Af nógu er að taka af markverðum málum hjá neytendum í ár. Stærst er líklega Vaxtamálið svokallaða. En árið 2019 sendu samtökin fyrirspurnir til bankanna um vaxtaákvarðanir lána með breytilegum vöxtum. Svörin þóttu ófullnægjandi og báru með sér að vaxtaákvæði lánasamninga og vaxtaákvarðanir gengju beinlínis í berhögg við lög, að mati samtakanna. En samkvæmt lögum þurfa skilmálarnir að vera „skýrir, aðgengilegir, hlutlægir og unnt að sannreyna“. Töluvert skortir á að svo sé og því var bönkunum stefnt í desember 2021 eftir að um 1.500 lántakar höfðu skráð sig til leiks.
Allt þetta ár hafa sífellt fleiri skráð sig og standa nú um 2000 lántakar með um 7500 lán að baki Vaxtamálsins og fer fjölgandi. Stór vendipunktur varð í málinu í vor þegar héraðsdómur Reykjavíkur ákvað að leita ráðgefandi álits EFTA dómstólsins í máli gegn Landsbankanum, og eins þegar héraðsdómur Reykjaness gerði slíkt hið sama í máli gegn Íslandsbanka, nú í haust. Von er á svari dómsins á vormánuðum, um það hvort skilmálar lánanna samræmist lögum.
Verði ráðgefandi svör EFTA dómstólsins á þá lund sem Neytendasamtökin búast við, er það líklegt til að geta orðið vendipunktur ársins 2023 í fjármálageiranum. En samtökin telja að það geti verið fordæmisgefandi önnur breytileg lán Íslendinga. Ekki liggja fyrir opinberar upplýsingar um fjölda eða upphæð lána með skilmála um breytilega vexti og því þarf að taka eftirfarandi tölum með fyrirvara. En í lok mars 2021 námu útlán viðskiptabankanna til heimilanna tæpum 1.550 milljörðum króna. Neytendasamtökin telja að stærstur hluti þessara lána sé með ólöglegum skilmála um breytilega vexti. Þannig nemur hvert prósentustig til eða frá 15,5 milljörðum króna hverju ári lánsins.
Neytendasamtökin leggja mikla áherslu á stafræna neytendavernd, en stafræn tækni felur í sér mikil tækifæri fyrir neytendur, en jafnframt miklar áskoranir. Ólíkir hópar eru misjafnlega í stakk búnir til að takast á við þær umbreytingar sem orðið hafa og eru að verða í stafrænum heimi. Gjá getur myndast á milli þeirra sem kunna og kunna ekki, hafa og hafa ekki. Netglæpir, stafræn útilokun, ofgnótt upplýsinga, duldar auglýsingar, ágengar söluaðferðir og njósnahagkerfið, þar sem persónuupplýsingar ganga kaupum og sölum, eru meðal nýrra og breyttra áskorana sem hafa komið fram samfara tæknibreytingunum. Þar hafa Neytendasamtökin gert sig gildandi á undanförnu ári. Stór vendipunktur varð í stafrænni neytendavernd á árinu þegar persónuverndaryfirvöld í Austurríki og Frakklandi, og síðar Danmörku gáfu út að notkun vefsíðna á vefvöktunarforritinu Google Analytics bryti í bága við persónuverndarlög. Persónuvernd á Íslandi gaf við það tækifæri út frétt, sem túlka má sem viðvörun til íslensks vefumsjónarfólks, þar sem fram kemur að líklega lyti notkun íslenskra vefsíðna á Google Analytics sömu lögmálum, þ.e.a.s. bryti í bága við lög. Það vekur furðu að örlítil könnun sýnir að þrátt fyrir það notist nánast öll íslensk fyrirtæki og stofnanir enn við Google Analytics.
Netsvik hafa því miður færst í aukana og bófarnir orðnir betri í svindli og svínaríi. Neytendasamtökin tóku höndum saman með Samtökum atvinnulífsins og Samtökum fjármálafyrirtækja og ýttu úr vör átakinu „Taktu tvær“ eins og sjá má á www.taktutvaer.is, hvar neytendur geta sótt sér upplýsingar um helstu aðferðir þrjótanna og hvernig má varast þær.
Annar vendipunktur í starfi Neytendasamtakanna var gerð fyrsta myndbandsins sem samtökin hafa staðið að. En það var gert til að vekja athygli á vaxandi umfangi njósnahagkerfisins sem hefur umbylt lífi okkar á undraskömmum tíma. Við erum nánast sítengd og höfum allar heimsins upplýsingar við höndina sem við fyrstu sýn virðist ókeypis, en þegar að er gáð er gjaldið sem við greiðum tvíþætt, annars vegar er auglýsingum beint að okkur og hins vegar er upplýsingum um okkur safnað saman og þær seldar hæstbjóðanda. Ef þú ætlar að horfa á eitt kattamyndband í dag, og lesa þér til um njósnahagkerfið, vertu þá viss um að það sé þetta: www.ns.is/kettir. Einhver neytendasamtök í Evrópu hafa tekið myndbandið upp á sína arma og notað í vitundarvakningarherferðum sínum á árinu.
Líklega hefur alþjóðlegt samstarf sjaldan verið meira en á árinu og kynntu Neytendasamtökin ásamt 20 samtökum í 18 löndum nýja skýrslu „Tölvuleikjaiðnaður undir smásjánni“ sem beinir sjónum að svokölluðum lukkuboxum (e. „loot boxes“) í tölvuleikjum sem varpar ljósi á það hvernig þeir eru hannaðir til að spilarar eyði sem mestum tíma og fé í þá.
Í kjölfar þess að Seðlabanki Íslands sagði sig frá verkefninu, stofnuðu Neytendasamtökin, ásamt Samtökum fjármálafyrirtækja úrskurðarnefndir í upphafi árs sem taka á ágreiningsefnum neytenda og fyrirtækja í fjármálum og vátryggingamálum. Upplýsingar um þær má finna á www.nefndir.is
Neytendasamtökin voru stofnuð 23. mars árið 1953 og eiga því 70 ára afmæli á næsta ári og eru líklega þriðju elstu neytendasamtök í heimi á eftir þeim dönsku og bandarísku. Það var mikill vendipunktur fyrir neytendur á Íslandi þegar aðalhvatamaðurinn og fyrsti formaður samtakanna Sveinn Ásgeirsson hélt erindi í Ríkisútvarpinu 21. og 28. október 1952, hvar hann sagði meðal annars: „Hið eina sem dugar eru máttug neytendasamtök, borin uppi af þeim, sem verst eru leikin af ríkjandi viðskiptaháttum, og fylgja kröfum sínum um gagnkvæmt tillit fast eftir, eins fast og þörf gerist.“ Kraftur Neytendasamtakanna hefur í hartnær 70 ár spornað gegn yfirburðastöðu valdhafa, sérhagsmunahópa og fyrirtækja og munu samtökin gera það um ókomna tíð. Neytendasamtökin eru frjáls félagasamtök sem reiða sig á árgjöld félagsmanna. Því fleiri félagsmenn, þeim mun öflugri Neytendasamtök.
Höfundur er formaður Neytendasamtakanna.