Loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra komust svo sannarlega í kastljósið þetta árið.
Skriður, einhver stærstu flóð síðan mælingar hófust og hitamet, sem voru slegin hvað eftir annað, settu mark sitt á sumarið í Evrópu og Norður-Ameríku. Þessum öfgakenndu atburðum fylgdu bæði dauðsföll og skaði, en líkur á þeim eru mun meiri vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar síðustu áratugi.
Þrátt fyrir að afleiðingar loftslagsbreytinga hafi verið áberandi á árinu eru þær ekki nýtilkomnar. Um árabil hafa mörg hundruð þúsund manns látist ár hvert vegna loftslagsbreytinga. Það er hins vegar líkt og við áttum okkur ekki á alvöru málsins fyrr en verstu afleiðingarnar, sem hingað til hafa mestmegnis bitnað á íbúum suðurhvels Jarðar, færast sífellt nær okkar vestrænu, iðnvæddu samfélögum. Við höfum því fengið forsmekkinn af því sem koma skal ef ekki verður tekið á loftslagsvánni af nægilegri festu. Eini möguleikinn í stöðunni er að reyna að lágmarka skaðann og líkurnar á því að slíkar hamfarir, eða aðrar ófyrirsjáanlegar afleiðingar, verði daglegt brauð. Til þess að það verði raunhæft markmið þarf að takmarka hnattræna hlýnun við 1,5 gráðu frá iðnbyltingu. Ef það tekst ekki verðum við, ásamt framtíðarkynslóðum, dæmd til þess að lifa við síversnandi aðstæður vegna óafturkræfra breytinga á hringrásarkerfum Jarðar sem kippa undan okkur þeim stöðugleika sem samfélög okkar eru byggð á.
Það var með þessa vitneskju í farteskinu sem þjóðarleiðtogar heims mættu á 26. aðildarríkjafund Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, COP26, sem haldinn var í Glasgow í nóvember, og undirrituð var svo heppin að sækja. Þrátt fyrir fögur fyrirheit og háleitar ræður um alvarleika ástandsins, var ljóst á þriðja degi að þau markmið sem þjóðarleiðtogar kynntu voru ekki í samræmi við það neyðarástand sem þeir höfðu lokið við að lýsa. Það er þó lán í óláni að aðildarríki samningsins skildu að núverandi markmið sem stefna okkur í 2,4 gráða hlýnun eru óásættanleg, og var því ein niðurstaða fundarins að hvetja ríki til að uppfæra markmið sín strax á næsta ári, í stað þess að bíða í 5 ár líkt og innri taktur Parísarsáttmálans kveður á um.
Til að draga saman upplifun mína af COP26, voru margar ákvarðanir teknar sem færa okkur nær lífvænlegri framtíð, en ljóst er að betur má ef duga skal. Í stað þess að útlista það nánar vil ég tileinka þennan pistil því málefni sem er mér efst í huga eftir aðildarríkjafundinn, þ.e. loftslagsréttlæti, en á þeim vettvangi urðu einmitt vendingar þetta árið.
Til að skilja af hverju loftslagsóréttlæti stafar er nauðsynlegt að setja loftslagsvána í sögulegt samhengi. Þegar kemur að loftslagsbreytingum er það ekki losun á ársgrundvelli sem gefur okkur besta mynd af stöðunni, heldur uppsafnaðar birgðir gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Búið er að reikna út hve mikið uppsafnað magn koldíoxíðs (eða gróðurhúsalofttegunda yfir höfuð) í lofthjúpnum heldur okkur innan svokallaðs „öruggs svæðis“ þar sem röskun veðrakerfanna er viðráðanleg, hvar brúnin á milli afleiðinga sem við ættum að ráða við og ekki liggur. Nú þegar erum við komin yfir brúnina og eftir því sem við hættum okkur lengra eykur áframhaldandi losun gróðurhúsalofttegunda líkurnar á alvarlegri röskun á stöðugleika hringrásarkerfa Jarðar, og þar með samfélaga okkar eins og við þekkjum þau í dag. Við stefnum því hraðbyri inn í óvissuna um hvað framtíðin ber í skauti sér.
Þegar horft er til sögulegrar losunar er ljóst að lítill hópur hátekjuþjóða hefur bæði eignað sér langstærstan hluta „örugga“ kolefniskvótans sem og þeirrar losunar sem fer umfram hann. Þessi þróun hefur verið kölluð kolefnis- eða loftslagsnýlendustefna. Hér er því ekki úr vegi að draga upp samlíkingu við fyrsta hluta nýlendustefnunnar, en rétt eins og loftslagsóréttlæti dagsins í dag, olli hún gríðarlegri eyðileggingu á lífríki og samfélögum á suðurhveli Jarðar. Það eru einmitt ríki á suðurhveli Jarðar sem verða hvað verst úti vegna loftslagsbreytinga en bera á sama tíma minnsta ábyrgð á röskun kolefnishringrásar Jarðar.
Eftir hamslausa losun frá upphafi iðnbyltingar höfum við ákveðið að nú sé tími til að segja stopp, svallinu er lokið. En hvað með þau lönd sem eru á fyrstu stigum sinnar þróunarbrautar, og mættu of seint í „losunarpartýið“, partý sem gerði hinum vestræna heimi kleift að þróa iðnað og auka hagvöxt, velsæld og völd í áratugi? Nú þegar við höfum tilkynnt að partýið sé búið - ljósin kveikt og allir heim - er nauðsynlegt að sanngirnis sé gætt fyrir þau ríki sem við krefjumst að skipti strax yfir í lágkolefnahagkerfi í stað þess að feta í sótug spor iðnvæddra ríkja. Þó að ábatinn sé augljós til lengri tíma fyrir hvaða ríki sem er, þarf miklar innviðafjárfestingar, tæknikunnáttu og mannafla ef takast á að skipta með hraði yfir í lágkolefnahagkerfi, bjargráð sem mörg ríki búa ekki að.
Það eina siðferðislega rétta í stöðunni fyrir hátekjuþjóðir er því að styðja við þau lönd sem verða hvað verst úti vegna hamfarahlýnunar og eru verr í stakk búin að leggja í þær breytingar sem nauðsynlegar eru fyrir framtíð okkar allra. Slíkar aðgerðir falla í þrjá meginflokka: stuðningur til að draga úr losun, stuðningur við aðlögun að loftslagsbreytingum og loks skaðabætur eða trygging fyrir þær loftslagshamfarir sem þegar hafa dunið yfir þeim og eru óumflýjanlegar í framtíðinni. Skref í þessa átt voru vissulega tekin á COP26, en þau duga ekki til.
Hvað varðar fjármagn til aðgerða sem stuðla að samdrætti losunar var svikið loforð auðugra ríkja að veita 100 milljarða Bandaríkjadala árlega til loftslagsaðgerða frá og með árinu 2020 mest í deiglunni. Fyrir COP26 var áætlun sem á að tryggja að loforðið verði efnt ekki síðar en árið 2023, og standi fram til ársins 2025, kynnt [44. gr. kafli V]. Eftir það tímabil þarf að endurskilgreina árlegt markmið fyrir loftslagsfjármagn frá og með 2025, en ekki var gert ráð fyrir að sátt næðist um það á fundinum í ár. Þó sjást vísbendingar um hvaða upphæðir eru í umræðunni, t.a.m. í skjali þróunarríkja (LMDC og African Group) þar sem minnst á 1,3 billjónir Bandaríkjadala árlega fyrir árið 2030, skipt til helminga milli aðgerða til samdráttar í losun og til aðlögunar [8. gr.]. Enn fremur eiga a.m.k. 100 milljarðar Bandaríkjadala af þessari upphæð að vera í formi styrkja, en stór hluti núverandi loftslagsfjármagns til þróunarlands eru lán. Klausan var þó tekin úr skjalinu áður en lokaútgáfa þess var gefin út en gefur vísbendingu um að núverandi markmið komist ekki í hálfkvisti við þá upphæð sem þróunarlönd telja sig þurfa á að halda, eigi loftslagsmarkmið að takast með sanngirni að leiðarljósi.
Hvað varðar stuðning til aðlögunar var samþykkt á fundinum að hvetja þróuð ríki til að tvöfalda sameiginlegt fjármagn til aðlögunar vegna loftslagsbreytinga árið 2025 (miðað við 2019) [18. gr. kafli III]. Það jafngildir 40,2 milljörðum Bandaríkjadala, en sú upphæð dugar skammt upp í raunkostnað aðlögunar fyrir þróunarlönd, sem er um 70 milljarðar Bandaríkjadala árlega, og gæti rúmlega fjórfaldast fyrir árið 2030.
Hvað varðar fjármagn til skaðabóta eða tryggingar gegn loftslagshamförum, þ.e.a.s. þeim skaða sem ekki er hægt að aðlagast, kröfðust þróunarlönd þess að stofnaður yrði alþjóðlegur loftslagshamfarasjóður. Sú krafa hlaut mikla mótstöðu frá Bandaríkjunum og Evrópusambandinu, og úr varð samkomulag um að stofna samráðsvettvang um fjármögnun loftslagshamfarasjóðs [73. gr. kafli VI].
Það er því langt í land þar til kröfu þróunarlanda um loftslagsréttlæti verður fullnægt, en á COP26 urðu þó breytingar til batnaðar. Loftslagsbreytingar eru hnattrænt vandamál, og krefjast þess að við tökumst á við það sem slíkt. Árangurinn ræðst síðan af því hvernig við sem heild stöndum okkur. Við höfum látið baráttuna við annað hnattrænt vandamál, faraldur kórónuveirunnar, einkennast, að miklu leyti, af ójöfnuði og eiginhagsmunum ríkja, sem kemur auðvitað niður á árangrinum. Endurtökum ekki sömu mistökin tvisvar. Látum 2022 vera skráð í sögubækurnar sem árið sem einkenndist af réttlátum og metnaðarfullum aðgerðum í loftslagsmálum. Augu komandi kynslóða hvíla á okkur og til alls er að vinna.
Höfundur er formaður Ungra umhverfissinna og meistaranemi í umhverfis- og auðlindafræði.