Afnám vörugjalda nú um áramótin markar einn stærsta sigur íslenskrar verslunar um áratugaskeið og þar með neytenda hér á landi. Mér segist svo hugur að það muni koma Íslendingum á óvart á nýju ári hversu margir vöruflokkar munu lækka í verði með afnámi þessa ömurlega skatts.
Margrét Kristmannsdóttir
Ég held að ekkert eitt hafi skaðað íslenska verslun eins og vörugjöldin og við afnám þeirra mun verðlag á mörgum vörum lækka um tugi prósenta og allur samanburður á verðlagi á milli landa verður mun auðveldari. Það mun síðan aftur móti veita versluninni aukið aðhald - en ekki síður mun afnám vörugjaldanna setja íslenska verslun í sanngjarnari samanburð. Við sem vinnum í verslun höfum nefnilega oft lent í því að neytandi ber saman vöru sem seld er erlendis án vörugjalda og jafnvel auglýst án virðisaukaskatts við vöru hér heima með báðum þessum sköttum. Það segir sig sjálft að sá samanburður verður ekki hagstæður fyrir íslenska verslun.
Undanfarið hefur því stundum verið haldið fram að verslunin muni ekki skila þessum lækkunum til neytenda, en það viðhorf lýsir mikilli vanþekkingu á verslun og krafti samkeppninnar. Sem dæmi hafa ljós borið 15 prósenta vörugjald og ef ég myndi ekki lækka ljós í minni verslun um áramót væri ég á sama tíma að gefa samkeppnisaðilum mínum mikið forskot – og fátt er nú verslunareigendum fjær að skapi en að færa samkeppnisaðilum sínum aukna markaðshlutdeild á silfurfati. Verslunin hefur sjálf barist af krafti fyrir afnámi vörugjalda til að auka gegnsæi og lækkun vöruverðs og þessari lækkun á verslunin að skila – punktur basta. Ef einhverjir telja sig komast hjá því er valið frjálst en afleiðingin ekki.
Heilt yfir er íslensk verslun að standa sig gríðarlega vel – úrval af vöru er mikið og er í raun ótrúlegur fjöldi verslana á þessum 320.000 örmarkaði. Í nágrannalöndum okkar finnst hvergi viðlíka úrval þegar bæir á stærð við íslenska markaðinn eru heimsóttir.
2015 – spennandi ár
Aukin netverslun er áskorun fyrir alla smásöluverslun og er fátt meira rætt á fundum evrópska hagsmunaaðila í verslun en hvernig rétt sé að bregðast við. Þessari þróun verður hins vegar ekki snúið við enda netverslun ákaflega þægileg fyrir neytandann. En á sama tíma og í þessu breytta umhverfi felist mikil áskorun er þetta einnig mikið tækifæri fyrir verslun – einnig verslun hér á landi.
En verslunin mun breytast - en þessi atvinnugrein hefur áður upplifað miklar breytingar og engin ástæða til annars en að vera bjartsýn á framtíð hennar.
Með góðri netverslun eru fyrirtæki í raun komin með risastóran búðarglugga út um allt land – og út um allan heim sem stækkar kaupendahópinn. Við finnum það í dag að flestir sem koma í verslanir okkar eða hringja inn hafa áður farið á netið til að skoða vöruúrvalið – heimsókn í verslunina sjálfa er oft aðeins lokahnykkur í sölunni. Manneskjan er enn því marki brennd að vilja gjarna máta – prófa - koma við og sjá flestar vörur með eigin augum áður en salan sjálf fer fram þannig að allt tal um dapra framtíð smásöluverslunar er stórlega ýkt! En verslunin mun breytast - en þessi atvinnugrein hefur áður upplifað miklar breytingar og engin ástæða til annars en að vera bjartsýn á framtíð hennar.
En hugsanlega geta breytingar líka gengið of langt – og umhugsunarefni hvort við höfum stigið einu skrefi of langt þegar kemur að lengingu opnunartíma verslana – sérstaklega fyrir jólin? Langur opnunartími er auðvitað til þæginda fyrir neytandann – en þessi opnunartími er ekki án kostnaðar. Spurningin er hins vegar hvort kaupmenn meti það sem svo að aukin arðsemi fylgi auknum opnunartíma, arðsemi sem að öðrum kosti myndi ekki skila sér til þeirra. Og hér erum við kaupmenn einfaldlega ekki sammála og niðurstaðan því sú að sumir hafa opið lengi á meðan aðrir loka fyrr.
Skömmu eftir hrun þegar verslun dróst verulega saman óskuðu Samtök verslunar og þjónustu eftir leyfi hjá Samkeppniseftirlitinu til að kalla helstu aðila í verslun saman til að skoða möguleika á að draga úr opnun verslana enda var það mat samtakanna að það eftirspurnarfall sem fylgdi hruninu kallaði á tilraun til að draga sem víðast úr kostnaði. Til að gera langa sögu stutta lagði Samkeppniseftirlitið mikið upp úr því að hvert fyrirtæki fyrir sig ákveddi sjálfstætt hvernig það hegðaði sér. Að mati Samkeppniseftirlitsins lyti samstarf eða samráð aðila í verslunarrekstri að því að samræma opnunartíma undir bannákvæði samkeppnislaga. Opnunartími verslana væri einfaldlega hluti af þjónustu þeirra og einn af samkeppnishvötum.
Flestir reikna með að verslunareigendur reki fyrirtæki sín á eins hagkvæman hátt og frekast er kostur. Ef ekki þá myndast einfaldlega tækifæri fyrir aðra til að koma inn á markaðinn og gera betur – um það höfum við Íslendingar mörg dæmi.
Hins vegar er alltaf gott að staldra við og endurmeta stöðuna og velta því upp hvort að við í verslun höfum í alla staði gengið götuna til góðs. Þegar gengið var að kvöldi til um götur stóru verslanamiðstöðvanna eða niður Laugaveg á miðri aðventunni í prýðisveðri og verslanir opnar til kl. 22.00 en örfáir á ferli - mátti draga þá ályktun að kannski er það ekki neytandinn sem er að kalla eftir þessum gríðarlega langa opnunartíma í desember.
Kannski höfum við ekki enn fundið jafnvægið á milli framboðs og eftirspurnar jólaopnunar og hugsanlega getum við gert betur fyrir jólin árið 2015?
Höfundur er kaupmaður í Pfaff.