Steinunn Jakobsdóttir.
Í hvert sinn sem ég er spurð að því hvort það sé ekki hættulegt að búa í Phnom Penh segi ég það sama og sagt var við mig fyrir sex árum síðan: Á meðan ég sýni almenna skynsemi er Phnom Penh ekkert hættulegri en London eða Reykjavík. Lykillinn að öryggi mínu er gott tengslanet. Vinir sem passa uppá hver annan, tuk-tuk bílstjórar sem hægt er að treysta að komi mér heillri heim á kvöldin, vinnufélagar sem stökkva til ef eitthvað kemur uppá. Í allri ringulreiðinni í Phnom Penh bera flestir kambótar sem ég hef komist í kynni við umhyggju fyrir öryggi mínu. Fyrir utan einstaka töskuþjófnaði og umferðaróhöpp er Phnom Penh alls ekki hættuleg borg fyrir konu frá Íslandi. Það sama má því miður ekki segja um margar kambódískar kynsystur mínar.
Í Kambódíu er heimilisofbeldi eitt stærsta réttindavandamál sem steðjar að konum. Misnotkun og vanvirðing fyrir réttindum kvenna er oft í beinum tenglsum við félagslega og efnahagslega stöðu þeirra í samfélaginu og í Kambódíu, sem og svo víða annars staðar, hafa konur ójafna stöðu þegar kemur að aðgengi að menntun og efnahagslegum tækifærum. Inngrónar menningarhefðir gera konur berskjaldaðar fyrir ofbeldi og skortur á fjárhagslegu sjálfstæði og stuðningi samfélagsins á stóran þátt í að þær kæra sjaldan gerendurnar. Nýleg rannsókn á vegum Sameinuðu þjóðanna leiddi í ljós að ein af hverjum fjórum konum hefur orðið fyrir heimilisofbeldi og meira en fimmtungur karlmanna segist hafa nauðgað konu amk einu sinni. Einungis brot af þessum nauðgunum munu nokkurn tíma verða teknar fyrir í réttarsal. Enn þann dag í dag brýtur það gegn venjum að kæra árásir eða nauðganir, sérstaklega ef þær eiga sér stað innan hjónabands, og algengt viðhorf er auk þess að skella skömminni á fórnarlömbin. Því miður nær þetta viðhorf einnig til yfirvalda, lögreglumanna og þeirra sem eiga að vernda réttindi kvenna í sínu starfi.
Í Phnom Penh er ofbeldi veruleiki alltof margra kvenna. Þetta er ofbeldi sem ég verð ekki vör við þegar ég geng um götur borgarinnar, enda er það yfirleitt falið innan veggja heimilisins.
Í Phnom Penh er ofbeldi veruleiki alltof margra kvenna. Þetta er ofbeldi sem ég verð ekki vör við þegar ég geng um götur borgarinnar, enda er það yfirleitt falið innan veggja heimilisins. Í gegnum vinnu mína hér síðustu ár hef ég þó séð að mikill styrkur er fólginn í því að byggja upp sterk tengslanet meðal kvenna og karla í hverfum þar sem ofbeldi og misnotkun eru algeng. Á sama hátt og ég hef byggt mér upp mitt öryggisnet, þá hef ég séð slíka hópa myndast víðs vegar um borgina með góðum árangri.
Með auknu aðgengi að iðnþjálfun og fjárfestingu hef ég séð athafnakonur sem áður höfðu litla sem enga menntun eða aðgang að fjármagni, stofna lítil fyrirtæki í hverfinu sínu og þar með auka fjárhagslegt sjálfstæði sitt. Þegar fjárhagsstaða þeirra er stöðug hafa þessar sömu konur verið móttækilegri fyrir fræðslu um réttindi sín og annarra og fengið þjálfun í að grípa til viðeigandi aðgerða ef þær verða vitni að mistnotkun. Á meðan yfirvöld og löggæsla sinna ekki sínu hlutverki hefur hópur kvenna og karla í fátækari hverfum borgarinnar tekið að sér það hlutverk að fræða aðra menn, konur og börn um hvað sé ofbeldi og geta veitt hvert öðru stuðning og aðstoð. Þessir sjálfboðaliðar sinna í dag hlutverki einskonar hverfislögreglu, sýnilegir í augum þolenda og hugsanlegra gerenda, og stuðla með því að að auknu öryggi, virðingu og vitundarvakningu.
Félagslegt og efnahagslegt sjálfstæði eflir ekki einungis stöðu kvenna innan heimilisins, heldur innan samfélagsins.
Félagslegt og efnahagslegt sjálfstæði eflir ekki einungis stöðu kvenna innan heimilisins, heldur innan samfélagsins. Með því að fjárfesta í menntun og viðskiptahugmyndum kvenna, efla sýnileika þeirra í samfélaginu, hvetja til opinskárrar umræðu um réttindi og ábyrgð er skref tekið í átt að því að brjóta niður veggi félagslegra fordóma um að berjast gegn og tilkynna misnotkun og ofbeldi, hvort sem er gegn konum, körlum eða börnum. Samfélög sem byggjast upp af hópum meðvitaðra einstaklinga sem vinna saman að því að skapa öruggt umhverfi, eru til staðar fyrir þolendur, ekki hræddir við að taka ábyrgð og berjast gegn gerendum og geta frætt börn sín og barnabörn um réttingi sín og annarra er mikilvægt skref tekið í átt að því að byggja öruggari borg. Það er fjárfesting sem mun hafa margföldunaráhrif og smám saman stuðla að breyttu viðhorfi samfélagsins.
Herferð UN Women á Íslandi um Öruggar borgir (e. Safe Cities Global Initiative) stendur yfir frá 18. til 25. nóvember. Hluti af herferðinni eru pistlaskrif um öruggar borgir sem birtast munu á heimasíðu Kjarnans á meðan að herferðin stendur yfir. Hjarta hennar er á heimasíðunniwww.oruggborg.is. Hægt er að lesa meira um herferðina og styrkja sambærileg verkefni í fátækustu löndum heims á heimasíðu landsnefndar UN Women á Íslandi.