Stafrænir flassarar: Siðferðisskortur og siðleysi í samskiptum

Hrafnhildur Sigmarsdóttir segir að núverandi heimsmynd okkar, almenn siðferðiskennd og skoðanir þeirra embættismanna sem skipta máli og þeirra sem telja sig skipta máli sé staðfesting á því að við séum enn óralangt frá hápunkti siðferðisþroska mannsins.

Auglýsing

Þegar ég var ung var það vitað mál að sumir menn stund­uðu að bera sig fyrir framan börn, ung­linga og aðra grun­lausa á víða­vangi. Þeir voru kall­aðir flass­arar og þóttu aga­legir perr­ar. Flestir voru sam­mála um að þessir menn gengju ekki heilir til skógar og fæstir vildu bendla sig við þá á nokkurn hátt. Okkur var kennt að hlaupa í burtu frá svona mönn­um. Með fram­förum í tækni virð­ast þessir ein­stak­lingar hafa fært athæfi sitt yfir á netið og tek­ist að gera það að eðli­legum og sjálf­sögðum við­burði í þroska­sögu ungra ein­stak­linga. Staf­rænt flass þekk­ist í dag­legu tali sem “typpa­mynd” og algengt er að ungar konur fái þessar myndir óum­beðnar og að brotið sé á börnum með þessum hætti.

Gagn­reynd þekk­ing eða geð­þótta­skoðun

Kyn­ferð­is­of­beldi hefur fjöl­mörg birt­ing­ar­form. Þegar talað er um kyn­ferð­is­of­beldi er m.a. átt við: Nauðg­un, kyn­ferð­is­of­beldi gagn­vart börn­um,  klám, vændi, kyn­ferð­is­lega áreitni, kyn­ferð­is­legar þving­anir og staf­rænt kyn­ferð­is­of­beldi.

Mögu­legar heilsu­farsaf­leið­ingar fyrir þolendur eru alvar­leg­ar. Algengar afleið­ingar af kyn­ferð­is­of­beldi eru m.a. áfallastreiturösk­un, kvíði, þung­lyndi, átrösk­un, ein­angr­un, erf­ið­leikar í sam­skipt­um, erf­ið­leikar með svefn og ein­beit­ingu, erf­ið­leikar í kyn­lífi og oft ögrandi kyn­ferð­is­leg hegð­un. Þá er algengt að þolendur glími við lélega sjálfs­mynd í kjöl­farið af kyn­ferð­is­of­beldi, hafi lík­am­lega verki, stundi sjálfs­skaða og upp­lifi sjálfs­vígs­hugs­an­ir. Til­finn­ingar eins og ótti, reiði, skömm og sekt­ar­kennd geta ásótt þolendur í miklum mæli og skert lífs­gæði þeirra stór­kost­lega.

Auglýsing

Konur og börn eru lang oft­ast þolendur og ger­end­urnir eru í yfir­gnæf­andi meiri­hluta karl­ar. Í til­efni að skipan nýrra emb­ætt­is­manna og þeirra sem þá aðstoða þá skal það tekið fram að full­yrð­ing þessi er byggð á töl­fræði­legum upp­lýs­ingum úr rann­sóknum og gagn­reyndri, marg­reyndri og sann­reyndri þekk­ingu en ekki geð­þótta­skoð­unum önugra kvenna.

Ger­and­inn

Þegar kemur að ein­stak­lingum sem brjóta kyn­ferð­is­lega á full­orðnum og börnum viljum við að þetta séu fram úr hófi óaðl­að­andi menn sem eng­inn vill þekkja og að þeir séu helst ein­getnir og án móð­ur. Krafan er órök­rétt en í sam­ræmi við heims­myndarósk þeirra sem ekk­ert illt vilja sjá eða vita. Við viljum að þeir líti út fyrir að vilja öðrum skaða. Við viljum að þeir þekki ekki fórn­ar­lömb sín og ráð­ist á þau úr laun­sátri þar sem þau eru grun­laus, varn­ar­laus og ein. Stað­reyndin er hins vegar önnur og það virð­ist skekkja heims­mynd fólks.

Kyn­ferð­is­brot á sér oft­ast stað innan fjöl­skyldna eða ann­arra kunn­ugra rýma. Kyn­ferð­is­af­brota­menn sam­tím­ans eru m.a.  vinir okk­ar, feð­ur, syn­ir, afar og frænd­ur. Þetta geta líka verið óska­börn þjóð­ar­inn­ar, dáða­drengir og sam­ein­ing­ar­tákn bæja og borga. Þetta eru menn sem fólk kann vel við og þykir vænt um. Þegar þessir ein­stak­lingar eru grun­aðir um kyn­ferð­is­brot virð­ist heims­mynd margra hrynja. Aðstand­endur og aðdá­endur upp­lifa holl­ustuklemmu og þar sem kyn­ferð­is­af­brot eru alvar­leg og ógeð­felld frá­viks­hegðun þá virð­ist of mörgum tamara að deila sök­inni með þol­anda, afneita sann­leik­anum eða afbaka stað­reynd­ir. Þol­and­inn þjá­ist í kjöl­farið meira en þurfa þykir og upp­lifir sig án stuðn­ings og er þar af leið­andi fullur efa­semda um alvar­leika eða jafn­vel til­vist brots. Ger­enda­með­virkni og gas­lýs­ing ryður sér til rúms með offorsi og andúð.

Gas­lýs­ing og mótun heims­myndar í ham­stola heimi.

Gas­lýs­ing er í grunn­inn sið­laus sam­skipta­tækni sem oft er beitt sem vopni í sam­skiptum og er hættu­leg sál­ar­heill þeirra sem fyrir henni verða. Ein­stak­lingar geta beitt þess­ari tækni í nánum sam­skiptum sem og í gegnum fjöl­miðla og aðra staf­ræna miðla þegar þarf að stýra umræðu eða styrkja eða skapa almanna­á­lit. Flestir vilja ekki lifa í ljótum heimi og breyta honum m.a. með því að afneita stað­reyndum eða líta undan þegar óþægi­legur heimur kallar á athygli og aðgerð­ir. Til­gangur sam­skipta­tækn­innar er m.a. að styrkja heims­mynd þess sem sam­skipta­tækn­inni beitir og öðl­ast yfir­ráð yfir skoð­ana­mótun ann­arra. Mark­mið sam­skipt­anna er að þol­and­inn fari að efast um sjálfan sig og upp­lif­anir sínar og er það í raun þunga­miðjan í sam­skipta­tækn­inni. Þol­and­inn upp­lifir stöðugt ástand óvissu og óör­yggis og er það óspart notað gegn hon­um. Hann missir þannig sjónar á hver hann er, hvar mörkin hans liggja, hvað hann stendur fyrir og hvað hann hefur í raun og veru upp­lif­að. Þar af leið­andi er auð­veld­ara að stýra þol­and­anum og stilla upp sam­kvæmt heims­mynd ger­and­ans og aðstand­anda þeirra.

Þolendur kyn­ferð­is­brota hafa lengi þurft að þola þessa sið­lausu sam­skipta­tækni af hendi fjöl­miðla, ein­stak­linga og ráða­manna þegar kemur að því að beita rödd sinni og reynslu til betr­unar ljótum heimi.

Úbbosí nauðg­anir og per­sónu­leik­arask­anir

Það geta verið nokkrar ástæður fyrir því að ein­stak­lingar beita kyn­ferð­is­of­beldi. Mis­skiln­ingur er sjaldn­ast ein þeirra. Hins vegar virð­ist orð­ræðan og almanna­á­lit vera að hall­ast í átt­ina að almennri óheppni og óvæntu feil­spori góðra drengja sem á ekki að hafa langvar­andi afleið­ing­ar. Sam­fé­lagið vill sam­þykkja að kyn­ferð­is­brot geti gerst óvart. Úbbosí mér urðu á mis­tök á segir góði dreng­ur­inn, sam­fé­lagið sam­þykkir og þol­and­inn er þagg­aður til langvar­andi þján­ing­ar. Vits­muna­sam­fé­lagið svo­kall­aða á að krefj­ast ítar­legri svara þegar kemur að frá­viks­hegðun þeirra sem aðra meiða og þá sér­stak­lega þá sem meiða konur og börn kyn­ferð­is­lega. Óháð því hvort þú telur kyn­bundið ofbeldi vanda­mál eða ekki þá getum við flest verið sam­mála um að ekk­ert óhapp eða úbbosí leiði til kyn­ferð­is­of­beldis gegn börn­um. Því voða­verki fylgir nær und­an­tekn­ing­ar­laust ásetn­ing­ur, algjört skeyt­ing­ar­leysi og stjórnlaus sið­blinda.

Ákveðnar per­sónu­leik­arask­anir geta verið ein ástæða ofbeld­is­verka ein­stak­linga. Það sem þeim er sam­eig­in­legt er að þar fara fram trufl­anir á hugs­un, hegðun og virkni ein­stak­lings­ins. Rann­sóknir hafa sýnt að ein­stak­lingar með per­sónu­leika­röskun eigi erf­ið­ara með að bregð­ast við breyt­ingum og almennum kröfum dag­legs lífs og að þeir eigi erf­ið­ara með að mynda og við­halda nánum sam­bönd­um. Hegðun þess­ara ein­stak­linga getur verið ósveigj­an­leg, mjög öfga­kennd og óstöðug og valdið miklum erf­ið­leikum í sam­skipt­um. Þær per­sónu­leik­arask­anir sem hvað helst geta valdið mök­um, börnum og öðrum nánum aðstand­endum lík­am­legri og and­legri van­líðan er t.d. sjálfs­upp­hafn­ing­ar­per­sónu­leika­röskun (NPD) og and­fé­lags­leg per­sónu­leika­röskun (ASPD). Þessir ein­stak­lingar lækn­ast ekki þrátt fyrir ást, þol­in­mæði og góðan ásetn­ing aðstand­enda sinna og ást­vina. Þessi vandi þarfn­ast ávallt fag­legrar íhlut­unar og ekki er hægt að ábyrgjast lækn­ingu.

Sið­blinda er talin alvar­legur fylgi­kvilli ofan­tal­inna per­sónu­leik­arask­ana. Nanna Briem geð­læknir talar hins vegar um sið­blindu sem per­sónu­leika­röskun og eina þá alvar­leg­ustu. Dr. Robert Hare er einn af þeim sál­fræð­ingum sem hvað mest hefur rann­sakað sið­blindu. Þró­aði hann sér­stakan gát­lista yfir ein­kenni sið­blindu til að auð­velda grein­ingu. Ein­kenni sið­blindu eru m.a. eft­ir­far­andi: Per­sónu­töfrar sem oft geta verið heill­andi og laðar fólk að. Þeir geta verið góðir í að koma fyrir sig orði og eru oft með ótrú­legan sann­fær­ing­ar­kraft. Þeir hafa oftar en ekki yfir­burða­hug­myndir um eigið ágæti og ekk­ert er þeim ofviða eða ofar þekk­ing­ar­hæfni. Sið­blindir ein­stak­lingar hafa ekki sam­kennd­ar­hæfni eins og annað fólk og hafa þar af leið­andi ekki áhyggjur af afleið­ingum gjörða sinna. Þá skortir almennt sam­hygð og neita að setja sig í spor ann­ara og sjá þar af leið­andi ekki annað fólk sem til­finn­inga­ver­ur. Öll hegðun þeirra miðast við að full­nægja eigin þörfum óháð afleið­ing­um. Þeir rétt­ara sagt tengja ekki við afleið­ing­ar. Þessu hirðu­leysi gagn­vart til­finn­inga­lífi ann­arra fylgir oftar en ekki bæði stjórn­un­ar­fíkn, spennu­fíkn og drottn­un­ar­girni. Þeir beita óspart gas­lýs­ingu í formi sið­lausrar sam­skipta­tækni til að láta þolendur sína efast um eigin upp­lif­anir og stilla þeim upp að vild sam­kvæmt eigin heims­mynd og þörfum þess tíma. Þeir eru almennt hvat­vísir með ein­dæmum og hafa lélega sjálfs­stjórn. Þeir eru oftar en ekki fórn­ar­lömb allra aðstæðna og taka enga ábyrgð á eigin hegð­un. Þeir sýna full­komið ábyrgð­ar­leysi með því að gera skyldur og skuld­bind­ingar að merk­ing­ar­lausum óþæg­ind­um. Enda­laus eru fögur fyr­ir­heit og lof­orð eru út í loft­ið. Grím­urnar eru margar en sá sið­blindi hefur tak­mark­aða getu til að halda grímunni uppi. Inni­hald, geta og gæði geta ekki stutt við þá mann­kosti sem sá sið­blindi reynir að selja þér. Það eru einmitt þessir ein­stak­lingar sem eiga auð­velt með að meiða aðra og mis­nota börn. Hér á eng­inn mis­skiln­ingur sér stað heldur ein­beittur brota­vilji og ásetn­ingur til að upp­fylla eigin þarfir óháð afleið­ing­um. Það er talið að sá sið­blindi sé með­vit­aður um að hegðun hans valdi skaða. Honum er hins vegar bara alveg sama.

Sið­ferð­is­leg sjálfs­vit­und og mik­il­vægi mann­kosta­mennt­un­ar.

En aftur að flöss­ur­um. Í umfjöllun Kveiks sem sýnd var fyrir nokkrum vikum fékk full­orð­inn karl­maður sem hafði berað sig fyrir framan ókunn­uga ólög­ráða ein­stak­linga í gegnum staf­rænan miðil mikið rými til tján­ingar um eigið ágæti og erf­ið­leika. Hann virt­ist ekki vera sáttur við að við slíku athæfi væru afleið­ing­ar. Að hans mati voru þær of mikl­ar. Þegar leið á við­talið kemur í ljós að mað­ur­inn er viss um að hann hafi einnig farið yfir mörk sam­starfs­kvenna sinna. Sagði hann rót  hegð­unar sinnar liggja í van­líðan og neyslu. Upp­lifði hann sig því sem fórn­ar­lamb og krafð­ist taf­ar­lausrar synda­af­lausn­ar. Hann taldi sig vera fórn­ar­lambið og væri búinn að þola nóg. Lítið virt­ist bóla á ábyrgð á eigin hegðun og spurn­ingum um sið­ferð­is­leg og afbrota­tengd álita­efni hegð­un­ar­innar sem slíkr­ar.

Sterk sið­ferð­is­leg sjálfs­vit­und á að vera sífellt og virkt ferli sem krefur ein­stak­linga um end­ur­tekna gagn­rýna hugsun og per­sónu­lega ábyrgð. Mann­kostir eru eig­in­leikar sem fólk telur að það búi sjálf­krafa yfir og þurfi ekki að leggja neina rækt við. Sann­leik­ur­inn gæti ekki verið fjarri lagi. Mann­kostir eru eig­in­leikar sem prýða eft­ir­sókn­ar­verða mann­eskju. Sterk til­finn­inga­vit­und er und­ir­staða mann­kosta og for­senda vel­ferð­ar, ham­ingju og heil­brigðra sam­skipta allra ein­stak­linga í bæði lífi og starfi. Krist­ján Krist­jáns­son, pró­fessor í heim­speki er aðstoð­ar­for­stjóri Jubilee stofn­un­ar­innar í Bret­landi og er þar einn helsti drif­kraftur rann­sókna á sviði sið­ferð­is­upp­eldis og mann­kosta­mennt­un­ar. Krist­ján leggur áherslu á mik­il­vægi mann­kosta­mennt­unar í æsku þar sem áhersla er lögð á þraut­seigju, sjálf­saga og þol­gæði og enn fremur sið­ferð­is­legar dyggðir á borð við: góð­vild, rétt­læt­is­kennd, hlut­tekn­ingu, umhyggju, þakklæti og mik­il­vægi til­finn­inga­legra og sið­ferð­is­legra inn­lita í eigin vit­und.

Hin upp­hafða en á sama tíma skað­lega dyggð sem eignuð er guð­hræddu fólki og felst í tak­marka­lausum skiln­ingi og fyr­ir­gefn­ingu allra synda á rætur sínar m.a. að rekja til feðra­veld­is­hug­mynda og úreltra trú­ar­legra sið­gæð­is­hug­mynda sem í dag eru í engu sam­ræmi við alvar­leika og afleið­ingar ofbeld­is­verka. Jafn­rétt­is­skertir ráða­menn þjóð­ar­inn­ar, dáða­drengir í dul­um, óum­beðnir álits­gjaf­ar, sjálf­skip­aðir sér­fræð­ing­ar, þeir sem þríf­ast á kven­fyr­ir­litn­ingu og þeir sem þeim fylgja í humátt í blindri holl­ustu eru skað­legir mála­flokkn­um. Upp­lýs­inga­hug­sjón og máttur skyn­sem­innar virð­ist ekki virka gegn valdi ger­enda og þeirra sem neita að horfast í augu við fjöl­breyti­leika til­vistar þeirra.

Spurn­ingin um hvenær ger­endur eiga aftur end­ur­kvæmt út í sam­fé­lagið á lítið erindi í umræð­una núna. Upp­lifun þeirra örfáu ger­enda sem hljóta dóm eða við­ur­kenna sið­leysi sitt þarf að víkja fyrir óum­deil­an­legri stað­fest­ingu sam­fé­lags­ins á þján­ingum ara­grúa þolenda. Þar virð­umst við enn eiga langt í land. En burt séð frá allri umræðu um ger­enda­með­virkni, gas­lýs­ingu, guðsótta og góða siði þá er núver­andi heims­mynd okk­ar, almenn sið­ferð­is­kennd og skoð­anir þeirra emb­ætt­is­manna sem skipta máli og þeirra sem telja sig skipta máli stað­fest­ing á því að við erum enn óra­langt frá hápunkti sið­ferð­is­þroska manns­ins.

Höf­undur er ráð­gjafi hjá Stíga­mót­um.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Úlfar Þormóðsson
Uppvakningar
Kjarninn 25. júní 2022
Ingrid Kuhlman
Að hlakka til einhvers er næstum jafn gott og að upplifa það
Kjarninn 25. júní 2022
Niðurhal Íslendinga stóreykst milli ára
Íslendingar notuðu 25 prósent meira gagnamagn á farsímaneti í fyrra en árið áður og 21 prósent meira gagnamagn í gegnum fastanet. Tæplega 76 prósent notenda á fastaneti eru nú með ljósleiðaratengingu, en þeir voru þriðjungur 2016.
Kjarninn 25. júní 2022
Af kosningavöku Framsóknarflokksins í fyrrahaust.
Framsókn hirti kjósendur í stórum stíl frá hinum stjórnarflokkunum og Miðflokki
Fylgisaukning Framsóknar í síðustu kosningum var tekin frá samstarfsflokkunum í ríkisstjórn og klofningsflokki. Átta hverjum tíu kjósendum Sjálfstæðisflokks voru úr kjarnafylginu. Framboð Sósíalista hafði neikvæð áhrif á fylgi Vinstri græna og Pírata.
Kjarninn 25. júní 2022
Hraðtíska nær nýjum hæðum með tilkomu tískurisans Shein
Kínverska fatafyrirtækið Shein hefur vaxið gríðarlega á undanförnum árum og er í dag eitt stærsta tískuvörufyrirtæki í heimi. Umhverfissinnar benda á að fötin séu úr svo litlum gæðum að oft séu þau aðeins notuð í eitt skipti áður en þau enda í ruslinu.
Kjarninn 25. júní 2022
Auður Önnu Magnúsdóttir
Af hverju nýta Íslendingar raforkuna sína svo illa?
Kjarninn 25. júní 2022
Sjö molar um seðlabankavexti úti í heimi
Verðbólga veldur því að vaxtalækkanir faraldursins eru að ganga til baka, víðar en hér á Íslandi. Kjarninn tók saman nokkra fróðleiksmola um þróun mála í ríkjum bæði nær og fjær.
Kjarninn 25. júní 2022
Flokkur Sigurðar Inga Jóhannssonar andar ofan í hálsmál flokks Bjarna Benediktssonar samkvæmt síðustu könnunum.
Framsókn mælist næstum jafn stór og Sjálfstæðisflokkurinn
Stjórnarflokkarnir hafa tapað umtalsverðu fylgi á kjörtímabilinu. Sjálfstæðisflokkurinn nær mun verr til fólks undir fertugu en annarra á meðan að Framsókn nýtur mikilla vinsælda þar. Vinstri græn mælast með þriðjungi minna fylgi en í síðustu kosningum.
Kjarninn 24. júní 2022
Meira úr sama flokkiÁlit