Á nýju ári bíður okkar það verkefni að gera nýjan samfélagssáttmála. Samfélagssáttmála sem byggir á þeim lærdómi sem draga má af heimsfaraldri kórónuveirunnar og efnahagslegum áföllum vegna hans og stríðsins í Úkraínu.
Á þingi Alþjóðasambands verkalýðsfélaga (ITUC) á árinu var krafan um nýjan samfélagssáttmála undirbyggð þeim rökum að alþjóðleg efnahagsstefna hafi brugðist vinnandi fólki og aukinn ójöfnuður og óréttlæti sé afleiðing þessarar úreltu stefnu. Stundin sé runnin upp fyrir nýjan samfélagssáttmála þar sem stjórnvöld hafa það að leiðarljósi að setja fólk í forgrunn. Það sé forsenda lýðræðis, jafnréttis, jafnrar skiptingar gæða og þrautseigjunnar sem þarf til að bregðast við þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir.
Á síðasta ári átti fjórða hvert heimili á Íslandi erfitt með að ná endum saman, það er áður en verðbólga og vextir tóku að hækka. Það sama átti við um 52% einstæðra foreldra. Leiða má líkum að því að þessi hópur hafi stækkað enda kaupmáttur rýrnað um rúmlega fjögur prósent það sem af er þessu ári vegna hækkandi verðbólgu að ónefndum áhrifum vaxtahækkana Seðlabankans. Þessi staða nærir og viðheldur ójöfnuði sem leiðir til aukinnar örvæntingar og reiði sem dregur úr trú á lýðræðinu.
Heilsa í forgang
Það blasir við að fyrsta skrefið í átt að nýjum samfélagssáttmála snýr að heilsu enda erum við nú að vinna úr tímabili þar sem við færðum fjölmargar fórnir til að tryggja eigin heilsu og annarra í samfélaginu vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Við nánast lokuðum hagkerfum heimsins, við fórum varla út úr húsi og við breyttum öllum okkar daglegu venjum að þessu sameiginlega markmiði.
Góð heilsa snýst ekki eingöngu um úrvals heilbrigðisþjónustu þegar hennar er þörf heldur hvernig við vinnum markvisst að því að tryggja hana. Við vitum úr rannsóknum Embættis landlæknis að fjárhagslegt óöryggi, ónæg félagsvernd og skortur á öruggu húsnæði eru helstu áhrifaþættir heilsuójöfnuðar. Sömuleiðis aukast líkur á þunglyndi eftir því sem fólk býr við verri félags- og efnahagslega stöðu líkt og rannsókn Vörðu – rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins leiddi í ljós. Þar kemur fram að efnislegur skortur var einn stærsti áhættuþáttur þunglyndiseinkenna hjá launafólki hér á landi á tímum Covid-19. Það er í samræmi við erlendar rannsóknir sem benda til þess að félags- og efnahagslegur ójöfnuður hafi aukist í faraldrinum sem hefur neikvæð áhrif á andlega heilsu fólks.
Í rannsókn Vörðu er bent á að aðgerðir stjórnvalda til að tryggja afkomu og lífskjör fólks í Covid-kreppunni hafi gengið of skammt með þeim afleiðingum að mörg heimili upplifðu bæði fjárhagsþrengingar og vanlíðan. Það sé því verkefni stjórnvalda að tryggja öllum framfærslu sem dugir fyrir lágmarksneysluviðmiðum óháð efnahagsástandi á hverjum tíma.
Ný forgangsröðun
Fjölmörg hafa bent á galla á ríkjandi hugmyndafræði um efnahagsstefnu stjórnvalda á heimsvísu. Þannig hefur Stephanie Kelton hagfræðingur bent á að hugmyndir okkar um skuldir séu rangar. Kelton færir rök fyrir því að endurhugsa þurfi skuldir á þann veg að þær séu strategísk fjárfesting til framtíðar og vinda þannig ofan af þeirri trú að skuldir muni stofna langtímahag í hættu. Grundvallarspurningin eigi að vera hver sé besta leiðin til að skapa jafnvægi milli verðbólguáhættu annars vegar og velferðar, velmegunar og aukins öryggi hins vegar.
Algengur misskilningur sé að líta þannig á að stjórnvöld eigi að haga fjármálum sínum líkt og heimilisbókhaldi þar sem gengið er út frá því að hættulegt sé að skulda. Því sé ekki saman að líkja enda geti heimili ekki prentað peninga né ákveðið vexti. Skuldir má nýta til að framfylgja stefnu s.s. til að vinna gegn ójöfnuði og loftslagsvánni. Þjóðir sem hafi sína eigin mynt muni aldrei skorta peninga né neyðast í gjaldþrot. Takmörkunin felist í því hve mikið af peningum megi koma í umferð áður en verðbólga verður að vandamáli.
Kelton bendir á að í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar séu flest ríki að átta sig á mikilvægi þess að fjárfest sé í umönnun barna. Þegar foreldrar neyðast til að fara af vinnumarkaði til að sinna börnum, en þar axla konur enn meginábyrgðina, hefur það neikvæð áhrif á efnahaginn. Stjórnvöld skýli sér á bak við mýtuna um að skuldir séu hættulegar svo ekki þurfi að setja aukið fjármagn í slík verkefni. Verkefni sem ættu að vera í forgangi og eiga það almennt sameiginlegt að vera af félagslegum toga. Áhersla á niðurgreiðslu skulda endurspegli því forgangsröðun samfélaga.
Kate Raworth hagfræðingur skorar á hólm þráhyggjuna fyrir hagvexti og úreltum aðferðum við að mæla hann. Þær mælingar sem við byggjum á í dag voru fyrst notaðar árið 1934 en efnahagskerfin hafa að minnsta kosti tífaldast frá þeim tíma. Í þeim mælingum er ekki gert ráð fyrir, nema að mjög takmörkuðu leyti, þáttum á borð við ólaunaða sem launaða vinnu sem snýr að náinni og persónulegri þjónustu við fólk á borð við umönnun, hjúkrun, menntun eða félagsþjónustu. Ekki sé heldur mældur kostnaður ýmissa þátta fyrir fólk og plánetuna, en kenning hennar um kleinuhringjahagfræði hverfist einmitt um sjálfbæran vöxt.
Hagfræðingurinn Mariana Mazzucato spyr þeirrar grundvallarspurningar hvernig við skilgreinum verðmæti, hverjir ákveði hvað þau feli í sér og hvaða augum þeir sem eru „verðmætaskapandi“ samkvæmt ríkjandi hagfræðikenningum líti aðra? Sem fólk sem dregur úr verðmætum eða jafnvel sóar þeim? Meginskilaboð Mazzucato eru að efnahagsákvarðanir eigi að þjóna fólki og stjórnvöld þurfi að marka sér skýra sýn um hvernig samfélag þau vilji stuðla að, allar ákvarðanir þeirra taki mið af því markmiði og þannig móti þau samfélagið.
Endurnýjuð hugmyndafræði á nýju ári
Við eigum það til að festast í viðjum vanans og beina orku okkar í að reyna að betrumbæta núverandi fyrirkomulag og það kerfi sem við búum við. En líkt og fjallað hefur verið um hér að framan felst verkefnið til framtíðar í því að skora viðteknar hugmyndir á hólm og endurhugsa forsendurnar og grundvöll samfélagsgerðarinnar.
Á næsta ári losna kjarasamningar meirihluta aðildarfélaga BSRB. Þær áherslur sem verða í forgangi í aðdraganda kjarasamningsviðræðna eru jöfnun launa milli markaða, endurmat á virði kvennastétta og að stytting vinnuvikunnar verði fest í sessi og framkvæmd hennar lagfærð. Þessar áherslur BSRB lúta að því að þær stéttir sem sinna samfélagslega mikilvægum störfum séu launaðar til jafns við virði sitt og að gera störfin eftirsóknarverðari, en ein þeirra áskorana sem við sem samfélag stöndum frammi fyrir er að sífellt erfiðara verður að manna störf í heilbrigðis-, félags-, og menntakerfinu.
Það er mikilvægt og brýnt að byggja upp þá félagslegu innviði sem hafa ekki verið fullfjármagnaðir á síðustu árum og reynt hefur verulega á í heimsfaraldrinum. Með breyttri forgangsröðun er hægt að tryggja heilbrigt og gott starfsumhverfi starfsfólks í almannaþjónustu og betri kjör. Þannig má vinna gegn manneklu og neikvæðum áhrifum langtímaálags í kjölfar efnahagshrunsins og nú heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Nú er tíminn til að efla og fjölga tekjustofnum ríkisins, styrkja almannaþjónustuna og leiðrétta tilfærslukerfin. Það eflir velsæld og jöfnuð og mun skila sér í þróttmeira hagkerfi til lengri tíma.
Við verðum að setja jöfnuð og jafnrétti í fyrsta sæti og endurskoða hugmyndir okkar um verðmætasköpun. Það gerum við með því að sameinast um nýjan samfélagssáttmála.
Höfundur er formaður BSRB.