Hvað er Facebook og hvaða gagn gerir fyrirtækið? Leggur það eitthvað merkilegt fram til samfélagsins á borði eða aðeins í orði?
Markaðsdeild Facebook myndi segja að samfélagsmiðilinn tengi fólk saman, að eftirspurn sé eftir þeim auknu tengslum og því sé fyrirtækið ekki einungis réttlætanlegt heldur eftirsóknarvert. Jafnvel nauðsynlegt. Sönnun þess liggi í eftirspurninni eftir þjónustunni og því að fjárfestar meti fyrirtækið á meira en hundrað billjónir íslenskra króna (eitt hundrað þúsund milljarða króna).
Aðrir gætu hins vegar bent á að Facebook, með tilvist sinni og viðskiptamódeli, vinni miklu meiri skaða á nútímasamfélagi en gagnið sem miðilinn telur sig gera.
Margháttaður samfélagslegur skaði
Facebook safnar saman upplýsingum um notendur sína og selur til auglýsenda svo þeir geti, með hjálp algóritma, sett þær vörur og þjónustur sem þeir telja að notendur gætu viljað kaupa fyrir framan þá. Umræddar vörur geta verið allt frá húðkremi til skóbúnaðar yfir í líkamsræktaráætlanir og pólitískan áróður.
Með þessu hefur Facebook tekið sér gríðarlegt vald, sem fyrirtækið hefur ítrekað orðið uppvíst af að misnota. Það hefur til að mynda gert þriðja aðila kleift að safna upplýsingum um tugi milljóna manna til að hagnýta og selja í aðdraganda lýðræðislegra kosninga og ógna þannig friðhelgi einkalífsins.
Nýlegar opinberanir uppljóstrarans Frances Haugen, þar sem hún sýndi fram á með gögnum að Facebook hunsi almannahag þegar hann ógnar gróða fyrirtækisins, eru svo þess eðlis að enginn ætti lengur að vera í vafa yfir skaðseminni sem Facebook veldur. Í skjölum sem hún safnaði saman og kom til fjölmiðla kemur skýrt fram að fyrirtækið hafi hylmt yfir sönnunargögn um dreifingu falsfrétta og áróðurs í gróðaskyni. Í skjölunum má einnig finna upplýsingar um hvernig Facebook flokkar notendur sína í „elítu“ og hefðbundna, skaðleg áhrif Instagram (sem tilheyrir Facebook) á ungar stúlkur hvað varðar líkamsímynd, sem og umdeildar tilraunir Facebook til að ná til ungmenna.
„Siðferðislega gjaldþrota“ fyrirtæki
Haugen kom fyrir þingnefnd öldungadeildarþings Bandaríkjanna fyrr í mánuðinum. Þar sagði hún stjórnendur Facebook taka ákvarðanir sem hafi slæm áhrif á börn, almannaöryggi og lýðræði. „Svo lengi sem Facebook starfar í skugganum með því að fela eigin rannsóknir fyrir almenningi er það óábyrgt. Einungis þegar hvatarnir breytast mun Facebook breytast.“
Það var ekki furða að Richard Blumenthal, öldungadeildarþingmaður demókrata og formaður nefndarinnar sem fór fyrir skýrslutökunni, sagði að hann teldi Facebook vera „siðferðislega gjaldþrota“ fyrirtæki.
Þetta er rétt mat hjá Blumenthal. Skaðinn sem Facebook, og önnur tæknifyrirtæki sem vinna með miðlun upplýsinga til að skapa auglýsingatekjur (t.d. Google og YouTube), hafa valdið lýðræðislegri umræðu og á eftirsóknarverðum samfélagslegum gildum er gríðarlegur. Mögulega er hann óbætanlegur.
Kerfisbundin eyðilegging á hefðbundinni fjölmiðlun
Með tilveru sinni og viðskiptamódeli hafa þessi fyrirtæki tekið til sín stærstu tekjustrauma fjölmiðla sem nálgast ritstýrða upplýsingamiðlun út frá viðmiðum hefðbundinnar og heiðarlegrar blaðamennsku.
Samhliða hefur Facebook skapað nýjan hvata fyrir fjölmiðla að elta fyrst og síðast umferð með tilkomumennsku og fyrir vikið eru miðlar sem byggja tilvist sína á ömurleika, falsfréttum, samsæriskenningum, ósóma og smellubeitum orðnir miklu fleiri en nauðsyn er og þörf er á.
Facebook hefur auk þess gríðarlegt vald, sem fyrirtækið nýtir til að ákveða hvað notendur þess sjá og hvað ekki. Lengi vel beindist gagnrýnin að því að Facebook beitti sér lítið eða ekkert til að sigta út það efni sem kom fyrir augu notenda. Þegar hún varð of fyrirferðamikil ætlaði fyrirtækið að ráða blaðamenn til að velja fréttir sem birtast í sérstakri fréttaveitu sem hann ætlaði að setja upp, og takmarka birtingu frétta frá öðrum. Ritstjórnarvaldið sem fyrirbærið ætlaði að taka sér átti að vera nær algjört. Viðspyrna sterkustu fjölmiðla heims, sem í sífellt meira mæli neita að spila eftir leikreglum Facebook, leiddi til þess að hugmyndin varð ekki nema að hluta til að veruleika.
Fyrirtækið framar þjóðinni
Þess í stað ákvað Facebook að breyta því sem fólk sér í fréttaveitunni sinni þannig að þar væri meira um það sem vinir og vandamenn deila en minna um til að mynda fréttir ritstýrðra fjölmiðla. Stefnubreytingunni var pakkað inn í góðvildargjafapappír og Facebook seldi hana þannig að nú væri fyrirtækið að gefa eftir tekjur til að færa miðilinn aftur nær upphaflegum tilgangi, að tengja saman fólk.
Þetta hljómaði vel í hugum margra en vandamálið reyndist vera að vinir og vandamenn eru fæstir vandaðir blaðamenn sem hafa æðstu gildi fagsins eða almannahagsmuni að leiðarljósi og deila einfaldlega því sem fellur að hugmynd þeirra um heiminn. Það er oft á tíðum tóm þvæla og á stundum stórhættuleg upplýsingaóreiða. Afleiðingin verður myndun bergmálshella sem leiða til rörsýni á heiminn.
Mark Zuckerberg, stofnandi og helsti stjórnandi Facebook, er fyrir vikið valdamesti ritstjóri í heimi. Og einn valdamesti maður í heimi. Það sem er hættulegt við það er að markmið hans er fyrst og síðast arðsemi, enda var mottó fyrirtækisins innanhúss lengi vel „fyrirtækið framar þjóðinni“ (e. company before country).
Tilverugrundvelli kippt undan frjálsum fjölmiðlum
Tjónið sem þessi framganga öll hefur valdið er ótrúlegt. Hérlendis má til að mynda benda á að frá því að Facebook og tengdir miðlar urðu staðalbúnaður og ráðandi afl í dreifingu efnis þá hefur rekstrarumhverfi hefðbundinna fjölmiðla hrunið. Fyrir vikið hafa sérhagsmunaaðilar getað keypt sér tök á umræðunni með því að borga brúsann árum saman, með tilheyrandi eyðileggingaráhrifum á samkeppnisgrundvöll þeirra sem reyna að reka sig í sjálfbærni.
En verst af öllu er sá atgervisflótti sem orðið hefur úr stétt blaðamanna vegna aðgerðarleysis stjórnvalda gagnvart þessari hnignun.
Árið 2013 störfuðu 2.238 manns í fjölmiðlun á Íslandi. Í fyrra voru þeir tæplega 876 talsins. Frá árinu 2018 og fram að síðustu áramótum fækkaði starfandi fólki í fjölmiðlum 45 prósent, eða 731 manns.
Önnur afleiðing, hérlendis og í flestum öðrum löndum, er sú að samhliða uppgangi Facebook og tengdra miðla hefur traust milli almennings og helstu stofnana samfélagsins hrunið. Þótt stjórnmálamenn eigi vitaskuld sína sök á þeim vanda þá getur þessi þróun, samhliða tilveru Facebook, vart verið tilviljun.
Ástralir riðu á vaðið, og unnu
Það er hægt að taka á þessari stöðu. Ástralar gerðu það einir fyrr á þessu ári þegar þeir settu lög sem skylda stórfyrirtæki í tækniheiminum, Facebook og Google, til þess að greiða hefðbundnum fjölmiðlum fyrir efnið sem þeir framleiða. Facebook brást við eins og tuddinn sem fyrirtækið er, og lokaði um tíma fyrir deilingar á efni fjölmiðla í Ástralíu. En samdi að lokum. Þetta er aðferð sem öll lönd ættu að taka upp.
Og það þarf að ganga lengra. Facebook borgar ekki skatta þar sem tekjur fyrirtækisins verða til heldur hefur það getað, í krafti alþjóðavæðingarinnar, tekið allar tekjurnar út þar sem skattarnir eru lægstir. Evrópusambandið er þar stór ábyrgðaraðili, með því að heimila slíkt fyrirkomulag í kringum veru skúffufélaga Facebook og annarra tæknirisa í Írlandi, þar sem fyrirtækjaskattur er einungis 12,5 prósent.
Þetta er hægt
Ísland er ekki of lítið til að láta til sín taka í þessu samhengi. Þvert á móti hefur skattlagning alþjóðlegra stórfyrirtækja oft verið til umræðu í aðdraganda kosninga, þegar stjórnmálamenn eru á atkvæðaveiðum.. Árið 2016 skrifaði þingflokksformaður stjórnmálaflokks til að mynda grein sem birtist í Kjarnanum þar sem hún sagði meðal annars: „Staðreyndin er sú að það er ekkert því til fyrirstöðu að girt sé fyrir undanskot þessara fyrirtækja með almennum hætti. Vandinn er bara sá að sitjandi ríkisstjórn treystir sér ekki til þess og almenningur treystir henni ekki til þess heldur. Nú er kominn tími á breytingar. Látum verkin tala og tryggjum að alþjóðleg stórfyrirtæki greiði skatta á Íslandi eins og önnur fyrirtæki.“
Rúmu ári síðar var þingmaðurinn, Svandís Svavarsdóttir, komin í ríkisstjórn með flokkunum tveim sem hún gagnrýndi fyrir aðgerðarleysi. Sú ríkisstjórn sat heilt kjörtímabil án þess að tryggt væri að alþjóðleg stórfyrirtæki greiði skatta á Íslandi eins og önnur fyrirtæki.
Flokkur hennar er um þessar mundir að reyna að endurnýja það samstarf. Vonandi er skattlagning alþjóðlegra fyrirtækja sem grafa undan lýðræðinu á borðinu þar.