Auður Jónsdóttir, rithöfundur.
Þegar ég var krakki og unglingur lifði ég í þeirri trú að Reykjavík væri örugg borg en aftur á móti væru allar borgirnar í hinum svonefndu útlöndum óöruggar. Þá skipti engu þó að ég hefði búið í útlenskri borg því ungu Íslandshjarta hafði verið innrætt að í borgum í útlöndum væri nauðsynlegt að vera með magabuddu svo peningunum manns yrði ekki stolið og að þar væru líka menn sem réðust á konur á almannafæri, í lyftum og á stórhættulegum diskótekum.
Nú eru breyttir tímar, ég er orðin meðvitaðri um ofbeldið í nánasta umhverfi mínu því við lifum á upplýstari tímum en þá. Nú þykist ég vita að það sé ekkert til sem heitir örugg borg fyrir konu, líkurnar á að þær verði fyrir ofbeldi af einhverjum toga aðeins mismiklar. En það felst gríðarmikill munur í orðinu mismikið. Í dag lifa konur víðsvegar um heiminn við það að gróft ofbeldi gagnvart þeim, ofbeldi í hinum ýmsu myndum, þykir ekki einu sinni fréttnæmt. Fréttir af því birtast ekki á forsíðum dagblaða, eins og gerist þó í sumum tilvikum hér á Íslandi, heldur í besta falli sem óljós vitnisburður í skýrslum mannréttindasamtaka.
Þegar ég dvaldi einu sinni í Berlín heyrði ég af móður í næsta nágrenni sem var höggvin í bita fyrir framan börnin sín.
Þegar ég bjó í miðborg Barcelona frétti ég af harmleik í næstu götu, eiginmaður hafði myrt eiginkonu sína. Í gegnum tíðina hefur heimilisofbeldi verið vandamál á Spáni svo þetta þóttu kannski ekki furðufréttir en þó var morðið fréttnæmt. Þegar ég dvaldi einu sinni í Berlín heyrði ég af móður í næsta nágrenni sem var höggvin í bita fyrir framan börnin sín. Morðið þótti sérstaklega fréttnæmt vegna aðferðarinnar. Um daginn heyrði ég um unga móður sem var myrt í Breiðholtinu. Ég hef reyndar heyrt um fleiri konur sem voru myrtar á heimilum sínum á Íslandi. Þess vegna fannst mér sérstaklega vel til fundið hjá Jóni Gnarr að láta féð sem fylgdi friðarverðlaunum Yoko Ono renna til Kvennaathvarfsins. Ófriður á heimilum er nefnilega stríð. Heimilið er jarðvegur stríðsins, þar hefjast öll stríð, bæði þau sem gerast innan heimilisins og hin sem eru þess megnug að eyðileggja milljónir heimila. Þessi jarðvegur er hættulega frjór og hann má finna í öllum löndum.
Á Íslandi þótti eitt sinn gott og gilt að aflífa konur fyrir það að hafa verið nauðgað af húsbónda sínum. Það var fyrir svona hálftíma síðan.
Ofbeldismenning fær að grassera mismikið á ólíkum stöðum, skilyrðin fara m.a. eftir samfélögum og tímabilum; félagslegum aðstæðum, hefðum, menntun, pólitísku ástandi, stríði og friði o.s.frv. Á Íslandi þótti eitt sinn gott og gilt að aflífa konur fyrir það að hafa verið nauðgað af húsbónda sínum. Það var fyrir svona hálftíma síðan. En svipuð óhæfuverk fá enn að þrífast í öðrum samfélögum, núna í augnablikinu. Hvað verður á morgun, það veit enginn. Einhvers staðar er konum reglubundið nauðgað til að fylla óvininn, og allt hans samfélag, skömm og vansæmd. Í gær frétti ég, í útgáfuboði í Reykjavík, að Helga Kress hefði nýleg leitt líkum að því að orðið skömm sé gamalt orð yfir nauðgun, nánar tiltekið í umfjöllun um hið fræga mál Agnesar Magnúsdóttur. Þessi merkilega tilgáta fær mann til að skoða ofbeldisfullar fréttir dagsins í dag með nýjum gleraugum.
Ég veit ekki hvernig það er að búa í landi þar sem allir inniviðir samfélagsins hafa verið sprengdir svoleiðis í tætlur að ofbeldið fær að vaxa og dafna, ólíkt öllum litlu börnunum sem mæðurnar hafa fætt af sér og átt með pöbbunum sem dóu frá þeim eða jafnvel mönnum sem nauðguðu þeim eftir að eiginmaðurinn fór í Stríðið með stóra essinu. Ég get ekki gert mér hugarlund hvernig það er að lifa lífinu í slíkum aðstæðum. Mig sundlar við tilhugsunina eina.
Ég er vön frekar kvenvænum borgum, eins og Berlín, borg hinna fimm hundruð hóruhúsa, og Reykjavík þar sem ofbeldi gegn konum þykir að minnsta kosti nógu fréttnæmt til að það birtast reglulega hræðilegar sögur úr samfélaginu á forsíðu DV
Ég er vön frekar kvenvænum borgum, eins og Berlín, borg hinna fimm hundruð hóruhúsa, og Reykjavík þar sem ofbeldi gegn konum þykir að minnsta kosti nógu fréttnæmt til að það birtast reglulega hræðilegar sögur úr samfélaginu á forsíðu DV. Svo er annað mál hvort þær séu einungis toppurinn á ísjakanum eða ekki. Ég sé og ég heyri. Um allar þessar konur í öllum þessum löndum þar sem það eitt að vera kona er hættulegt. Ég get ekki ímyndað mér hvernig það er. Ég er heppin.
Herferð UN Women á Íslandi um Öruggar borgir (e. Safe Cities Global Initiative) stendur yfir frá 18. til 25. nóvember. Hluti af herferðinni eru pistlaskrif um öruggar borgir sem birtast munu á heimasíðu Kjarnans á meðan að herferðin stendur yfir. Hjarta hennar er á heimasíðunniwww.oruggborg.is. Hægt er að lesa meira um herferðina og styrkja sambærileg verkefni í fátækustu löndum heims á heimasíðu landsnefndar UN Women á Íslandi.