Tónlistarmaðurinn Jóhann Helgason bíður nú áheyrnar áfrýjunardómstóls í Bandaríkjunum í máli hans gegn Universal vegna líkinda Söknuður við lagið You Raise Me Up. Fyrirtaka er fyrirhuguð þann 16. nóvember næstkomandi. Málatilbúnaður Jóhanns hefur ekki fengið hljómgrunn hingað til.
Ágreiningur tengdur höfundarrétti á tónlist rekur reglulega á fjörur dómstóla í Bandaríkjunum. Eftir niðurstöðu í svokölluðu Blurred Lines máli árið 2018 milli handhafa höfundarréttar lagsins Got to Give it Up eftir Marvin Gaye og Pharrell Williams og Robin Thicke, höfunda Blurred Lines hafa slík mál tekið sérstaka stefnu. Nokkuð er um samanburð á netinu á lögunum. Dómstólar töldu höfunda Blurred Lines ekki endilega hafa stolið úr laginu miðað við hefðbundna mælikvarða um samanburð laglínu og hljóma en töldu frekar að höfundarnir hafi, án heimildar, nýtt sér það sem kallað er „feel“ eða „vibe“ eldra lagsins frá 1977. Annar höfunda lagsins, Pharrell Williams hafði m.a. áður sagt að lagið Blurred Lines væri virðingarvottur (e. homage) til þeirrar tónlistarstefnu sem lagið Got to Give it Up á rætur í. Það sem fyrst og fremst var áþekkt með lögunum var trommutaktur og taktur (e. pattern) spilaður á kúabjöllu sem saman mynduðu ákveðna stemningu. Niðurstaðan var afar umdeild og einn dómaranna skilaði beittu minnihlutaáliti og taldi að meirihluti dómsins hafi heimilað handhöfum höfundarréttar eldra lagsins það sem engum hafi áður tekist, að slá eign sinni á tiltekna tegund tónlistar (e. musical style) og að þetta muni „strike a devastating blow to future musicians and composers everywhere“ (sjá minnihlutaálit á bls. 57). Handhafar höfundarréttarins töldu þetta að sama skapi sigur fyrir tónlistarfólk.
Óskýrar línur
Dómurinn og málshöfðunin höfðu mikil áhrif. Málarekstur af þessu tagi er kostnaðarsamur, tekur langan tíma og bótafjárhæðir geta verið svimandi háar. Til dæmis var höfundum Blurred Lines, til viðbótar við bótagreiðslu, gert að afsala helming tekna af framtíðar stefgjöldum lagsins til erfingja Marvin Gaye. Til að forðast langvinnar og kostnaðarsamar deilur eru tónlistarmenn í Bandaríkjunum því einfaldlega farnir að gefa eftir hluta af höfundarrétti sínum ef upp koma sjónarmið um að þeir hafi verið of innblásnir af tiltekinni tónlist eða jafnvel tónlistarstefnu. Þannig afsalaði til dæmis Sam Smith hluta af höfundarrétti sínum vegna lagsins Stay With Me til Tom Petty sem samdi lagið I Won‘t Back Down þrátt fyrir að höfundar Stay With Me hafi fullyrt að þeir hafi ekki vitað af lagi Tom Petty og alls ekki haft það í huga við sína sköpun. Annað dæmi er afsal Taylor Swift á hluta höfundarréttar vegna lagsins Look What you Made Me Do þar sem umræða skapaðist um að viðlag lagsins (sjá 1:05 og áfram) hafi verið of „innblásið“ af helsta sköpunarverki hljómsveitarinnar Right Said Fred, I‘m Too Sexy.
Þessi þróun hefur leitt til þess að frægt tónlistarfólk er nú hikandi við að ræða hvaðan það sækir sinn innblástur af ótta við að aðilar muni í kjölfarið krefjast hluta af höfundarrétti laga. Ástæðan er sú að lítill hluti í höfundarrétti lags sem slær í gegn í Bandaríkjunum getur auðveldlega skilað umtalsverðum fjármunum í formi stefgjalda vegna spilunar í útvarpi.
Himnastiginn
Tveir dómar hafa þó nýlega fallið vestanhafs í málum kunna að hafa áhrif á þessa þróun. Annars vegar er um að ræða sigur Katy Perry í máli sem varðar samanburð á smelli hennar Dark Horse við lag rapparans Marcus Gray, Joyful Noise. Perry hafði áður tapað málinu í undirrétti. Hins vegar er um að ræða mál þar sem höfundar lagsins Spirit með hljómsveitinni Taurus höfðuðu gegn Robert Plant höfundi Stairway to Heaven. Það er óþarfi að hlekkja á hið síðarnefnda enda upphafsstefið sem um ræðir svo þekkt að allir þeir sem reyna að spila það inn í gítarbúðum eru umsvifalaust reknir út. Sá hluti lagsins Spirit sem Taurus menn töldu Plant hafa fengið lánaðan byrjar á 0:43 hér.
Sá málarekstur hófst árið 2013 en lauk árið 2020 með endanlegum sigri Robert Plant. Höfundar Spirit héldu því m.a. fram að Robert Plant hafi þekkt lagið Spirit þar sem hann hafi heyrt það á tónleikum í Birmingham árið 1970, rétt áður en Stairway to Heaven kom út. Bassaleikari Taurus, Mark Andes nokkur, bar því við að eftir þá tónleika hafi hann og Plant spilað saman snóker. Plant kom fyrir dóminn. Hann mundi aðspurður ekkert frá þessu kvöldi vegna þess að hann og kona hans lentu í bílslysi á leið heim það kvöld þar sem höfuð þeirra skall í framrúðu Jaguarbifreiðar hans og sem olli minnisleysi. Tónlistarsérfræðingar málsins sögðu að sá hluti laganna sem kalla mætti sambærilegan væri afar algengt stef sem þekkt hafi verið jafnvel öldum saman. Meðal annars var vísað til lagsins Chim Chim Cher-ee frá 1964 úr dans- og söngvamyndinni Mary Poppins.
Á Íslandi hafa dómstólar ekki fengið tækifæri til að afmarka á hvaða hátt þeir muni bera saman eitt tónverk eða hluta úr tónverki við annað við mat sitt á því hvort um ólögmæta notkun hugverks sé að ræða í skilningi höfundalaga. Slík mál hafa þó vissulega komið upp.
Til eru dómar frá Norðurlöndunum þar sem reynt hefur á líkindi laga í skilningi höfundarréttar en íslenskir dómstólar líta oft til norrænnar framkvæmdar. Sem dæmi má nefna höfunda sænska lagsins Tala um Vart Du Ska Rese frá 1973 sem töldu höfunda lagsins Vil Du Bli Min Fru frá 1995 hafa farið ófrjálsri hendi um einfalt fiðlustef í upphafi fyrrnefnda lagsins. Á það féllst Hæstiréttur Svíþjóðar.
Höfundur er lögmaður sem sérhæfir sig m.a. í hugverkarétti.