Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík.
Reykjavík getur án efa státað af því að vera ein öruggasta höfuðborg heims. En því miður getur engin borg í heiminum státað af því að konur og stelpur finni til fullkomins öryggis innan almannarýmisins. Ekki heldur Reykjavík. Baráttan gegn kynferðisofbeldi og því að fólk geti verið öruggt í Reykjavík er því viðvarandi áhersla í starfi og stefnumótun borgarinnar. Til að vekja athygli á því að kynferðisofbeldi, áreitni og ótti eru veruleiki margra kvenna í heiminum hleypti UN Women átakinu Safe Cities af stokkunum. Reykjavíkurborg er þátttakandi í Safe Cities eða Öruggar borgir í samvinnu við UN Women. Markmið verkefnisins er að koma í veg fyrir kynferðislegt ofbeldi í almannarýmum í borgum, gera þau örugg fyrir konur og stúlkur að fara um þau. Og ekki síst að auka skilning og vekja athygli á sjálfsögðum rétti þeirra til að ferðast frjálsar um. Í stuttu máli sagt þá eiga konur og stúlkur að geta farið um borgina án þess að verða fyrir ofbeldi, án þess að vera áreittar og án þess að bera ótta þar um í brjósti. Það er því miður ekki veruleikinn.
Ofbeldi á opnum svæðum og götum úti
Ofbeldi og áreitni í almannarýmum er sannarlega vandamál og sýna rannsóknir víða um heim að hátt hlutfall kvenna verða fyrir ofbeldi – eða óttast að verða fyrir því. Í viðhorfskönnun sem lögreglan lét gera kemur fram að 17% kvenna finna fyrir óöryggi í sínu hverfi eftir að rökkva tekur en aðeins 7% karla finnur fyrir óöryggi. Borgirnar sem taka þátt í þessu verkefni eru margar og ólíkar; Quito í Ekvador, Nýja Delí á Indlandi, Kigali í Rúanda, Port Moresby í Papúa Nýju Gíneu, Kaíró í Egyptalandi og Dublin á Írlandi svo nokkrar séu nefndar. Nú nýlega bættist Reykjavík í hópinn. Þátttökuborgirnar hafa nálgast verkefnið með mismunandi hætti enda geta vandamálin og lausnirnar verið ólíkar eftir menningarheimum. Í öllum borgunum hefst verkefnið á því að sjá hvar hver og ein borg stendur til að skilgreina leiðir að úrbótum. Reykjavíkurborg er þessa dagana að vinna í sínu stöðumati sem sýnir svo ekki verður um villst að vandinn er vissulega til staðar.
Tilkynningar – aðeins toppurinn á ísjakanum
Upplýsingar frá lögreglunni sýna að fjöldi tilkynninga á kynferðisbrotum sem eiga sér stað í almenningsrýmum hafa aldrei verið fleiri en 2013 eða alls 37. Til samanburðar þá bárust lögreglunni 19 tilkynningar um kynferðisbrot í opnum rýmum árið 2010. Lögreglan bendir á að mikilvægt sé að hafa í huga að þessi fjöldi sé aðeins hluti af þeim kynferðisbrotum sem framin eru. Margir telja að þau brot sem eru tilkynnt séu aðeins toppurinn á ísjakanum. Það má vera að aukin umræða um kynferðisbrot hafi leitt til aukins fjölda tilkynninga og að vandinn sé ekki að aukast en það breytir því ekki að hann er til staðar. Árið 2013 tók Neyðarmóttaka nauðgana á móti 13 einstaklingum sem hafði verið nauðgað eða verið reynt að nauðga í almenningsrými í Reykjavík, á skemmtistöðum, við skemmtistaði og annars staðar í borginni.
Náið samstarf við lögreglu
Reykjavíkurborg er í samstarfi við lögreglu um næstu skref sem munu beinast að aðgerðum í almannarými í borginni til að tryggja öryggi kvenna og stúlkna. Til þess eru margar leiðir færar; að hafa öryggi í huga þegar ný hverfi eru skipulögð, að bæta lýsingu, efla umræðu og fræðslu eða velja aðrar leiðir sem taldar eru duga til að koma í veg fyrir kynferðislega áreitni og annars konar kynferðislegt ofbeldi í almennarýminu. Það á engin að þurfa að ganga óttasleginn um götur borgarinnar. Margir fletir geta verið á þessu verkefni og til að mynda hefur UN Women hafið samstarf við Microsoft um snjallsímalausnir til að takast á við kynbundið áreiti og ofbeldi í almannarými.
Áhersla á heimilisofbeldi
Almannarýmið er þó fjarri því eini staðurinn sem ofbeldi þrífst. Flest brot eru framin innan veggja heimilisins. Þar getur ofbeldi þrifist árum saman með ömurlegum afleiðingum. Borgarráð samþykkti í síðustu viku 24 aðgerðir til að sporna gegn heimilisofbeldi og veita fórnarlömbum þess stuðning. Verkefnið verður unnið í náinni samvinnu við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og hefur verið eitt aðalumfjöllunarefni reglulegra funda minna með nýjum lögreglustjóra, Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur. Bind ég miklar vonir við verkefnið. Heimilið á að vera griðastaður og afleiðingar á líf og heilsu brotaþola heimilisofbeldis eru ógnvænlegar.
Reykjavík fagnar því áherslu á öruggar borgir og alþjóðasamstarfi á því sviði. Við eigum að vera tilbúin að læra af reynslu annarra og miðla af okkar eigin til að geta náð þeim árangri sem við stefnum að: að Reykjavík verði örugg borg fyrir alla.
Herferð UN Women á Íslandi um Öruggar borgir (e. Safe Cities Global Initiative) stendur yfir frá 18. til 25. nóvember. Hluti af herferðinni eru pistlaskrif um öruggar borgir sem birtast munu á heimasíðu Kjarnans á meðan að herferðin stendur yfir. Hjarta hennar er á heimasíðunniwww.oruggborg.is. Hægt er að lesa meira um herferðina og styrkja sambærileg verkefni í fátækustu löndum heims á heimasíðu landsnefndar UN Women á Íslandi.