Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri.
Það er hluti af mannréttindum hvers og eins að fá að lifa frjáls og öruggur, að geta tekið þátt í leik og starfi án þess að búa við stöðugan ótta við að verða fyrir afbrotum af hálfu samborgara sinna. Við erum svo lánsöm að vera hluti af samfélagi þar sem það er talinn sjálfsagður réttur að búa við traust, öryggi og öryggistilfinningu. Félagsauður í samfélagi þar sem íbúar búa við þess háttar lífsgæði er meiri, þeir eru virkari þátttakendur í samfélaginu og andleg líðan þeirra betri. Þannig sýna rannsóknir að ótti við afbrot er frekar lítill á Íslandi og að sama skapi er traust í samfélaginu mikið. Sömu rannsóknir sýna að fólk er öruggt í nærumhverfi sínu, en öryggistilfinning fólks í miðborg Reykjavíkur er aftur á móti minni.
Stefna Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er að auka öryggi og öryggistilfinningu þeirra sem þar búa, starfa og dvelja. Starfsemi embættisins miðar að þessu grundvallarmarkmiði. Á það ekki síður við um upplifun fólks í miðborginni en á öðrum svæðum. Embættið vinnur ekki eitt að þessu markmiði, enda koma margir að því verkefni að bæta ásýnd miðborgarinnar. Gott og náið samstarf lögreglu við sveitafélögin, skólana, félagsþjónustu, barnavernd og ýmsa hagsmunaaðila hefur skipt sköpum í þessu starfi.
Árangurinn hefur ekki látið á sér standa, ef tekið er mið af helstu mælikvörðum sem lögregla hefur á sínu færi, s.s. tilkynntum brotum til lögreglu og í niðurstöðum spurningakannana um tíðni afbrota, öryggistilfinningu íbúa og traust almennings í garð lögreglu. Þar kemur meðal annars fram að í flestum brotaflokkum hefur afbrotum fækkað á síðustu árum. Jafnframt hefur náðst góður árangur í mörgum af þeim þáttum sem snúa að málefnum þeirra sem verða fyrir afbrotum. Þrátt fyrir þessa jákvæðu þróun eru tækifæri til að gera enn betur. Á það ekki síst við um þjónustu lögreglu við þolendur afbrota eins og þá sem verða fyrir ofbeldi af hálfu skyldra eða tengdra, börn í vanda og þolendur mansals. Huga þarf sérstaklega að þjónustu lögreglu við slíka hópa sem oft hafa takmarkað bakland. Nú fer t.d. í hönd átaksverkefni Reykjavíkurborgar og lögreglunnar gegn heimilisofbeldi, þar sem borgin mun setja upp fasta vakt til að vinna með og styðja fórnarlömb heimilisofbeldis. Sérstaklega er horft til góðrar reynslu af sambærilegu verkefni á Suðurnesjum.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu bindur vonir við að verkefnið muni skila góðum árangri og auka enn frekar öryggi og öryggistilfinningu borgaranna. Því öryggi í samfélaginu er jú hagur okkar allra.
Herferð UN Women á Íslandi um Öruggar borgir (e. Safe Cities Global Initiative) stendur yfir frá 18. til 25. nóvember. Hluti af herferðinni eru pistlaskrif um öruggar borgir sem birtast munu á heimasíðu Kjarnans á meðan að herferðin stendur yfir. Hjarta hennar er á heimasíðunniwww.oruggborg.is. Hægt er að lesa meira um herferðina og styrkja sambærileg verkefni í fátækustu löndum heims á heimasíðu landsnefndar UN Women á Íslandi.