Þegar ég var ung var það vitað mál að sumir menn stunduðu að bera sig fyrir framan börn, unglinga og aðra grunlausa á víðavangi. Þeir voru kallaðir flassarar og þóttu agalegir perrar. Flestir voru sammála um að þessir menn gengju ekki heilir til skógar og fæstir vildu bendla sig við þá á nokkurn hátt. Okkur var kennt að hlaupa í burtu frá svona mönnum. Með framförum í tækni virðast þessir einstaklingar hafa fært athæfi sitt yfir á netið og tekist að gera það að eðlilegum og sjálfsögðum viðburði í þroskasögu ungra einstaklinga. Stafrænt flass þekkist í daglegu tali sem “typpamynd” og algengt er að ungar konur fái þessar myndir óumbeðnar og að brotið sé á börnum með þessum hætti.
Gagnreynd þekking eða geðþóttaskoðun
Kynferðisofbeldi hefur fjölmörg birtingarform. Þegar talað er um kynferðisofbeldi er m.a. átt við: Nauðgun, kynferðisofbeldi gagnvart börnum, klám, vændi, kynferðislega áreitni, kynferðislegar þvinganir og stafrænt kynferðisofbeldi.
Mögulegar heilsufarsafleiðingar fyrir þolendur eru alvarlegar. Algengar afleiðingar af kynferðisofbeldi eru m.a. áfallastreituröskun, kvíði, þunglyndi, átröskun, einangrun, erfiðleikar í samskiptum, erfiðleikar með svefn og einbeitingu, erfiðleikar í kynlífi og oft ögrandi kynferðisleg hegðun. Þá er algengt að þolendur glími við lélega sjálfsmynd í kjölfarið af kynferðisofbeldi, hafi líkamlega verki, stundi sjálfsskaða og upplifi sjálfsvígshugsanir. Tilfinningar eins og ótti, reiði, skömm og sektarkennd geta ásótt þolendur í miklum mæli og skert lífsgæði þeirra stórkostlega.
Konur og börn eru lang oftast þolendur og gerendurnir eru í yfirgnæfandi meirihluta karlar. Í tilefni að skipan nýrra embættismanna og þeirra sem þá aðstoða þá skal það tekið fram að fullyrðing þessi er byggð á tölfræðilegum upplýsingum úr rannsóknum og gagnreyndri, margreyndri og sannreyndri þekkingu en ekki geðþóttaskoðunum önugra kvenna.
Gerandinn
Þegar kemur að einstaklingum sem brjóta kynferðislega á fullorðnum og börnum viljum við að þetta séu fram úr hófi óaðlaðandi menn sem enginn vill þekkja og að þeir séu helst eingetnir og án móður. Krafan er órökrétt en í samræmi við heimsmyndarósk þeirra sem ekkert illt vilja sjá eða vita. Við viljum að þeir líti út fyrir að vilja öðrum skaða. Við viljum að þeir þekki ekki fórnarlömb sín og ráðist á þau úr launsátri þar sem þau eru grunlaus, varnarlaus og ein. Staðreyndin er hins vegar önnur og það virðist skekkja heimsmynd fólks.
Kynferðisbrot á sér oftast stað innan fjölskyldna eða annarra kunnugra rýma. Kynferðisafbrotamenn samtímans eru m.a. vinir okkar, feður, synir, afar og frændur. Þetta geta líka verið óskabörn þjóðarinnar, dáðadrengir og sameiningartákn bæja og borga. Þetta eru menn sem fólk kann vel við og þykir vænt um. Þegar þessir einstaklingar eru grunaðir um kynferðisbrot virðist heimsmynd margra hrynja. Aðstandendur og aðdáendur upplifa hollustuklemmu og þar sem kynferðisafbrot eru alvarleg og ógeðfelld frávikshegðun þá virðist of mörgum tamara að deila sökinni með þolanda, afneita sannleikanum eða afbaka staðreyndir. Þolandinn þjáist í kjölfarið meira en þurfa þykir og upplifir sig án stuðnings og er þar af leiðandi fullur efasemda um alvarleika eða jafnvel tilvist brots. Gerendameðvirkni og gaslýsing ryður sér til rúms með offorsi og andúð.
Gaslýsing og mótun heimsmyndar í hamstola heimi.
Gaslýsing er í grunninn siðlaus samskiptatækni sem oft er beitt sem vopni í samskiptum og er hættuleg sálarheill þeirra sem fyrir henni verða. Einstaklingar geta beitt þessari tækni í nánum samskiptum sem og í gegnum fjölmiðla og aðra stafræna miðla þegar þarf að stýra umræðu eða styrkja eða skapa almannaálit. Flestir vilja ekki lifa í ljótum heimi og breyta honum m.a. með því að afneita staðreyndum eða líta undan þegar óþægilegur heimur kallar á athygli og aðgerðir. Tilgangur samskiptatækninnar er m.a. að styrkja heimsmynd þess sem samskiptatækninni beitir og öðlast yfirráð yfir skoðanamótun annarra. Markmið samskiptanna er að þolandinn fari að efast um sjálfan sig og upplifanir sínar og er það í raun þungamiðjan í samskiptatækninni. Þolandinn upplifir stöðugt ástand óvissu og óöryggis og er það óspart notað gegn honum. Hann missir þannig sjónar á hver hann er, hvar mörkin hans liggja, hvað hann stendur fyrir og hvað hann hefur í raun og veru upplifað. Þar af leiðandi er auðveldara að stýra þolandanum og stilla upp samkvæmt heimsmynd gerandans og aðstandanda þeirra.
Þolendur kynferðisbrota hafa lengi þurft að þola þessa siðlausu samskiptatækni af hendi fjölmiðla, einstaklinga og ráðamanna þegar kemur að því að beita rödd sinni og reynslu til betrunar ljótum heimi.
Úbbosí nauðganir og persónuleikaraskanir
Það geta verið nokkrar ástæður fyrir því að einstaklingar beita kynferðisofbeldi. Misskilningur er sjaldnast ein þeirra. Hins vegar virðist orðræðan og almannaálit vera að hallast í áttina að almennri óheppni og óvæntu feilspori góðra drengja sem á ekki að hafa langvarandi afleiðingar. Samfélagið vill samþykkja að kynferðisbrot geti gerst óvart. Úbbosí mér urðu á mistök á segir góði drengurinn, samfélagið samþykkir og þolandinn er þaggaður til langvarandi þjáningar. Vitsmunasamfélagið svokallaða á að krefjast ítarlegri svara þegar kemur að frávikshegðun þeirra sem aðra meiða og þá sérstaklega þá sem meiða konur og börn kynferðislega. Óháð því hvort þú telur kynbundið ofbeldi vandamál eða ekki þá getum við flest verið sammála um að ekkert óhapp eða úbbosí leiði til kynferðisofbeldis gegn börnum. Því voðaverki fylgir nær undantekningarlaust ásetningur, algjört skeytingarleysi og stjórnlaus siðblinda.
Ákveðnar persónuleikaraskanir geta verið ein ástæða ofbeldisverka einstaklinga. Það sem þeim er sameiginlegt er að þar fara fram truflanir á hugsun, hegðun og virkni einstaklingsins. Rannsóknir hafa sýnt að einstaklingar með persónuleikaröskun eigi erfiðara með að bregðast við breytingum og almennum kröfum daglegs lífs og að þeir eigi erfiðara með að mynda og viðhalda nánum samböndum. Hegðun þessara einstaklinga getur verið ósveigjanleg, mjög öfgakennd og óstöðug og valdið miklum erfiðleikum í samskiptum. Þær persónuleikaraskanir sem hvað helst geta valdið mökum, börnum og öðrum nánum aðstandendum líkamlegri og andlegri vanlíðan er t.d. sjálfsupphafningarpersónuleikaröskun (NPD) og andfélagsleg persónuleikaröskun (ASPD). Þessir einstaklingar læknast ekki þrátt fyrir ást, þolinmæði og góðan ásetning aðstandenda sinna og ástvina. Þessi vandi þarfnast ávallt faglegrar íhlutunar og ekki er hægt að ábyrgjast lækningu.
Siðblinda er talin alvarlegur fylgikvilli ofantalinna persónuleikaraskana. Nanna Briem geðlæknir talar hins vegar um siðblindu sem persónuleikaröskun og eina þá alvarlegustu. Dr. Robert Hare er einn af þeim sálfræðingum sem hvað mest hefur rannsakað siðblindu. Þróaði hann sérstakan gátlista yfir einkenni siðblindu til að auðvelda greiningu. Einkenni siðblindu eru m.a. eftirfarandi: Persónutöfrar sem oft geta verið heillandi og laðar fólk að. Þeir geta verið góðir í að koma fyrir sig orði og eru oft með ótrúlegan sannfæringarkraft. Þeir hafa oftar en ekki yfirburðahugmyndir um eigið ágæti og ekkert er þeim ofviða eða ofar þekkingarhæfni. Siðblindir einstaklingar hafa ekki samkenndarhæfni eins og annað fólk og hafa þar af leiðandi ekki áhyggjur af afleiðingum gjörða sinna. Þá skortir almennt samhygð og neita að setja sig í spor annara og sjá þar af leiðandi ekki annað fólk sem tilfinningaverur. Öll hegðun þeirra miðast við að fullnægja eigin þörfum óháð afleiðingum. Þeir réttara sagt tengja ekki við afleiðingar. Þessu hirðuleysi gagnvart tilfinningalífi annarra fylgir oftar en ekki bæði stjórnunarfíkn, spennufíkn og drottnunargirni. Þeir beita óspart gaslýsingu í formi siðlausrar samskiptatækni til að láta þolendur sína efast um eigin upplifanir og stilla þeim upp að vild samkvæmt eigin heimsmynd og þörfum þess tíma. Þeir eru almennt hvatvísir með eindæmum og hafa lélega sjálfsstjórn. Þeir eru oftar en ekki fórnarlömb allra aðstæðna og taka enga ábyrgð á eigin hegðun. Þeir sýna fullkomið ábyrgðarleysi með því að gera skyldur og skuldbindingar að merkingarlausum óþægindum. Endalaus eru fögur fyrirheit og loforð eru út í loftið. Grímurnar eru margar en sá siðblindi hefur takmarkaða getu til að halda grímunni uppi. Innihald, geta og gæði geta ekki stutt við þá mannkosti sem sá siðblindi reynir að selja þér. Það eru einmitt þessir einstaklingar sem eiga auðvelt með að meiða aðra og misnota börn. Hér á enginn misskilningur sér stað heldur einbeittur brotavilji og ásetningur til að uppfylla eigin þarfir óháð afleiðingum. Það er talið að sá siðblindi sé meðvitaður um að hegðun hans valdi skaða. Honum er hins vegar bara alveg sama.
Siðferðisleg sjálfsvitund og mikilvægi mannkostamenntunar.
En aftur að flössurum. Í umfjöllun Kveiks sem sýnd var fyrir nokkrum vikum fékk fullorðinn karlmaður sem hafði berað sig fyrir framan ókunnuga ólögráða einstaklinga í gegnum stafrænan miðil mikið rými til tjáningar um eigið ágæti og erfiðleika. Hann virtist ekki vera sáttur við að við slíku athæfi væru afleiðingar. Að hans mati voru þær of miklar. Þegar leið á viðtalið kemur í ljós að maðurinn er viss um að hann hafi einnig farið yfir mörk samstarfskvenna sinna. Sagði hann rót hegðunar sinnar liggja í vanlíðan og neyslu. Upplifði hann sig því sem fórnarlamb og krafðist tafarlausrar syndaaflausnar. Hann taldi sig vera fórnarlambið og væri búinn að þola nóg. Lítið virtist bóla á ábyrgð á eigin hegðun og spurningum um siðferðisleg og afbrotatengd álitaefni hegðunarinnar sem slíkrar.
Sterk siðferðisleg sjálfsvitund á að vera sífellt og virkt ferli sem krefur einstaklinga um endurtekna gagnrýna hugsun og persónulega ábyrgð. Mannkostir eru eiginleikar sem fólk telur að það búi sjálfkrafa yfir og þurfi ekki að leggja neina rækt við. Sannleikurinn gæti ekki verið fjarri lagi. Mannkostir eru eiginleikar sem prýða eftirsóknarverða manneskju. Sterk tilfinningavitund er undirstaða mannkosta og forsenda velferðar, hamingju og heilbrigðra samskipta allra einstaklinga í bæði lífi og starfi. Kristján Kristjánsson, prófessor í heimspeki er aðstoðarforstjóri Jubilee stofnunarinnar í Bretlandi og er þar einn helsti drifkraftur rannsókna á sviði siðferðisuppeldis og mannkostamenntunar. Kristján leggur áherslu á mikilvægi mannkostamenntunar í æsku þar sem áhersla er lögð á þrautseigju, sjálfsaga og þolgæði og enn fremur siðferðislegar dyggðir á borð við: góðvild, réttlætiskennd, hluttekningu, umhyggju, þakklæti og mikilvægi tilfinningalegra og siðferðislegra innlita í eigin vitund.
Hin upphafða en á sama tíma skaðlega dyggð sem eignuð er guðhræddu fólki og felst í takmarkalausum skilningi og fyrirgefningu allra synda á rætur sínar m.a. að rekja til feðraveldishugmynda og úreltra trúarlegra siðgæðishugmynda sem í dag eru í engu samræmi við alvarleika og afleiðingar ofbeldisverka. Jafnréttisskertir ráðamenn þjóðarinnar, dáðadrengir í dulum, óumbeðnir álitsgjafar, sjálfskipaðir sérfræðingar, þeir sem þrífast á kvenfyrirlitningu og þeir sem þeim fylgja í humátt í blindri hollustu eru skaðlegir málaflokknum. Upplýsingahugsjón og máttur skynseminnar virðist ekki virka gegn valdi gerenda og þeirra sem neita að horfast í augu við fjölbreytileika tilvistar þeirra.
Spurningin um hvenær gerendur eiga aftur endurkvæmt út í samfélagið á lítið erindi í umræðuna núna. Upplifun þeirra örfáu gerenda sem hljóta dóm eða viðurkenna siðleysi sitt þarf að víkja fyrir óumdeilanlegri staðfestingu samfélagsins á þjáningum aragrúa þolenda. Þar virðumst við enn eiga langt í land. En burt séð frá allri umræðu um gerendameðvirkni, gaslýsingu, guðsótta og góða siði þá er núverandi heimsmynd okkar, almenn siðferðiskennd og skoðanir þeirra embættismanna sem skipta máli og þeirra sem telja sig skipta máli staðfesting á því að við erum enn óralangt frá hápunkti siðferðisþroska mannsins.
Höfundur er ráðgjafi hjá Stígamótum.