Kosningar eru afstaðnar og þjóðin hefur talað. Niðurstaðan er nokkuð skýr. Það er engin vinstrisveifla og engin hægrisveifla. Flokkarnir frá miðju til vinstri tapa smávægilega og flokkarnir frá miðju til hægri tapa líka nokkrum prósentustigum, aðallega út af afhroði Miðflokksins.
Sigurvegarar kosninganna eru Framsóknarflokkurinn og Flokkur fólksins. Sá fyrrnefndi er ekki lengur aukahjól undir skrýtna vagninum sem Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson smíðuðu 2017 til að koma á stöðugleika í íslensk stjórnmál, heldur næst stærsti flokkur landsins og í stöðu til að vera mótandi afl á stefnumál ríkisstjórnarinnar. Áhersla formannsins Sigurðar Inga Jóhannssonar og annarra forvígismanna, sérstaklega Ásmundar Einars Daðasonar, á félagshyggju fyrir fólk náði til kjósenda umfram það sem aðrir flokkar buðu upp á. Gamli Framsóknarflokkur samvinnuhreyfingarinnar er kominn aftur. Verk hans á komandi kjörtímabili munu skera úr um hvort hann sé kominn til að vera.
Sá síðarnefndi beitti svipaðri aðferðafræði í kosningabaráttunni og Framsókn: Skýrar og einfaldar aðgerðir fyrir fólk til að bæta líf þess. Sérstök áhersla var lögð á bætta framfærslu öryrkja og eldri borgara. Það, ásamt kjörþokka og mælsku Ingu Sæland, skilaði því að Flokkur fólksins er stærri en Viðreisn, Píratar og Miðflokkur, sem allir telja sig þó vera pólitískt merkilegra fyrirbrigði en flokkur Ingu. Í þetta skiptið höfðu þeir allir rangt fyrir sér.
Það hjálpar ekki að borða hrátt hakk
Tapararnir í kosningunum eru nokkrir. Miðflokkurinn beið afhroð og datt næstum því út af þingi. Sá þjóðernishyggju-popúlismi sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og hans fólk hefur staðið fyrir á ekki lengur upp á pallborðið.
Það fannst skýrt í kosningabaráttunni að þessi stjórnmálamaður, sem hefur haft einstakt lag á að láta síðasta rúma áratug í stjórnmálum hverfast um sjálfan sig með allskyns róttækum loforðum um millifærslu á peningum úr ríkissjóði, skylmingum við ímyndaða erlenda strámenn og skandölum vegna aflandsfélagaeignar eða kvenhatandi fyllirísröfls, ógnaði ekki lengur. Í leiðtogakappræðum virtist hann oftar en ekki vera í samtali við sjálfan sig, frekar en hina leiðtogana.
Þeir sem ætluðu sér allt en uppskáru sáralítið
Hin svokallaða frjálslynda miðja er samt stóri taparinn í þessum kosningum, og þá sérstaklega Samfylkingin. Í þetta sinn átti að takast að velta Sjálfstæðisflokknum frá völdum og ráðast í stórar kerfisbreytingar. Þar undir voru til að mynda breytingar á stjórnarskrá, fiskveiðistjórnunarkerfinu, skattkerfinu og leiðir til að draga úr spillingu. Allt eru þetta málefni sem allar kannanir sýna að þorri íslensks almennings styður og telur mikilvægt að ráðast í. En öll þessi málefni voru fest í kreddur, þar sem formið skipti meira máli en markmiðið.
Þess vegna náðu þessir þessir þrír flokkar sem stilla sér upp á frjálslyndu miðjunni; Samfylking, Viðreisn og Píratar, að tapa samanlagt fylgi frá 2017, sem var þó ekkert sérstakt ár fyrir neinn þeirra. Og eiga nú aðkomu að ríkisstjórn undir því að sitjandi ráðamenn nái ekki saman.
Ástæðan liggur í lélegum kosningaáherslum þar sem talað var um hálfbakaðar tæknilegar útfærslur á breytingum á skattkerfi eða gjaldmiðlamálum í stað þess að tala með nægilega sannfærandi hætti um að bæta líf fólks. Kjósendur höfðu ekki trú á flestum frambjóðendunum sem boðið var upp á né áherslunum sem settar voru fram, og fannst eins og þeir væru að tala við sig að ofan. Framsókn og Flokkur fólksins horfðu hins vegar beint í augun á þeim og töluðu mannamál.
Þrátt fyrir að allir flokkarnir þrír séu í grunninn einhverskonar krataflokkar sem leggi áherslu á vinstri velferð í bland við markaðsáherslur í atvinnumálum, líkt og langstærsti hluti þjóðarinnar, þá náðu þeir ekki einu sinni þriðjungi atkvæða samanlagt. Það er eiginlega pólitískt afrek að standa á pappír fyrir það sem flestir vilja en ná samt engum árangri í kosningum.
Varnarsigur raunsæishyggju
Vinstri græn unnu varnarsigur. Pólitískt veðmál þeirra um stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum fyrir fjórum árum gekk upp. Róttækum vinstriáherslum var skipt út fyrir þá raunsæishyggju sem Framsóknarflokkurinn hefur gert að stjórnmálalegri listgrein. Svo virðist sem nægilega stór hluti kjósenda Vinstri grænna hafi verið tilbúinn að breytast með flokknum, eða að honum hafi tekist að finna nægjanlega marga nýja fyrir þá sem vildu það ekki. Nú skiptir fyrst og síðast máli að hafa áhrif og hver stjórni. Sérstaklega mikilvægt er í huga Vinstri grænna að sá sé Katrín Jakobsdóttir.
Flokkurinn tapaði þremur þingmönnum frá 2017 en í raun einungis einum frá því sem verið hefur, enda yfirgáfu tveir þingmenn flokkinn á kjörtímabilinu vegna andstöðu við ríkisstjórnarsamstarfið. Hann hefur nú verið stærri en Samfylkingin, sem stofnuð var úr fjórum miðju- og vinstri flokkum til að verða mótvægisafl til vinstri við Sjálfstæðisflokkinn, í þrennum kosningum í röð.
Katrín, í krafti gríðarlegra persónuvinsælda og þess að rúmlega 40 prósent þjóðarinnar vilja hana áfram sem forsætisráðherra, mun geta gert skýra kröfu um áframhaldandi setu í þeim stól. Raunar blasir við að Vinstri græn munu vart taka þátt í ríkisstjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokki nema undir forsæti Katrínar.
Framsókn og Vinstri græn ráða ferðinni
Staða Vinstri grænna og Framsóknar innan ríkisstjórnarinnar er samanlagt mun sterkari nú þegar Framsókn hefur formfest að núverandi forysta flokksins er félagshyggjuforysta. Hún á meira sameiginlegt með Vinstri grænum þegar kemur að málefnaáherslum til framtíðar, en meira sameiginlegt með Sjálfstæðisflokki þegar kemur að ákveðnum kerfisvörnum, sérstaklega í sjávarútvegi og landbúnaði. Flokkurinn vill ráðast í nýja uppbyggingu á millifærslukerfum til að styðja við barnafjölskyldur, græna uppbyggingu í atvinnumálum með áherslu á hugverkaiðnaðinn, afnema skerðingar á eldri borgara og stórauka endurgreiðslur úr ríkissjóði til kvikmyndaframleiðslu.
Sigurður Ingi Jóhannsson líkti síðan nýrri skattastefnu Framsóknarflokksins við stefnu Joes Biden í nýlegum sjónvarpsþætti. Þar sagði hann að Bandaríkjaforseti hefði stefnu Framsóknarflokksins mjög ofarlega í sínum huga, „það er að segja, að jafna leikinn og láta stærri fyrirtækin sem sýna meiri hagnað borga meira og leggja til alheimsskatt á stóru alþjóðlegu fyrirtækin“.
Allt eru þetta áherslur sem má segja að séu, eftir hefðbundnum mælikvarða, til vinstri.
Tæpur fjórðungur dvelur í landi tækifæranna
Landsmenn keyptu ekki í unnvörpum land tækifæranna sem Sjálfstæðisflokkurinn boðaði. Sjálfstæðisfólk getur reynt eins og því lystir að setja kassann út og selja niðurstöðuna á laugardag sem sigur en hann er það einfaldlega ekki, heldur kyrrstaða.
Í fyrsta lagi tapaði flokkurinn fylgi og þeirri stöðu að vera með fyrsta þingmann í öllum kjördæmum, þar sem Framsókn er nú stærst í tveimur. Í öðru lagi er niðurstaðan, 24,4 prósent, sú næst versta í sögu Sjálfstæðisflokks. Einungis 2009 slær hana út.
Ef Vinstri græn og Framsókn fá ekki það sem þau vilja út úr viðræðum við Sjálfstæðisflokk þá geta þau snúið sér að öðrum flokkum sem eru tilbúnir að samþykkja nánast hvað sem er af meginstefnumálum þeirra, enda hugmyndafræðilega nær þeim í grunninn en Sjálfstæðisflokkur. Veik staða forystumanna miðju- og vinstriflokka eftir lélegar kosningar mun ýta enn frekar undir undirgefni, enda pólitískt framhaldslíf þeirra undir.
Það er auðveldara að vinna lýðhylli en að viðhalda henni
Framsókn mun væntanlega geta farið fram á að fá fjármálaráðuneytið, það næst valdamesta, til að geta stýrt fjármagni í þau félagshyggju- og innviðaverkefni sem flokkurinn ætlar sér að ráðast í, meðal annars í nýju innviðaráðuneyti. Í ljósi þess að Ásmundur Einar Daðason, sem hóf sinn pólitíska feril í Vinstri grænum, hefur umbreyst úr pólitísku athlægi í félagshyggjustórstjörnu sem fólk trúir að brenni fyrir velferð og nýtur virðingar og trúverðugleika hjá samherjum og andstæðingum, má vera ljóst að ekkert verður gefið eftir til að viðhalda þeirri stöðu. Þeim er þó hollt að muna að það er auðveldara að vinna lýðhylli en viðhalda henni.
Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki fá flatar skattalækkanir, minnkandi ríkisútgjöld eða stóraukna innreið einkafyrirtækja í heilbrigðis- eða menntakerfið úr áframhaldandi stjórnarsamstarfi. Hann mun hins vegar fá í gegn áherslur sínar um orkuskipti, áframhaldandi stafræna væðingu á opinbera þjónustu og einhverskonar endurskoðun á tryggingakerfum eldri borgara og öryrkja, enda kratístar og grænar áherslur sem hinir stjórnarflokkarnir tveir deila með honum. Og Sjálfstæðisflokkurinn fær að vera áfram í ríkisstjórn – stjórna – sem er alltaf meginmarkmið hans umfram allt annað. Til að binda slaufu á þessa sátt verður ráðuneytum fjölgað og Sjáldstæðisflokkurinn fær flest þeirra.
Þjónusta og sátt
Að mörgu leyti var nýafstaðin kosningabarátta til fyrirmyndar. Kosningarnar voru þær fyrstu sem má segja að hafi átt sér stað með eðlilegum hætti síðan árið 2007. Flokkarnir lögðu fram skýr stefnumál og oft var tekist á um alvöru hugmyndafræði. Niðurrifsáherslur voru með minnsta móti og nafnlausu níðsíðurnar sem voru svo áberandi 2016 og 2017 sáust vart í þetta sinnið. Fyrir það má hrósa.
Fólk getur verið mismunandi ánægt með niðurstöðuna en hún endurspeglar einfaldlega vilja þjóðarinnar eins og hann er núna, haustið 2021. Svo er það stjórnmálamanna að raða úr þeim vilja ríkisstjórn sem er tilbúin til þjónustu við almenning og vinna að frekari sátt um samfélagsgerðina.
Hverjum þeim sem tekst að mynda fylkingu sem tekur að sér það verkefni er óskað velfarnaðar.