Miklar breytingar hafa orðið í íslensku þjóðfélagi og heiminum undanfarið ár, á sviði fjármála og tryggingastarfsemi eru stafrænar breytingar og þau tækifæri og þær áskoranir sem þeim fylgja efst í huga. Viðskiptavinir banka og tryggingafélaga hafa tekið þessum breytingum fagnandi og nýta sér óspart í viðskiptum sínum. Dæmi um þessa auknu notkun má meðal annars sjá í tölum eins viðskiptabankanna frá síðasta ári þar sem 99% snertinga við bankann voru á rafrænu formi. Einnig birti eitt vátryggingafélaganna að 60% tjóna hafi verið tilkynnt með rafrænum hætti árið 2021. Aukin notkun á rafrænni þjónustu hefur í för með sér tímasparnað og betri þjónustu. Þá minnkar rafræn þjónusta kolefnisspor fjármálageirans, sem augljóslega verður sífellt mikilvægara atriði.
Íslendingar eru afar tilbúnir til þess að tileinka sér nýjar leiðir í rafrænni þjónustu, en þessari auknu notkun fylgja einnig áskoranir og þörf á breytingu á reglugerðum. Stafrænar breytingar kalla á auknar öryggiskröfur en ný tækni býr til nýjar leiðir til þess að stunda peningaþvætti og fjársvik. Um mitt ár voru til að mynda innleiddar reglur um sterka auðkenningu til þess að auka öryggi í rafrænum viðskiptum og þjónustu. Þá hefur áreiðanleikakönnunum verið beitt sem lið í því að berjast gegn peningaþvætti og stuðla að gagnsæi í viðskiptum. Til að koma í veg fyrir peningaþvætti þurfa fjármálafyrirtæki að treysta á samvinnu við viðskiptavini sína. Erfitt er að sníða reglur þannig að allir verði ánægðir og geti nýtt sér nýjar þjónustuleiðir til fulls. Einhverjir gætu saknað þess að gera sér ferð hver mánaðarmót í útibú sitt og ekki má gleyma þeim sem ekki geta nýtt sér einir og óstuddir stafrænar leiðir. Mikilvægt er að tryggja aðgengi allra og eiga SFF nú samtal við stjórnvöld um lagalegar úrbætur til að tryggja aðgengi fatlaðra og annarra með færniskerðingu sem leiðir til þess að viðkomandi geta ekki nýtt stafrænar leiðir í fjármálaþjónustu óstuddir.
Þróun stafrænnar fjármálaþjónustu helst í hendur við stefnu stjórnvalda um stafræna þjónustu hins opinbera. Þar kemur sú sýn fram að stafræn þjónusta nýtist til þess að skapa öflugt samfélag með aukinni samkeppnishæfni sem leiðir til verðmætasköpunar og myndar grundvöll hagsældar. SFF taka undir með stjórnvöldum að stafræn þjónusta þarf að vera allt í senn skýr, örugg, einföld og hraðvirk. SFF leggja líka ríka áherslu á að stafræn þjónusta þarf að vera ódýr fyrir notandann. Nú tíðkast að viðskiptavinir feli fjármálafyrirtækjum, fyrir sína hönd, að sækja gögn til hins opinbera sem varða fjárhagsmálefni þeirra t.d. í tengslum við vinnslu greiðslumats fyrir lánafyrirgreiðslu. Í þessu samhengi leggja SFF ríka áherslu á að stjórnvöld hefji sem fyrst heildarendurskoðun á fyrirkomulagi gjaldtöku hins opinbera vegna afhendingar stafrænna gagna frá hinu opinbera til fjármálafyrirtækja að beiðni viðskiptavina þeirra. Eðlilegt er að gjaldtakan verði löguð að nýjum stafrænum veruleika í opinberri þjónustu og fjármálaþjónustu. Hófleg og gagnsæ gjaldtaka er leiðarstef í þessu sambandi. Að mati SFF er eðlilegt að líta svo á að einstaklingar eigi sjálfir sín gögn hjá hinu opinbera og geti falið fjármálafyrirtækjum að sækja gögnin fyrir sína hönd án þess að það leiði til hærri verðlagningar af hálfu hins opinbera en þegar einstaklingarnir kalla sjálfir eftir gögnum frá hinu opinbera.
Stafræna vegferðin mun halda áfram á næstu árum. Fyrstu íbúðalánunum var þinglýst rafrænt á árinu og munu rafrænar þinglýsingar halda áfram að þróast á næstu misserum. Samtökin binda vonir við að á næsta ári líti dagsins ljós frumvarp um rafrænar skuldaviðurkenningar sem mun búa til lagaramma um lánaskjöl á stafrænu formi. Markmiðið er að fá löggjöf um nýtt lánaform, rafrænar skuldaviðurkenningar, sem veitir sambærilegt réttarfarshagræði og skuldabréf, og miðar að því að auka skilvirkni í viðskiptum, einfalda lánaumsýslu, hafa jákvæð umhverfisáhrif og skapa hagræði fyrir almenning, lánveitendur og opinbera aðila.
Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.