Það vakti heimsathygli í vikunni þegar ný könnun MMR sýndi að Píratar mælast stærsti stjórnmálaflokkur landsins með tæplega fjórðungsfylgi. Þessi staða ætti hins vegar ekkert að koma neinum sem fylgist náið með þjóðfélagsumræðunni á Íslandi á óvart. Píratar hafa verið mjög skarpir í sínum málflutningi, látið til sín taka í þeim málum sem skipta þá miklu en látið önnur vera. Þeir svara spurningum skýrt og þannig að enginn sem á hlýðir þarf að efast um hvað svörin þýða. Þeir tala aldrei um „pólitískan ómöguleika“ og eyða ekki þorra þess púðurs sem þeir troða í fallbyssuna sem þeir berjast með á opinberum umræðuvettvangi í að tala niður til fólks sem er þeim ósammála eða í að „leiðrétta misskilning“.
Eins og einhver sagði þá er samtal við forsvarsmenn Pírata eins og að tala við raunverulega manneskju, ekki forrit sem er búið til í hugbúnaðarverksmiðju stjórnarmálaflokks með það fyrir augum að jakkafataklæddi vélbúnaðurinn sem keyrir það verði ekki hankaður á því að orð hans hafi raunverulega merkingu.
Panikk á sterum
Framsóknarflokkurinn er sá flokkur sem er augljóslega í mestu „panikki“. Flokkurinn gersigraði í síðustu kosningum með loforði um að gefa fólki peninga, loforði um afnám verðtryggingar og loforðum um að berja á vondum útlendingum með þjóðarhag að leiðarljósi. Alveg eins og í Icesave.
Það tók hins vegar ekki langan tíma fyrir fylgið að hrynja eftir kosningar. Og þótt Framsókn telji sig vera búna að efna stærsta kosningaloforðið um niðurfærslu á verðtryggðu lánunum þá hefur fylgið ekkert batnað. Það er fast í tíu til ellefu prósentum (flokkurinn fékk 24,4 prósent í síðustu kosningum) sem er svipað og það var þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tók við formennsku í flokknum, sem þá taldi sig í öngstræti.
Það er öllum ljóst að verðtrygging verður ekkert afnumin á Íslandi á meðan að við erum með íslenska krónu sem gjaldmiðil og það lífeyriskerfi sem við höfum valið að byggja upp. Það loforð er því innantómt.
Bréfið sem utanríkisráðherra sendi Evrópusambandinu í síðustu viku, og engir tveir virðast skilja á sama máta, var augljóslega „panikk“ aðgerð sem er tilkomin til að reyna að lappa upp á horfið fylgi með því að höfða til Evrópuandstæðinga. Það tókst ekki og þess í stað situr ríkisstjórnin uppi með enn eina holskeflu mótmæla, alþjóðasamskipti Íslands í ævintýralegu klúðri og samfélag sem logar stafnanna á milli.
Stórt töfrabragð uppi í erminni
Framsóknarflokkurinn á eitt pólitískt töfrabragð uppi í erminni. Allt frá því að flokkurinn eignaði sér Icesave-sigurinn, og hóf að nota hann sem tromp til að koma sér út úr öllum erfiðum samræðum, þá hafa formaður hans og helstu meðreiðarsveinar talað digurbarkalega um að ríkið eigi að taka til sín stóran hluta eigna erlendra kröfuhafa. Um nokkurs konar stríðsbætur sé að ræða fyrir þann skaða sem bankarnir sem þeir lánuðu pening ollu íslensku samfélagi. Þessi orðræða hefur undanfarið fundið sér farveg í hugmynd um útgönguskatt upp á marga tugi prósenta.
Það kæmi því ekki á óvart, í ljósi þess skelfilega fylgis sem Framsókn mælist með, að ákvörðun um stór skref í losun hafta yrði flýtt.
Það kæmi því ekki á óvart, í ljósi þess skelfilega fylgis sem Framsókn mælist með, að ákvörðun um stór skref í losun hafta yrði flýtt. Jafnvel að það myndi verða tilkynnt um þær á allra næstu dögum og að þær myndu fela í sér tillögur sem að minnsta kosti væri hægt að túlka til heimabrúks sem granítharðan útgönguskatt. Þá myndi ríkisstjórnin sturta peningum yfir okkur síðari hluta kjörtímabilsins. Byggja spítala, hækka laun, lækka skatta osfr. Svo er bara að vona að veðmálið gangi upp. Ef það gerir það ekki erum við öll í vondum málum.
Nýtt staðalfylgi
Hinn stjórnarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkur, glímir við sífellt dýpri tilvistarkreppu. Flokkurinn á sögulega því að venjast að fá yfir 40 prósent atkvæða, en hefur nú verið fastur í um fjórðungsfylgi árum saman. Það er orðið hið nýja staðalfylgi Sjálfstæðisflokksins.
Mragt spilar inn í. Evrópumál, hrunið, lekamálið, umsvifamikil viðskipti og ívilnanir ættingja formanns flokksins við ríkisfyrirtæki skipta þar máli. Gamli kjarninn í flokknum, sem er frekur til valdsins og áhrifanna og er pikkfastur í kaldastríðsveruleika, er enn mjög fyrirferðarmikill. Hann þvælist fyrir Bjarna Benediktssyni, formanni flokksins, sem er að reyna að skapa sína eigin línu.
Miðað við dýpt þeirra átaka sem hafa verið milli stjórnar og stjórnarandstöðu á þessu kjörtímabili þá hlýtur það að vera áhyggjuefni fyrir Sjálfstæðisflokkinn að það er enginn í stjórnarandstöðunni sem er líklegur til að vinna með flokknum eftir næstu kosningar. Og Framsókn er víðáttulangt frá því að gera myndað ríkisstjórn með honum miðað við það stöðugt lélega fylgi sem sá flokkur mælist með.
Samfylkingin tapar hvernig sem fer
En vandræðin eru ekki síðri hjá hefðbundnu stjórnmálaflokkunum sem sitja í stjórnarandstöðu. Samfylkingin er í bersýnilegum vanda. Flokkurinn beið afhroð í síðustu kosningum þegar hann fékk einungis 12,9 prósent atkvæða, heilum 16,9 prósentustigum minna en í kosningunum 2009. Það er skellur sem á sér vart hliðstæðu í íslenskri stjórnmálasögu.
Til viðbótar hefur flokknum illa tekist að koma á framfæri hvaða stefnu hann hefur í flestu því sem hefur áhrif á íslenska alþýðu í dag.
Þrátt fyrir tæp tvö ár í stjórnarandstöðu gegn ríkisstjórn sem hefur ítrekað tekist að skjóta sjálfa sig í báða fæturna eykst fylgið lítið sem ekkert. Til viðbótar hefur flokknum illa tekist að koma á framfæri hvaða stefnu hann hefur í flestu því sem hefur áhrif á íslenska alþýðu í dag. Tengslin við verkalýðshreyfinguna virðast að mestu rofin og nánast ekkert heyrist til flokksins nú þegar mesta átakatímabil á vinnumarkaði, með yfirvofandi verkföllum og glundroða, er framundan. Stefna hans í ríkisfjármálum, haftamálum, húsnæðismálum, kjaramálum og orkumálum, svo fá dæmi séu nefnd, virðist óljós. Helsta stefnumál hennar, aðild að Evrópusambandinu, hefur meira að segja verið véfengt af stórum leikendum innan hennar undanfarnar vikur.
Yfirvofandi formannsslagur verður ekki til að styrkja flokkinn. Vinni Árni Páll Árnason varnarsigur hafa sprungurnar í flokknum samt sem áður opinberast og skilja hann enn veikari eftir en hann var fyrir. Vinni Sigríður Ingibjörg mun sigurinn alltaf litast af því að framboð hennar lítur út eins og afleiðing af klækjastjórnmálum og umboð hennar verður alltaf sótt til nokkur hundruð landsfundarmanna í stað þeirra þúsunda sem kusu Árna Pál síðast.
Vinsældir farnar að dala
Auðvitað liggur hluti ástæðu þess að fylgi Samfylkingar hefur dalað skarpt í því að stór hluti þess hefur ratað til Bjartrar framtíðar, sem staðsetur sig á mjög svipuðum stað í hinu pólitísku litrófi. Enginn stjórnmálaflokkur þarf að sitja jafn reglulega undir þeirri ásökun að vera til fyrir stjórnmálamennina sem honum stjórna, fyrir að vera ljósrit af Samfylkingunni, fyrir að vera verklítil og skoðanalaus og Björt framtíð. Sú gagnrýni er ekki að öllu leyti sanngjörn en það er ástæða fyrir henni. Flokknum virðist ómögulegt að skapa sér nokkra sérstöðu og forsvarsmönnum hans er betur tamt að vera sárir yfir því að vera kallaðir verk- og stefnulausir en að koma verkum og stefnu sinni á framfæri. Brotthvarf Heiðu Kristínar Helgadóttur, fyrrum stjórnarformanns og annars stofnanda flokksins, gæti líka hafa veikt Bjarta framtíð. Ljóst er það brotthvarf var að einhverju leyti vegna samstarfsörðugleika í forystu flokksins. Heiða Kristín var líka ein sterkasta tengingin við Besta flokks-ævintýrið og Jón Gnarr, en Björt framtíð hefur að miklu leyti byggt vinsældir sínar á þeim tengslum.
Vinsældirnar eru hins vegar farnar að dala. Eftir að hafa mælst reglulega með 13 til 16 prósent fylgi mælist flokkurinn nú minnstur allra á Alþingi. Hann er hratt farin að nálgast átta prósenta kjörfylgi sitt.
Katrín vinsæl en flokkurinn alls ekki
Vinstri græn eiga þann forystumann í íslenskum stjórnmálum, Katrínu Jakobsdóttur, sem flestir Íslendingar treysta. Í könnun MMR sem var gerð fyrir um ári sögðust 46 prósent aðspurðra treysta henni.
Flokkurinn er samt sem áður fastur í svipuðu fylgi og Framsóknarflokkurinn og mælist reglulega með milli tíu og ellefu prósent fylgi. Vinstri græn eru líka löskuð af nánast krónískum innanflokksátökum sem lituðu síðasta kjörtímabil. Það þvælist mögulega fyrir Katrínu að vera með þessa fyrirferðamiklu stjórnmálakempur í bakpokanum. Eða kannski á málflutningur Vinstri grænna einfaldlega ekki erindi við fleiri en raun ber vitni.
Hinn "pólitíski ómöguleiki"
Það eiga því allir hefðbundnu stjórnmálaflokkarnir í tilvistarkreppu og hún birtist almenningi mjög skýrt þessa dagana. Og það er styttra í að kosningabaráttan hefjist en fólk gerir sér grein fyrir. Hún mun hefjast að einhverju leyti strax næsta haust, þegar seinni hálfleikur kjörtímabilsins hefst.
Traust til Alþingis mælist enn vel undir 20 prósent og það endurspeglast í því að pólitíkin á Íslandi er að breytast til frambúðar. Fólk er hætt að halda með stjórnmálaflokkum eins og fótboltaliðum og kýs mun frekar eftir því hverjum það treystir, hverja það skilur og hvaða stefnumál hafa mest jákvæð áhrif á þeirra líf.
Ef hefðbundnu stjórnmálaflokkarnir ætla að ná vopnum sínum þá verða þeir að fara að skilja þetta. Og þeir verða að gera það fljótt. Annars verða þeir sjálfir að einhverskonar „pólitískum ómöguleika“.