Við Íslendingar erum bókstafstrúarþjóð. Við trúum á skáldskap. Það kemur ekki á óvart þegar haft er í huga að saga okkar og tunga eru samofin bæði skáldskap og kristinni trú. Það var kaþólska kirkjan sem kom með bókstafina til Íslands og kynnti þá fyrir landsfólki. Biblían var lengi mest lesna bókin hér á landi og sálmabækur eins og Passíusálmar Hallgríms Péturssonar. Við hreinlega dýrkum lestur og gleðjumst reglulega yfir árangri okkar í bókaútgáfu en höfum líka áhyggjur af því að lestur sé hugsanlega eitthvað að breytast eða minnka. Við stærum okkur af því hvað við lesum mikið og trúum því að engin önnur þjóð komist með tærnar þar sem við séum með hælana þegar kemur að bókalestri. Og skiptir þá engu máli hvað lesið er.
Færri gera sér grein fyrir eða hafa áhyggjur af því að þjóðin er haldin mjög alvarlegri skáldsagnafíkn og rithöfundar hafa vart undan að moka út nýjum skáldsögum í lestrarþyrstan lýðinn. Eins og allir alvöru dópistar þá viljum við eitt ákveðið efni. Það er ekki heróín eða metamfetamín, fjárhættuspil eða tiltekin tegund af kynlífi sem við erum á höttunum eftir. Nei, okkar drug of choice eru skáldsögur. Við höldum auðvitað áfram að glugga í Biblíuna en hún er samt bara orðin eins og metadonið er fyrir heróínfíkilinn, veitir örlitla stundarfró en alls ekki þann unað og alsælu-kikk sem fæst úr skáldsögu. Skáldskapurinn er samofin í sjálfsmynd okkar og sögu. Við erum þjóð sem á margt sameiginlegt með sértrúarsöfnuðum; hópur fólks sem trúir á skáldskap og staðlausa stafi. Íslendingar eru ákveðið költ.
Við hikum ekki við að taka alþjóðlega viðurkennd hugtök, tálga þau til og laga að okkar tungumáli og þröngsýnu heimsmynd. Litteratúr kallast á íslensku bók-menntir. Litteratúr er vítt hugtak sem nær yfir skrifuð orð en líka munnlega geymd. (Þetta er grundvallaratriði). Leikrit er litteratúr en það getur seint kallast bókmenntir vegna þess að það kemur sjaldnast út á bók. Enda stendur leikritun á brauðfótum hér á landi. Vinsælustu leikritin eru leikgerðir uppúr bókum og vinsælustu barnaleikritin undantekningarlaust eftir norskt leikskáld.
Eins og með annað bókstafstrúarfólk þá trúum við öllu því sem skrifað er og helst ef það er í bók á meðan við höfum eðlislæga tilhneigingu til að efast um sannleiksgildi þess sem við heyrum og trúum oft ekki okkar eigin eyrum.
Íslendingar hafa aldrei almennilega kunnað að tala saman og aldrei gert mikið af því enda býður tungumálið ekki sérstaklega upp á það. Við þekkjum ekki hugtök eins og díalektík; tveir aðilar eða hópar, sem eru á öndverðum meiði, rökræða en í þeim sameiginlega tilgangi að komast að rökréttum sannleika. Þetta orð er hreinlega bannað í íslenskri tungu og skrítna fólkið sem vinnur við það að búa til nýyrði kallar díalektík „þrætubók.” Það er eftir öllu og samræðulist dregin niður á þrætuplanið. Við kunnum að þjarka og þræta og helst að skiptast á alhæfingum. Við kunnum bara illa að tala saman. Reyndar breyttust samskipti mikið með tilkomu Facebook því hún gerði okkur kleift að byrja að skrifast á. Íslendingar hafa líklega aldrei átt eins mikil samskipti á neinum stað eins og á Facebook. Samræður hafa aldrei verið hátt skrifaðar á Íslandi og frekar þótt tefja fyrir vinnu eða ýta fólki út í lauslæti. Blaður og þvaður leiðir ekki til neins nema geðveiki. Fólk getur hreinlega talað frá sér allt vit. En það er ekki hægt að skrifa það frá sér. Ekki einu sinni á Facebook.
Að ætla sér að tala um fyrir Íslendingum er ekki ósvipað því og fara til Utah og reyna að tala um fyrir strangtrúuðum mormónum og reyna að leiða þeim fyrir sjónir að Mormónsbók sé nú auðvitað bara hlægileg della og þau lifi í kjánalegri blekkingu um lífið og tilveruna. Það er ólíklegt til árangurs en leiðir líklega frekar til aðkasts og útskúfunar.
En ég ætla samt að gera tilraun til þess. Ég lít svo á að íslenska þjóðin sé nokkurskonar sértrúarsöfnuður, sem trúir á allskonar hluti, sem varða sjálfsmynd hennar og sögu. Við fæðumst inn í þennan heim eins og börn sem fæðast inn í söfnuð Votta Jehóva eða í Norður-Kóreu og það er byrjað að bulla í okkur alveg frá upphafi og okkur eru kenndir hlutir sem byggja ekki á neinum raunveruleika. Alveg eins og Norður-Kórea þá erum við költ sem er líka viðurkennt þjóðríki. Við erum það sem vísindakirkjan þráir að verða einn daginn.
Í þessum pistlum mínum hér ætla ég að taka fyrir hina svokölluðu Íslandssögu. Það er skoðun mín að hún eigi margt meira sameiginlegt með biblíusögum en raunverulegri sagnfræði. Reyndar erum við ein fárra þjóða sem á ekki orðið historíu í orðaforða sínum. Fyrir okkur er allt bara saga, þar sem sannleikur, trú og skáldskapur rennur saman í eitt. Þetta er svona svipað og ef enska ætti ekki orðið history en bara story. En samt eru historía og saga í eðli sínu andstæður bara eins og sannleikur og lygi. Á meðan historían hefur það markmið að reyna að draga saman líkindi og staðreyndir eftir vísindalegum aðferðum er saga yfirleitt bara það sem betur hljómar og markmiðið fyrst og fremst að segja góða sögu og sem fólk vill heyra.
Íslandssagan á margt sameiginlegt með Biblíunni. Það er margt líkt með Fornsögunum íslensku og bókum gamla testamentisins. Báðir bókaflokkarnir fela í sér upphafs-mýtur sem segja söguna af „Upphafinu.” Landnámubók og Íslendingabók eru okkar Mósebækur. Eins og gamla testamentið erum við með mikið af hetjum, ofurmennum og konungum. Við erum með spekirit og Óðinn enginn eftirbátur Salómóns í þeim efnum. Báðir bókaflokkar gera svo auðvitað góða grein fyrir heimsendi. Og þetta eru meira og minna drengjasögur eins og flestallar fornaldarsögur og kvenfólk yfirleitt í aukahlutverki áhorfenda og aðdáenda.
Það er vert að hafa það í huga að fornsögurnar íslensku voru skrifaðar þegar Ísland var ramm-kaþólskt land, af kaþólskum köllum sem lifðu og hrærðust í mjög kristilegum hugarheimi og það var kaþólska kirkjan sem stóð fyrir öllum skrifum og bókaútgáfu hér.
Það er öllum í sjálfsvald sett hverju þau vilja trúa um hluti sem þau vita ekki.. En mér finnast samt kallarnir sem vappa um Mosfellsdalinn með málmleitartæki og leita að gulli Egils Skallagrímssonar í raun ekkert mikið frábrugðnir köllunum sem klöngrast um hlíðar Araratfjalls í þeirri von að rekast á örkina hans Nóa.
Fornritin eru okkar Gamla testamenti. Nýja testamentið okkar er Sjálfstæðishreyfingin og sjálfstæðið og Jón Sigurðsson okkar Jesús. Í þessari sögu eru Danir í hlutverki Rómverja og Trampe greifi sjálfur Pontíus Pílatus.
Ég vil svo, áður en ég byrja allt skítkastið og dónaskapinn, ítreka að ég er enginn fræðimaður. Ég er bara sjálfmenntaður íslenskur aumingi, sem er bara nýbúinn að átta sig á að hann er fæddur og alinn upp í sértrúarsöfnuði.