Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
Í árlegri tæknispá sinni kemur Hjálmar Gíslason, forstjóri GRID, að venju víða við. Hann sér fyrir sér að sýndarveruleikatæki nú séu sambærileg að fullkomnun á sínu sviði og Nokia 232 farsíminn, þessi sem Alicia Silverstone var með í Clueless, var 1995.
Ég hef haft það fyrir sið um áramót að velta fyrir mér hvað komandi ár gæti haft í för með sér í heimi tækninnar. Ég hef reyndar minna gert af því að skoða árangurinn, önnur geta dundað sér við það með því að fletta upp fyrri spám. Hér koma hins vegar vangaveltur þessa árs, en þar eru það gervigreind, samfélagsmiðlar og sýndarveruleiki sem fönguðu athygli mína.
Gervigreindin breytir heiminum – loksins
Það merkilegasta sem er að gerast í tækniheiminum er án nokkurs vafa á sviði gervigreindar. Ég viðurkenni fúslega að ég hef verið efasemdamaður um þetta svið lengi, en á síðasta ári fóru að birtast lausnir sem eru algerlega töfrum líkar og sannfærðu mig loks um það að gervigreindin muni storka mannlegri greind á ótal sviðum á allra næstu árum.
Það ber reyndar að fara varlega í líkja gervigreindinni um of við þá mannlegu. Hún er enn sem komið er allt annars eðlis, en á sífellt fleiri sviðum líkist það sem hún getur gert æ meira því sem við höfum hingað til talið að þurfi greind til að framkvæma: Að skrifa vandaðar samantektir á texta, svara flóknum spurningum, semja (misgóð) ljóð og teikna frumlegar myndir eftir forskrift.
Mörg okkar létu appið Lensa gera af okkur ofurhetjumyndir undir lok síðasta árs og hér er mynd sem DALL-E 2 módel fyrirtækisins Open AI skilaði þegar ég bað það um að sýna mér miðaldamálverk af sköllóttum íslenskum manni að spá fyrir um framtíðina:
En svona myndir munu varla breyta heiminum? Kannski ekki, en fólk er þegar farið að myndskreyta vefsíður, fyrirlestra og jafnvel bækur með svona tölvugerðri grafík – í einhverjum tilfellum í verkefnum þar sem annars hefðu verið ráðnir grafískir hönnuðir til verksins. Verkefni við ódýra grafíkvinnu kann að heyra sögunni til, en umfram allt verður einfaldlega til meira af grafík.
Textagerðin á þó eftir að taka fleiri verkefni af okkur mannfólkinu – og hraðar. Ekki það að við eigum að búast við vönduðum fagurbókmenntum úr ranni gervigreindar á næstunni, en endurtekinn og formfastur texti, svo sem samningar, fréttatilkynningar, markaðsefni, sumar gerðir frétta, samantektir á lengra efni og fleira í þeim dúr mun ekki þurfa mikið annað en yfirlestur og lagfæringar frá fólki með viðeigandi sérþekkingu – ekki ósvipað og samband lærlinga og lærimeistara þeirra í dag. Nema hvað það þarf ekki lærlingana. Hvar munu þau þá læra?
Leitarvélar á borð við Google munu líklega strax á þessu ári í mörgum tilfellum fara að gefa okkur hnitmiðað svar við spurningum okkar í stað þess að birta okkur lista af ótal tenglum og eftirláta okkur að moða úr þeim. Margir kynnu að halda að þetta væri ógn við Google, en þá ber að hafa í huga að Google er auglýsingamiðlun með góða leitarvél sem afsökun – og það hentar þeim í raun stórvel að birta slíkar samantektir og auglýsingar samhliða þeim frekar en að „missa” notendurna yfir á aðrar vefsíður.
Raddstýrð viðmót á borð við Siri og Amazon Echo munu líka loksins verða brúkleg til annars og meira en að setja á tónlist eða stilla „timer”.
Ég skal líka lofa ykkur því að á þessu ári munuð þið fá tölvupóst frá fyrirtæki (eða svikahrapp, eða hvort tveggja) sem saminn verður og sendur af tölvu án nokkrar mannlegrar aðkomu sem þið gætuð svarið fyrir að væri skrifaður af manneskju persónulega til ykkar. Það sem meira er, þegar þið svarið munuð þið fá svar um hæl sem er engu síður vandað, svarar spurningum ykkar fullkomlega í óaðfinnanlegum texta og tekur tillit til þess sem sagt hefur verið í fyrri póstum. Það sem meira er – þið eigið líklega eftir að kunna að meta þetta stórbætta þjónustustig. Sama gildir um netspjall.
Þessu öllu saman fylgja samt auðvitað vandamál og áskoranir. Í fyrsta lagi verður svo ódýrt að framleiða textaefni að það verður alger sprenging í magni þess. Vélar verða látnar framleiða ógrynni af „froðutexta”, ekki síst í markaðsskyni og – eins fyndið og það hljómar – til leitarvélabestunar – texta sem skrifaður er sérstaklega til að hann finnist í leitarvélum. Tölvur að skrifa texta fyrir tölvur í örvæntingarfullri tilraun til að ná athygli manneskju til að selja henni eitthvað. Þetta hljómar reyndar eins og söguþráður í bók sem gæti komið út fyrir næstu jól.
Stærra vandamál er að gervigreind af þessu tagi skrifar texta af mikilli sannfæringu og öryggi – án þess að hafa nokkra hugmynd eða raunverulega þekkingu til að vita hvort hún hafi rétt fyrir sér. Og þó við eigum öll frænda sem það sama mætti segja um, þá höfum við lært að nálgast það sem frændinn segir með ákveðnum fyrirvara meðan gervigreindin mun svara okkur rétt og rangt, siðlega og siðlaust sitt á hvað án þess að við höfum nokkur mannleg samskiptamerki til að gera greinarmun þar á.
En tækifærin eru líka óþrjótandi og eins og með svo margt annað sem tæknin færir okkur verður þessi þróun ekki stöðvuð, heldur þurfum við að vera meðvituð um hana til að skilja áskoranirnar og nýta tækifærin.
Eitt af því sem þar vantar upp á fyrir okkur sem þetta lesum er betri máltækni fyrir íslensku. Margt hefur verið gert í nýlegri fimm ára máltækniáætlun sem lauk á nýliðnu ári. Áætlunin var ekki framlengd og því útlit fyrir að vinna við íslenska máltækni muni snarminnka, en þó margvísleg grunnvinna enn óunnin og því raunveruleg hætta á að íslenskan og við íslenskumælandi munum missa af mörgum þessara tækifæra.
Persónulegri samfélagsmiðlar
Þó margvíslegar tilraunir hafi verið gerðar fyrir þann tíma, má með nokkru sanni segja að saga samfélagsmiðlanna fylli 20 ár á þessu ári, en í haust verða liðin 20 ár frá því að fyrsti samfélagsmiðillinn sem náði umtalsverðri útbreiðslu – MySpace – var settur á laggirnar.
Það er fróðlegt að skoða þessa sögu og velta fyrir sér hvert hún stefnir. Í upphafi var það ungt fólk (sem nú er miðaldra) sem sótti í þessa miðla. Það fylgdist með vinum sínum og fólki sem það þekkti í raunheimum. Hópurinn sem fólk fylgdist með taldi í tugum eða kannski fáum hundruðum.
Facebook kemur inn í þessa bylgju og fylgir framan af sama mynstri, en smám saman breikkar aldursbil notendanna og netið víkkar út í kunningja og fjarskylda og samfélög fóru að myndast utan um ákveðin áhugamál þar sem fólk myndaði ný kynni. Hópurinn telur nú í hundruðum og hjá mörgum yfir þúsund, jafnvel nokkur þúsund. Við förum að gera greinarmun á vinum og „Facebook-vinum”. Straumurinn eða „feed”-ið fer líka að velja ofan í okkur það sem það telur að við höfum mestan áhuga á, enda allt of mikið efni í boði og leiðin til að halda okkur við efnið er að passa að við sjáum helst það sem kallar fram viðbrögð. Ein leið til þess er að hvetja til samskipta og fátt betri olía á þann eld en svolítil átök, helst um pólitík eða samfélagsmál. Efnið er ekki lengur jafn persónulegt og einhvern veginn ekki eins gaman að þessu, en fólk ver samt meiri tíma á þessum miðlum en nokkru sinni fyrr. Það er kannski ekki tilviljun að um svipað leyti finna fjölmiðlar sér farveg á samfélagsmiðlum og smellibeitublaðamennska verður að listgrein.
Instagram er síðan besta birtingarmynd næstu bylgju. Unga fólkið fer þangað og efnið hverfist um myndir, enda öll eru komin með öfluga myndavél í vasann. Notendur fylgjast með fólki sem þau þekkja, en meira og meira af „neyslunni” fer að snúast um að fylgjast með fræga fólkinu og sum verða meira að segja fræg fyrir það eitt að vera fræg á Instagram. Áhrifavaldurinn er kominn til sögunnar og stór hluti efnisins sem birtist á miðlunum er ekki frá fólki sem við þekkjum, heldur frá fólki sem við vitum hver eru, annað hvort á lands- eða heimsvísu. Árin líða og sífellt stærri hluti myndefnisins verða myndbönd, ekki síst með tilkomu Snapchat.
TikTok fer svo með þetta á ákveðna endastöð þar sem efnið er allt myndbandsefni og þó hægt sé að fylgjast með vinum eða tilteknu fólki er straumurinn sérvalið efni úr efnisframboði tugmilljóna manna sem algóriðminn veit að mun halda neytandanum við símann sem lengst. Áhrifavaldarnir missa stóran spón úr aski sínum, enda erfitt að keppa um athyglina við það fyndnasta, sniðugasta og yfirgengilegasta frá öllum þessum stóra hópi þar sem stærsti hluti efnisins er frá fólki sem fær þar sínar „15 mínútur af frægð” með milljónum áhorfa og skilur svo ekkert í því af hverju það getur ekki endurtekið leikinn.
Samfélagsmiðillinn er hættur að snúast um samfélagið og orðinn að efnisveitu þar sem allir eru framleiðendur og miðillinn velur ofan í okkur efni sem kallar fram hjá okkur viðbrögð frá fólki sem við höfum aldrei heyrt á minnst og munum að líkindum aldrei rekast á aftur.
En samhliða þessu hefur önnur þróun verið í gangi. Sífellt stærri hluti samfélagsmiðlanotkunar fer fram í lokuðum hópum og rýmum. Snapchat var með þeim fyrstu til að átta sig á þessu og lokaðir hópar og tímabundið efni dró til sín notendur. Skilaboðaöpp á borð við WhatsApp og Telegram snúast öll um hópsamskipti og meira að segja á miðlum sem áður voru mikið til með opinn aðgang eins og Instagram og Facebook leitar efnið mikið meira í lokaða prófíla og lokaða hópa.
Við erum enn að læra að lifa með því frelsi og axla þá ábyrgð sem fylgja því að allir geti verið sinn eigin fjölmiðill. Kannski var það ofmetin hugmynd til að byrja með? Hún hefur að minnsta kosti ekki bara alið á samstöðu, kærleika og samvinnu – þó hún hafi auðvitað gert það líka.
Það er erfitt að segja til um hvernig þetta lendir nákvæmlega og líklega er ekkert eitt svar við því, en það er greinilegt að samfélagsmiðlarnir stefna í þá átt að verða aftur persónulegri það er að segja stærri hluti efnisins verður aftur frá fólki sem við höfum einhver raunveruleg tengsl við. Það er ekki ólíklegt að það muni gerast að einhverju leiti í gegnum nýjar lausnir. Twitter staðgengillinn Mastodon er áhugaverð tilraun þar, en alltof nördalegur til að ná verulegri útbreiðslu. Kannski ryður hann samt brautina fyrir eitthvað nýtt og spennandi, en við munum líka sjá fyrirliggjandi miðla sinna þessari persónulegu bylgju í meira mæli.
Meta veðjar á sýndarveruleikann – réttilega
Sýndarveruleiki er ein þessara tækninýjunga sem er búin að vera rétt handan við hornið mjög lengi. Þó ekki alveg jafn lengi og flugbíllinn!
Síðan Oculus Rift kom fram á sjónarsviðið fyrir 10 árum síðan sem fyrsta frambærilega almenningsgræjan á þessum markaði, hefur blasað við að einn daginn muni útbreiðsla þessarra tækja verða nokkuð almenn. Sprengingin í útbreiðslu þeirra hefur þó látið á sér standa. Þyngsta þrautin hefur reynst að koma nægilega miklu reikniafli til að skapa upplifun sem platar skynfærin fyrir í nógu litlu og léttu tæki til að leyfa fólki að hreyfa sig hindrunarlítið.
Þegar á það skortir verður upplifunin ýmist ekki nógu trúverðug, of hamlandi eða – eins og allmargir hafa fengið að reyna - veldur flökurleika og höfuðverk. Það er ekki endilega eitthvað sem fólk sækist eftir.
Facebook veðjaði strax á að þessi tækni ætti eftir að leika stórt hlutverk og keypti meðal annars fyrirtækið Oculus (framleiðanda Oculus Rift) árið 2014 fyrir tvo milljarða Bandaríkjadala. Bestu almennu sýndarveruleikatækin koma enn frá þeim framleiðenda, en nokkrir aðrir hafa líka markað spor á markaðnum.
Móðurfyrirtæki Facebook – Meta –vakti á árinu 2022 talsverða reiði meðal hóps hluthafa í tengslum við stefnu sína í sýndarveruleikamálum. Fyrirtækið hefur barist við nokkurn samdrátt í fjölda og virkni notenda á Facebook um hríð og hluthafar vildu sjá viðbrögð við því. Áætlunin sem forstjórinn, Mark Zuckerberg, kynnti féll samt í nokkuð grýttan jarðveg, en hann ákvað að margfalda fjárfestingu Meta í sýndarveruleikatækni og veðja enn sterkar á að framtíð fyrirtækisins lægi þar.
Þetta er ansi djarflega spilað og ljóst að þetta mun ekki snúa gæfu Facebook við á skömmum tíma, en til lengri tíma spái ég því að þetta sé heillaspor fyrir fyrirtækið. Höfum í huga að útbreiðsla sýndarveruleikatækja er nú svipuð og farsíma í kringum árið 1995 og þróast með mjög svipuðum hætti frá ári til árs og sala þeirra tækja gerði þá. Þessi árin hlóum við að fólkinu sem fannst það þurfa á þessum fáránlegu tækjum að halda en 5 árum seinna voru þau komin í hendur stórs hluta fullorðinna á vesturlöndum og nú í hendur nær hvers einasta mannsbarns í öllum heiminum.
Ég spái því að sýndarveruleikatæki og veruleikaviðbætur (e. augmented reality) munu fara svipaða leið og stór hluti fólksins í kringum okkur muni nota slík tæki daglega innan áratugar.
Höfum líka í huga að fullkomnustu sýndarveruleikatæki dagsins í dag eru þar með sambærileg að fullkomnun á sínu sviði og Nokia 232 farsíminn (þessi sem Alicia Silverstone var með í Clueless) var 1995. Rúmum áratug síðar var iPhone kominn á markað. Ímyndið ykkur bara hvernig iPhone útgáfan af sýndarveruleikatækjum mun líta út þegar fjórði áratugur aldarinnar hefst!
Hluthafar Meta gætu því orðið himinlifandi með þessa stefnu ef þeir hafa þolinmæði til að halda í hlutina sína. Það er samt spurning hvort Meta nái að halda forskoti sínu, eða hvort það eigi eftir að mæta ofjarli sínum líkt og Nokia gerði í Apple. Það er meira að segja spurning hvort ofjarlinn sá verði einmitt sá sami, enda ganga sögur nú hátt um að Apple ætli sér stóra hluti á sýndarveruleikasviðinu á næstunni. Við gætum jafnvel séð hvernig það lítur út þegar á þessu ári.
Höfundur er forstjóri GRID. Hann er einnig hluthafi í Kjarnanum og situr í stjórn útgáfufélags hans.