þá er bráðið hraun varhugavert í meira lagi. Hálfstorknað hraun gefur sakleysislegt yfirbragð sem veitir falskt öryggi fyrir hættunni sem stafað getur af rauðglóandi hrauninu undir niðri.
Pistill síðustu viku vakti nokkra athygli og ein algengasta spurningin sem við fengum í kjölfarið var þessi: hvað gerist ef þú fellur í glóandi hraun?
Að sökkva í bráðið hraun
Þær eru allnokkrar stórmyndirnar sem hafa notað gjósandi eldfjöll sem sviðsmynd fyrir dramatískum endalokum lykilsögupersóna. Terminator 2 er fyrirtaks dæmi en einnig Hringadróttinssaga þar sem hinn aumkunnarverði Gollum fellur ásamt hringnum kæra í ómynni hraunsins og hverfur í glóandi djúpið.
Hraun er nefnilega ansi þétt í sér, nánar tiltekið þrisvar sinnum þéttara en vatn, sem er ef til vill ekki svo undarlegt ef litið er til þess að bráðið hraun er ekkert annað en grjót í fljótandi formi.
Til samanburðar er saltvatnið í Dauðahafi með ca. 25% meiri þéttleika en vatn, sem gerir fólki auðvelt að fljóta um án mikillar fyrirhafnar. Með öðrum orðum; þéttleiki vökva hefur áhrif á það hve auðveldlega við sökkvum.
Ef þú myndir detta í hraunpoll er því nánast ómögulegt að þú myndir hverfa sökkvandi ofan í glóandi hraunið, ólíkt því sem kvikmyndirnar hafa talið þér trú um. Þú myndir öllu heldur fljóta ofan á þykkum vökvanum.
Dauðans alvara
En þó glóandi hraunið gleypi þig ekki með húð og hári er harla ólíklegt að þú sleppir frá því lifandi. Í stað þess að sökkva í hraunið kviknar einfaldlega í þér. Glóandi hraun er allt að 1250° heitt – meira en 10 sinnum heitara en sjóðandi vatn - og því munu vítiseldar umvefja þig á örskotsstundu með þeim afleiðingum að þú fuðrar upp. Það eina sem eftir stendur verður aska sem svo bráðnar og rennur saman við glóandi hraunið. Game over.
Boðskapur pistilsins er því einfaldur: Engan fávitaskap. Njótum þess að skoða og upplifa þetta náttúruundur sem eldgosið á Reykjanesi er en berum tilhlýðilega virðingu fyrir móður jörð og höldum okkur í hæfilegri fjarlægð frá nýju hrauni.
Höfundar eru stofnendur og eigendur Icelandic Lava Show í Vík í Mýrdal.