Líkt og flest ár hefur þetta ár verið viðburðaríkt og ekki síður meðal hinsegin fólks. Eins og við var að búast höfðu skipulagðar samkomur setið á hakanum í COVID og fólk þyrst í að hittast og njóta samveru. Þetta varð ljóst strax í upphafi árs þegar takmörkunum var aflétt. Gleðin var almennt við völd og gamlir kunningjar fengu tækifæri til að hittast aftur. Fljótlega varð líka ljóst að það var að bætast í hópinn. Að sjálfsögðu. Stór hópur fólks sem hafði setið eitt með sjálfu sér í COVID hafði fengið tækifæri til að líta inn á við og var núna tilbúið að koma út úr skápnum. Aðsókn í ráðgjafarþjónustu Samtakanna ‘78 jókst því í kjölfar COVID og mæting á viðburði var til fyrirmyndar. Það er kannski fulldjúpt í árina tekið að segja að COVID hafi sparkað heilu hópunum af fólki út úr skápnum en líklega hefur eitthvað fólk fundið sér aðstæður þar sem það var tilbúið að opna sig og koma úr felum. Og verið líka velkomin!
Tryggjum mannréttindi
Á heildina litið einkenndist árið 2022 af gleði, velvild og framförum. Á þingi töluðu bæði ríkisstjórn og stjórnarandstaða máli hinsegin fólks og sumt varð að veruleika, eins og aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks, og annað ekki, svo sem bann við bælingarmeðferðum á hinsegin fólki. Hvort tveggja eru gríðarlega mikilvæg mál fyrir okkur. Aðgerðaáætlunin setur ríkisstjórninni skýran ramma um þær bragarbætur sem ráðast skal í á næstu árum og við gerum ráð fyrir að hún verði endurskoðuð reglulega og haldið við. Samkvæmt henni stefnir Ísland á eitt af efstu sætum regnbogakorts ILGA Europe um réttindi hinsegin fólks og í ár hækkuðum við úr 16. sæti í það 11. eftir nokkra endurskoðun. Bann við bælingarmeðferðum er síðan sjálfsagt mannréttindamál og ég vona að það komist á dagskrá þingsins sem fyrst svo af því geti orðið. Það telur líka tvö stig inn á regnbogakortið.
Gleðin við völd
En ánægjan með árið er ekki aðeins vegna réttarbóta heldur einnig vegna þess að það gáfust svo mörg tækifæri til að njóta samveru og læra hvert af öðru. Haldið var Landsþing hinsegin fólks í mars, Norræn hinsegin ráðstefna í Osló í maí og Regnbogaráðstefna á Hinsegin dögum í ágúst. Raunar voru Hinsegin dagar líklega einir þeir veglegustu sem haldnir hafa verið með Pride center á Gayrsgötu, fjöldanum öllum af viðburðum, áðurnefndri ráðstefnu og síðast en ekki síst gleðigöngunni sem var gengin aftur í fyrsta sinn síðan 2019. Það er ómetanlegt fyrir okkur að fá að hitta samfélagið okkar á svona hátíðisdögum og þess vegna gleðst ég sérstaklega yfir öllum hinsegin hátíðunum sem farið er að halda utan Reykjavíkur.
Menningin er ekki síður mikilvæg. Hinsegin listasýning í Nýló var skemmtileg og metnaðarfull nýlunda og Góðan daginn faggi fór hringferð um landið. Nokkrar hinsegin bækur eru líka í jólabókaflóðinu. Þá voru fundin upp fjögur ný hýr tákn fyrir íslenskt táknmál yfir orðin eikynhneigð, kynsegin, kvár og stálp og við héldum kváradaginn hátíðlegan í fyrsta skipti. Kváradagurinn er fyrsti dagur einmánaðar, líkt og bóndadagurinn er fyrsti dagur þorra og konudagurinn í góu. Til að hinsegin fólk geti verið hluti af samfélaginu þurfum við að fá að taka þátt. Við þurfum að vera sýnileg í menningunni, í listunum og á bókasöfnum. Við þurfum að eiga orð eða tákn til að tala um okkur og geta fundið okkur í þjóðháttunum.
Einkennilegt hundaæði
Árið 2022 var þó ekki bara dans á rósum. Í byrjun sumars leit út fyrir að m-bólufaraldur yrði vandamál á Íslandi og þá sérstaklega meðal karla sem sofa hjá körlum. Þetta var reiðarslag svo stuttu eftir COVID og minnti óneitanlega á upphaf HIV faraldursins. Til allrar hamingju brugðust bæði stjórnvöld, heilbrigðisstofnanir og einstaklingar rétt við og útbreiðsla sjúkdómsins varð lítil sem engin. Öllu verra var þó að á sama tíma greip hundaæði landann og unglingar tóku að gelta á hinsegin fólk úti á götu. Einhver skáru niður regnbogafána í kringum Hinsegin daga og smám saman kom einhver undirliggjandi illvild fram sem hefur fengið að grassera. Bakslagið á Íslandi er ekki einsdæmi en frá því í sumar hafa óvenjumargar skotárásir á hinsegin fólk verið framdar og þá ristir skotárásin í Osló, stuttu fyrir pride þarlendis, dýpst. Til allrar hamingju hefur ekki komið til manntjóns hérlendis en þó er ástæða til að bregðast hratt og örugglega við þessu bakslagi og tryggja að það verði engu okkar að fjörtjóni. Ég vil ekki upplifa raunverulegan skort á hommum á Íslandi, né heldur öðru hinsegin fólki.
Stofnun ársins
Líklega eru hvorki FIFA né Sundsamband Íslands stofnun ársins í hugum hinsegin fólks. HM í Katar fór fram í skugga mannréttindabrota og þrátt fyrir að hvers kyns hinseginleiki sé ólöglegur þar í landi og Sundsambandið kaus með því að Alþjóða sundsambandið útilokaði trans konur frá keppni á heimsmeistaramótum í sundi. Hvorugt er til mikillar fyrirmyndar en ekki er útilokað að sýna megi betrun og iðrun, líkt og Kirkjan gerði. Verkefnið Ein saga - Eitt skref var kynnt í Skálholti í sumar þar sem sögur hinsegin fólks af misgjörðum af hálfu kirkjunnar eru teknar saman, skráðar og birtar. Verkefnið er tilraun Kirkjunnar til að horfast í augu við söguna, viðurkenna mistök og gera betur.
Eins og flest önnur áramót er hollt að líta yfir genginn veg og meta hvernig tekist hefur til. Undanfarið hefur borið mikið á neikvæðum fréttum um bakslag og hryðjuverkaógn en gleymum ekki öllu því jákvæða sem hefur gerst líka. Bæði Samtökin ‘78 og Hinsegin dagar hafa stækkað og geta sinnt tilgangi sínum enn betur í samstarfi við Trans Ísland, Intersex Ísland og fleiri hinsegin félög. Hinsegin menning og listir hafa að mörgu leyti blómstrað og við munum fá fullt af góðum tækifærum til að styðja hvert annað.
Þegar árið rennur sitt skaut er líka gott að hugsa hvað við viljum gera betur á nýju ári og þeim næstu. Hlúum hvert að öðru og að okkur sjálfum. Leyfum ekki kjánum að drífa fram óþarft bakslag í réttindum okkar. Stöndum frekar saman gegn óþarfa fáfræði og aðkasti og höldum áfram að vera sýnileg. Stolt, sýnileg og fyrst og fremst sannarlega við sjálf.
Og ef þú kæri lesandi ert ekki hinsegin, hvað ætlar þú að gera til að leggja þitt af mörkum? Við treystum líka á þinn stuðning.
Höfundur er formaður Samtakanna '78.