Á árunum 535 til 536 gengu miklar náttúruhamfarir yfir heiminn sem ollu afgerandi loftslagsbreytingum. Þetta kemur fram í ýmsum heimildum frá þessum tíma og frá ólíkum stöðum, frá Suður Ameríku og Evrópu til Asíu. Lýsingar á ástandinu eru allar frekar svipaðar. Ryk og grá móða fyllti himininn og byrgði fyrir sólu. Móðunni fylgdu miklir þurrkar og sums staðar var engu líkare en rigndi ryki. Hitastigið í heiminum öllum lækkaði all svakalega og við tóku miklir og áður óþekktir kuldar. Í Suður Evrópu snjóaði rykugum snjó um mitt sumar og gekk á með næturfrostum. Varla hefur verið um neitt eiginlegt sumar að ræða nokkurs staðar á jörðinni þessi árin og árin á eftir. Uppskera brást, korn sölnaði á ökrum og fólk og búfénaður féll víða niður einsog útaf eitrun.
Þessu ástandi fylgdi hnattræn hungursneyð. Bygg og hrísgrjón sem verið höfðu undirstaðan í fæðu flestra jarðarbúa buðust hreinlega ekki lengur og landbúnaður lagðist af. Fólk var tilneytt til að leita á önnur mið eftir mat að éta. Heilu samfélögin sem höfðu áður stundað búskap með húsdýrum snéru sér að veiðum. Þá hefur eflaust komið sér vel að búa við sjávarsíðuna og eiga bátkríli.
Engar samtímaheimildir geta orsakar þessara hryllilegu hamfara sem hljóta að hafa blasað við jarðarbúum eins og hreinn og klár heimsendir. Þar sem engin ein útskýring var sjáanleg varð fólk að geta sér þess til hvað hefði gerst og þá er oft stutt í æðri máttarvöld og reiði guðs og guða.
Eldgos sökudólgurinn
Lengi var talið að loftsteinn hefði jafnvel fallið á jörðina með svipuðum afleiðingum og þeim sem urðu dínósárunum að aldurtila. En nýjust vísindarannsóknir sýna að sökudólgurinn var eldvirkni og þarna hefur verið um að ræða eitthvert mesta eldgos á sögulegum tímum. Þetta má lesa úr borkjarnasýnum sem tekin hafa verið úr Grænlandsjökli. Við vitum ekki nákvæmlega hvar þetta eldgos gerðist, við vitum bara að það hefur verið úr almannaleið. Líklegasti sökudólgurinn er af mörgum talið eldfjallið Krakatá í Indónesíu. Það þykir líklegur sökudólgur og hafa burði til að valda svona usla. En svo eru þau sem grunar önnur eldfjöll.
Rannsakendur hafa verið að beina augum sínum að svokölluðum ofur-eldfjöllum eða supervolcanoes. Hér á landi hefur þeirri hugmynd verið hampað nokkuð að það hljóti að hafa verið um íslenskt eldfjall að ræða. En það er vafasöm tilgáta. Það eru engin ofureldfjöll hér. Þau eru flest í heimsálfunni Ameríku. Eitt þekktast þeirra er þjóðgarðurinn Yellowstone en svo rekur hvert fjallið annað niður með Vesturströndinni og til Síle. Það eru líka einhver á Ítalíu og við Miðjarðarhaf en þau eru öll með fjarvistarsönnun og fólk hefði ábyggilega tekið eftir því ef þau hefðu verið að æsa sig. Ég er enginn jarðfræðingur en eftir að hafa skoðað þetta lauslega þá finnst mér trúlegt að þetta hafi verið í Ameríku. Kannski var þetta eldvirkni á stóru svæði og sem spannaði fleiri en eitt eldfjall?
„Svart var þá sólskin of sumur eftir, veðr öll válynd“
Hvað það var sem olli þá hafði það afgerandi áhrif á allt lífríki jarðarinnar og kúltúr allan. Svakalegust hljóta áhrifin að hafa orðið á Norðurhveli jarðar. Þar var kalt fyrir en varð nú jafnvel ennþá kaldara. Ef Ítalía hefur breyst í Ísland þá hefur Noregur líklega breyst í Síberíu. Við eigum engar heimildir um það.
En það er ákveðin kenning um það að þessar óútskýrðu náttúruhamfarir hafi haft áhrif á það að friðsamt norskt bændafólk hafi vopnbúist og byrjað að ráðst á annað fólk. Það er margt virt fræðafólk sem vill meina að þetta hafi verið innblásturinn að Völuspá, Eddukvæðinu sem segir frá Ragnarökum, endalokum heimsins. Lýsingarnar í kvæðinu eru ekki ólíkar lýsingunum af því sem gekk á 535 og árin á eftir og þeim sviðsmyndum sem vísindafólk bregður upp: „Sól tér sortna ...“ og „svart var þá sólskin of sumur eftir, veðr öll válynd.“
Órói og átök beinar og óbeinar afleiðingar loftslagsbreytinga
Aðalorkuefni líkamans eru fita, kolvetni og prótein. Kolvetni fékk fólk aðallega úr korni, þótt það sé allur gangur á því í dag. Þegar það var ekki lengur að fá varð fólk að snúa sér að fitu og próteini og það varð ljóst að maðurinn lifir ekki á brauði einu saman. Þegar fólk snéri sér í ríkara mæli að veiðimennsku en það hafði gert áður, þá varð það líka að venda vel valið á þeim dýrum sem það eyddi sinni takmörkuðu orku í að veiða. Þar skipti fita mestu máli. Fita skiptir alltaf mestu máli í kulda.
Sagan segir okkur líka að órói, spenna og átök fólks á milli eru gjarnan beinar og óbeinar afleiðingingar loftslagsbreytinga sem raskað hafa eðlilegu jafnvægi og haft áhrif á afkomu fólks. Eldgosið í Lakagígum 1783 hafði mikil áhrif á veðurfar í Evrópu og olli þar uppskerubresti og dauðsföllum. Það var hluti af atburðarrás sem leiddi til Frönsku byltingarinnar sex árum síðar.
Þetta kemur skýrt fram í Völuspá í hinu þekkta erindi: „Bræður munu berjast og að bönum verða.“ Ætli hamfarirnar 535 hafi verið innblásturinn að ljóðinu og það hafi verið upprunalega samið skömmu eftir þá tíma?
Fólk leitaði norður á bóginn
Mér finnst eðlilegt að ætla að eftir þessa atburði hafi fólk í Evrópu leitað norður á bóg í fæðuleit. Ég held að það hafi ekki bara verið Skandínavar heldur og aðrar germanskar þjóðir, Baskar og fólk frá löndunum við Miðjarðarhaf. Þar var mesta tækniþróunin, tól og tæki, og sérstaklega góð, haffær skip. Þetta fólk sigldi norður til að afla sér matar. Það leitaði að fiski, feitum fuglum, sel, rostungi og jafnvel hvölum. Allt sem var feitt var veitt.
Ég hallast að því að Ísland hafi fundist á þessum tímum og fólk reist útstöðvar hér sem voru virkar á sumrin en lágu meira og minna niðri yfir veturinn. Ísland hefur verið skilgreind sem einhverskonar einskismannsland og sem enginn átti eða hafði tilkall til. Skandínavarnir áttu kannski ekki þarna sjálf skip til svona langra úthafssiglinga. En þau bjuggu yfir veiðikunnáttu og þekktu aðstæður betur en þeir sem skipin áttu. Þegar þessu harðinda tímabili lauk svo loks og korn fór aftur að vaxa hættu skipin að koma. En þá hafði fólkið svo mikla reynslu og þekkingu af þessum skipum að það treysti sér til að smíða skip sjálf. Kannski var þetta ekki alveg svona svart og hvítt. Það er t.d. ýmislegt sem bendir til þess að Baskar hafi reglulega siglt á norðurhöf til veiða. Kannski var það og í samstarfi við fólk í Noregi.
Uppistaðan í vinnuaflinu mestmegnis þrælaafl
Fornsögur Norðurlanda eru uppfullar af tilvitnunum um Ísland. Ég ætla ekki að rekja þær hér en þar er það oft ekki talinn merkilegur eða spennandi staður og kallað ýmist „veiðistöð“, „eyðibyggðir“, eða jafnvel „eyðisker“. En það fór nú samt svo að margir ríkir höfðingjar sáu sér hag í því að vera hér með rekstur. Ýmislegt hlýtur að hafa komið uppí hendurnar á þeim af því sem aðrir skildu hér eftir, eins og húsakostir, aðstaða og jafnvel tæki og tól.
Meginuppistaðan í vinnuaflinu held ég að sé öruggt að fullyrða að hafi mestmegnis verið þrælaafl. Þegar þrælahald fór að verða litið hornauga í hinum siðmenntaða heimi og var á endanum bannað held ég að margur höfðinginn hafi sent allan þrælaher sinn hingað. Þannig gátu þeir verið fínir kallar með hreinan skjöld í Noregi og enginn þurfti neitt að vita af aflandsfélögunum sem þeir ráku hér. Kannski voru einstaka varðmenn með þessu vesalings fólki en mér þykir líklegra að það hafi að mestu verið hér eitt og yfirgefið. Fólkið reyndi sitt besta til að komast af. En hvert sumar komu hrikalegir náungar siglandi frá Noregi. Og ef þeir fengu ekki það sem þeir vildu, einsog spik, þurrkað kjöt, saltfisk, vefnaðarvöru úr ull og járn þá fékk fólkið að gjalda þess og fólk miskunarlaust pyntað og drepið. Þetta hefur verið meira ömurlega lífið. Kannski gleymdust einhverjir í afskektum víkum og fengu að vera í friði.
Það er ekki að ástæðulausu sem þeir sem höfðu starfað eða bjuggu á Íslandi voru á hinum Norðurlöndunum kallaðir Mörlandinn, eða fólkið sem dvaldist á Spik-landi. Ísland var byggt á spiki og mör. Hingað hefur nær enginn komið sjálfviljugur heldur vegna vinnu eða hreinlega verið sent hingað og ekki spurt. Að halda því fram að norskir bændur hafi séð hér einhver stórkostleg tækifæri í landbúnaði er tóm þvæla. Það er líka bull að fólk hafi verið að flýja einhvern hárfagran Harald. Haraldur þessi var ekki til á þessum tíma og var búinn til löngu seinna sem hluti af skáldsögunni Íslandssaga. Hún var samin sérstaklega af afkomendum þrælanna og til þess að hin sanna saga kæmi aldrei fram.